Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Líf og starf 19. október 2018
Vel lukkaður Hrútadagur á Raufarhöfn
Höfundur: GBJ
Það var að venju margt um manninn á Hrútadeginum á Raufarhöfn sem haldinn var laugardaginn 6. október. Hrútar voru þuklaðir og metnir, og fór einn gæðahrútur á uppboð. Hann seldist á litlar 153 þúsund krónur og er það með því hæsta sem hefur sést á þessum degi sem var nú haldinn í 13. sinn.
Vikuna fyrir Hrútadaginn eru menningardagar á Raufarhöfn. Þar voru ýmsir viðburðir í boði þó veðrið hafi ekki alveg unnið með heimamönnum, þar sem nokkur bleytutíð hefur verið undanfarnar vikur. Þar stigu hagyrðingar á stokk, barnabíó, bogfimikynning, léttmessa, súpukvöld og pókerkvöld svo eitthvað sé nefnt. Á föstudagskvöldinu þandi Stefán Jakobsson raddböndin við undirleik Andra Ívarssonar en þeir félagarnir taka Föstudagslögin alla leið með fjölda af flottum ábreiðum.
Hrútadagurinn rann upp bjartur og fagur þar sem þorpið skartaði sínu fegursta í haustblíðunni. Í Faxahöll var að venju hægt að kaupa kjötsúpu og bakkelsi, Akurselsgulræturnar voru á sínum stað ásamt handverki og öðrum söluvarningi. Gunnar Þóroddsson á Hagalandi í Þistilfirði átti hæst stigaða hrútinn sem fór á uppboð og var hann með 89 stig. Hann var seldur í Berufjörð og stendur sig vonandi í jólavertíðinni. Gunnar sagði að það væri bara gaman að selja svona góðan hrút, hann hafði gefið honum nafnið Banki og má segja það réttnefni þar sem hann skilaði eiganda sínum ágætlega í bankann. Banki er undan Lína frá Snartarstöðum og Túnrækt frá Hagalandi. Afurðahæstu ána áttu Gunnar Björnsson og Anna Englund frá Sandfellshaga í Öxarfirði. Besta lambhrútinn áttu Helgi Árnason og Sigurlína Jóhannesdóttir frá Snartarstöðum en hann var ekki falur og fór því aftur heim með eigendum sínum.
Fegurðarkeppni gimbra var glæsileg í ár þar sem börnin skreyttu gimbrar og sýndu þær á palli. Ýmsar kúnstir voru við að koma þeim á pallinn og sumar óvenju þverar að láta stjórna sér. Höskuldur Steinþórsson á Höfða við Raufarhöfn fékk verðlaun fyrir gimbrina með mesta sauðaþráann, Hólmfríður Katrín Jónsdóttir frá Þórshöfn fékk verðlaun fyrir fallegustu gimbrina og Ása Margrét Sigurðardóttir frá Holti í Þistilfirði fékk verðlaun fyrir best skreyttu gimbrina.
Skemmtilegur viðburður var þegar Hjalti Hjaltason afhenti eldri borgurum á Raufarhöfn fallegt líkan að Búðinni á Raufarhöfn. Hjalti var nokkurn tíma að smíða líkanið og sagði þetta vera frumraun sína í slíkum nákvæmnis smíðum. Hann er sjálfur ættaður frá Skinnalóni á sléttu og er því svæðið afar kært. Búðin var stórt hús, 250 fm í grunnflötinn, og var því með stærstu húsum á Íslandi þegar það var reist á Raufarhöfn árið 1835 eftir flutning frá Danmörku. Búðin hýsti verslun og ýmsa aðra starfsemi allt þar til hún eyðilagðist í eldsvoða árið 1965. Líkanið verður eign eldri borgara á Raufarhöfn og leitast verður við að finna því stað þar sem almenningur getur skoðað það.
Þegar kvöldaði var skemmtun með Hundi í óskilum og síðan dunaði dansinn inn í nóttina sem var viðeigandi endir á skemmtilegri menningarviku.