Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fiskikör.
Fiskikör.
Mynd / hestanet.net
Á faglegum nótum 19. júní 2015

Góð beitarstjórnun mjólkurkúa er vandasöm

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Með góðri stjórn beitar má draga nokkuð úr fóðurkostnaði mjólkurkúa, en það er að sjálfsögðu háð því að dregið sé úr fóðurgjöfinni á sama tíma. Í Danmörku, þar sem beitartímabilið er reyndar töluvert lengra en hér á landi, geta bændur sparað allt að 20 þúsund krónum á árskúna sé rétt staðið að beitarstjórninni. Svo unnt sé að ná sparnaði og áfram sömu afurðum, þ.e. ekki afurðalækkun á beitartímanum, þarf að sinna beitinni vel og stjórna beit kúnna. Það kostar vissulega töluverða vinnu en skilar sér í mjólkurtanknum.
 
Oft minnkar í tanknum
 
Margir kúabændur hafa væntanlega upplifað það að þegar kúm er hleypt út þá dregur úr framleiðslunni og það minnkar í tanknum. Oft bætist svo við að frumutalan hækkar heldur, sem ekki er beint á bætandi. Þetta þarf þó alls ekki að vera eitthvert lögmál en að vera góður í að stjórna beit kúa er ekki sjálfgefið og sýnir t.d. reynslan frá Danmörku að það má vel halda framleiðslunni óbreyttri. Til þess að vel takist til þarf þó margt að vera til staðar en þó fyrst og fremst vilji bændanna sjálfra til þess að stjórna beitinni og hámarka beitarlotur kúnna svo át þeirra sé sem mest.
 
Kýrnar þurfa að vilja beitina
 
Eitt af lykilatriðum þess að vel takist til með beitina er að kýrnar sæki sig vel á beitinni og að beitargróðurinn sé kraftmikill og skili þeim mikilli orku með lítilli fyrirhöfn. Í Danmörku er miðað við að hleypa kúnum út á beit þegar þær eru svangar, svo þær sæki af krafti í beitina og fái svo viðbótarfóður heima í fjósi. Þar sem best lætur, geta danskir bændur vænst þess að kýrnar geti étið allt að helmingi fóðurþarfar sinnar með beitinni. Er þá miðað við að meðalhæð grass á beitarstykkinu sé ekki undir 6 cm en heldur ekki hærri en 11–12 cm svo nýting beitargetu kúnna sé sem best.
 
Skiptibeit
 
Eitt er að hafa kýr sem vilja bíta, hitt er að hafa gott gras sem þær sækja í. Hér er yfirleitt ráðlagt að viðhafa skiptibeit á nokkrum stykkjum en beita hvert þeirra vel niður hverju sinni og slá svo með ruddasláttuvél eftir að beitarlotu lýkur og kýrnar eru settar á nýtt stykki, oft eftir tveggja til þriggja daga beitarlotu þó það sé nú líklega ekki mögulegt alls staðar. Eins og áður segir kallar þetta á vinnu og að grassvörðurinn í beitarhólfi kúnna sé metinn daglega. Á Nýja-Sjálandi, þar sem mikil reynsla er með beit kúa, má t.d. víða sjá að beitarhólf eru mögulega slegin niður að hluta áður en kúm er hleypt í þau. Þetta er gert til þess að kýrnar nái að bíta niður hinn óslegna hluta sé sprettan of hröð eða kýrnar of fáar miðað við stærð beitarhólfsins. Þegar beitar-hólf eru slegin, þarf að gæta þess að gera það þegar vel þurrt er svo kúadellurnar dreifist ekki verulega um beitarstykkið og geri það ólystugt fyrir næstu beitarlotu.
 
Góðar gönguleiðir
 
Kýr geta rölt töluvert langt til þess að komast í beit og sé um góða beit að ræða má reikna með því að beit í allt að 1,5–1,7 km fjarlægð frá fjósi geti skilað sér. Eigi svo hins vegar að vera þarf slíkt beitarstykki að nýtast kúnum vel og á stuttum tíma, enda fer tími í að rölta fram og til baka. Þó ber að huga að gönguleiðum kúnna og að þær vaðist ekki upp, séu aðstæður þannig. Það eru til margs konar lausnir á því að útbúa göngu-leiðirnar vel s.s. með uppbyggðum malarstígum, lögn gúmmímotta, notkun á sérstökum drenmottum og fleira mætti telja til. Mikilvægast er að kýrnar séu ekki látnar ganga í gegnum eðju, sem getur leikandi valdið því að þær verða óhreinar með tilheyrandi leiðindum við mjaltir, hættu á sýkingum o.fl.
 
