Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Mynd 1. Heildarstuðningur við landbúnað í ESB árið 2022 nam 0,62% af þjóðarframleiðslu en 0,68% á Íslandi og 0,6% í Noregi. Hlutfall heildarstuðnings af GDP hefur lækkað mest á Íslandi frá aldamótum.
Mynd 1. Heildarstuðningur við landbúnað í ESB árið 2022 nam 0,62% af þjóðarframleiðslu en 0,68% á Íslandi og 0,6% í Noregi. Hlutfall heildarstuðnings af GDP hefur lækkað mest á Íslandi frá aldamótum.
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá MS.

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálfuna. Segja má að þessi mótmæli bænda við starfsskilyrðum landbúnaðar megi rekja til þess þegar hollenskir bændur létu óánægju sína í ljós á árinu 2019.

Erna Bjarnadóttir.

Þann 1. október það ár ferðuðust þúsundir bænda til Haag til að mótmæla og dráttarvélar þeirra ollu umferðarhnútum sem teygðu sig í þúsundir kílómetra. Mótmælin þá beindust ekki síst að kröfum hollenskra stjórnvalda um 50% samdrátt í búfjárframleiðslu af umhverfisástæðum.

Covid-faraldurinn og síðan innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 hafa haft djúpstæð áhrif á starfsskilyrði landbúnaðar í Evrópu. Afleiðingarnar, ásamt nýjum áherslum í sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB (CAP), hafa undanfarna mánuði leitt af sér bylgju mótmæla bænda í velflestum aðildarríkjum ESB.

Í mars sl. var haldinn fundur í Osló á vegum Rannsóknaseturs landbúnaðarins (Agrianalyse) þar sem þessi þróun var tekin til umfjöllunar. Umfjöllunin hér á eftir byggir á erindum sem flutt voru á fundinum, auk annars efnis þar sem hin miklu mótmæli bænda hafa verið tekin til skoðunar.

Landbúnaður í ESB

ESB er eitt þeirra svæða í heiminum þar sem meira er framleitt af mat en þarf til að mæta fæðuþörfinni. Stefna ESB er að framleiðsla landbúnaðarafurða (sjálfsaflahlutfallið) sé 120% af því sem þarf til að uppfylla eftirspurn og næst það eins og er. Innan ESB eru samtals 9 milljón bú og 160 milljón ha af landbúnaðarlandi sem þýðir að meðalstærð búa er um 17 hektarar. Til samanburðar þá er meðalstærð búa í Noregi 27 hektarar og þykja bú þar í landi almennt ekki stór á íslenskan mælikvarða. Þetta undirstrikar hve breytileikinn á bústærð innan ESB er mikill. Sjálfsaflahlutfall Noregs hvað landbúnaðarvörur snertir er hins vegar 45% óleiðrétt fyrir innflutningi á fóðri. Um 30% af heildarútgjöldum ESB renna til landbúnaðar og meðalstuðningur á hvert bú, þ.e.  sem rennur til þeirra í formi beinna greiðslna, nemur lauslega áætlað 850.000 kr. á bú. Hér ber þó að taka fram að markaðsvernd er ekki talin með en verð til bænda innan ESB hefur fram til þessa verið hærra en heimsmarkaðsverð að mati OECD þó sá munur sé orðinn mjög lítill síðustu ár.

Til glöggvunar má bera saman hlutfall heildarstuðnings við landbúnað af þjóðarframleiðslu (GDP) og hlutfall almenns stuðnings sem er sá hluti stuðnings sem rennur ekki beint til bænda, af heildarstuðningi í ESB, Noregi og á Íslandi, samkvæmt samantekt OECD.

Hvað veldur öldu mótmæla bænda í ESB undanfarna mánuði?

