Deila eldhúsi og eldmóði
Gróskan í smáframleiðslu matvæla er mikil hér á landi. Í Eldstæðinu við Nýbýlaveg hafa á fjórða tug matarfrumkvöðla og smáframleiðenda aðstöðu, svokölluðu deilieldhúsi, til að þróa og framleiða matvörur sínar í fullvottuðu atvinnueldhúsi.
Eva Michelsen er upphafskona og eigandi deilieldhússins. Hún kynntist hugmyndinni um deilieldhús í Bandaríkjunum, má víða finna slíka aðstöðu. Með reynslu við að koma á fót og reka samstarfsrými á borð við Hús sjávarklasans og Lífsgæðasetrið í St. Jó fannst henni augljóst tækifæri felast í að koma deilanlegu atvinnueldhúsi á koppinn. Stofnkostnaður matvælaframleiðanda er enda gífurlegur, þar sem framleiða þarf matvæli í fullvottuðu atvinnueldhúsi og bæði búnaður og geymslurými er áhættusöm fjárfesting ef rennt er blint í sjóinn.
„Hér þarf framleiðandinn ekki að leggja út stórar fjárhæðir, nema hann þurfi einhvern sértækan búnað. Hér er aðgengi að öllum helstu tækjum og tólum, kæli- og þurrlager, skrifstofu- og fundaraðstöðu.

Hér eru þrjár vinnustöðvar sem gerir það að verkum að ákveðið samfélag hefur skapast og allir hjálpast að. Þess utan rek ég bók- haldsstofu og hef því getað aðstoðað fólk á þeim vettvangi líka,“ segir Eva. Framleiðendur þurfa því aðeins að afla sér starfsleysis, hafi þeir áhuga á að koma hugmynd að vöru inn á markað í Eldstæðinu, en auk þess heldur Eva inntökunámskeið þar sem hún fer yfir allar reglur til að tryggja að öllum lögum um matvælaframleiðslu sé fylgt í hvívetna. Í dag hafa 38 matarfrumkvöðlar aðstöðu í Eldstæðinu og telst Evu til að um 80 framleiðendur hafi nýtt sér aðstöðuna síðan hún opnaði í september árið 2020. „Þetta er eins konar útungunarvél. Sumir halda áfram að stækka það mikið að þau geta tryggt sér rekstrargrundvöll á eigin spýtur. Dæmi um það eru Ketó eldhúsið, Sjávarbúrið og Ella Stína. Aðrir átta sig á því að matvælaframleiðsla hentar þeim ekki og taka þá upplýsta ákvörðun um að bakka út.“
Sjálf er Eva með sína hliðarbúgrein með rekstri Eldstæðisins, þar sem hún framleiðir konfekt, handgerðar kökur og annað góðgæti undir merkinu Michelsen konfekt.
