Mánaðarlegir vinir velta bjargi
Níundi áratugur aldarinnar síðustu einkenndist af þrótti og atkvæðamiklu fólki hér innanlands, jafnt sem utan, og átti það ekki síst við um baráttuna fyrir réttindum kvenna.
Kosning fyrsta kvenforseta heims, Vigdísar Finnbogadóttur, markaði tímamót kvenna út fyrir landsteinana, en innan þeirra voru tekin skref alvarlegri málefna á borð við heimilisofbeldi.
Ofbeldi innan veggja heimilisins hefur um ómunatíð verið bæði kynbundið vandamál sem og falið, en átt sér stað í öllum þjóðfélagshópum. Í júníbyrjun árið 1982 birtist grein í Dagblaðinu Vísi þar sem skýrt var frá hugmynd að stofnun samtaka um kvennahvarf, reknu af konum – fyrir konur, en viðmælendur voru þær Álfheiður Ingadóttir og Elísabet Gunnarsdóttir.
Einangrun, ótti og niðurlæging
Sögðu þær Álfheiður og Elísabet kannanir sýna fram á að hérlendis væri ótvíræð þörf fyrir Kvennaathvarf, skjól kvenna og barna og með það í huga yrði boðað til stofnfundar á Hótel Esju daginn eftir að greinin kom út.
„Fleiri konur en marga grunar, búa við stöðugan ótta og óöryggi, hræðslan verður til þess að þær þora ekki að leita stuðnings en einangra sig fremur í niðurlægingunni, sem þær finna til,“ segir í greininni.
Stofnfundur Kvennaathvarfsins tókst með eindæmum vel, troðfullur salur af konum – og einstaka karlmanni. Sjötta desember sama ár opnuðu svo dyr Kvennaathvarfsins í Reykjavík og að sama skapi hófu að birtast svohljóðandi auglýsingar á síðum dagblaðanna: „Kvennaathvarf. Opið allan sólarhringinn, sími 21205. Húsaskjól og aðstoð fyrir konur sem beittar hafa verið ofbeldi í heimahúsum eða orðið fyrir nauðgun.“
Um það bil áratug síðar birtist önnur grein í Dagblaðinu Vísi þar sem Jenný Baldursdóttir, talsmaður samtakanna, segir árið 1991 hafa verið metár í sögu Kvennaathvarfsins, 2.248 konur hafi leitað aðstoðar símleiðis en rúmar 200 heimsótt athvarfið í leit að skjóli. Gróft ofbeldi og alvarlegir líkamsáverkar hafi aukist verulega gegnum árin en á móti hafi aukin fræðsla og umræða um ofbeldi í heimahúsum veitt konum styrk til að leita sér aðstoðar og skjóls í athvarfinu.
Frjáls félagasamtök og ekki rekin í hagnaðarskyni
Í dag reka Samtök um Kvennaathvarf tvö athvörf fyrir konur á Íslandi, í Reykjavík og á Akureyri. Hið síðarnefnda var stofnsett árið 1984 og kemur fram í Morgunblaðinu þann 17. nóvember sama ár að „... miðað við þá reynslu sem fengist hefur af rekstri Kvennaathvarfs í Reykjavik, þar sem alltaf er fullt hús, ætti þörfin fyrir slíka starfsemi einnig að vera til staðar norðan heiða“.
Augljóst er að um brýnt málefni er að ræða enda sólarhringsvakt á síma athvarfanna, bæði í höfuðborginni og norðan heiða. „Kvennaathvarfið á Akureyri er heldur minna í sniðum, en þar dvelja að jafnaði 1–2 konur,“ segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf, en hún telur mikilvægt að geta boðið upp á athvarf úti á landi þangað sem einnig megi leita ef lítið samfélag hentar betur. Þjónusta við konur og börn sem þurfa að flýja heimili sitt vegna ofbeldis er sambærileg í báðum athvörfum.
„Nauðsyn þess að vera sýnilegar sem samtök, að konur viti að þær geti leitað til okkar á ekki síst við í jólamánaðinum, enda gengur oft mikið á í kringum hátíðirnar. Við höldum hérna hjá okkur gleðileg jól, gefnar eru gjafir og jólamatur á borðum enda leggjum mikið upp úr því að hafa þetta heimilislegt. Hlutfallslega eru ekkert endilega fleiri hjá okkur um jólin, það virðist engin regla á því – en sumar kjósa að halda jólin heima og koma þá frekar eftir hátíðarnar. Aðrar hringja og fá stuðning hjá ráðgjafa, einnig má mæta í ráðgjöf en annars er síminn opinn hjá okkur allan sólarhringinn, alla daga,“ segir Linda. Hjá þeim starfa ráðgjafar sem liðsinna konunum, boðið er upp á viðtalsþjónustu og stuðning endurgjaldslaust og án þess að til dvalar komi.
