Hverju skilaði hin blíða tíð?
Útkoman í haust var góð. Lömbin voru væn og mjög vel holdfyllt. Fallþungi dilka var sá næstmesti sem verið hefur á landinu, eða 17,3 kg, og einkunn fyrir gerð hefur aldrei verið hærri, var nú 9,6. Að mörgu leyti hefur tíðafarið undanfarið ár verið einstaklega gott til búskapar og kemur því ekki á óvart að lömbin séu frekar góð. Það urðu því kannski einhverjir fyrir vonbrigðum að vænleiki dilka skyldi ekki vera enn meiri en raun bar vitni og að munur milli þessara tveggja síðustu sumra skuli ekki vera meira afgerandi. En sumarhagarnir hafa ekki alls staðar reynst kjarnbetri í ár en árið áður.
Búið er að skrá dóma á 62.122 lömb í Fjárvís (útekt 13.12.2025). Þetta er mesti fjöldi sem hefur verið skoðaður síðan haustið 2019. En frá 2019 varð niðursveifla sem náði ákveðnum botni haustið 2022 en þá voru skoðuð rúmlega 53 þúsund lömb. Síðan þá hefur verið stígandi í þátttökunni ár frá ári. Skráðir dómar á lambhrúta í haust eru 13.612 sem er aðeins meira en á sama tíma fyrir ári. Hrútarnir nú eru almennt með þykkari vöðva og betri lærastig en áður hefur verið. Þeir eru 0,3 kg þyngri en á síðasta ár, en þeir eru léttari en hrútahóparnir sem skoðaðir voru 2020 og 2021.
Mesti bakvöðvi í haust mældist 49 mm í hrútnum Stera 25-111 frá Syðri-Urriðá í Miðfirði og næstmesti vöðvinn í gimbur á Bergsstöðum í sömu sveit. Hún var með 47 mm þykkan vöðva. Bæði búin eru nýkomin af stað aftur eftir fjárskipti og því óhætt að segja að þetta fari glimrandi vel af stað hjá þeim. Hrúturinn frá Urriðaá er undan Faldi 23-937 frá Ytri-Skógum en gimbrin á Bergsstöðum er undan Alvísi 24-969 frá Kjarna.
Sterkasti afkvæmahópur sæðingastöðvahrútanna
Að jafnaði komu sæðingastöðvahrútarnir betur út en nokkru sinni áður ef horft er til bakvöðvamælinga. Líkt og sjá má í yfirlitstöflu sem birt var í Hrútaskrá, er meðalbakvöðvaþykkt sona stöðvahrútanna 32 mm í haust en hæst hefur þetta meðaltal verið 31,7 mm árið 2023. Þessi meðaltöl eru leiðrétt fyrir þunga. Ef horft er til topphrútlambanna í hverri sýslu eru 49% þeirra undan sæðingastöðvahrútum og er það heldur hærra hlutfall en síðustu ár. Atkvæðamesti faðirinn er Alvís 24-969 frá Kjarna en hann á 8 syni á listanum, á hæla hans kemur Faldur 23-937 frá Ytri-Skógum með 7 syni. Þó sumir af lambhrútunum sem voru á stöðvunum í fyrra hafi ekki staðið undir væntingum sem lambafeður þá var mikill meirihluti þeirra sem hélt sínu kynbótamati fyrir gerð og fallþunga eða hækkuðu milli ára eftir að afkvæmadómur lá fyrir. Alvís er einn þessara hrúta. Þeir sem hækkuðu mest kynbótamat sitt fyrir gerð milli ára voru þeir Gautur 24-972 frá Þorgautsstöðum 2 og Hrókur 24-960 frá Brúnastöðum, báðir fóru upp um 22 stig. Niðurstöður Hróks eru fádæma góðar en kynbótamat hans fyrir gerð fór í 140 stig í haust og er enginn annar stöðvahrútur, lifandi né dauður, sem skartar svo háu mati fyrir gerð. Gunnsteinn 24-975 frá Hólabæ og Toppur 24-974 frá Hófgerði standa efstir fyrir kynbótamat fyrir fallþunga (bein áhrif) með 139 stig.
Stigahæstu lambhrútar landsins
Hæst stigaði lambhrútur landsins þetta haustið er hrúturinn Púmba 25-360 frá Laxárdal, Hrútafirði. Hann hlaut 92,5 stig. Púmba er sonur Ófeigs 24-973 frá Heydalsá og dóttursonur Þokka 17-853 frá Lundi. Hann hefur erft ARR frá föður sínum en því miður fengið VRQ frá móður sinni og er því flaggaður í Fjárvísi með grænu og rauðu flaggi. Engu að síður nýtist hrúturinn til framræktunar þar sem helmingur afkvæmanna fær ARR. Tveir hrútar koma svo næstir með 92 stig. Hrútur nr. 52 frá Garðshorni á Þelamörk raðast ofar þar sem hann er með þykkari bakvöðva. Í þriðja sæti lendir Tindur 25-407 frá Melum í Árneshreppi og ber hann ARR og N138. Tindur er samfeðra Fána 25-831 sem nú stendur á sæðingastöðvunum. Jaki faðir þeirra er sonur Steins 23-926 frá Kaldbak og átti hann fádæma öflugan afkvæmahóp á Melum í haust. Fjórði glæsigripurinn er Mugison 25-001 frá Skriðu. Af þessum fimm efstu hrútum landsins stigast þessi hæst fyrir gerðarþættina en ullin dregur hann niður. Mugison er sonur Pistils 24- 952 frá Brúnastöðum sen átti marga vel gerða syni í haust en ullin var oft þeirra slakasti þáttur. Því miður erfði Mugison ekki ARR frá föður sínum. Fimmti í röðinni er Hrímnir 25-113 frá SyðriUrriðaá, hann hlaut líkt og Mugison 91,5 stig. Báðir foreldrar Hrímnis koma frá Mýrum 2 í Hrútafirði. Hrímnir ber tvö ljósgræn flögg en hann hefur erft AHQ frá Frosta 22-913 frá Ásgarði sem er föðurfaðir hans og C151 fær hann úr móðurættinni á Mýrum.
Að lokum
Bætt afkoma, hagfellt árferði og áhugaverð verkefni eru örugglega meðal þess sem veldur því að áhugi fyrir ræktunarstarfinu er í sókn. Það breytta landslag sem skapast hefur í sauðfjárræktinni eftir að innleiðing verndandi arfgerða gegn riðuveiki hófst hefur að vissu leyti aukið kraftinn. Fleiri góð bú geta nú selt kynbótagripi en áður og bú sem voru lítt virk í ræktunarstarfi keppast við að innleiða verndandi arfgerðir og bæta aðra kosti í leiðinni. Sem betur fer eru ekki nein teikn á lofti um að þessar breyttu áherslur í ræktunarstarfinu hafi haft neikvæð áhrif á framfarir í helstu afurðaeiginleikum. En áfram skal kjöl klífa. Gleðileg jól.



