Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
BMW i3 Rex.
BMW i3 Rex.
Mynd / HLJ
Fræðsluhornið 23. febrúar 2017

Vistvænn BMW i3

Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Af og til hef ég í spjalli við menn verið gagnrýndur fyrir að prófa ekki nógu marga rafmagnsbíla, en ástæðan er sú að ég hef ekki séð rafmagnsbíla sem eru með nægilega mikla drægni fyrir landsbyggðina og að of fáar hleðslustöðvar hafa verið hingað til úti á landi. Nú hefur hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla fjölgað verulega á landsbyggðinni og rafmagnsbílarnir eru alltaf að komast lengra og lengra á hleðslunni. 
 
Að mínu mati þarf að vera aukavél sem tekur við þegar rafmagnið er búið til að bíllinn henti vel fyrir íslenskan markað og fyrir nokkru prófaði ég svona bíl.
 
Á að komast yfir 150 km áður en ljósavélin tekur við
 
BMW er, eins og flestir aðrir bílaframleiðendur, farnir að veðja á rafvæðinguna og eru komnir með nokkrar tegundir af rafmagnsbílum. Einn af þessum bílum heitir BMW i3 rex, og er með 170 hestafla rafmótor. Hann er líka með litla ljósavél sem fer í gang þegar stutt er eftir af hleðslunni og hleður rafmagni inn á rafhlöðurnar til að koma bílnum áfram. 
 
Þegar ég fékk bílinn höfðu margir verið að prófa hann á laugardagsopnun BL og því lítil drægni á bílnum og hraðhleðslustöðin fyrir utan BL upptekin. Litlu seinna kom ég við í BL og þá var hraðhleðslustöðin laus og ég hlóð bílinn í um 30 mín. Eftir þá hleðslu sagði mælaborðið mér að ég ætti að komast 175 km á rafhlöðunni.
 
175 km hleðslan dugði mér í 108 km
 
Ég ákvað að fara í langan prufuakstur til þess að sjá hversu langt væri hægt að komast á hleðslunni með því að eyða eins miklu rafmagni og ég gæti. Með miðstöðina í botni, sætishitarann, afturrúðuhitarann og fleira sem tekur rafmagn hraðar af rafhlöðunni náði ég að komast 108 km áður en ljósavélin fór í gang. Þetta var mun lengra en ég hafði fyrirfram búist við.
 
Á meðan þessum akstri stóð fylgdist ég með í mælaborðinu á hvaða hraða ég væri að eyða minnsta og mesta rafmagninu og er það mjög svipað og með aðra bíla að eyðslan er mest við hröðun á bilinu 0 upp í 50 km hraða. Einnig á miklum hraða sem ekki má segja frá á prenti.
 
BMW i3 Rex er gefinn upp fyrir að vera 8,1 sek. að ná 100 km hraða sem er ekki fjarri lagi, allavega fannst mér bíllinn mjög sprækur af stað. Á jafnsléttu og hraða rétt undir 80 er bíllinn að eyða minnsta rafmagni. 
 
Ekkert varadekk og furðuleg dekkjastærð
 
Eins og venjulega prófa ég alla bíla á holóttum malarvegum, en þessi bíll er ekki sá skemmtilegasti sem ég hef keyrt á möl þrátt fyrir að vera afturhjóladrifinn. Hann er hastur og allt of lítil fjöðrun út úr dekkjunum, sem er engin furða þar sem dekkin eru óttalegar lakkrísreimar. Dekkjastærðin er 155/70/19 og er loftþrýstingur í þeim 34 psi að framan og yfir 40 að aftan. Þessa afbrigðilegu dekkjastærð hef ég ekki séð áður undir bíl og mjög fáir dekkjaframleiðendur og innflutningsaðilar með þessa stærð dekkja til sölu.
Nær væri að minnka felgur niður í 16 eða 17 tommur til að fá fjöðrun út úr dekkjunum og dekk á viðráðanlegu verði, en það kæmi eflaust niður á aksturseiginleikum á sléttu malbiki. Ekkert varadekk er í bílnum, en í staðinn er rafmagnspumpa og dekkjakvoða til að bjarga sér á ef dekk springur.
 
Útlit framúrstefnulegt og farangursrými lítið
 
Eftir að hafa klárað rafmagnið fór ljósavélin í gang og malaði ljúft á stöðugum snúningi, en ekki veit ég af hverju mér datt í hug gamli traktorinn í sveitinni heima, sem stóð við hlöðuhornið á jöfnum snúningi við súgþurrkun, þegar ég hlustaði eftir hljóðinu í ljósavélinni, en mér fannst hávaðinn í henni full mikill. Spurning um að stækka hljóðkútinn á ljósavélinni. 
 
BMW i3 er skráður fyrir fjóra. Til að hleypa farþega inn og út úr bílnum sem situr í aftursætum þarf sá sem situr í framsæti að opna fyrst hurðina hjá sér svo að hægt sé að opna hurðirnar aftur í bílinn sem opnast öfugt.
 
Fótapláss er gott bæði í fram- og aftursætum og ágætis rými, öðru máli gegnir með farangursrými sem er full lítið (ekki nema 260 l) og greinilegt að bíllinn er ekki hannaður með mikil ferðalög í huga. 
 
Lokaorð, jákvætt/neikvætt
 
Vissulega tek ég undir þær spár um að rafmagnsbílar séu framtíðin, en er frekar ósáttur við marga rafmagnsbílaframleiðendur að vistvænir bílar þurfi að vera með eitthvert sér útlit, af hverju þarf þetta sér útlit, sem sumum finnst svo fráhrindandi, að vera á flestum rafmagnsbílum? 
 
Plús: 
Fínn bíll fyrir styttri ferðir, eða um 200 km. Hagkvæmur í rekstri, kraftmikill og snarpur í innanbæjarakstri.
 
Mínus:
Ekkert varadekk, lítið farangursrými, óþarfa vesen að hleypa farþegum í aftursætum inn og út úr bílnum. 
Verðið á BMW i3 er 5.590.000 (verð á BMW i3 án ljósavélar sem hefur meira drag á rafmagninu kostar 4.790.000). Allar nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni www.bl.is.
 
Helstu mál og upplýsingar:
 
Þyngd 1.430 kg   
Hæð 1.578 mm
Breidd 1.775 mm
Lengd 3.999 mm

 

7 myndir:

Erfðabreytt búfé
Fréttir 6. desember 2021

Erfðabreytt búfé

Erfðafræðingar binda vonir við að með aðstoð erfðatækni megi koma í veg fyrir al...

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda
Fréttir 6. desember 2021

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda

„Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdu...

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði
Fréttir 6. desember 2021

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði

Það er til mikils að vinna að koma á bættri vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi. E...

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng
Fréttir 6. desember 2021

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng

Erlendir ferðamenn sem farið hafa um Vaðlaheiðargöng á þessu ári hafa greitt fyr...

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn
Fréttir 6. desember 2021

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn

Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu fyrsta áfanga Móabyggðar, nýs 450 íbúða h...

Rökstuddur grunur um blóðþorra
Fréttir 3. desember 2021

Rökstuddur grunur um blóðþorra

Veira sem getur valdið sjúkdómnum blóðþorra í laxi, Infectious salmon anaemia, h...

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi
Fréttir 3. desember 2021

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi

Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst hafa tekið höndum saman um að ...

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði
Fréttir 3. desember 2021

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði

Samkvæmt skýrslu European Medicine Agency, sem kom út í síðustu viku, er sýklaly...