Minkur (l. Mustela vison). Aðeins eitt minkabú er nú starfrækt í landinu, Dalsbú í Helgadal í Mosfellssveit. Þar eru að jafnaði um 2.300 læður settar á. Bóndinn þar segir til skammar að búgreinin sé í þessum sporum.
Minkur (l. Mustela vison). Aðeins eitt minkabú er nú starfrækt í landinu, Dalsbú í Helgadal í Mosfellssveit. Þar eru að jafnaði um 2.300 læður settar á. Bóndinn þar segir til skammar að búgreinin sé í þessum sporum.
Mynd / Bbl.
Viðtal 22. desember 2025

Síðasti minkabóndinn gefst ekki upp

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Ásgeir Pétursson, eigandi Dalsbús í Mosfellsdal, er nú eini minkabóndinn á Íslandi og hyggst halda áfram rekstri ásamt syni sínum þrátt fyrir óvissa framtíð greinarinnar. Hann gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir að hafa leyft loðdýraeldi að leggjast hartnær af og telur fjölbreytni í landbúnaði lífsnauðsynlega.

Eins og fram kom í síðasta tölublaði Bændablaðsins eru allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, að hætta minkarækt þar sem fjárhagslegur grundvöllur eldisins er sagður brostinn. Undanfarið hefur verið unnið að því að slátra um 30.000 dýrum. Eitt loðdýrabú stendur eftir í landinu, Dalsbú í Mosfellsdal.

Greinin hefur hin síðari ár átt loðdýradeild innan Bændasamtaka Íslands. Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna, segir alltaf erfitt að horfa upp á bændur bregða búi og enn erfiðara að sjá heilu búgreinarnar nánast leggjast af.

„Stjórnvöld tala mikið um nauðsyn þess að auka fjölbreytni í landbúnaði og skapa bændum aukin tækifæri. Það er alveg ljóst að það er ekki aukin fjölbreytni fólgin í því að heilu búgreinarnar hverfi hér úr landi. Við munum í framhaldinu fara yfir þessi mál og leita leiða til að stuðla að því að búgreinin leggist ekki alveg af. En hvað framtíðin ber í skauti sér er erfitt að segja til um,“ segir Trausti.

Eini minkabóndinn
Ásgeir Pétursson. Mynd / Bbl.

Ásgeir Pétursson, eigandi Dalsbúsins í Helgadal í Mosfellssveit, er áttræður og hefur rekið minkabú sitt í áratugi. Hann hyggst halda ótrauður áfram ásamt 23 ára gömlum syni sínum, þrátt fyrir að framtíð greinarinnar sé óviss.

Á Dalsbúinu eru að jafnaði um 2.300 læður og auk þess nokkrar kindur, hestar og hænur. Búið er með eigin fóðurframleiðslu og tekur hráefni frá fuglasláturhúsum í nágrenninu, fitu og fleira frá kjötiðnaðarfyrirtækjum, afgangsfisk af fiskmarkaði og afganga frá tveimur veisluþjónustum. Notuð eru um 600 tonn á ári í fóður fyrir minkana. Eftir pelsun eru hræin af minkunum send til brennslu í Kölku. Búið hefur sent skinn á uppboðsmarkað í Danmörku meðan sá markaður var við lýði og nú til Finnlands.

„Ég hef verið í miklu sambandi við kollega mína gegnum tíðina og dauðsakna þeirra allra, ekki bara þeirra sem voru að hætta núna, heldur greinarinnar í heild sinni. Mér finnst bara fráleit staða að þessu skuli hafa verið leyft að gerast. Að þetta skuli vera pólitísk niðurstaða, sem mér finnst vera áfall, og ekki bara fyrir bændastéttina. Fjölbreytni í landbúnaði er náttúrlega alveg lífsnauðsynleg. Þetta er bara skömm fyrir íslenska þjóð,“ segir Ásgeir.

Hann vitnar í orð góðvinar síns, Jóns M. Guðmundssonar heitins, bónda á Reykjum: „„Sú þjóð sem kemur illa fram við bændur sína á ekkert gott skilið,“ sagði Jón. Og ég bara stend við það sem hann sagði,“ segir Ásgeir með þunga.

Hann segist ekki geta spáð fyrir um framtíð greinarinnar. „Ég veit bara það að við höldum áfram. Ég hef trú á þessari grein og hef haft hana alveg síðan fyrir 1970 þegar ég byrjaði fyrst í þessu.“ Hann segir þó ekki létt að reka fyrirtæki á Íslandi núorðið.