Í upphafi er rétt að undirstrika að ekki er unnt að setja jafnaðarmerki fyrir ástæðunum milli allra landanna. Fyrir því eru ýmsar ástæður, s.s. misjöfn viðbrögð einstakra ríkisstjórna við Covid-faraldrinum og áhrifunum þegar úr þeim er dregið. Áhrif stríðsástandsins í Úkraínu koma misjafnlega niður á innri markaði ESB og ekki má gleyma því að bændur í Austur- Evrópu, nánar tiltekið í ríkjum sem gerðust aðilar að ESB þann 1. apríl 2004, fá enn lægri stuðning en bændur í hinum aðildarríkjunum fjórtán sem mynduðu ESB fyrir þann tíma (20% í Slóvakíu sem dæmi).

Á fyrrnefndri ráðstefnu í Noregi um ástæður óánægju bænda hélt sendiherra Slóvakíu erindi. Hann talaði mjög skýrt um ástæður þess af hverju bændur í heimalandi hans væru óánægðir: „FED UP“ – m.ö.o. að bændur væru búnir að fá nóg. Bændur í Slóvakíu og fleiri löndum Austur-Evrópu hafa orðið fyrir miklu verðfalli á afurðum sínum og mótmæli í þeim löndum hafa þannig beinst að því sem bændur segja að sé ósanngjörn samkeppni frá miklu magni innflutnings frá Úkraínu. Eins og kunnugt er felldi ESB niður alla tolla og tollkvóta eftir innrás Rússa í Úkraínu og það hefur leitt til gífurlegrar aukningar á innflutningi úkraínskra landbúnaðarvara.

En ástæðurnar eru fleiri í raun. Um nokkurt skeið hefur ESB átt í samningaviðræðum við ríki í Suður- Ameríkubandalaginu Mercosur. Þessar samningaviðæður hafa tekið tíma en aukinn kraftur hefur verið settur í þær undanfarin ár. Drög að fríverslunarsamningi milli ESB og Mercosur hafa valdið úlfúð meðal bænda og ýtt undir óánægju yfir óréttmætri samkeppni, einkum í sykri, korni og kjöti. Bændurnir eru því ósáttir yfir auknum innflutningi landbúnaðarvara og segja hann hafa þrýst niður afurðaverði á sama tíma og hann standist ekki þær umhverfiskröfur sem settar eru á bændur í ESB.

Auk alls þessa þurfa bændur að takast á við íþyngjandi regluverk ESB. Miðpunkturinn í gagnrýni bænda hefur lotið að nýjum styrkjareglum ESB. Í þeim var m.a. krafa um að taka 4% af ræktuðu landi úr ræktun. Vegna mikilla mótmæla bænda hefur þó nú verið horfið frá þeirri kröfu. Þá hafa bændur í einstökum aðildarríkjum, t.d. Frakklandi, gagnrýnt flókna framkvæmd við úthlutun styrkja og sagt stjórnvöld þar í landi auka á flækjustigið, umræða sem við þekkjum sem „gullhúðun“ regluverks.

Mótmælin í Þýskalandi

Fjöldamótmæli bænda í Þýskalandi hafa vakið sérstaka athygli, ekki síst fyrir þær sakir að óalgengt er að bændur þar grípi til slíkra aðgerða. Þann 18. desember 2023 héldu þýskir bændur til Berlínar – með 3.000 dráttarvélar og önnur farartæki notuð í landbúnaði og skógrækt – til að mótmæla afnámi undanþágu á sköttum á eldsneyti. Reiði bænda beindist einkum að því að afnám undanþáganna felur í sér stórauknar álögur á landbúnað. Samhliða lækkandi afurðaverði myndi það samanlagt leiða til 40% tekjuskerðingar fyrir bændur á árinu 2024.

En bændur létu ekki hér við sitja. Í janúar voru einnar viku samfelldar aðgerðir um allt land. Alls var um 100.000 dráttarvélum ekið út á vegi landsins með tilheyrandi röskun á umferð og haldnir voru 1.000 mótmælafundir. Þann 15. janúar mættu 30.000 manns og 10.000 dráttarvélar til mótmælafunda í höfuðborginni, Berlín. Samkvæmt skoðanakönnunum studdu 80% landsmanna málstað bænda, 70% í borgum og 90% á landsbyggðinni. Í eldhúsum og kaffistofum landsins var rætt jákvætt um mikilvægi landbúnaðar, matvælaöryggis, landsbyggðar og fjölskyldubúa. Þýskir bændur mótmæltu líka kröfunni um að 4% ræktarlands yrðu tekin úr ræktun. Þrátt fyrir þessa mótmælaöldu var afnám undanþáganna staðfest í þýska þinginu þann 2. apríl sl.

