Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Agnar Þór Magnússon og Birna Thorlacius Tryggvadóttir á Aðalheiði og Afródítu frá Garðshorni á Þelamörk, sem voru meðal þriggja efstu fjögurra vetra hryssa í ár.
Agnar Þór Magnússon og Birna Thorlacius Tryggvadóttir á Aðalheiði og Afródítu frá Garðshorni á Þelamörk, sem voru meðal þriggja efstu fjögurra vetra hryssa í ár.
Mynd / Gísli Guðjónsson - Eiðfaxi
Líf og starf 15. desember 2021

Hæstu hross ársins

Höfundur: Elsa Albertsdóttir og Halla Eygló Sveinsdóttir

Alls voru sýndar 56 fjögurra vetra hryssur í fullnaðardóm á árinu og voru þær um 6% sýndra hrossa. Efstu þrjár hryssur í hverjum aldursflokki voru eftirfarandi:
Með þriðju hæstu einkunn ársins eða 8,24 var Aðalheiður frá Garðshorni á Þelamörk, ræktendur hennar eru Birna Tryggvadóttir Thorlacius og Agnar Þór Magnússon en eigandi er Sporthestar ehf. Aðalheiður er dóttir Ölnis frá Akranesi og Garúnar frá Garðshorni á Þelamörk sem var undan Dofra frá Steinnesi. Aðalheiður er fríð og vel gerð hryssa með 8,30 fyrir sköpulag. Þá er hún skrefgóð alhliðahryssa hryssa með m.a. 8,5 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend, samræmi skeið, stökk, samstarfsvilja og fegurð í reið. Aðalheiður stóð önnur fjögurra vetra hryssna á Landssýningunni.

Með aðra hæstu einkunn ársins eða 8,25 var Kolbrún frá Helgatúni. Ræktendur og eigendur hennar eru Helgi Gíslason og Gunnhildur Sveinbjarnardóttir. Kolbrún er undan Hrannari frá Flugumýri II og heiðursverðlaunahryssunni Væntingu frá Hruna. Kolbrún er viljug og þjáll alhliðagæðingur. Hún hlaut 9,0 fyrir bak og lend enda bakið vel vöðvað og lendin jöfn og öflug. Einnig fékk hún 9,0 fyrir skeið og samstarfsvilja.

Með hæstu einkunn ársins í fjögurra vetra flokki hryssna í ár var Afródíta frá Garðshorni á Þelamörk með 8,33 í aðaleinkunn. Hún stóð efst fjögurra vetra hryssna á Landssýningunni. Ræktendur hennar eru Birna Tryggvadóttir Thorlacius og Agnar Þór Magnússon en eigandi er Sporthestar ehf. Afródíta er undan Grími frá Garðshorni á Þelamörk og heiðursverðlauna hryssunni Eldingu frá Lambanesi. Hún er fríð og vel gerð hryssa með 8,5 fyrir flesta þætti sköpulags og 9,0 fyrir fótagerð.Hún er skrefmikil, viljug og þjál alhliðahryssa með 8,5 fyrir tölt og brokk og 9,0 fyrir samstarfsvilja. Það er athyglisverður árangur að tvær af þremur efstu hryssunum í þessum flokki eru frá Garðshorni á Þelamörk og ræktaðar af þeim Birnu og Agnari.

140 hryssur í fimm vetra flokki

Í fimm vetra flokki hryssna voru sýndar 140 hryssur og voru þær 16% sýndra hrossa.

Með þriðju hæstu einkunn ársins eða 8,45 var Hending frá Fákshólum. Ræktandi hennar er Helga Una Björnsdóttir sem á hana ásamt Jakobi Svavari Sigurðssyni, Flemming Fast og Gitte Lambertsen. Hending er undan Konsert frá Hofi og gæðingshryssunni Sendingu frá Þorlákshöfn. Hún hlaut 8,16 fyrir sköpulag með afar sterka yfirlínu í baki. Þá hlaut hún 8,60 fyrir hæfileika með 9.0 fyrir sitt rúma og örugga skeið og þjála og yfirvegaða samstarfvilja.

