Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Þrátt fyrir einhverjar neyslubreytingar hjá efnuðustu íbúum heimsins þá reiða hinir sig í auknum mæli á mjólkurafurðir.
Þrátt fyrir einhverjar neyslubreytingar hjá efnuðustu íbúum heimsins þá reiða hinir sig í auknum mæli á mjólkurafurðir.
Mynd / Mehrshad Rajabi - Unsplash
Á faglegum nótum 27. febrúar 2023

Heimsframleiðsla mjólkur eykst jafnt og þétt

Höfundur: Snorri Sigurðsson

IFCN (International Farm Comparison Network) samtökin, sem eru alþjóðleg samtök sem vinna að því að bera saman margs konar upplýsingar um framleiðslukostnað mjólkur í helstu mjólkurframleiðslulöndum heimsins, gefa árlega út skýrslu þar sem borin eru saman margs konar fróðleg gögn um heimsframleiðslu mjólkur og verðlagsmál.

Í nýjustu skýrslu IFCN er heildaryfirlit yfir árið 2021 og þar kemur að vanda ýmislegt fróðlegt fram, m.a. að þrátt fyrir einhverjar neyslubreytingar hjá efnuðustu íbúum heimsins þá reiða hinir sig í auknum mæli á mjólkurafurðir. Hin árlega skýrsla IFCN tekur á mörgum mismunandi þáttum mjólkurframleiðslu samanburðar- landanna og verður hér greint frá nokkrum áhugaverðum niðurstöðum skýrslunnar.

Hækkandi afurðastöðvaverð

Vegið meðalafurðastöðvaverðið árið 2021 var 45,1 Bandaríkjadalur fyrir hver 100 kg af innlagðri mjólk, sem var hækkun um 8,6 dollara á einungis einu ári. Þessi hækkun hélst svo áfram árið 2022. Fram kemur að mikill munur er bæði á milli landa og heimsálfa þegar horft er til þess verðs sem bændur fá fyrir mjólkina sína. Meðal Evrópulanda skipta Ísland og Sviss með sér efsta sætinu, með 69% hærra afurðastöðvaverð að jafnaði en meðalverð hinna landanna og Malta var með þriðja hæsta verðið (+68%). Norsku kúabændurnir, sem við lítum oft til varðandi málefni landbúnaðar, fengu ekki nema 38% hærra verð að jafnaði.

Mið-Austurlönd borga hæsta verðið

Að jafnaði eru löndin í Mið- Austurlöndum að greiða hæsta afurðastöðvaverðið enda framleiðslukostnaður mjólkur hár þar m.a. vegna kostnaðar við kælingar á gripum. Þannig var t.d. meðalverðið í Jemen 287% hærra en meðalverðið í heiminum, bændur í Íran fengu 250% hærra verð og bændur í Katar fengu 222% hærra verð.

Af löndum í Afríku fengu bændurnir í Gambíu hæsta verðið (+137%) og í Asíu voru bændur Suður-Kóreu að fá hæsta verðið (+119%) og japönsku kollegar þeirra ekki langt undan með +94%.

Oft lágt verð í Afríku

Sé litið á hinn enda skalans má sjá að mörg lönd í Afríku skipa sér þar á meðal þó svo að Gambía sé hinum megin á þeim skala með +137% og raunar Egyptaland einnig (+111%). Þannig fengu t.d. bændurnir í Súdan lægsta afurðastöðvaverðið árið 2021, eða 71% undir meðalverðinu. Þá fengu bændurnir í Gana ekki mikið hærra afurðastöðvaverð en þeirra verð var 65% lægra en meðalverðið og þá var afurðastöðvaverðið til bænda í Rúanda 48% lægra en meðalverðið. Af öðrum löndum, þar sem meðalafurðastöðvaverðið var nokkuð lágt, má nefna Keníu (-32%), Nígeríu (-31%), Kúbu (-29%), Argentínu (-28%) og Armeníu (-26%).

Yfirlit IFCN yfir afurðastöðvaverð OLM (í Bandaríkjadollurum) í heiminum 2021. Gögn IFCN byggja á opinberum skráningum, könnunum og í sumum tilfellum á áætlunum. Heimild: IFCN Dairy Report 2022, s. 55.

Stærri búin með meiri hagnað

Í skýrslunni kemur fram að uppgjörið fyrir 2021 sýni að þrátt fyrir nokkuð hátt meðalverð að jafnaði þá hafi mörg bú verið rekin með tapi. Skýringin felist fyrst og fremst í háum aðfangakostnaði, m.a. á áburði og orkugjöfum. Þó hafi stærri búin að jafnaði staðið sig betur og skilað meiri hagnaði af framleiddum lítra en þau minni.