Úrræði eftir dvöl innan veggja Kvennaathvarfsins
Samtökin standa einnig fyrir úrræði sem kallast Búsetubrú, átján íbúðir sem leigðar eru út til kvenna sem dvalist hafa í athvarfinu. Þá þeirra sem treysta sér til að standa á eigin fótum en skilnaður ef til vill ekki genginn í garð eða fjármunir af skornum skammti. „Þær fá að leigja hjá okkur íbúð á mjög lágu verði og eru enn þá undir okkar verndarvæng ef svo má segja. Það eru þá minni líkur á að þær þurfi að fara til baka,“ segir Linda. „Eins og er, eru alls fimmtán börn með mæðrum sínum í Búsetubrúnni, og á meðan mæðurnar sjá um sig sjálfar erum við þeim samt innan handar í jólamánuðinum, hjálpum til með gjafir handa börnunum, mat eða annað svo þessar litlu fjölskyldur geti gert sér glaðan dag í desember.“
Mánaðarlegur styrkur ómetanlegur
Linda segir sér þykja afar vænt um að greina frá því að stærstur hluti rekstrartekna þeirra komi frá „Mánaðarlegum vinum“ – þeim íslensku þjóðfélagsþegnum sem styrkja starfsemina með mánaðarlegum greiðslum. „Núna í dag er það undir 40% af okkar rekstrartekjum sem koma frá ríkinu eða sveitarfélögum og því almenningur sem heldur okkur gangandi. Sú staða gerir okkur kleift að bjóða upp á þessa aukaþjónustu sem er svo mikilvæg, með það fyrir augum að bæði konum og börnum líði sem best. Það er húsmóðir í athvarfinu og ráðgjafar til staðar fyrir hvern og einn, konur sem börn,“ segir Linda sem tekur fram að lögð sé áhersla á að það sé enginn asi og konunum velkomið að dvelja í athvarfinu svo lengi sem þær þurfa.
Með þeim áherslum hefur sá fjöldi kvenna sem snýr aftur í ofbeldissamband hríðlækkað, frá yfir 60% niður í 11%. „Við gætum þetta ekki ef væri ekki fyrir stuðning almennings. Þá hefðum við einungis efni á einföldustu þjónustunni.
Fyrirtæki og almenningur taka auðvitað aðeins meira við sér í jólamánuðinum, færa okkur mat, sælgæti og gjafir, börn hafa litið við með pakka handa börnunum hérna í Kvennaathvarfinu svona svo eitthvað sé nefnt.“
Aðspurð segir Linda að ef áhugi er á að styrkja starfsemina eða jafnvel koma færandi hendi yfir hátíðirnar má hafa samband hvenær sem er sólarhringsins í síma 561 1205 en einnig á netfanginu linda@kvennaathvarf.is
Gefið í með nýju húsnæði
Þessa dagana er í byggingu nýtt húsnæði Kvennaathvarfsins í Reykjavík og gengur allt samkvæmt áætlun. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel, við safnað fyrir þessu sjálfar og stoltar af að geta nú reist fyrsta húsið sem er byggt sem kvennaathvarf með allar þær þarfir í huga sem hugsast geta. Nú eigum við eftir að geta tekið á móti konum og börnum með fötlun, þurfa að notast við hjólastól eða annað viðlíkt. Við erum ótrúlega spenntar,“ segir Linda brosandi en áætlað er að hægt verði að flytja í húsnæðið með vorinu. „Þetta verður svakalegur munur, öll rými hönnuð með tilliti til þess að fari betur um börnin og konurnar enda við aldeilis búin að liggja yfir öllum teikningum og spá og spekúlera svo fari sem best um alla.“ Linda segir að áfram verði lögð áhersla á að heimilisbragur verði yfir öllu, sameiginlegum svæðum sem og öðrum þar sem hægt sé að vera frekar út af fyrir sig. „Með nýju húsnæði getum við svo gefið í þegar kemur að allri þjónustu, viðtölum, hópastörfum og öðru, en já, ætli við séum ekki spenntastar fyrir að geta tekið við konum með fatlanir, sá hópur skilar sér hingað síst þó við vitum að verið sé að beita þær ofbeldi.
Í dag eru rúm 40 ár síðan að Kvennaathvarfið opnaði dyr sínar fyrir fyrstu konunni og börnum hennar, sem flýja þurftu heimili sitt sökum ofbeldis. Dyrnar hafa staðið opnar allar götur síðan, þökk sé dugnaði og röggsemi þeirra kvenna sem tóku af skarið árið 1982 auk þeirra velunnara sem með styrkjum hafa gert samtökunum kleift að bjóða upp á öruggt skjól og ráðgjöf öll þessi ár.
kvennaathvarf@kvennaathvarf.is
nordurland@kvennaathvarf.is eða sandra@kvennaathvarf.is www.facebook.com/kvennaathvarf