Með aðra hæstu einkunn ársins er Gleði frá Hólaborg með 8,49 í aðaleinkunn. Gleði stóð hæst í sínu flokki á Landssýningunni. Ræktendur hennar eru Ingimar Baldvinsson og Emilia Staffansdotter og eigandi Hólaborg ehf. Gleði er undan Forseta frá Vorsabæ II og Hamingju frá Hæli. Hún er afar vel gerð með 8,45 fyrir sköpulag þar af 9,0 fyrir höfuð og háls, herðar og bóga. Gleði hlaut 8,51 fyrir hæfileika þar sem hæst ber 9,0 fyrir sitt fjaðrandi skrefgóða brokk og fegurð í reið en hún er fasmikil og hágeng.

Með hæstu einkunn ársins eða 8,58 var svo Valdís frá Auðsholtshjáleigu. Ræktendur hennar eru Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir en eigendur eru Anja Egger-Meier og Kronshof GbR. Valdís er undan Skaganum frá Skipaskaga og Prýði frá Auðsholtshjáleigu. Hún er mjög vel gerð og léttbyggð hryssa með 8,47 fyrir sköpulag. Hún er einkar falleg á höfuð og hlaut þá fágætu einkunn 10 fyrir höfuð. Þá er hún mjög framfalleg og hlaut 9,0 fyrir sinn reista, hátt setta, langa og granna háls. Valdís er léttleikandi og flink alhliðahryssa sem fer afar vel í reið og hlaut m.a. 9,0 fyrir tölt, skeið, samstarfsvilja og fegurð í reið.

209 hryssur í fullnaðardóm

Í flokki sex vetra hryssna voru sýndar 209 hryssur í fullnaðardóm og voru þær 23% sýndra hrossa.

Með þriðju hæstu einkunn ársins var Kamma frá Sauðárkróki en hún hlaut í aðaleinkunn 8,64. Hún stóð efst á Landssýningunni í sínum flokki. Ræktandi er Sauðárkróks-Hestar og eigendur eru Guðmundur Ólafsson og Svala Guðmundsdóttir. Kamma er undan Aðli frá Nýjabæ og Kómetu frá Sauðárkróki. Kamma er með 8.38 fyrir sköpulag þar sem hæst ber 9,0 fyrir háls, herðar og bóga en hálsinn er grannur og hátt settur með vel aðgreinda bóga sem bjóða upp á góðar hreyfingar. Þá er hún með 8,5 fyrir bak og lend og samræmi. Kamma hlaut 8,78 fyrir hæfileika og er úrvalsalhliðahryssa með frábært brokk og mikinn og þjálan samstarfsvilja. Kamma fer afskaplega vel í reið með háum og löngum hreyfingum og afar góðri líkamsbeitingu.

Með aðra hæstu einkunn ársins í flokki sex vetra hryssna var gæðingurinn Frigg frá Hólshúsum með 8,70 í aðaleinkunn. Ræktendur og eigendur eru Dagný Linda Kristjánsdóttir, Valur Ásmundsson og Kolbrún Ingólfsdóttir. Frigg er undan Kambi frá Akureyri og Finndís-Fjólu frá Meiri-Tungu 3. Hún hlaut 8,34 fyrir sköpulag þar sem hæst ber 9,0 fyrir hófa. Þá hlaut Frigg 8,89 fyrir hæfileika og þar af 9,0 fyrir alla kosti utan stökks og hægs stökks. Framganga Friggjar einkennist af fasi og léttleika, miklum fótaburði, rými og afar góðum gangskilum. Viljinn er mikill en yfirvegaður og er Frigg afar öflug og mögnuð alhliðahryssa.

Með hæstu einkunn ársins eða 8,71, í sex vetra flokki hryssna var Silfurskotta frá Sauðanesi. Ræktandi hennar er Ágúst Marinó Ágústsson og er hann einnig eigandi ásamt Reyni Erni Pálmasyni. Silfurskotta er undan Ölni frá Akranesi og Sunnu frá Sauðanesi. Silfurskotta hlaut 8,38 fyrir sköpulag, hún er framfalleg og fótahá með afar góða yfirlínu í baki en þar hlaut hún 9,0. Hæfileikaeinkunn hennar er 8,88 þar sem hæst fékk hún 9,5 fyrir frábæran samstarfsvilja þar sem hvort tveggja í senn fer mikil
framhugsun og þjálni. Hún er gæðingur á gangi og hlaut 9,0 fyrir tölt, skeið og fegurð í reið en að öðrum kostum óupptöldum hlaut hún einkunnina 8,5.

