Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hagaðilar hafa skilað inn umsögnum sínum í Samráðsgátt stjórnvalda um frumvarpsdrög sem heimila aukna samvinnu kjötafurðastöðva og sláturleyfishafa.
Hagaðilar hafa skilað inn umsögnum sínum í Samráðsgátt stjórnvalda um frumvarpsdrög sem heimila aukna samvinnu kjötafurðastöðva og sláturleyfishafa.
Mynd / Bbl
Fréttir 15. desember 2022

„Getur aukið hagræði í sláturiðnaði svo um munar“

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Breytingar eru fyrirhugaðar á búvörulögum sem fela í sér möguleika kjötafurðastöðva og sláturleyfishafa til aukinnar samvinnu. Frumvarp þess efnis liggur í Samráðsgátt stjórnvalda og rann umsagnarfrestur um það út á mánudaginn, en alls var níu umsögnum skilað inn.

Eru þær í samræmi við tillögur spretthóps matvælaráðherra sem komu fram í júní, vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi. Í frumvarpinu er kveðið á um breytingar sem eiga að stuðla að endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu og felast í heimild afurðastöðva í sláturiðnaði til að stofna og starfrækja saman félag um flutning sláturgripa, slátrun, birgðahald og frumvinnslu afurða, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Sameiginleg starfsemi í samvinnufélagi

Gert er að skilyrði að starfsemin sé í sérstöku félagi til að tryggja aðskilnað frá annarri starfsemi og þannig stefnt að því að afmarka með skýrum hætti þá þætti sem heimild er að hafa samstarf um. Slíkt er jafnframt til þess fallið að auðvelda eftirlitsaðilum að hafa eftirlit með starfseminni. Neytendasamtökin segja í umsögn sinni að frumvarpsdrögin séu óboðleg og aðför að neytendum. Samkeppni tryggi lægra verð og betra vöruúrval. Þau gagnrýna frumvarpið fyrir að einskorða ekki heimildina til samvinnu við þær kjötgreinar sem veikast standa, heldur falli öll kjötframleiðsla og allar afurðastöðvar undir heimildina í frumvarpinu. Telja Neytendasamtökin að mistök hljóti að hafa verið gerð við frumvarpsgerðina enda geti það ekki verið markmið að opna á svo víðtæka heimild.

Svipaðar aðstæður og voru í mjólkuriðnaði

Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) telja að frumvarpið geti aukið hagræði í sláturiðnaði svo um munar. Hins vegar þurfi að skýra ákveðin atriði frumvarpsins betur.

Vitna þau til skýrslu Hagfræði­ stofnunar Háskóla Íslands frá júní 2015 þar sem fjallað var um árangur í hagræðingu í mjólkuriðnaði, fækkun afurðastöðva og raunlækkun á vinnslukostnaði mjólkurafurða á árunum 2003 til 2013. Þar var hagræðið af lækkun vinnslukostnaðar metið á um þrjá milljarða króna á verðlagi ársins 2013, sem hafi skilað sér til bænda og neytenda. „Ákvæði 71. gr. búvörulaga var innleitt á grundvelli hagsmunamats löggjafans um að rekstrarörðugleikar í landbúnaði kölluðu á aukið svigrúm afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að sameinast og semja um tiltekna verkaskiptingu.

Að mati SAM eru svipaðar aðstæður uppi nú varðandi kjötafurðastöðvar,“ segir í umsögn SAM.

Núgildandi samkeppnislög heimila hagræðingu

Samkeppniseftirlitið leggst gegn þeim hugmyndum sem fram koma í frumvarpsdrögunum, um undanþágu frá grunnreglum samkeppnislaga. Telur það að undanþágan sem ráðgerð er í frumvarpsdrögunum sé umtalsvert víðtækari heldur en drögin gefa til kynna við fyrstu sýn og nái einnig til samrunareglna. Til grundvallar liggi áform um verulega samþjöppun og einhverja einokun á landfræðilegum mörkuðum, án þess að hagsmunir bænda, sjálfstæðra vinnsluaðila eða neytenda séu tryggðir.

Núgildandi samkeppnislög heimili hagræðingu og því sé ekkert til fyrirstöðu að ákvæði 15. greinar um undantekningar til samstarfs fyrirtækja og samrunareglur laganna geti skapað grundvöll til hagræðingar á vettvangi kjötafurðastöðva, liggi til þess rök og hagsmunir bænda, annarra viðskiptavina og neytenda séu tryggðir.

Hagræðing í allri keðjunni

Bændasamtök Íslands segja í sinni umsögn að þeirra sýn sé að með færri og stærri einingum sem sjá um slátrun og vinnslu afurða raungerist stærðarhagkvæmni sem skili sér til bænda í fleiri greiddum krónum. Færri krónur þurfa þá að fara í milliliði og fleiri krónur fari til frumframleiðenda. Til að það markmið náist, sem jafnframt skili sér til neytenda, þá verði að eiga sér stað hagræðing í allri keðjunni frá bónda í búð.

„Sé gengið út frá því að verð til neytenda sé við sársaukaþröskuld þannig að ókleift sé að hækka verð til frumframleiðenda frá þeim enda virðiskeðjunnar, og að afkoma frumframleiðenda sé óásættanleg þar sem verð til þeirra sé of lágt, þá verði einfaldlega að beina sjónum að því sem fram fer þarna á milli. Þar er um að ræða nokkra þætti virðiskeðjunnar, þ.e. söfnun sláturfjár, slátrun, geymsla, frumvinnsla, fullvinnsla, pökkun og dreifing. Samkvæmt greiningum frá Deloitte, KPMG og SI á rekstrarumhverfi sláturhúsa getur samþjöppun á markaðnum leitt af sér 0,9­1,9 milljarða króna hagræðingu,“ segir í umsögn Bændasamtaka Íslands.

„Aumkunarverður pilsfaldakapítalismi“

Í umsögn Félags atvinnurekenda (FA) er ítrekuð sú afstaða, sem fram hefur komið í umsögn félagsins um áðurnefnd frumvarpsdrög 17. maí 2021, að það sé algjörlega ótækt ef sérhagsmunahópar geta með þessum hætti pantað hjá stjórnvöldum undanþágur frá samkeppnislögum af því að þeir telji rekstur sumra fyrirtækja í tilteknum greinum ekki ganga nógu vel. Slíkt skapi afar varasamt fordæmi og geti rutt brautina fyrir „heldur aumkunarverðan pilsfaldakapítalisma“.

Að mati FA er grundvallaratriði að margvíslegir möguleikar séu á samstarfi framleiðenda búvöru og samstarfi eða jafnvel samruna afurðastöðva að óbreyttum lögum, án undanþágna frá bannákvæðum 10. og 12. gr. samkeppnislaga. Tiltekur félagið nýlegt dæmi af samruna kjötafurðastöðvanna Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða, sem rök fyrir því að möguleikar til hagræðingar á þessum markaði, innan ramma núgildandi samkeppnis­ og búvörulöggjafar, séu fyrir hendi.

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...