Lífrænt vottaður kartöflugarður, en í slíkri ræktun eru varnarefni bönnuð.
Lífrænt vottaður kartöflugarður, en í slíkri ræktun eru varnarefni bönnuð.
Mynd / smh
Á faglegum nótum 24. september 2024

Leitað að umhverfisvænum leiðum gegn illgresi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins stýrir Sigrún Dögg Eddudóttir nú verkefni sem felst í leit að umhverfisvænni leiðum hér á Íslandi gegn illgresi heldur en tíðkast jafnan í dag í garðyrkju og kornrækt.

Sigrún Dögg Eddudóttir.

Í flestum tilvikum er notast við illgresiseyði gegn óæskilegum gróðri í ræktarlöndum, sem er eitt af varnarefnunum í landbúnaði sem svo eru nefnd. Önnur varnarefni eru til dæmis myglu- og skordýraeitur. Slík efnanotkun er þó bönnuð í lífrænt vottuðum landbúnaði.

Mengun í ám, vötnum og jarðvegi

Sigrún segir að verkefnið njóti stuðnings Evrópusambandsins, sem hafi lagt áherslu á að finna leiðir til að draga úr notkun varnarefna í landbúnaði. Ástæðuna megi rekja til þess að mengunar hafi orðið vart í ám, stöðuvötnum og jarðvegi á meginlandi Evrópu, vegna kemískra varnarefna.

Áhyggjur eru af áhrifum efnanna á örverur í jarðvegi og líffræðilega fjölbreytni. Þar sem efnanotkun er sú aðferð sem gefur besta árangurinn – og sú sem tryggir góða uppskeru úr hefðbundinni ræktun – hafi lítill hvati verið fyrir bændur að hverfa frá notkun varnarefna.

Fjölmargar tegundir illgresis

Verkefnið sem Sigrún stýrir heitir AGROSUS og þar eru skoðaðar landbúnaðarvistfræðilegar aðferðir við meðhöndlun illgresis. Lögð er áhersla á samstarf við sem flesta hagsmunaaðila í landbúnaði og virðiskeðju matvæla; bændur, ráðunauta, vísindamenn, fulltrúa félagasamtaka og fólk úr stjórnsýslu. Í fyrsta hluta verkefnisins, sem hófst síðasta sumar, var áherslan á að afla upplýsinga og myndun tengslanets í kringum verkefnið. Í þeim tilgangi hafi spurningalisti verið sendur út til korn- og garðyrkjubænda, auk þess sem tekin voru viðtöl við aðra hagsmunaaðila.

Spurt var um algengustu illgresistegundirnar á Íslandi sem bændur glímdu við og hvaða varnarefni væru notuð gegn þeim. „Samkvæmt niðurstöðum eru haugarfi, hjartarfi, skurfa og blóðarfi algengustu illgresistegundirnar í kornrækt. Í kartöfluræktun eru það haugarfi, blóðarfi, skurfa, klóelfting og húsapuntur. Hlaðkolla er meira vandamál í öðru útiræktuðu grænmeti en aðrar algengar tegundir í slíkri ræktun eru hjartarfi, blóðarfi, haugarfi og krossfífill,“ segir Sigrún.

Bændur jákvæðir gagnvart breytingum

„Express, sem inniheldur virka efnið tríbenúrón-metýl, er mest notaða varnarefnið gegn illgresi í kornrækt, einnig er verið að nota Primus sem inniheldur flórasúlam. Bæði þessi efni eru notuð gegn tvíkímblöðungum. Í grænmetisræktun eru efnin Fenix, sem inniheldur virka efnið aklónífen, og Centium, sem inniheldur klómasón, algengustu efnin. Þau virka á tvíkímblöðunga og sumar tegundir einkímblöðunga,“ útskýrir Sigrún.

„Það sem stendur upp úr eftir upplýsingaöflun í fyrsta hluta verkefnisins er að bændur eru almennt jákvæðir fyrir notkun umhverfisvænni að ferða við illgresiseyðingu.

Helstu hindranirnar eru skortur á upplýsingum um umhverfisvænni aðferðir meðal bænda og lítill stuðningur frá yfirvöldum. Bændur hafa áhyggjur af minni uppskeru og það vantar trú á að styrkir frá hinu opinbera myndu vega upp á móti hugsanlega minni uppskeru. Aðferðirnar sem um ræðir byggja oft á nýjum tækjabúnaði sem ekki hefur verið prófaður við íslenskar aðstæður og ekki er boðið upp á styrki til tækjakaupa. Þetta skapar því fjárhagslega áhættu fyrir bændur sem vilja skipta illgresiseyðinum út fyrir umhverfisvænni aðferðir.“

Herfi eru notuð gegn illgresi í grænmetisræktun, kornrækt og kartöfluræktun.

Nauðsynlegt að nota fleiri en eina aðferð

Að sögn Sigrúnar telja bændur að helstu hvatar til að breyta um aðferðir gegn illgresinu væru aukin arðsemi af uppskeru og trú á árangur. „Tilraunir og prófanir á tækjum, sem myndu sýna fram á árangur af umhverfisvænum aðferðum, gætu aukið trú bænda á aðferðunum. Styrkir voru nefndir sem leið til þess að hjálpa bændum að taka upp nýjar aðferðir.“

Þar sem mun flóknara sé að verjast illgresi án illgresiseyða þurfi að nota fleiri en eina aðferð. „Langalgengasta aðferðin sem er nýtt hér á landi er skiptiræktun en hún dugar ekki til ein og sér. Einnig er jarðvinnsla mjög mikilvæg. Allt sem hægt er að gera til þess að gera nytjaplöntuna samkeppnishæfari gegn illgresinu, svo sem rétt sáðdýpt og áburðargjöf, getur hjálpað, sem og gæði fræja og útsæðis.

Til eru sérhæfð tæki sem hægt er að nota til þess að hreinsa illgresi á milli raða og rása, það eru ýmsar útfærslur af herfum og plógum. Oft eru þessi tæki búin GPS-tækni. Einnig er alls konar spennandi tækni í þróun, tækni til myndgreiningar, gervigreind, drónar og róbótar, sem vonandi koma til með að nýtast vel í náinni framtíð.“

Þyrfti að efla rannsóknir til muna

Sigrún segir þróunina á þessum aðferðum ekki vera langt á veg komna á Íslandi. „Það sem stendur okkur fyrir þrifum er skortur á upplýsingum og gögnum um þær aðferðir sem eru þegar þekktar – og hvort það gengur yfirhöfuð að nota þær við íslenskar aðstæður. Það þyrfti að efla rannsóknir á þessu sviði til muna, hvort sem það eru prófanir á tækjabúnaði eða tilraunir með hvaða jarðvinnslutækni hentar best fyrir mismunandi jarðvegsgerðir. Eins og er þurfa bændur sjálfir að prófa sig áfram með þær aðferðir sem þeim líst vel á, með tilheyrandi kostnaði.

Það er ekki ólíklegt að í framtíðinni verði farið að gera kröfur um breytta nálgun við notkun varnarefna líkt og Evrópusambandið gerir kröfur um með stefnu sem kallast IPM (Integrated Pest Management). Hún gengur út á að samþætta mismunandi aðferðir til þess að minnka notkun varnarefna gegn skaðvöldum í landbúnaði, þar á meðal illgresi. Best væri að byrja að huga að þessari nálgun sem fyrst til þess að geta miðlað sem bestum upplýsingum til bænda ef hún verður tekin upp á Íslandi.“

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...