238 hryssur komu til dóms í elsta flokki hryssna

Í elsta flokki hryssna, 7 vetra og eldri, komu 238 hryssur til dóms eða um 27% sýndra hrossa.

Þriðju hæstu einkunn ársins eða 8,54 hlaut Hávör frá Ragnheiðarstöðum. Ræktandi hennar er Helgi Jón Harðarson en eigendur eru Fanndís Helgadóttir og HJH Eignarhaldsfélag ehf. Hávör er undan Hrannari frá Flugumýri II og gæðingamóðurinni Hátíð frá Úlfsstöðum. Hávör er reist, fótahá með langa og öfluga lend. Þá er hún gæðingur á gangi með 8,72 fyrir hæfileika, þar sem hæst ber 9,0 fyrir tölt, brokk og samstarfsvilja, 8,5 fyrir skeið, greitt stökk, fet og fegurð í reið.

Næsthæstu einkunn ársins 8,65 hlaut Þrá frá Prestsbæ. Ræktendur hennar og eigendur eru Inga og Ingar Jensen. Þrá er undan Arion frá Eystra-Fróðholti og heiðursverðlauna hryssunni Þóru frá Prestsbæ. Þrá er glæsileg hryssa á velli enda með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og samræmi. Fyrir hæfileika hlaut hún 8,71 og ber þar hæst 10 fyrir samstarfsvilja, 9,5 fyrir tölt, greitt stökk og fegurð í reið.

Katla frá Hemlu II hlaut hæstu einkunn ársins, 8,77. Knapi er Árni Björn Pálsson. Mynd/Anja Egger-Meier

Hæstu einkunn ársins 8,77 hlaut Katla frá Hemlu II og er það jafnfram hæsta aldursleiðrétta aðaleinkunn ársins. Ræktendur hennar eru Anna Kristín Geirsdóttir og Vignir Siggeirsson en eigandi hennar er Anja Egger-Meier. Katla er undan Skýr frá Skálakoti og Spyrnu frá Síðu. Katla er frábær alhliða gæðingur með 8,56 fyrir sköpulag, m.a. með 9,0 fyrir höfuð, háls, herðar og bóga, samræmi og prúðleika. Hæfileikaeinkunn hennar er 8,88 en hún er með 9,5 fyrir samstarfsvilja, 9,0 fyrir tölt, skeið og fegurð í reið og 8,5 fyrir aðra eiginleika.

Efstu þrír stóðhestar í hverjum aldursflokki

Í flokki fjögurra vetra stóðhesta voru sýndir 45 hestar eða um 5% sýndra hrossa.

Þriðju hæstu einkunn ársins hlaut Drangur frá Steinnesi en hann hlaut 8,33 í aðaleinkunn. Ræktandi hans og eigandi er Magnús Jósefsson. Drangur er undan Draupni frá Stuðlum og Ólgu frá Steinnesi. Drangur er skrefmikill myndargripur, með 8,41 fyrir sköpulag. Hann er með 8,5 fyrir flesta þætti sköpulags og 9,0 fyrir hófa. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,28, þar ber hæst 9,0 fyrir tölt.

Næsthæstu aðaleinkunn ársins hlaut Tappi frá Höskuldsstöðum, en hann hlaut 8,33 í aðaleinkunn eins og Drangur en á milli skilja nokkrir aukastafir. Ræktandi og eigandi hans er Snæbjörn Sigurðsson. Tappi er undan Kolskeggi frá Kjarnholtum I og Tign frá Höskuldsstöðum. Tappi er framhár og léttbyggður gæðingur með 8,35 fyrir sköpulag, 9,0 fyrir samræmi og 8,5 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend og hófa. Tappi er með 8,32 fyrir hæfileika, þar af 9,0 fyrir tölt og samstarfsvilja.

Hæstu einkunn ársins í flokki fjögurra vetra stóðhesta hlaut Fróði frá Flugumýri, með aðaleinkunn 8,36. Ræktendur hans eru Eyrún Ýr Pálsdóttir og Teitur Árnason en eigandi er Eyrún Ýr Pálsdóttir. Fróði er undan Hring frá Gunnarsstöðum I og Fýsn frá Feti. Fróði hlaut 8,45 fyrir sköpulag en hæst hlaut hann 9,0 fyrir háls, herðar, bóga og samræmi. Þá fékk hann 8,31 fyrir hæfileika þar sem hæst ber 9,0 fyrir tölt, brokk, greitt stökk, samstarfsvilja og fegurð í reið. Fróði er úrvals klárhestur, hágengur, skrefmikill og samstarfsfús.

