Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ábóti 15029.
Ábóti 15029.
Mynd / Sveinbjörn Eyjólfsson
Á faglegum nótum 14. september 2020

Naut til notkunar næstu vikurnar

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson ábyrgðarmaður í nautgriparækt mundi@rml.is

Þessa mánuðina hefur á undan­förnum árum verið hvað minnst um að vera í sæðingum, það er, í ágúst og september eru sæðingar hvað fæstar. Það getur verið ágætis tímapunktur til þess að staldra við og líta á hvað er í boði, vega og meta nautin og skoða kosti þeirra og galla.

Kynbótamat var keyrt að loknu uppgjöri maímánaðar og fagráð í nautgriparækt fundaði um miðjan júlí og tók ákvörðun um hvaða naut standa til boða sem reynd naut á komandi vikum. Ákveðið var að setja þrjú ný reynd naut í notkun úr 2015 árgangi og þá voru tvö naut tekin úr dreifingu sem reynd naut. Það eru Vals 14087 og Kætir 15004 en þau lækkuðu bæði í mati auk þess sem notkun á þeim hafði verið dræm.

Í heildina standa þau naut sem voru í dreifingu mjög vel við fyrra mat og tiltölulega litlar breytingar milli keyrslna. Við skulum líta aðeins nánar á þau naut sem áfram verða í dreifingu.

Bakkus 12001, f. Ófeigur 02016, mf. Frami 05034. Bakkus hefur nú verið alllengi í notkun en samt engin ástæða til annars en bjóða hann áfram. Þar kemur einkum tvennt til. Bakkus er mjög hár í mati og hefur haldið sínu auk þess sem hann er lítt skyldur Laska-línunni sem er mjög áberandi í kúastofninum um þessar mundir. Styrkur Bakkusar liggur einkum í mjólkurlagni, góðum mjöltum og frábæru skapi. Spenar dætra hans eru hins vegar grannir sem hafa þarf í huga við pörun. Bakkus lækkaði um eitt stig og er nú með 111 í heildareinkunn.

Pipar 12007, f. Gyllir 03007, mf. Flói 02029. Pipar er eitt þeirra nauta sem lítt tengist Laska og getur því verið vænlegur kostur á t.d. dætur Bamba. Pipar er nautsfaðir og sækir kosti einkum í efnahlultföll, júgur- og spenagerð og mjaltir. Hann lækkaði um eitt stig og stendur nú í 108 í heildareinkunn.

Loki 12071, f. Birtingur 05043, mf. Þröstur 00037. Loki hefur sótt á með tímanum og ávallt fengið nokkra notkun. Hann er lítt skyldur Laska og hans afkomendum en kosti sækir Loki einkum í júgur- og spenagerð og mjaltir. Hann bætti í, hækkaði um eitt stig og stendur nú með 108 í heildareinkunn.

Sjarmi 12090, f. Koli 06003, mf. Laski 00010. Sjarmi er enn á lista yfir reynd naut í dreifingu en hverfur von bráðar úr kútum frjótækna þar sem sæði úr honum er nánast uppurið. Það segir sína sögu, hann hefur ætíð fengið mikla notkun enda kostir hans áberandi miklir, gríðarmikil mjólkurlagni, góð júgur- og spenagerð, frábær ending, góðar mjaltir og gott skap. Sjarmi lækkaði um eitt stig og stendur nú í 112 í heildareinkunn.

Dúett 12097, f. Birtingur 05043, mf. Dúllari 07024. Dúett er einn þeirra kosta sem tengjast Laska lítið sem ekkert auk þess að hafa til að bera há efnahlutföll og góðar mjaltir. Dúett hækkaði um eitt stig og er nú með heildareinkunn upp á 107.

Jörfi 13011, f. Birtingur 05043, mf. Skurður 02012. Sæði úr Jörfa er nánast uppurið og hann mun því hverfa úr notkun innan skamms. Jörfi er eitt þeirra fáu nauta sem státa af jákvæðu kynbótamati hvað nánast alla þætti varðar en hvað júgurgerð snertir er hann flaggskip nautaflotans en um hana er ekkert annað að segja en að hún er frábær. Hvað aðra þætti snertir er Jörfi mjög öflugur í efnahlutföllum, spenagerð og endingu. Jörfi stóð í stað og er með 112 í heildar­einkunn.

Hálfmáni 13022, f. Vindill 05028, mf. Laski 00010. Hálfmáni er að hverfa úr notkun, sæði að klárast og hann mun því aðeins standa til boða um skamma hríð. Hálfmáni er afurða- og efnahlutfallanaut en þó sýnu öflugastur hvað mjaltir og framúrskarandi skap snertir. Hafa þarf í huga að dætur Hálfmána eru alla jafna með stutta spena. Hálfmáni lækkaði um eitt stig og er nú með 110 í heildareinkunn.
Bárður 13027, f. Baldi 06010, mf. Laski 00010. Bárður hefur fengið drjúgmikla notkun enda býður hann upp á gríðarhátt fituhlutfall í mjólk og frábæra skapgerð dætra. Hvað aðra þætti snertir er Bárður sterkur hvað júgur- og spenagerð snertir. Bárður er hálfbróðir Kláusar 14031 að móðurinni til. Heildareinkunn Bárðar breyttist ekki og er 106.

Ýmir 13051, f. Baldi 06010, mf. Laski 00010. Ýmir hverfur von bráðar úr kútum frjótækna en sæði er nánast uppurið þegar þetta er skrifað. Ýmir sækir sinn mikla styrk einkum í úrvalsgóða júgur- og spenagerð ásamt mjög góðum mjöltum og skapi ásamt júgurhreysti. Nefna verður að efnahlutföll í mjólk dætra Ýmis eru undir meðallagi. Ýmir hélt sínu milli keyrslna og stendur í 111 í heildareinkunn.

Steri 13057, f. Koli 06003, mf. Aðall 02039. Steri er gríðarmikið afurðanaut þar sem saman fara mikil mjólk og há efnahlutföll. Hann er fyrst og fremst í boði sem slíkur enda eru mjaltir undir meðallagi auk þess sem júgurdýpt dætra er meiri en æskilegt væri. Þá gefur Steri kýr sem eru í lágfættari kantinum og því ber að nota hann með það í huga. Steri lækkaði um tvö stig nú og stendur með 109 í heildareinkunn.

Hæll 14008, f. Kambur 06022, mf. Hræsingur 98046. Hæll hefur stöðugt verið að bæta í og því var ákveðið að taka hann í flokk nautsfeðra. Hann er tiltölulega lítið skyldur flestum hinna mest notuðu nauta síðustu ára sem gerir hann álitlegan kost ásamt háum efnahlutföllum og úrvalsgóðri júgurgerð. Rétt er að hafa bak við eyrað að spenar dætra hans eru fremur grannir. Hæll hækkaði um eitt stig og stendur nú í 109 í heildareinkunn.

Hnykkur 14029, f. Lögur 07047, mf. Stígur 97010. Hnykkur er efnahlutfallanaut auk þess sem dætur hans hafa til að bera ákaflega vel borin júgur með mikla festu. Hann gefur nokkuð granna spena. Fyrir marga hljómar einnig spennandi að allnokkur hluti afkvæma hans skartar gráum lit enda var hann sjálfur kolgráskjöldóttur. Hnykkur er nú með 104 í heildareinkunn eftir að hafa lækkað um eitt stig.

Kláus 14031, f. Hjarði 06029, mf. Laski 00010. Kláus er í hópi nautsfeðra enda eru dætur hans sérlega mjólkurlagnar með góð efnahlutföll í mjólk. Þær eru einnig ákaflega skapgóðar en aðrir þættir liggja nærri meðaltali. Kláus er sammæðra Bárði 13027 en víst er að fáar kýr geta státað af því að hafa skilað tveimur nautum í hóp reyndra nauta. Kláus lækkaði um tvö stig en stendur eftir sem áður með 108 í heildareinkunn.

Stáli 14050, f. Lögur 07047, mf. Reykur 06040. Styrkleikar Stála felast í góðri mjólkurlagni dætra, prýðilegri júgur- og spenagerð auk þess sem mjaltir og skap eru ofan meðallag. Stáli lækkaði um tvö stig milli keyrslna og stendur nú í 104 í heildareinkunn.
Bjarki 15011, f. Laufás 08003, mf. Ás 02048. Bjarki kom til notkunar í vetur og hefur fengið góða notkun. Hans styrkleikar liggja mjólkurlagni, góðri júgurgerð og úrvalsgóðum mjöltum og skapi. Hafa verður í huga að spenar eru nokkuð grannir. Bjarki lækkaði um tvö stig og er nú með heildareinkunn upp á 107.

Risi 15014, f. Laufás 08003, mf. Hjarði 06029. Risi er eitt þeirra nauta sem kom í notkun s.l. vetur og er núna tekinn í flokk nautsfeðra. Risi er með jákvætt mat fyrir flesta þætti en hvað öflugastur hvað afurðagetu snertir, einkum mjólkurmagn og fituhlutfall. Þá er júgurgerð dætranna góð, spenar fremur stuttir, mjaltir góðar og skapið framúrskarandi. Dætur Risa eru stórar kýr, nokkuð sem gott er að hafa í huga við notkun hans. Risi hækkaði um eitt stig og er heildareinkunn hans nú 109.

Golíat 15018, f. Laufás 08003, mf. Bolti 09021. Golíat kom til notkunar á liðnum vetri og hefur verið vel tekið. Styrkleikar hans liggja í mikilli mjólkurlagni dætra, góðri júgur- og spenagerð, góðum mjöltum og prýðilegri skapgerð en Golíat kemur ákaflega vel út í gæðaröð. Hins vegar er fituhlutfall í mjólk dætra í lægri kantinum. Golíat gefur stórar kýr sem vekur enga furðu ef litið er til ætternis hans. Golíat hækkaði um eitt stig og stendur nú í 107 í heildareinkunn.

Jólnir 15022, f. Bambi 08049, mf. Sússi 05037. Jólnir varð fyrsti sonur Bamba sem kom til notkunar sem reynt naut síðasta vetur. Jólnir er ákaflega jafn hvað flesta eiginleika varðar en hvað sterkastur í afurðagetu þar sem dætur hans eru mjólkurlagnar með fremur há efnahlutföll í mjólk. Rétt er að hafa í huga að Jólnir gefur granna spena. Hann stendur nú með 106 í heildareinkunn eftir að hafa lækkað um tvö stig.

Köngull 05019.

Ný reynd naut í notkun

Að þessu sinni var ákveðið að taka þrjú ný naut til notkunar sem reynd naut. Þar er um að ræða einn Toppsson og tvo Bambasyni.
Köngull 05019 er frá Auðsholti í Hrunamannahreppi undan Toppi 07046 og Furu 933 Bambadóttur 08049. Köngull er efnahlutfallanaut en dætur hans státa af háum hlutföllum fitu og próteins í mjólk. Hins vegar er afurðagetan hvað mjólkurmagn varðar undir meðallagi. Júgurgerð dætra Könguls er með afbrigðum góð og spenar vel gerðir en stuttir. Mjaltir þessara kúa eru góðar sem og skapið. Köngull er með 108 í heildareinkunn.

Svampur 15027.

Svampur 15027 er frá Bakka á Kjalarnesi undan Bamba 08049 og Kommu 379 Skurðsdóttur 02012. Dætur Svamps eru meðalkýr ef litið er til afurðagetu en kostir þeirra liggja í júgurhreysti, góðum mjöltum og afburðagóðu skapi. Hafa þarf í huga að þrátt fyrir góða spenagerð eru spenarnir stuttir. Svampur er með 106 í heildareinkunn.

Ábóti 15029 er frá Skipholti 3 í Hrunamannahreppi undan Bamba 08049 og Abbadís 469 Þollsdóttur 99008. Styrkur Ábóta liggur í stórgóðri júgurgerð og mikilli júgurhreysti. Spenar eru vel gerðir en ákaflega fíngerðir, bæði fremur stuttir og mjög grannir. Undan Ábóta geta komið skapgallaðir gripir án þess að hægt sé að flokka það sem vandamál. Heildareinkunn Ábóta er 108.

Nautsfeður

Að undanförnu hefur Nautastöðin einkum verið að kaupa kálfa undan Sjarma 12090, Jörfa 13011, Hálfmána 13022 og Ými 13051. Segja má að kominn sé nægur fjöldi undan þessum nautum nema Ými en komi nautkálfur undan þessum nautum og afbragðskúm er það að sjálfsögðu skoðað.

Á næstu vikum verður sjónum einkum beint að kálfum undan Pipar 12007, Hæl 14008 og Kláusi 14031. Þeim tilmælum er beint til manna að láta sæða kýr á nautsmæðraskrá og efnilegar kvígur með einhverju eftirtalinna nauta; Pipar 12007, Ými 13051, Hæl 14008, Kláusi 14031 eða Risa 15014. Ými skal ekki nota nema á kýr með há efnahlutföll í mjólk.

