Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Varkárni gagnvart neyslu á hýði sítrusávaxta er sjálfsögð enda reyndust margir þeirra innihalda varnarefnisleifar.
Varkárni gagnvart neyslu á hýði sítrusávaxta er sjálfsögð enda reyndust margir þeirra innihalda varnarefnisleifar.
Mynd / Maryam Jahanm
Á faglegum nótum 25. október 2022

Meira af varnarefnum í erlendum en innlendum matvælum

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Nokkur tækifæri felast í aukinni nýtingu hliðarafurða grænmetis og ávaxta en varnarefni sem finnast á yfirborði þeirra geta aftrað fýsileika slíkrar neyslu.

Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir, sviðsstjóri lýðheilsu og matvæla- öryggis hjá Matís.

Innan veggja Matís er nú unnið rannsóknarverkefni sem ber titilinn „Trefjaríkt og hollt hýði?“ Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir, sviðsstjóri lýðheilsu og matvælaöryggis, er verkefnastjóri þess. Hún kynnti frumniðurstöður rannsókna sinna á aðalráðstefnu Samtaka norrænna búvísindamanna nýlega.

„Ég, og við hjá Matís, höfum mikinn áhuga á að nýta allar hliðarafurðir. Nú hendum við fullt af hýði og berki sem við skrælum af ávöxtum og grænmeti og vildum við skoða hvort einhver tækifæri fælust í því.“

Við könnun á ýmsum leiðum til nýtingar á hýði velti Ásta hins vegar fyrir sér þátt varnarefna á ávöxtum og grænmeti sem bera hýði eða börk. Enn fremur vildi hún kanna hvort næringargildi þeirra væri annað en innvolsins. Því var sett upp rannsóknarverkefni sem hlaut m.a. styrk frá Matvælasjóði í fyrra.

Báru saman íslenskar og innfluttar vörur

Tekin voru 149 sýni af vörum frá 22 löndum. Alls voru 90 sýni úr innfluttum vörum og 59 sýni úr innlendum vörum. Vörurnar voru sóttar í verslanir en í einhverjum tilfellum beint til framleiðenda.

Sýnin voru úr 76 tegundum grænmetis, s.s. gúrkum, sveppum, tómötum, paprikum, kartöflum, ýmsu káli, kryddjurtum, 45 ávöxtum og berjum; mangó, banana, eplum, sítrusávöxtum, melónum, kíví, jarðarberjum, bláberjum og hindberjum og fjórtán kornvörum; byggi og höfrum.

„Ein hugmyndin var að kanna hvort munur væri á varnarefnum í íslenskum og innfluttum vörum. Lítið er að finna af gögnum um íslenskt grænmeti þannig við vildum gera þann samanburð. Því reyndum við eftir fremsta megni að taka sýni af sambærilegum innlendum og innfluttum vörum, t.d. íslenskar kartöflur og erlendar kartöflur, íslensk jarðarber og erlend jarðarber og svo framvegis,“ segir Ásta.

Sýnin voru skimuð fyrir varnarefnum í öllum ávextinum eða grænmetinu. Síðar voru valin sýni skoðuð að innan og utan ásamt því að næringarefni þeirra voru greind.

Frumniðurstöður sýna svo ekki verður um villst að innfluttar vöru voru miklu gjarnari á að hafa á sér varnarefni en þær íslensku. Af þeim 90 innfluttu vörum sem tekin voru til skoðunar innihéldu 57 varnarefni, eða 63% heildarinnar. Af þeim 59 innlendu vörum sem tekin voru til skoðunar, innihéldu 20 varnarefni í einhverju mæli, eða 34% sýnanna.

Ásta bendir á að þó varnarefnin hafi fundist í vörum séu þau í allflestum tilfellum innan eðlilegra marka. Það sem fannst var skordýraeitur, sveppalyf og/ eða stýriefni, sem t.d. eru notuð til að hafa áhrif á vöxt og viðgang ákveðinna tegunda matvæla, t.d. til að draga úr spírun kartaflna og auka þar með geymsluþol.

Íslenskt ber og kryddjurt með varnarefni yfir hámarksgildum

Hins vegar innhéldu 9% sýna varnarefni yfir leyfilegum hámarks­ gildum, tvö innlend og ellefu innflutt.

Innlendu vörurnar tvær voru annars vegar kryddjurt, hins vegar ber. „Þetta voru leifar af skordýraeitri. Við eftirlit á íslenskum matvælum hafa alveg fundist varnarefnaleifar en þau eru sjaldan yfir mörkum, en það er reyndar tekið miklu minna af sýnum af innlendum vörum en innfluttum.“

Erlendu vörurnar ellefu voru ávextir, krydd og grænmeti. Reyndist meirihluti innfluttu ávaxtanna innihalda einhverjar varnarefnisleifar og 21% þeirra var yfir hámarksgildum. Algengast var að finna þær á berki sítrusávaxta.

Ásta segir sjálfsagt að fólk sé varkárt við neyslu á hýði sítrusávaxta. „Við erum sjaldnast að tala um mikið magn, við borðum t.d. ekki allan börkinn af heilli appelsínu. Það hefur hins vegar ekkert endilega neikvæð áhrif ef verið er að raspa smá börk af appelsínu eða setja smá sítrónusneiðar í vatnið sitt.“

Dregur engar ályktanir

Niðurstöður þessara skimana Matís leiða að því líkum að magn varnarefna í matvælum sé að aukast en við opinbert eftirlit undanfarin ár hefur hlutfall sýna með varnarefni yfir hámarksgildum verið 5­6%. Heilbrigðiseftirlitið framkvæmir sýnatökur á 100­200 vörum árlega eftir forskrift MAST sem byggt er á reglum Evrópusambandsins en í allflestum tilfellum eru þau sýni sem tekin eru af erlendum vörum.

Ásta segir þó erfitt að túlka niðurstöðurnar út frá þessum takmarkaða fjölda sýna. „Þetta getur gefið vísbendingar um aukna notkun varnarefna við framleiðslu grænmetis og ávaxta en kannski var þetta eingöngu tilviljunarkennt með þetta sett af sýnum. Við þyrftum að afla meiri gagna til að draga ályktanir um þennan þátt rannsóknarinnar,“ segir Ásta.

Hún segir hins vegar að í ljósi þess að varnarefni hafi fundist í miklum mæli á barkarávöxtum hafi fókus rannsóknarinnar færst frá þeim og yfir á grænmeti. „Við finnum minna af varnarefnum í íslensku grænmeti og viljum núna skoða það betur, til dæmis með því að mæla trefjar, vítamín og steinefni í hýði þess og sjá hvort upprunalega hugmynd verkefnisins, um betri nýtingu, geti átt við það.“

Lokaniðurstaðna verkefnisins er að vænta í árslok og vonast Ásta til að þær geti orðið í formi leiðbeininga og tillagna um sniðuga notkun á hliðarafurðum grænmetis.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...