80 fimm vetra stóðhestar í fullnaðardóm

Í flokki fimm vetra stóðhesta komu fram 80 hestar í fullnaðardóm eða 9% sýndra hrossa. Þriðju hæstu einkunn ársins í þessum flokki hlaut Sóli frá Þúfu í Landeyjum með 8,43 í aðaleinkunn. Ræktendur og eigendur hans eru Anna Berglind Indriðadóttir og Guðni Þór Guðmundsson. Sóli er undan Sólon frá Skáney og Þöll frá Þúfu í Landeyjum. Sóli er ágætlega gerður með 8,0 fyrir háls, herðar og bóga, þá hlaut hann 9,0 fyrir bak og lend og prúðleika og úrvalseinkunnina 9,5 fyrir hófa. Fyrir hæfileika hlaut Sóli 8,35, þar af 9,0 fyrir tölt og 8,5 fyrir brokk, hægt og greitt stökk, samstarfsvilja og fegurð í reið.

Næsthæstu einkunn ársins hlaut Töfri frá Þúfum með 8,50 í aðaleinkunn. Ræktendur og eigendur hans eru Gísli Gíslason og Mette Camilla Moe Mannseth. Töfri er undan Trymbli frá Stóra-Ási og Völvu frá Breiðstöðum. Töfri er með einkunnina 8,41 fyrir sköpulag, þar ber hæst 9,0 fyrir bak og lend. Töfri er fjölhæfur alhliða gæðingur með þjála og trausta lund en hann er með 8,55 fyrir hæfileika. Hann hlaut 9,0 fyrir tölt, samstarfsvilja og fegurð í reið.

Hæstu einkunn í þessum flokki hlaut Magni frá Stuðlum eða 8,52 í aðaleinkunn. Ræktendur hans eru Edda Björk Ólafsdóttir og Páll Stefánsson en eigendur eru Páll Stefánsson, Hrafnkell Áki Pálsson og Ólafur Tryggvi Pálsson. Magni er undan Konsert frá Hofi og Stöku frá Stuðlum. Magni er glæsilegur hestur með 8,74 fyrir sköpulag, hæst hlaut hann 9,0 fyrir bak og lend, samræmi, hófa og prúðleika. Fyrir hæfileika hlaut Magni 8,40, mjúkur og takthreinn á tölti og skeiðið ferðmikið og öruggt, enda fékk hann 9,0 fyrir skeið og samstarfsvilja.

78 hestar í flokki 6 vetra stóðhesta

Í flokki 6 vetra stóðhesta voru sýndir 78 hestar í fullnaðardóm eða um 9% sýndra hrossa.

Þriðju hæstu einkunn ársins hlaut Pensill frá Hvolsvelli með 8,55 í aðaleinkunn. Ræktendur og eigendur hans eru Ásmundur Þór Þórisson og Helga Friðgeirsdóttir. Pensill er undan Ölni frá Akranesi og Hörpu Sjöfn frá Hvolsvelli. Pensill er stórglæsilegur hestur með sköpulagseinkunn upp á 8,98. Hann hlaut 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og 9,5 fyrir bak og lend og samræmi. Pensill er rúmur, léttstígur og þjáll gæðingur en hann fékk 8,32 fyrir hæfileika, þar ber hæst 9,0 fyrir tölt, brokk, samstarfsvilja og fegurð í reið.

Næst hæstu einkunn ársins hlaut Gandi frá Rauðalæk, 8,57 í aðaleinkunn. Ræktandi og eigandi er Elisabet Norderup Midhelson. Gandi er undan Konsert frá Hofi og Garúnu frá Árbæ. Gandi er glæsilegur hestur með 8,79 fyrir sköpulag, þar af 9,5 fyrir samræmi og 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og hófa. Hann er alhliða gæðingur með 9,0 fyrir brokk og fegurð í reið. Brokkið er rúmt og svifmikið.