Síðast en ekki síst hafa bændurnir mótmælt breytingum á CAP, auknu skrifræði og útfærslu á því hvernig þeim er ætlað að leiða til umhverfisvænni landbúnaðar. Sem dæmi er þýskum bændum bannað að hefja sáningu fyrr en 15. janúar. Bændur horfa ekki á dagatalið í þessu sambandi þegar kemur að slíkum ákvörðunum heldur á ástand lands og veðurfars.

En þyngst virðist þó hafa vegið sú breyting að 23% af beinum greiðslum til bænda voru færðar í umhverfisverkefni („ecoschemes“). Ekki var hlustað á bændur og tillögur þeirra um útfærslur þrátt fyrir að þeir hefðu áður lýst sig reiðubúna til að vera „hluti af lausninni“. En með þeim útfærslum sem urðu ofan á varð reyndin sú að 39% af þeim fjármunum sem stóðu bændum í Þýskalandi til boða vegna umhverfisverkefna gengu ekki út, samtals um 400 milljónir evra. Verkefnin, sem stóð til boða að sækja um stuðning við, hentuðu ekki búrekstri stórs hluta bænda.

Áhrif mótmæla bænda í ESB

Þessi mótmælaalda meðal bænda hefur nú leitt til þess að ESB ákvað að fresta áformum sínum um breytingar á CAP til að takast á við loftslagsbreytingar. Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu, sérstaklega í aðdraganda og að loknum kosningum til Evrópuþingsins sem verða nú í sumar.

Hefur þetta þýðingu fyrir stöðu íslenskra bænda?

Sú þróun sem hér hefur verið gerð að umtalsefni er afar athyglisverð. Hefði farið á annan veg ef betur hefði verið hlustað á bændur og sjónarmið þeirra?

Hér á landi er iðulega sótt fram með hugmyndir um breytingar á landbúnaðarstefnu. Við lestur þeirra vakna oft spurningar. Ef halda á í þá stefnu að uppfylla þarfir okkar fyrir landbúnaðarvörur verður að hafa í huga spár um fólksfjölgun að teknu tilliti til neyslubreytinga.

Þarf þá ekki samhliða að vera skýrt að stefnan sé sú að hlutdeild innflutnings verði ekki aukin í innanlandsmarkaði? Þurfa þau stjórntæki sem eru valin til að útfæra stefnuna ekki að tryggja að framleiðslan haldi í við stækkun markaðar? Þegar talað er um að færa skuli stuðning í annað form, s.s. landgreiðslur eða umhverfisgreiðslur, þarf að tala skýrar svo ljóst sé að afleiðingarnar verði ekki samdráttur í framleiðslu.

Dæmið frá Þýskalandi, þar sem 39% stuðningsgreiðslna ganga ekki út þar sem bændur geta ekki nýtt sér þær, hringir háværum viðvörunarbjöllum. Viljum við ekki örugglega halda í og helst auka núverandi sjálfsaflahlutfall þjóðarinnar fyrir landbúnaðarvörur?

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn
Lesendarýni 12. júní 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn

Í Bændablaðinu miðvikudaginn 24.4. 2024 er viðtal við Jón Kristinsson umhverfisa...

Framtíð veiða með botnvörpu?
Lesendarýni 11. júní 2024

Framtíð veiða með botnvörpu?

Fyrir nokkrum vikum birtist í National Geographic grein sem byggir á viðamikilli...

Hrossaræktin á fljúgandi ferð
Lesendarýni 10. júní 2024

Hrossaræktin á fljúgandi ferð

Þegar ég var í búfræðinámi á Hvanneyri voru heilmikil átök um stefnuna í hrossar...