„Þetta er náttúrlega okkur Íslendingum til skammar. Ég hef skömm á því hvernig pólitíkin er búin að fara með þetta. Þetta er ósjálfstæði þjóðarinnar. Þegar þú ferð út í búð í dag þá kaupir þú 70% af því sem þú þarft fyrir heimilið þitt í mat af innfluttri vöru. Hvaða sjálfbærni er það? Ég hef hins vegar alveg fullan stuðning við íslenska bændur,“ bætir Ásgeir við og telur mikilvægt að Íslendingar styðji bændur betur til að skapa gjaldeyri fyrir landið.

Síðasti loðdýrabóndinn á Íslandi hyggst því ekki hætta og telur að bjartari tímar geti verið fram undan. Hann harmar að kollegar hafi þurft að gefast upp og bendir á að heimsfaraldurinn og Úkraínustríðið hafi haft veruleg áhrif á greinina. Hann segir skinnaverð vera á hægri leið upp á við og að öll skinn seljist nú til Finnlands, þar sem hann sér jákvæðar breytingar á markaði. Hann leggur áherslu á að dýravelferð sé grundvallaratriði í loðdýraeldi og hafnar gagnrýni, með þeim rökum að góð meðferð sé forsenda gæðaafurða.

Langvarandi tap

Loðdýrarækt var áður blómleg búgrein á Íslandi. Árið 1988 náði hún hámarki með um 86.600 minkum í eldi og um 300 bú starfandi. Þá námu útflutningstekjur greinarinnar tveimur milljörðum króna. Í dag er staðan gjörbreytt; fyrr á árinu voru aðeins sex bú eftir og nú eru fimm þeirra hætt.

Ástæður hrunsins í greininni eru margþættar. Algengt var að skinnaverð sveiflaðist á tveggja til þriggja ára fresti, en langvarandi undirverð ásamt hækkandi framleiðslukostnaði gerði rekstur óarðbæran. Verðsveiflur á erlendum mörkuðum hafa því haft afgerandi áhrif, og eftir 2014 lækkaði skinnaverð um helming vegna offramleiðslu. Árið 2012 var hápunktur greinarinnar hérlendis, þegar hreinn hagnaður af sölutekjum skinna nam um 40%, en næstu ár fylgdi viðvarandi tap. Árið 2013 var meðalverð fyrir skinn 563 DKK, en eftir 2016 fór verðið undir framleiðslukostnað og hefur verið þar síðan. Covid-faraldurinn gerði stöðuna enn verri þegar sala og vinnsla skinna stöðvaðist í Asíu, stærsta markaðssvæðinu. Innrás Rússlands í Úkraínu hafði einnig neikvæð áhrif. Þrátt fyrir að skinnaverð hafi hækkað um 20–25% á uppboðum allra síðustu árin er það enn langt undir framleiðslukostnaði; meðalverð var um 4.000 krónur árið 2023, en kostnaður við framleiðslu var þá um 8.500 krónur á skinn.

Loðdýraeldi víða á undanhaldi

Loðdýraeldi á Íslandi hefur hlotið alþjóðlega gæðavottun og eftirlit almennt verið talið gott. Minkabændur hafa ítrekað óskað eftir stuðningi stjórnvalda, meðal annars niðurgreiðslu fóðurkostnaðar, en aðgerðir hafa ekki dugað til að snúa þróuninni við.

Loðdýrabændur á Suðurlandi hófu síðasta vor verkefni með Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins til að skipta á dýrum og koma í veg fyrir skyldleikaræktun. Verkefnið var talið nauðsynlegt vegna lítillar stofnstærðar og mismunandi lita, þar á meðal fágætra lita, sem hafa áhrif á verðmæti skinna. Erlendir matsmenn sem komu í haust sögðu að það væru mörg ár síðan þeir hefðu séð jafn góð dýr, og íslensk skinn eru talin í fremstu röð á alþjóðlegum uppboðum. Þrátt fyrir framúrskarandi gæði dugir það ekki til að tryggja rekstrargrundvöll greinarinnar.

Loðdýraeldi er á undanhaldi í Evrópu, þar sem yfir 20 lönd hafa sett bann við greininni vegna dýraverndarsjónarmiða. Finnland, Pólland og Eistland halda enn úti einhverri framleiðslu og talsvert eldi er í Grikklandi og AusturEvrópu. Danir eru að einhverju marki reyna að endurvekja bú eftir að öllum minkum var lógað vegna sjúkdómsins plasmacytosis. Einstök ríki í Bandaríkjunum hafa bannað verslun með loðskinn.

Útlit er fyrir að loðdýraeldi á Íslandi sé að líða undir lok, nema verulegar breytingar verði á markaðsaðstæðum. Eins og staðan er í dag stendur aðeins Dalsbúið í Mosfellsdal eftir sem síðasta vígi greinarinnar.

Skylt efni: loðdýrarækt

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt