Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Viltu verða bóndi?
Fræðsluhornið 14. mars 2016

Viltu verða bóndi?

Í mörg horn þarf að líta er búskapur er hafinn. Er um ættliðaskipti að ræða eða kaup á búi á almennum markaði? 
  • Hvernig fer ættliðakiptaferlið fram? 
  • Hefur verið gerður samningur? 
  • Hver er aðkoma fráfarandi bónda o.s.frv.?
  • Ef um kaup er að ræða, hvernig skal fjármagna kaupin? 
  • Hverjir eru framtíðarmöguleikar búsins, og svo framvegis? 
Margar spurningar vakna í upphafi. Hér verður rætt um ættliðaskipti.
 
Fjölskyldur forðast oft að skipuleggja ættliðaskipti því þær vilja ekki hætta á ósætti vegna mismunandi gilda til virðis og framtíðar búsins. Jafnvel er reiknað með því að ágreiningur innan fjölskyldunnar leysist af sjálfu sér þegar gengið er frá skattalegum og lögfræðilegum þáttum. Alvarleg vandamál geta komið upp ef ferlið hefst aldrei. 
 
Ekki er öllum ljóst hvað það er sem þarf að taka tillit til þegar ættliðaskipti eru rædd innan fjölskyldunnar. Oft á tíðum er viss afneitun til staðar. Mikilvægi þess að greina gildi og markmið hvers og eins er því gífurlegt í ættliðaskiptaferlinu, því fjölskyldan og búreksturinn er háð hvort öðru. Ef það er gert gengur ferlið mun betur fyrir sig þegar farið er að funda um framkvæmd ættliðaskiptanna. Þó má búast við spennu eða árekstrum vegna mismunandi hlutverka og misjafns mats á verðgildi. Ferlið gengur mun betur fyrir sig ef allir hlutaðeigandi fá tækifæri til að bera kennsl á þarfir sínar og tjá þær. Hlutaðeigandi eru fráfarandi bændur og tilvonandi bændur ásamt afkomendum og erfingjum þeirra fráfarandi. 
 
Þegar væntingar allra eru komnar fram er kominn grundvöllur fyrir því að finna réttu leiðina sem hentar við ættliðaskiptin. Engin ein leið er rétt, í hverju og einu tilfelli þarf að finna þá leið sem hentar. Fjárhagur aðila er misjafn og því mismunandi „réttar“ leiðir sem fjölskyldan sættist á. Ekki er nóg að hugsa eingöngu um þátt nýliðans því fráfarandi bændur þurfa ekki síður að huga að því hvernig lágmarka skuli kostnað vegna ættliðaskiptanna. 
 
Óleystir árekstrar geta haft mikil áhrif á langtímaárangur og lífvænleika búrekstrarins sem og ferlið við ættliðaskiptin. Eldri kynslóðin gæti komist að þeirri niðurstöðu að sama hvað sé gert, verði alltaf einhverjir af yngri kynslóðinni óánægðir. Eldri kynslóðin ætti ekki að láta þetta stöðva ferlið við að komast að niðurstöðu og taka ákvörðun um ættliðaskiptin. Munum að þau sem mynda eldri kynslóðina hafa unnið hörðum höndum að því að auka virði búrekstursins – hann er eign þeirra og það er þeirra að ráðstafa henni eins og þau álíta best. 
 
Markmiðasetning
 
Markmiðasetning er því gífurlega mikilvæg þegar ættliðaskipti eiga sér stað á búi. Hver og einn þarf að greina skoðanir sínar vegna ættliðaskiptaferlisins og málefna sem tengjast því. Má þar nefna framtíð fjölskyldubúsins, væntingar til ættliðaskiptanna, stjórnun búrekstursins, öryggi beggja kynslóða og áhyggjur. 
 
Markmið hvers og eins þurfa að vera gerð persónulega, með fjölskyldu og vegna rekstrar búsins, bæði sem lang- og skammtímamarkmið. Búrekstrinum er einnig hægt að skipta upp í fjögur svið og taka ákvörðun út frá hverju sviði, sem eru; dagleg starfsemi, stjórn fjármála/fjárhags, markaðsmál/sala afurða og framleiðsla. Með slíkri sundurliðun geta komið upp fletir og möguleikar við ættliðaskiptin sem ekki sáust áður. 
 