Aukin heimsframleiðsla

Í skýrslunni er komið inn á heimsframleiðslu mjólkur, sem árið 2021 var 959 milljarðar lítra og hafði aukist um 2,9% frá fyrra ári. Sé litið 10 ár aftur í tímann hefur mjólkurframleiðslan í heiminum verið að aukast jafnt og þétt um 2,4% að jafnaði og er fátt sem bendir til annars en að þessi aukning haldi áfram á komandi árum. Framleiðsluaukningin er að mestu borin uppi af löndum í Asíu og Afríku og standa Evrópulöndin nokkuð í stað hvað mjólkurframleiðsluna varðar. Líklegt má telja að þessi þróun muni halda svona áfram, þ.e. að aukning í heimsframleiðslunni verði áfram í Asíu og Afríku.

Nærri hálf milljón kúabúa hættu

Á sama tíma og heimsframleiðslan vex ár frá ári, þá sést sams konar þróun um allan heim, þ.e. kúabúum heimsins fer fækkandi, en talið er að árið 2021 hafi um 470 þúsund kúabú í heiminum öllum hætt starfsemi. Þau sem eftir voru juku aftur á móti framleiðslu sína vegna bæði stækkunar, aukinnar tæknivæðingar og meiri afurðasemi kúa. Meðalkúabúið í vesturhluta Evrópu var þannig árið 2021 með 68 kýr en til samanburðar var meðalbústærðin 10 árum fyrr 46 kýr. Meðalbúið í vesturhluta Evrópu hefur því stækkað um 48% á einum áratug.

Þó svo að heildarfjöldi kúabúanna í heiminum fari minnkandi þá er það ekki svo að ný bú skjóti ekki lengur upp kollinum. Í Afríku hefur kúabúum t.d. snarfjölgað á undanförnum árum og einnig búum í Kína svo annað dæmi sé tekið.

Meðalnyt enn mjög lág

Skýrsluhöfundar IFCN skipta kúabúum heimsins upp í afurða- semisflokka, byggt á OLM (Orku Leiðréttu Mjólkurmagni), sem eru nokkuð áhugaverðir fyrir íslenska kúabændur, enda eru allnokkur bú á Íslandi nú komin upp í efsta flokkinn samkvæmt IFCN:

Há meðalnyt (7.000-13.000 kg OLM). Í þessum flokki eru oftast bú þar sem yfirleitt eru Holstein Friesian kýr og þar sem stundaður er búskapur með öflugri fóðrun og bústjórn.

Meðalnyt (4.000-7.000 kg OLM). Í þessum flokki eru oftast bú þar sem stundaður er beitarbúskapur og/eða léttari fóðrun ásamt notkun á heldur afurðalægri kúakynjum en Holstein Friesian.

Lág meðalnyt (<4.000 kg OLM). Bú í þessum flokki eru oftast að nota afurðalág kúakyn, buffalóa eða blönduð kúakyn og fóðra oftar en ekki á trénismiklu og orku- og próteinsnauðu fóðri.

Þó svo flokkar IFCN séu þrír þá er það svo að meðalnytin í heiminum er langt neðan við neðsta flokkinn enda ótrúlega stór hluti mjólkurframleiðslunnar í heiminum borinn uppi af afurðalitlum kúm sem ekki eru fóðraðar til afurða. Þannig er talið að meðalnytin í heiminum árið 2021 hafi verið 2,1 tonn á árskúna og var það aukning um 1,7% frá fyrra ári.

Mikill munur á mjólk og mjólk!

Þegar horft er til mjólkurframleiðslunnar í heiminum er áhugavert að bera saman mjólkurframleiðsluna eftir efnainnihaldi mjólkurinnar. Víða í heiminum er nefnilega mjólkin bæði fitu- og próteinsnauð og því segir magnið eitt og sér ekki alla söguna. Sé einungis miðað við fjölda kílóa af kúa- og buffalómjólk sem skilaði sér í afurðastöðvar heimsins árið 2021 bar Indland höfuð og herðar yfir önnur lönd með 236,8 milljarða kg og þar á eftir komu Bandaríkin með 101,6 milljarða kílóa. Þriðja mesta mjólkurframleiðsluland heimsins var svo Pakistan með 50,1 milljarða kg. Sé þetta mjólkurmagn aftur á móti leiðrétt fyrir efnainnihaldi skipta efstu tvö löndin um sæti og Pakistan fellur niður af topp 10 listanum! Miðað við orkuleiðrétt mjólkurmagn eru Bandaríkin í fyrsta sæti með 101,0 milljarða kg, þá Indland með 40,6 milljarða kg og þar á eftir kemur svo Kína með 32,3 milljarða kg. Hreint ótrúlegur munur á magntölunni fyrir Indland og skýringin felst einfaldlega í lágu efnainnihaldi indverskrar mjólkur líkt og þeirrar sem framleidd er í Pakistan. Nánar má sjá þessa áhugaverðu niðurstöðu í töflunni sem hér fylgir.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...