Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Brynjar heldur hér á hafrinum Bangsa Batmann.
Brynjar heldur hér á hafrinum Bangsa Batmann.
Viðtal 14. mars 2023

Brynjar í Gilhaga tekinn við formennsku

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Skipt var um formann deildar geitfjárbænda á nýliðnu búgreinaþingi og tekur Brynjar Þór Vigfússon, bóndi í Gilhaga í Öxarfirði, við embættinu af Önnu Maríu Flygenring í Hlíð.

Í Gilhaga er bæði sauð- og geitfjárrækt, auk býflugna- og skógræktar. Þá er heima á bænum ullarvinnsla og gestastofa.

„Við fjölskyldan flytjum á sveitabæ fjölskyldunnar og kaupum hana af Brynjari Halldórssyni, afa mínum, 2018 og byrjum þá með nokkrar kindur og síðar fjórar geitur árið eftir. Við byrjum svo uppbyggingu og standsetningu Ullarvinnslu Gilhaga árið 2019 og opnum hana um sumarið 2020,“ segir Brynjar Þór um ábúðarsögu sína í Gilhaga.

Markmiðið að fjölga kindum og geitum

Hann segir að markmiðið sé að fjölga í bústofnunum. „Núna erum við með um 90 kindur og 15 geitur ásamt nokkrum vel völdum húsdýrum til að fullkomna sveitalífið. Markmiðið er að fjölga kindum og geitum áfram til að nýta bæði hús og jörð, ásamt því að halda áfram að sinna Ullarvinnslunni og gestastofunni – en stöðugur uppgangur hefur verið í aðsókn að henni frá opnun.

Skógrækt hefur verið stunduð á jörðinni til fjölda ára. Núna hafa verið skapaðir margir yndisreitir vítt og breitt um jörðina sem við vonumst til að fjölga og betrumbæta með tíð og tíma.“

Lagfæringar á skýrsluhaldinu í Heiðrúnu

Að sögn Brynjars voru ýmis almenn mál tengd geitfjárræktinni rædd á búgreinaþinginu. „Við fengum kynningu á væntanlegum breytingum sem eru í farvatninu varðandi Heiðrúnu, skýrsluhaldsforriti geitfjárræktarinnar á vegum Ráðgjafarmiðstöðvar land- búnaðarins (RML). Hún var gerð sem afrit af Fjárvís á sínum tíma og hafa verið ansi margir annmarkar á henni undanfarin ár og nú er loks kominn skriður í að laga það sem þar þarf að laga. Þar má nefna að teknir verða út hlutir sem eru ekki tengdir á neinn hátt geitum og ýmis rangnefni, allt mun það vonandi á endanum gera skýrsluhaldið ánægjulegra fyrir geitabændur.

Við þökkum RML vel fyrir að málið sé komið á dagskrá.“

Engin afurðastöð kaupir geitakjöt bænda

Verkefni Pure North í Hveragerði var að sögn Brynjars rætt á þinginu, sem snýst um framleiðslu á girðingarstaurum úr rúlluplasti. Geitabændur telja verkefnið þarft og er vonast til að hægt verði að endurnýta sem mest af rúlluplasti fyrir verkefnið.

„Ýmislegt annað var rætt eins og mikilvægi þess að nýta afurðir geita og koma þeim á markað. Mjaltir og mjólkurvinnsla er spennandi hjá mörgum geitabændum um landið og má gera ráð fyrir að meira pláss sé á markaði þar sem bændur segja vörur seljast vel.

Þeir sem vinna kjötafurðir geita eru að vinna einstaklega gott og þarft starf. Eins og staðan er núna er engin afurðastöð sem kaupir geitakjöt og þurfa því bændur að koma því sjálfir á markað með tilheyrandi tilstandi.

Væri gaman að sjá hvort einhverjir sjái tækifæri í kjötvinnslu og hagræða þannig í þágu allra geitabænda.“

Miklir möguleikar í fiðuvinnslu

Brynjar telur að möguleikar í vinnslu á fiðu séu einnig miklir. „En þar þurfa bændur að gera meira og betur í að kemba og hirða um fiðuna ásamt því að senda til vinnslu. Eins og staðan er í dag er einungis Uppspuni í Ásahreppi sem vinnur geitafiðu fyrir bændur.