Þegar hlutaðeigandi aðilar hafa samþykkt fyrirkomulagið er mikilvægt að vinna að samningi sem ekki einungis fráfarandi og tilvonandi bóndi samþykkja, heldur einnig systkini og aðrir erfingjar. Ættliðaskipti fela í sér breytingar fyrir alla aðila beggja kynslóða. Að hafa alla hlutaðeigandi aðila virka í ferlinu getur hægt á því en jafnframt aukið líkur á að allir vinni að sömu langtímamarkmiðum í stað þess að mæta sínum þörfum á hverjum tíma. Með því að vinna með þessum hætti minnka líkurnar á því að ósætti skapist innan fjölskyldunnar, meðan á ættliðaskiptum stendur og seinna meir. 
 
Ættliðaskipti á búi
 
Á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) eru aðgengileg vinnublöð – „Ættliðaskipti á búi“ sem leiðir fólk í gegnum slíka markmiðasetningu með gátlistaformi. 
 
Bæklingarnir „Ættliðaskipti“ og „Kaup á almennum markaði“ sem eru aðgengilegir á vef RML vísa á margar gagnlegar vefsíður vegna búrekstrar. Þeir aðstoða jafnvel við að opna huga manns við að greina tækifærin og finna lausnir á þeim hindrunum sem geta komið upp við upphaf búskapar. Einnig aðstoða ráðunautar RML með það.
 
Búskapur er búrekstur og því ber bóndi sömu skyldur og ef um annan fyrirtækjarekstur væri að ræða. Ýmsar eru skyldurnar sem búrekstri ber að hlýta. Á vef RML má einnig nálgast rafræna vegvísa fyrir sauðfjár-, nautgripa- og hrossarækt er leiða nýliða skref fyrir skref í gegnum umsókna- og tilkynningaferlið við upphaf búrekstrar. 
 
Rekstraráætlun mikilvæg 
 
Mikilvægi þess að vinna rekstraráætlun og jafnvel viðskiptaáætlun fyrir búreksturinn er sjaldan of oft kveðin. Með því er hugmyndum komið á skriflegt form og dæmið sett upp og athugað hvort reksturinn getur gengið upp eða ekki. Rekstraráætlun gefur til kynna hver staðan er hverju sinni og sýnir hverjir framtíðarmöguleikar búreksturins eru. Við vinnslu rekstraráætlunar eru sett markmið sem eru mikilvæg í hverjum rekstri og komið auga á vandkvæði og fjármögnunarþörf í tíma, svo hægt er að setja sér markmið um hvernig eigi að bregðast við því. Rekstrarsvið RML eru sérfræðingar í rekstraráætlunum fyrir búrekstur.
 
Upplýsingar
 
Rafræna vegvísa og nánari upplýsingar er að finna á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is undir Búseta í sveit.
 
Einnig er hægt að hafa samband við Guðnýju Harðardóttur, ráðunaut RML, gudnyh@rml.is sími: 516-5021.

3 myndir:

Sólarorkuver á fjósþaki
Fréttir 25. nóvember 2022

Sólarorkuver á fjósþaki

Á Eystri-Leirárgörðum var nýlega sett upp raforkuver á útihús. Þetta er hluti af...

Ísland skuldbundið til að vakta lífríkið
Fréttir 25. nóvember 2022

Ísland skuldbundið til að vakta lífríkið

Grænbók stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa var birt í S...

Nytjaréttur viðurkenndur
Fréttir 24. nóvember 2022

Nytjaréttur viðurkenndur

Í nýrri skýrslu um stöðu og áskoranir þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða segi...

Átak í sálrænni líðan
Fréttir 24. nóvember 2022

Átak í sálrænni líðan

Í Skotlandi hefur verkefni verið hleypt af stokkunum sem á að gæta að geðrænni h...

Varmadælur skjótvirkasta orkan og alvöru orkuöflun
Fréttir 24. nóvember 2022

Varmadælur skjótvirkasta orkan og alvöru orkuöflun

Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsbreytinga, orkuskipta og nýsköp...

Alls verða 23 nýir hrútar kynntir inn á sæðingastöðvarnar
Fréttir 23. nóvember 2022

Alls verða 23 nýir hrútar kynntir inn á sæðingastöðvarnar

Hinir árlegu hrútafundir, þar sem hrútaskráin er kynnt og ræktunarmálin rædd, er...

Greiddu 465 milljónir kr.
Fréttir 23. nóvember 2022

Greiddu 465 milljónir kr.

Í lok október greiddi matvælaráðuneytið 465 milljónir króna til bænda sem álag á...

Mikil fjölgun íbúa
Fréttir 22. nóvember 2022

Mikil fjölgun íbúa

Íbúar Hvalfjarðarsveitar eru nú orðnir 750 og hefur þeim fjölgað um 63 íbúa frá ...