Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hér má sjá þróun síðpilsins frá upphafsárum þess, þá kallað Hobble-pils. Mynd tvö sýnir auglýsingu þar sem hæstmóðins er að reyra lauslega saman á sér fæturna, þriðja myndin sýnir hönnun Yves Saint Laurent fyrir Dior, og sú síðasta er af leikkonunni Heather Locklear frá árinu 2002.
Hér má sjá þróun síðpilsins frá upphafsárum þess, þá kallað Hobble-pils. Mynd tvö sýnir auglýsingu þar sem hæstmóðins er að reyra lauslega saman á sér fæturna, þriðja myndin sýnir hönnun Yves Saint Laurent fyrir Dior, og sú síðasta er af leikkonunni Heather Locklear frá árinu 2002.
Menning 25. október 2023

Tiplað á tánum með bundin hné

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Þröng síðpils með klauf hafa verið að stinga upp kollinum nú með haustinu og ekki úr vegi að verða sér úti um slíkt ef fólk vill tolla í tískunni.

Nú til dags má finna þau úr efnum sem gefa vel eftir og því auðvelt að strunsa um göturnar með tilheyrandi mjaðmasveiflum. Dillibossar hafa þó ekki alltaf átt jafn auðvelt uppdráttar og hafa téð pils í gegnum tíðina valdið töluverðum vandkvæðum.

Ef rakin er saga þrönga síðpilsins þá má líta til áranna milli 1908–1914, en þá var pils með þröngum faldi kallað „Hobble“-pils, enda mætti segja að göngulag þeirra kvenna sem þau báru væri kannski ekkert voðalega fallegt ásýndar. Hefst saga pilsins á sýningu Wright-bræðra, sem flestir kannast við úr flugheiminum, en þá óskaði frú nokkur að nafni Edith Ogilby Berg eftir því að fá að stíga um borð og verða með því fyrsta konan sem var farþegi í flugvél. Þarna flöksuðust síðpilsin enn um fæturna og því brá frú Berg á það ráð að binda pils sitt um ökklana til þess að koma í veg fyrir þann ósiðlega möguleika að pilsið færi á flug. Nú, eftir flugferðina staulaðist frú Berg eins virðulega og henni var unnt frá vélinni, en tískuhönnuður nokkur sem þarna var staddur veitti þessari nýmóðins útfærslu á pilsinu athygli og þar með komst pilsið á spjöld sögunnar.

Bundin í báða skó

Pils yfirhöfuð höfðu verið að þrengjast hratt árin á undan og þóttu slétt síð pils hagkvæm enda þurfti í þau minna efni en áður og kostnaður því lægri. Hreyfigeta kvenna var þó á undanhaldi og bara það að stíga upp í strætisvagn kostaði mikil átök. Í stórborgunum Los Angeles og New York hófst því framleiðsla á þreplausum strætisvögnum, enda greinilega allt gert til að hátískan mætti njóta sín. Misgott efni var þó í pilsunum og brugðu margar kvennanna á það ráð að binda hné sín saman svo þær myndu síður rífa upp sauminn við daglegar athafnir. Hafa því væntanlega tiplað heldur tilgerðarlega um sitt nærsvæði.

Einhver dauðsföll urðu vegna þröngu pilsanna, t.a.m. hrasaði ung stúlka um sjálfa sig er hún var á spássitúr yfir brú, féll yfir handriðið og drukknaði. Fara sögur af annarri sem lenti undir hesti þar sem hún gat ekki forðað sér er hann bar að. Til allrar lukku dvínuðu vinsældir pilsins í þessari mynd þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst enda þá mest um vert að hreyfigetan væri sem mest.

Ógnvekjandi axlapúðadragt

Næsta tímabil þröngu síðpilsanna hófst um miðja síðustu öld. Þá aðeins styttri, eða um kálfann, en áfram var hreyfigetan heldur dræm. Þótti lögun pilsins þó hámóðins, enda stóðu þær er pilsin báru gjarnan með annan fótinn fyrir framan hinn, að hætti sýningarstúlkna. Eftir því sem árin liðu styttust þó pilsin og er hippatískan tók við hurfu pilsin af sjónarsviðinu um stund, enda ekki á pari við þægindastuðul hippanna.

