Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi alþingsmaður og ráðherra, opnaði í fyrrasumar ferðaþjónustu á æskuheimili sínu, Lómatjörn í Grýtubakkahreppi. Húsið er leigt út í heilu lagi og nýtur meðal annars vinsælda hjá gönguhópum sem njóta náttúrufegurðar í Fjö
Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi alþingsmaður og ráðherra, opnaði í fyrrasumar ferðaþjónustu á æskuheimili sínu, Lómatjörn í Grýtubakkahreppi. Húsið er leigt út í heilu lagi og nýtur meðal annars vinsælda hjá gönguhópum sem njóta náttúrufegurðar í Fjö
Mynd / /MÞÞ
Viðtal 22. maí 2014

Verð alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Ég verð alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Mér líður ekki vel á kvöldin nema ég geti farið yfir daginn og séð að mér hafi orðið eitthvað úr verki,“ segir Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, sem opnaði í fyrrasumar ferðaþjónustu á æskuheimili sínu, Lómatjörn í Grýtubakkahreppi. Hún og eiginmaður hennar, Arvid Kro, unnu að mestu sjálf að endurbótum á húsinu.

Æskuheimilið er mér kært

Þegar þau hjónin fluttu fyrir fullt og allt aftur á æskuslóðir Valgerðar eftir annasaman starfsferil hennar sem alþingisþingmaður og ráðherra kviknaði hugmyndin um að koma á fót ferðaþjónustu, sem hún segir að hafi alla tíð vakið áhuga sinn, „og svo er æskuheimili mitt mér mjög kært,“ segir hún.
Húsið sem um ræðir, Lómatjörn var byggt árið 1924 og endurbætt árið 1932. Við húsið var síðar eða árið 1960 byggð stofa, en Valgerður segir það hafi verið mikið áhugamál hjá móður sinni að eignast stóra stofu þar sem m.a. væri hægt að taka á móti gestum.

Móðir hennar, Jórlaug Guðnadóttir, hafði áform uppi um að efna til veislu í tilefni af 50 ára afmæli sínu í maí árið 1960 og var viðbyggingin tilbúin nokkru fyrir þann tíma. Örlögin höguðu því þó á þann veg að Jórlaug lést í apríl það ár og var stofan notuð í fyrsta sinn þegar þar fór fram húskveðja áður en jarðsett var í Laufáskirkjugarði. Faðir Valgerðar, Sverrir Guðmundsson, bóndi bjó í húsinu til ársins 1992. Hann lést það ár, en hafði um skamma stund áður dvalið á Kristnesspítala.

Vissum ekki fyllilega út í hvað við vorum að fara

Valgerður segir að húsið hafi verið í ágætu ástandi, nýtt gólfefni var sett á hér og hvar og allt var málað. Sturtum og fleiri snyrtingum var komið fyrir í mjaltavélaklefa sem eitt sinn var, en kýr hafa ekki verið á Lómatjörn frá árinu 1972. Heitur pottur var settur upp norðan við húsið og hægt að ganga beint út í hann úr mjólkurhúsinu.
„Húsið hefur staðið hér í rúma tvo áratugi, svo gott sem ónotað. Þegar við ákváðum að skella okkur út í endurbætur og hefja hér ferðaþjónustu var stefnan sú að gera sem allra mest sjálf og það höfum við gert. Við nýttum okkur hluti sem til voru, pabbi var nýtinn maður og gerði lítið af því að henda þannig að við höfðum af nægu að taka. En ef til vill má segja nú þegar öllu er lokið að sem betur fer vissum við ekki alveg fyllilega út í hvað við vorum að fara þegar framkvæmdir hófust,“ segir Valgerður. „Þetta var ansi mikið verk.“
Lífsgæði að hafa hitaveitu

Gamlir hlutir setja svip sinn á húsið. Ný húsgögn voru ekki keypt heldur tekið til við að lagfæra það sem til var ef þurfti. Það á raunar ekki við um rúmin, þau er ný. Lykillinn að því að ráðist var í endurbætur og nýta húsið til útleigu segir Valgerður að hafi verið sú ákvörðun að leggja hitaveitu í húsið. Reykjaveita útvegar heitt vatn, „og auðvitað er svolítið sérstakt að hugsa til þess að það renni yfir 50 kílómetra leið áður en það kemur inn í hús hjá okkur á Lómatjörn,“ segir hún.

„Það eru mikil lífsgæði sem fylgja því að hafa hitaveitu eins og þeir vita sem þekkja.“
Húsið er leigt út í heilu lagi, en í því eru 5 tveggja manna herbergi og góð aðstaða í rúmgóðu eldhúsi. Fyrstu gestirnir dvöldu að Lómatjörn á liðnu sumri og segir Valgerður að starfsemin hafi farið vel af stað og útlit sé fyrir að komandi sumar verði ferðaþjónustunni gott. Þegar er mikið bókað, einkum yfir hásumarið. Flestir gestanna eru Íslendingar og þá gjarnan gönguhópar, fólk sem ýmist er á leið í gönguferð um Fjörður og eða í fjallgöngur á svæðinu.

Ferðafólki fjölgar

Valgerður segir að ferðafólki fari mjög fjölgandi í Grýtubakkahreppi og í takt við það hafi æ fleiri íbúar í sveitarfélaginu starfa af ferðaþjónustu. Upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn er í Jónsabúð. Laufásbærinn hefur ætíð mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn en að auki er Útgerðarminjasafn á Grenivík og tvö gallerí. Þá nefnir Valgerður að fyrirtækið Pólarhestar sé starfrækt í miðri sveitinni og fjöldi fólks fari með því í lengri eða styttri hestaferðir. Nýlega var útbúið plakat með myndum af þeim fuglum sem sjást í sveitarfélaginu og þá eru upplýsingar á heimasíðu hreppsins, grenivik.is, sem sýna hvar best er að ganga á fjöllin, Kaldbak, Laufáshnjúk og Blámannshatt, „stolt okkar Höfðhverfinga,“ eins og Valgerður orðar það.


„Sveitin okkar er falleg, líklega ein fallegasta sveit landsins,“ segir Valgerður og meinar það. Sérlega snyrtilegt er umhverfis býlin í sveitarfélaginu og sama gildir um þorpið, Grenivík.

Stunda kartöflurækt

Félagsbú er rekið á Lómatjörn, en að því standa systurnar Sigríður, Valgerður og Guðný ásamt eiginmönnum. Þau stunda kartöflurækt á 14 hekturum lands. Kartöflur frá Lómatjörn eru þvegnar heima og þeim pakkað þar en síðan seldar um land allt. Enn eiga Lómatjarnarbændur til kartöflur í birgðageymslu sinni frá liðnu sumri. Sá hluti jarðarinnar sem ekki er nýttur undir kartöflurækt er leigður út. Nýlega var lokið við að setja niður og segir Valgerður að nú spái menn líkt og vani er að vorlagi í hvernig sumarið verði með tilliti til uppskeru á komandi hausti. /MÞÞ

12 myndir:

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...