Margrét segir að þegar starfsumhverfi landbúnaðarins á Íslandi er borið saman við stöðuna innan Evrópusambandsins og Noregs, kemur í ljós að aðstöðumunurinn hefur aukist mjög undanfarna tvo áratugi eða svo, þar sem hallar á íslenskan landbúnað.
Margrét segir að þegar starfsumhverfi landbúnaðarins á Íslandi er borið saman við stöðuna innan Evrópusambandsins og Noregs, kemur í ljós að aðstöðumunurinn hefur aukist mjög undanfarna tvo áratugi eða svo, þar sem hallar á íslenskan landbúnað.
Mynd / ghp
Fréttir 21. september 2022

Vinna að hagsmunum allrar virðiskeðjunnar

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) voru stofnuð í mars síðastliðnum og tóku formlega til starfa í júníbyrjun. Þá voru samtökin jafnframt formlega kynnt til sögunnar í fjölmiðlum og Margrét Gísladóttir ráðin framkvæmdastjóri.

Í sumar hefur lítið frést af störfum þeirra en að sögn Margrétar hefur tíminn verið nýttur til að kynna betur samtökin fyrir hagsmunaaðilum í landbúnaði og stjórnvöldum.

Hún segir að innan samtakanna hafi einnig mikil áhersla verið lögð á að skoða leiðir til að leiðrétta þann mikla aðstöðuhalla sem íslenskur landbúnaður býr við í samanburði við önnur ríki í Evrópu, til dæmis varðandi samkeppnis- og tollaumhverfi.

Margrét segir mikilvægt fyrir samtökin að taka þátt í samtali sem nú á sér stað um framtíð landbúnaðar á Íslandi og þess vegna sé nauðsynlegt að kynna samtökin vel á þessum tímapunkti. „Það er mikilvægt að þegar verið er að ræða málefni og hagsmuni landbúnaðarins þá séu fyrirtækin þátttakandi í því samtali. Þannig nær samtalið til allrar virðiskeðjunnar. Tollvernd, tollaeftirlit og samkeppnisumhverfið eru dæmi um brýn hagsmunamál fyrir alla þá aðila sem tengdir eru íslenskum landbúnaði. Af mörgu er að taka og ljóst að mikil vinna er fram undan til að skapa íslenskum landbúnaði sambærilega umgjörð og er í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við,“ segir hún.

Fulltrúar sjö fyrirtækja í stjórn

Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðar- forstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, er formaður SAFL, en fulltrúar sex annarra fyrirtækja í landbúnaði sitja í stjórninni; Ágúst Torfi Hauksson, Kjarnafæði Norðlenska, Eggert Árni Gíslason, Matfugli, Eyjólfur Sigurðsson, Fóðurblöndunni, Gunnlaugur Karlsson, Sölufélagi garðyrkjumanna, Pálmi Vilhjálmsson, Mjólkursamsölunni, og Steinþór Skúlason, Sláturfélagi Suðurlands.

Margrét segir að mikilvægt sé að fyrirtæki í landbúnaði eigi aðild að hagsmunasamtökum sem geta verið í forsvari gagnvart stjórnvöldum í málum sem snerta þeirra hagsmuni.

„Fyrirtæki innan samtakanna eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta þó þau starfi í ólíkum greinum landbúnaðarins. Til að tryggja aðkomu ólíkra greina samanstendur stjórn samtakanna af fulltrúum frá félagsmönnum sem starfa við framleiðslu á rauðu kjöti, hvítu kjöti, mjólk, grænmeti og fóðri og er það bundið í samþykktir samtakanna.

Merki hinna nýju samtaka.

Samstarf við Bændasamtök Íslands

Á árinu 2020, við endurskipulagningu á félagskerfi landbúnaðarins innan Bændasamtaka Íslands, voru uppi hugmyndir um að slík samtök gætu mögulega átt einhvers konar aukaaðild að nýjum samtökum bænda, með takmarkaðri aðkomu að Búnaðarþingi. Slíkt fyrirkomulag á sér fyrirmynd til að mynda í Danmörku. Í ályktun Búnaðarþings 2020 var lögð áhersla á að félagskerfið yrði til framtíðar byggt á tveimur meginstoðum; bændum og landbúnaðartengdum fyrirtækjum.