Það var svo undir lok áttunda áratugarins, nánar tiltekið haustið 1978, að þröngu síðpilsin komu aftur fram í dagsljósið. Voru efni pilsins í takt við áratuginn, teygjanlegri en nokkru sinni áður og því minna um slys í kjölfarið. Kventíska níunda áratugarins einkenndist svo af því sem kallað var „Power Suit“ en þá voru dragtarjakkar með axlapúðum hafðir í hávegum, þá með níðþröngu pilsi sem náði rétt niður við hnén. Þótti þessi múndering – jafnan í bland við vel túberað hár – vekja tiltölulega ógnvekjandi áhrif, þarna færi kona sem léti ekki vaða yfir sig. Var þetta í anda níunda og tíunda áratugarins er skilin milli karl- og kvenorku urðu óskýrari, en þarna hófu konur að vilja skera sig úr á vinnustaðnum og sanna að þær gætu staðið undir þessu öllu – starfsframa, fjölskyldu og heimili.

Y2K

Áfram til ársins 2000 (eða ef þið viljið læra slanguryrði unglinganna, Y2) en þá birtust pilsin á nýjan leik eins og sprenging. Niðurþröng, teygjanleg, úr gallaefni. Þarna gat hver sem er fundið sitt síða pils og sum jafnvel með klauf. Klaufin var á hreyfingu og mishá, á hliðunum, annarri eða báðum, að aftan eða jafnvel að framan.

Niðurþröngt pils hefur þó í gegnum árin gegnt ríku hlutverki sem virðulegur skrifstofufatnaður. Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar var skortur á klæði, sem hélst í hendur við þrengri fatnað. Axlapúðadragtir ýttu undir sjálfstraust kvenna á vinnumarkaðnum, sem áður var þétt setinn karlmönnum, og nú í dag þykir klassísk ullarpilsdragt ein eigulegasta samsetningin í haustrokinu. Því látlausari og vandaðri því betri, enda eitthvað sem vel má nota áratugum saman ef fólk heldur sér í formi. 

Skylt efni: tíska

Vetur í stofunni
Líf og starf 26. janúar 2026

Vetur í stofunni

Að ýmsu er að hyggja til að halda pottaplöntum heilbrigðum og fallegum yfir vetr...

Öxin kysst
Líf og starf 26. janúar 2026

Öxin kysst

Þann 12. janúar voru 195 ár liðin frá því að Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigur...

Enn lengur á Biðstofunni, takk!
Líf og starf 16. janúar 2026

Enn lengur á Biðstofunni, takk!

Nú er að hefjast ein skemmtilegasta sjónvarpsveisla ársins með Evrópumótinu í ha...

Að missa af síðustu lestinni
Líf og starf 30. desember 2025

Að missa af síðustu lestinni

6 pör spiluðu alslemmu í spili dagsins, 14 fóru í hálfslemmu en nokkur létu duga...

Fjölmargir krýndir í yngri flokkum
Líf og starf 30. desember 2025

Fjölmargir krýndir í yngri flokkum

Dagana 29. og 30. nóvember fóru fram tvö Íslandsmót. Annars vegar Íslandsmót ein...

Myndflöturinn logar
Líf og starf 28. desember 2025

Myndflöturinn logar

Bjart er yfir sýningu Eggerts Péturssonar í Hafnarborg. Sýningin heitir Roði en ...

Feðgin skrifa um réttir á Íslandi
Líf og starf 28. desember 2025

Feðgin skrifa um réttir á Íslandi

Feðginin Anna Fjóla og pabbi hennar, Gísli B. Björnsson, eru nú á fullum krafti ...

Húsfreyjan í Ytri-Hlíð lyfti grettistaki
Líf og starf 28. desember 2025

Húsfreyjan í Ytri-Hlíð lyfti grettistaki

Vopnfirðingurinn Oddný Aðalbjörg Methúsalemsdóttir vann á sinni tíð ötullega að ...