Mikil vatnsþörf kúa
 
Þó svo að við tölum ekki venjulega um vatn sem fóður, þá er það vatnið sem er allra mikilvægast kúnum þegar þær eru á beit og sé aðgengið takmarkað eða langt að ná í vatnið, draga kýrnar hratt úr mjólkur-framleiðslunni. Vatnsþörf kúa er reyndar mjög mismikil, eftir nyt og útihitastigi, en almennt má gera ráð fyrir því að kýr í 20 kílóa nyt þurfi um 70 lítra á dag þegar hitastigið er um 5 °C. Hins vegar eykst vatnsþörf þeirra þegar hlýnar í veðri og því þarf sama kýrin 80 lítra á dag sé útihitastigið 20 °C. Sé dagsnytin 40 kíló, er vatns-þörfin samsvarandi um 110 lítrar á dag við 20 °C útihita.
 
Góð gæði vatns
 
Þá er rétt að minna á að gæði drykkjarvatnsins þurfa að sjálfsögðu að vera í lagi og nálægð drykkjarstaðar við beitarsvæði skiptir einnig máli. Kýr eru alla jafnan latar og sé langt í næsta drykkjarstað, þá sýna rannsóknir að kýrnar drekka einfaldlega minna og þar með dregur úr mjólkurframleiðslunni! Því er um að gera að reyna að búa svo um aðstæður þeirra utandyra, að þær eigi ávallt mjög stutt í næsta vatn af beitinni. Þetta má t.d. gera með því að hafa hjá þeim drykkjarker t.d. tengt við sírennsli og/eða búið flotholtsventli. Hér má bæði nota sk. fiskiker eða annars konar plastker. Með slíkum brynningarbúnaði er hægt að tryggja kúnum alltaf öruggt og gott vatn – sem er stutt frá þeim, þó svo að beitarsvæðinu sé breytt og girðingar færðar til.
 
Mjaltaþjónar og beit
 
Fjölmargir kúabændur hafa náð afar góðum árangri með beit mjólkurkúa samhliða notkun á mjaltaþjónum og gildir um beit mjólkurkúa sem eru mjólkaðar með mjaltaþjóni í raun sömu kröfur og hér að framan eru nefndar. Þó er yfirleitt miðað við að aðgengi kúnna að beitinni þurfi að vera auðvelt og spilar þar inn í hönnun fjóss og þá sér í lagi hönnun og frágangur á út- og inngöngusvæðum kúnna s.s. hvort notuð séu tölvustýrð hlið til þess að stjórna aðgengi kúnna. Báðar gerðir mjaltaþjónanna hér á landi hafa yfir að ráða sjálfvirkum hliðbúnaði sem getur stjórnað því hvenær og hvort kýrnar geti farið út á beit. Stillingar á þessum búnaði geta verið allbreytilegar og ræður bóndinn hverju sinni á hvað skuli lögð áhersla. Víða erlendis er þessum hliðum stýrt út frá mjaltaaðgengi, þ.e. heimildum kúa til mjalta. Oft eru hliðin t.d. stillt á að hleypa ekki kúm út sé of stutt í ætlaðar mjaltir og miða margir við 70%, þ.e. hafi kýrin t.d. heimild til mjalta á 6 tíma fresti og 70% af þeim tíma (4,2 klst.) sé liðinn frá síðustu mjöltum þá fær hún ekki heimild til útivistar fyrr en hún hefur farið til mjalta.
 
Læra hver af öðrum
 
Í Danmörku er mikil og góð reynsla af því að halda bændafundi og eru nærri allir kúabændur landsins í ein-hvers konar reynsluhópi bænda sem hittist reglulega. Í þessum hópum eru tekin fyrir mismunandi efni eftir árstímum og í maí og júní er algengt að rætt sé um beit og beitarstjórn. Við höfum heldur minni reynslu af svona hópvinnu bænda en í raun getur hver sem er byrjað á þessu með því að kalla saman nokkra nágranna í kaffi og setja upp einfalda dagskrá spjallfundar um málefnið. Óhætt er að mæla með því að gera þetta enda eru allar líkur á því að það skili góðum árangri, a.m.k. sé horft til reynslu danskra kúabænda.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku

2 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...