Nautsmæður

Á nautsmæðraskrá í Huppu (með rautt flagg) eru kýr með a.m.k. 106 í heildareinkunn, 90 fyrir fituhlutfall og 100 fyrir mjaltir. Þegar tilkynnt er um nautkálf undan væntanlegri nautsmóður eru aðrir þættir vegnir og metnir svo sem afurðir og frjósemi.
Á skrá yfir efnilegar kvígur (með grænt flagg) eru kvígur sem eru með a.m.k. 108 í heildareinkunn, 90 fyrir fituhltfall og 100 fyrir mjaltir. Þegar tilkynnt erum nautkálf undan kvígu eru aðrir þættir skoðaðir og beðið fyrstu mælingar, kýrsýnis og ákveðinnar reynslu áður en ákvörðun um framhaldið er tekin.

Mjaltaathugun

Að öllu jöfnu er keyrð mjaltaathugun tvisvar sinnum á ári. Þessi upplýsingaöflun gefur mikilsverðar upplýsingar um dætur nautanna og er mikilvægur þáttur í afkvæmadómi þeirra. Illu heilli hafa skil á mjaltaathugunum farið versnandi og nú er svo komið að þetta er sá þáttur sem mest tefur afkvæmadóm nautanna en eftir upptöku mælidagalíkans fyrir afurðir fæst mat á þær mun fyrr en áður. Síðasta athugun var keyrði í apríl s.l. og þá uppfylltu 464 bú skilyrðin sem eru að á búinu séu a.m.k. fimm kýr sem ekki hafa áður verið í athugun og engin þeirra sé samfeðra. Af þessum 464 búum hafa 302 eða 65% skilað athuguninni þegar þetta er skrifað. Fyrir aðeins örfáum árum síðan var skilahlutfall alla jafnan um og yfir 90%. Ég vil því biðja menn að fylla út og skila mjaltaathugun eins fljótt og kostur er þannig að þessi þáttur tefji ekki afkvæmadóm nautanna.

Nautakosturinn

Eins og sjá má á yfirlitinu hér á undan er sá nautakostur sem í boði er fjölbreyttur og mörg nautanna hafa mikla kosti til að bera. Eins og gengur eru þeir misjafnir og því þarf að huga að pörun þeirra við einstakar kýr af kostgæfni. RML býður upp á gerð pörunaráætlana og fyrir þá sem hafa áhuga á því er um að gera að notfæra sér þá þekkingu sem ráðunautar RML hafa á einstökum nautum, kostum þeirra og göllum.

Hópur reyndra nauta í notkun hefur oft verið öflugri en nú en það er samt engin ástæða til að örvænta. Í boði eru úrvalsgóð naut þar sem hægt er að finna kosti sem fallið geta vel að þeim kostum og göllum sem þær kýr eða kvígur sem sæða á hafa til að bera. Við val nautanna er ávallt reynt að horfa til ætternis þannig að ekki þurfi að sæða kýr eða kvígur með of skyldum nautum en það er eitthvað sem ávallt þarf að hafa í huga þegar um er að ræða jafn lítinn stofn og íslenski kúastofninn er.

Óreynd naut

Útsending úr nautum fæddum 2018 er langt komin og mun ljúka á næstu vikum. Þar er um að ræða syni Lúðurs 10067, Dropa 10077, Gýmis 11007 og Skalla 11023. Árgangurinn frá 2019 tekur þá við en þá munu koma til dreifingar nokkrir synir Bakkusar 12001 auk fyrstu sona Sjarma 12090 og Jörfa 13011.
Að lokum

Kynbótastarf í nautgriparækt tekur langan tíma með því kerfi afkvæmaprófana sem við búum við í dag. Hornsteinar þess eru gott og vandað skýrsluhald og mikil og góð þátttaka í sæðingum. Oft hefur verið rætt um mikla notkun heimanauta hérlendis og reyndin er sú að um 30% allra kálfa sem fæðast eru undan heimanautum. Kynbótastarfið er því keyrt á 2/3 mögulegra afkasta. Sambærilegar tölur frá hinum Norðurlöndunum eru að innan við 10% kálfa eru undan heimanautum.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...