Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgræðsluverkefnum Lands og skógs (LOGS), farið úr 1 prósenti í 25 prósent á síðasta ári.
Það er árangur af þeirri markvissu stefnu að minnka notkun innflutts tilbúins áburðar og nota í staðinn innlendan lífrænan áburð af ýmsu tagi. Þróunin leiðir til þess að miklir fjármunir sparast, auk þess sem minni notkun tilbúins áburðar hefur jákvæð loftslagsáhrif.
Nitur eitt mikilvægasta áburðarefnið
Þessi árangur er samanlagður úr öllum landgræðsluverkefnum á þess vegum, til dæmis einnig samstarfsverkefni á borð við Bændur græða landið. Að sögn Magnúsar, H. Jóhannssonar, sérfræðings á sviði rannsókna og þróunar, stefnir í að þetta hlutfall fari yfir 60 prósent á næsta ári, sé eingöngu tekið mið af verkefnum sem eru sjálfstæð á vegum LOGS. Árið 2009 voru lífræn áburðarefni 10% af áburðarefnum verkefna sem eingöngu á þeirra vegum, en hlutfallið var komið í 37% á síðasta ári.
Nitur er eitt mikilvægasta áburðarefnið í allri ræktun og landbótum hérlendis enda það efni sem mest skortir í íslenskum jarðvegi.
Aukning í lífrænum áburði
Að sögn Magnúsar hefur orðið aukning á notkun allra tegunda lífræns áburðar, mest sauðataðs, seyru og kjötmjöls. Þessi þróun sé í samræmi við stefnu stjórnvalda og stefnu Lands og skógar, meðal annars um aukna sjálfbærni. LOGS fær talsvert magn af kjötmjöli frá Orkugerðinni í Flóa og gert er ráð fyrir að það aukist töluvert á næsta ári. Stefnt er að því að flytja nokkur hundruð tonn af því norður í land, líklega til dreifingar á Hólasandi en mögulega víðar. Lengi hefur verið unnið að landgræðslu á Hólasandi, sem er stórt uppblásturssvæði norður af Mývatni.
Í verkefnum eins og Bændur græða landið notar LOGS talsvert af húsdýraáburði frá búum bændanna sjálfra. Moltutilraunir hafa verið gerðar með moltu frá fyrirtækjunum Moltu ehf. í Eyjafirði, aðallega á Hólasandi, en einnig moltu frá GAJAstöð Sorpu. Magnús segir að mikið magn muni berast þaðan á komandi árum og spurning sé hvernig hún verði nýtt.
Á Hólasandi sé svartvatni [frárennsli frá salernum, eldhúsum og þvottahúsum] dreift sem á uppruna sinn á hótelum og fleiri stofnunum í Mývatnssveit og það hafi þegar gefið góða raun. Þar hafi einnig verið tilraunir gerðar með seyru og gor frá sláturhúsum.
Vonir bundnar við fiskeldismykju
Í umfjöllun á vef LOGS um þessa framþróun segir að framboð á lífrænum efnum sem nýtanleg eru í landbótastarfi sé að aukast í takti við auknar kröfur um meðferð úrgangs og bann við urðun lífrænna úrgangsefna.
Bundnar séu vonir við mykju frá fiskeldi á landi. Horfur séu á að landeldi stóraukist á komandi árum og í tengslum við það megi búast við miklu magni af slíku lífrænu efni sem gæti nýst mjög vel til uppgræðslu. Finna þurfi leiðir til að minnka vatnið í mykjunni svo hagkvæmara verði að nota hana.
Áfram þurfi að halda við þá þróunarvinnu að leysa mengandi innfluttan áburð af hólmi með lífrænum innlendum áburðarefnum. Lífrænn úrgangur gefi, auk niturs, ýmis önnur gagnleg efni til uppgræðslu- og skógræktarsvæða í landinu.