Guðmundur Björgvinsson á Ganda frá Rauðalæk. Mynd/ Gísli Guðjónsson / Eiðfaxi

Hæstu einkunn ársins í þessum flokki hlaut Seðill frá Árbæ, með aðaleinkunn 8,68. Ræktandi og eigandi hans er Maríanna Gunnarsdóttir. Seðill er undan Sjóð frá Kirkjubæ og Veronu frá Árbæ. Seðill er stórglæsilegur alhliða gæðingur, fyrir sköpulag hlaut hann 8,79, þar af 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend, samræmi og hófa. Seðill hlaut fyrir hæfileika 8,62, þar ber hæst 9,0 fyrir greitt stökk, samstarfsvilja og fet. Seðill er fjölhæfur á gangi og með ljúfa lund.

44 hestar í elsta flokki stóðhesta

Í elsta flokki stóðhesta voru sýndir 44 hestar eða um 5% sýndra hrossa. Þriðju hæstu einkunn ársins hlaut Nökkvi frá Hrísakoti, með aðaleinkunn 8,52. Ræktandi og eigandi hans er Sif Matthíasdóttir. Nökkvi er undan Ramma frá Búlandi og Hugrúnu frá Strönd II. Nökkvi er vel gerður alhliðagæðingur með 8,39 fyrir sköpulag en hann er með 8,0 eða 8,5 fyrir alla þætti sköpulags. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,58, þar ber hæst 9,5 fyrir skeið og 9,0 fyrir samstarfsvilja.

Næsthæstu einkunn ársins hlaut Huginn frá Bergi, með aðaleinkunn 8,55. Ræktandi hans og jafnframt eigandi er Anna Dóra Markúsdóttir. Huginn er undan Króki frá Ytra-Dalsgerði og heiðursverðlaunahryssunni Hildu frá Bjarnarhöfn. Huginn er ákaflega prúður og velgerður alhliða gæðingur með 8,45 fyrir sköpulag. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,60, en hann hlaut 9,0 fyrir skeið og samstarfsvilja.

Daníel Jónsson á Glampa frá Kjarrhólum. Mynd/ Gísli Guðjónsson / Eiðfaxi

Hæstu einkunn ársins í elsta flokki stóðhesta hlaut Glampi frá Kjarrhólum með 8,68 í aðaleinkunn. Ræktendur hans eru Axel Davíðsson og Bragi Sverrisson en eigandi er Gæðingar ehf. Glampi er undan Arion frá Eystra-Fróðholti og Gígju frá Árbæ. Glampi hlaut 8,59 fyrir sköpulag, þar af fjórar níur, fyrir bak og lend, samræmi, fótagerð og hófa. Glampi er reistur og afar fótahár. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,72, enda fjölhæfur á gangi en hann hlaut m.a. 9,0 fyrir tölt, skeið, samstarfsvilja og fegurð í reið.

Elsa Albertsdóttir
ráðunautur, búfjárræktar- og þjónustusvið
elsa@rml.is

Halla Eygló Sveinsdóttir
ráðunautur, búfjárræktar- og þjónustusvið
halla@rml.is

Siggi Dan gegn Sævari
Líf og starf 4. október 2024

Siggi Dan gegn Sævari

Í þessum skákpistli hefur áður verið birt skák sem Sigurður heitinn Daníelsson t...

Sýn féhirðis á sauðkindina:
Líf og starf 2. október 2024

Sýn féhirðis á sauðkindina:

Að bera fé: Afklæða kind. Aflafé: Kindur sem stunda veiðiskap. Áhættufé: Fífld...

Ávaxtakarfan í Hveragerði
Líf og starf 2. október 2024

Ávaxtakarfan í Hveragerði

Eins og vani er á haustin eru áhugaleikhúsin komin á fullt og eitt þeirra, Leikf...

Mannlífið í réttum
Líf og starf 1. október 2024

Mannlífið í réttum

Réttir eru mannfögnuður og annáluð lopapeysupartí. Magnús Hlynur Hreiðarsson, fa...

Ljósið sigrar myrkrið
Líf og starf 1. október 2024

Ljósið sigrar myrkrið

Seint í september, um svipað leyti og heyskaparlok, fjárleitir og upphaf sláturt...

Blítt og létt í Ölfusrétt
Líf og starf 30. september 2024

Blítt og létt í Ölfusrétt

Sólin skein á gangnamenn og gesti Ölfusréttar sunnudaginn 15. september síðastli...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 30. september 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn þarf að vera opinn fyrir nýjungum í takt við þau skref sem hann hefu...

Tjaldur
Líf og starf 25. september 2024

Tjaldur

Tjaldur er stór og auðþekkjanlegur vaðfugl sem finnst um allt land. Tjaldar eru ...