„Við höfum lagt áherslu á að fyrirtæki í landbúnaði verði virkur þátttakandi í samtalinu um starfsumhverfi landbúnaðarins, enda mikilvægur hlekkur í virðiskeðjunni. Við höfum verið í góðum samskiptum við Bændasamtökin enda ljóst að fjölmörg hagsmunamál félagsaðila hvorra samtaka fyrir sig eru sameiginleg.

Þar má nefna tollamál, samkeppnismál, mikilvægi þess að aðlaga reglugerðir að íslenskum aðstæðum og fleira mætti nefna. Þannig eru miklir möguleikar á að sameina krafta þessara tveggja stoða landbúnaðarins í sameiginlegum viðfangsefnum og er það samtal í gangi.

Við erum alltaf sterkari saman, Bændasamtökin og Samtök fyrirtækja í landbúnaði, þegar við getum komið sameiginlega fram og talað fyrir alla virðiskeðjuna,“ segir Margrét.

Aðild að Samtökum atvinnulífsins

Margrét segir að SAFL eigi í viðæðum við Samtök atvinnulífsins (SA) um mögulega aðild. „Við teljum að SAFL muni sóma sér vel sem eitt aðildarfélaga SA. Landbúnaður er ein mikilvægasta atvinnugrein landsins og fyrirtæki á sviði landbúnaðar gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja fæðuöryggi hér á landi. Aðildarfélög SAFL eiga það sameiginlegt að starfa í sérstöku lagaumhverfi þar sem ýmis sérlög gilda um starfsemi þeirra, svo sem búvörulög, auk krafna til aðbúnaðar og umhirðu við landbúnaðarframleiðslu og að virkt eftirlit sé starfrækt.

SAFL er þannig sambærilegt núverandi aðildarfélögum SA eins og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum fjármálafyrirtækja og Samtökum ferðaþjónustunnar, það er að sérlög gilda um atvinnugreinina ásamt því að málefni aðildarfélaganna heyra undir sérstakt ráðuneyti.

Bein aðild SAFL að SA er mikilvægur þáttur í því að landbúnaðurinn fái þá rödd og sess sem honum ber sem einni af lykilstarfsgreinum samfélagsins.“

Óhagstætt starfsumhverfi íslensk landbúnaðar

Sem fyrr segir hefur á fyrstu mánuðum SAFL verið lögð megináhersla á vinnu við að skoða leiðir til að leiðrétta þann aðstöðuhalla sem íslensk fyrirtæki í landbúnaði – og íslenskar búgreinar – búa við í samanburði við önnur lönd í Evrópu. Margrét segir að þegar starfsumhverfi landbúnaðarins á Íslandi er borið saman við stöðuna innan Evrópusambandsins og Noregs, kemur í ljós að aðstöðumunurinn hefur aukist mjög undanfarna tvo áratugi eða svo, þar sem hallar á íslenskan landbúnað.

„Þessi munur hefur í raun lítið verið uppi á borðum í umræðunni hér á landi og gætir jafnan skilningsleysis á stöðu íslensks landbúnaðar. Það þarf að draga þennan aðstöðumun fram og gera þarf átak í að sinna greininni sem skyldi. Þar skipta samskipti við stjórnvöld lykilmáli og öflug gagnasöfnun og greining. Við höfum nú þegar hitt matvælaráðherra og forsætisráðherra og búið er að óska eftir fundum með fjármálaráðherra og utanríkisráðherra,“ segir Margrét.

Tollvernd og tollafgreiðsla

Margrét bætir því við að það sé einnig áherslumál samtakanna að vinna að úrbótum á virkni tollverndar fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og betri tollaafgreiðslu þessa fyrstu mánuði.

Alls komu tuttugu fyrirtæki að stofnun samtakanna. Tilgangur SAFL er meðal annars að efla ímynd og styrkja samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar, stuðla að hagkvæmni íslensks landbúnaðar og íslenskra landbúnaðarfyrirtækja, vera í forsvari gagnvart stjórnvöldum í málum er snerta hagsmuni og réttindi félagsmanna, styðja við nýsköpun og menntun tengda landbúnaði og vinna að eflingu rannsókna og sjálfbærni íslensks landbúnaðar.

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...