Þar sem magn af hverri geit getur verið frá 100–150 grömm þarf nokkrar geitur til að ná upp í vinnanlegt magn en gott verð hefur fengist fyrir afurðirnar sem seljast vel.

Á síðasta ári var haldið eitt námskeið í kembingu geita á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við Geitfjárræktarfélag Íslands. Gæði fiðunnar eru mjög mikil og slaga hátt í gæði bestu kasmírullar en í íslensku fiðunni eru þó helst til stuttir þræðir, ásamt aðeins of miklu af grófum þráðum sem þarf að ná úr – sem gerir alla vinnslu dýrari.

Tilraunir hafa verið gerðar með að blanda geitafiðu og lambsull og er útkoman út úr því alveg einstaklega mjúkt og gott band. Þar nýtist styrkurinn úr toghárum lambanna, þelið og fiðan mynda síðan einstaklega mjúkt band viðkomu.“

Óttast að heldur hafi fækkað í stofninum

„Frá mínum bæjardyrum séð eru mikil tækifæri í geitfjárræktinni. Hins vegar má kannski ekki mikið út af bregða þar sem stofninn er enn þá við hættumörk. Ég hef ekki heyrt nýjustu tölur um fjölda dýra í landinu en við í stjórn óttumst að heldur hafi fækkað frá síðustu tölum, en fyrir rúmu ári síðan voru einstaklingar rétt undir 1.700 á landinu.

Til þess að stofninn geti farið af lista yfir dýr í útrýmingarhættu þarf að komast í 4.800 til 7.200 vetrarfóðruð kvendýr.

Því þarf að bregðast við og reyna allt hvað hægt er að gera til að stækka og styrkja stofninn. Hafrastöðin er mikilvægur þáttur í að styrkja stofninn, mættu bændur nýta stöðina betur til að auka erfðafræðilegan fjölbreytileika stofnsins. Einnig þarf að líta til þess að fjölga búum með um 100 til 200 geitur. Til þess að það náist þarf að sýna fram á að afurðir séu metnar að verðleikum og auka aðgengi á mörkuðum. Eitthvað er um að veitingastaðir séu að taka inn geitakjöt og er það vel.

Leita þarf allra leiða til að auka hvata fyrir bændur að líta til geitabúskapar,“ segir Brynjar Þór.

Skuldbindingar um verndun á búfjárstofninum

Að mati Brynjars Þórs mætti gera betur varðandi greiðslur til geitabænda. „Upphæðin sem er til ráðstöfunar fyrir geitfjárræktina er ekki há og mætti leiða að því líkur að hún sé reyndar mjög lág þegar litið er til þeirra skuldbindinga sem gerðar hafa verið til verndunar á búfjárstofni í útrýmingarhættu.

Stofninn hefur fylgt þjóðinni frá landnámi og haft sitt hlutverk þó það hafi minnkað. Stofninn hefur hugsanlega aldrei verið stór en þó nóg til að lifa af. Hann er mikilvæg erfðaauðlind sem okkur Íslendingum ber að vernda og því ber okkur líka að koma af virðingu fram við þá sem það gera.Ræktun stofnsins hefur í langan tíma verið drifinn áfram að miklu leyti af hugsjónarfólki sem hefur verið í kringum Geitfjárræktarfélag Íslands. Þó margt hafi dunið á virðast aðilar vera tilbúnir að halda áfram og gera sitt besta. Við þurfum því nauðsynlega að fá fleiri geitabændur til að blása lífi í greinina. Það þarf að hvetja þá geitabændur sem fyrir eru til að leita í þá styrki sem styðja við þeirra verkefni. Eins þarf að ná inn frekara fjármagni tileinkað verkefnum tengdum geitarækt og afurðum.

Ég á auðvelt með að sjá tækifæri og framtíð geitfjárræktarinnar. Hvernig það verður virkjað er síðan verkefni framtíðarinnar.

Ég hlakka til starfsins, samstarfs við geitabændur og velunnara stofnsins, við stjórn og starfsfólk Bændasamtaka Íslands og bjartrar framtíðar fyrir geitfjárrækt á Íslandi,“ segir Brynjar Þór.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt