Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í samráðsgátt.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur lagt fram breytingar á reglugerðum sem varða erfðabreyttar lífverur í samráðsgátt til umsagnar. Lagt er til að sett verði ný reglugerð um ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur, í stað eldri reglugerðar um sama efni nr. 68/1998. Þá eru lagðar til breytingar á reglugerð um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera, nr. 728/2011, sem snúa m.a. að upplýsingagjöf Umhverfis- og orkustofnunar til ESA og trúnaðarmeðferð upplýsinga.
Breytingarnar koma til vegna ábendinga Umhverfis- og orkustofnunar og ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur, en talið var tímabært að skerpa á og uppfæra ákvæði framangreindra reglugerða.
Slepping og markaðssetning
Í breytingunum á reglugerð nr. 728/2011 felst m.a. að Umhverfisstofnun er formlega breytt í Umhverfis- og orkustofnun í texta reglugerðarinnar. Þá er kveðið á um að umsóknir og fylgigögn skuli vera í samræmi við stöðluð gagnasnið þegar þau eru til staðar. Upplýsingaskylda gagnvart ESA er aukin; stofnunin skal senda ESA útdrátt úr umsóknum innan 30 daga og árlega skrá yfir erfðabreyttar lífverur sem sleppt hefur verið í rannsóknarskyni eða umsóknir sem hefur verið hafnað.
Einnig er skerpt á ákvæðum um birtingu upplýsinga. Umsóknir og stuðningsgögn skulu birt á vef Umhverfis- og orkustofnunar, að undanskildum trúnaðarupplýsingum. Umsækjandi getur óskað eftir trúnaðarmeðferð fyrir tiltekin atriði, t.d. DNA-raðir og kynbótaáætlanir, með rökstuðningi. Ákvæði tryggja að upplýsingar sem varða heilsu manna eða umhverfis verði birtar þrátt fyrir trúnaðarkröfur.
Ný reglugerð um ráðgjafanefnd
Ný reglugerð um ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur skilgreinir hlutverk nefndarinnar sem ráðgjafa ráðherra og Umhverfis- og orkustofnunar um framkvæmd laga nr. 18/1996. Nefndin veitir umsagnir um umsóknir, reglugerðir og fræðslu, og skal skila ársskýrslu. Umsagnarfrestur er 30 dagar fyrir afmarkaða notkun og 45 dagar fyrir sleppingu eða markaðssetningu. Reglugerðin kveður á um trúnaðarskyldu nefndarmanna og að fundir séu haldnir að lágmarki tvisvar á ári.
Málið er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda til 18. desember.
