Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinni var lögð fram á Alþingi á yfirstandandi haustþingi.
Tillagan felur í sér að ríkissjóður, meðal annars í gegnum Byggðastofnun, geti gengið inn í samþykkt kauptilboð í jarðir eða hluta jarða, leigt frumkvöðlum landið í allt að fimm ár og veitt kauprétt að þeim tíma loknum, að uppfylltum skilyrðum. Fyrsta útfærsla fyrirkomulagsins á að liggja fyrir eigi síðar en 1. maí 2026.
Markmiðið er að styrkja nýliðun í matvæla- og fóðurframleiðslu, landvernd og skógrækt með því að auðvelda aðgang að landi og skapa raunhæfan möguleika á eignarhaldi til framtíðar.
Tillagan er sett fram í ljósi loftslagsbreytinga og óvissu í matvælamálum. Með kauprétti að landi fengju frumkvöðlar skv. þingsályktunartillögunni tækifæri til að byggja upp verðmæti, þróa framleiðslu og taka þátt í kolefnisbindingu og endurheimt vistkerfa.
Ætlað er að verkefnið myndi í fyrstu ná til takmarkaðs fjölda jarða og vera háð skýrum skilyrðum um sjálfbæra nýtingu og rekstrarhæfni. Jarðir yrðu keyptar á markaðsforsendum og leigðar með kauprétti, án skuldbindingar um endanleg kaup. Með þessu telja flutningsmenn að markaðsbrestur væri leiðréttur og fjármagnshindranir minnkaðar, án þess að hafa veruleg áhrif á verðþróun jarðnæðis.
Flutningsmenn tillögunnar eru þau Þórarinn Ingi Pétursson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ingibjörg Isaksen, Halla Hrund Logadóttir og Stefán Vagn Stefánsson. Tillaga svipaðs efnis var áður flutt á 156. löggjafarþingi.
