Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Vandamál sem fjárbændur verða að taka fastari tökum
Mynd / BBL
Lesendabásinn 30. janúar 2017

Vandamál sem fjárbændur verða að taka fastari tökum

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Á ferðum mínum á Vesturlandi um síðustu helgi þar sem ég heimsótti á annan tug fjárbúa blasti við augum mínum vandamál sem sums staðar hefur sprungið framan í menn í haust vegna eindæma góðrar haustveðráttu. Þetta eru einfaldlega heimtur á fé af fjalli. Að heyra að það sé umtalsverður fjöldi búa á þessu svæði þar sem menn enn um miðjan janúar eru að gera sér vonir um að heimta enn yfir tvo tugi fjár af fjalli gerir ekki annað að segja að vissir hlutir eru í ólestri og úr þarf að bæta.
 
Meðan ég var að störfum hjá BÍ var verkaskipting á milli starfsmanna skýr eins og vera ber í öllum vel reknum fyrirtækjum. Þessi málefni voru á þeim tíma á hendi annars starfsmanns. Ætíð reyndi ég samt á ferðum mínum um landið að fylgjast með þróun þessara mála og var ljós sú öfugþróunin sem í gangi var. Eitthvað í líkingu við þetta þekktist samt ekki í þá tíð á stórum landsvæðum. Mér var löngu ljóst að staða þessara mála yfir landið var hvað brokkgengust víða á Vesturlandi, einkum á svæðinu frá Hvalfjarðarbotni í Suðurdali, og því vart óeðlilegt að fyrst verði þar við vart, þegar keyrt hefur verið fram af bjargbrúninni. Þar sem landnýting er orðin verulega köflótt eins og þar þekkist víða hefur oft fylgt því öfugþróun í þessum málum.
 
Mál á forræði sveitarstjórna
 
Nú vita allir að þessi mál eru á forræði sveitarstjórna þannig að eðlilegt er að huga fyrst að vinnubrögðum þar. Ég hef sterkan grun um að það séu alltof mörg sveitarfélög sem ekki starfa að þessum málum samkvæmt lögum, jafnvel til sveitarfélög þar sem þessum málum er ekkert sinnt. Fengið hef ég einnig grun um að það þekkist að í sambandi við skipan fjallskilanefnda sem fjallskilareglugerðir víðast gera ráð fyrir að skipaðar séu til að sinna framkvæmdaratriðum í þessum málum viðgangist fast að því klíkuskapur og siðleysi við skipan þessara nefnda. Líklega er það frekast í þéttbýlissveitarfélögum þar sem fjárbúskapur skiptir nánast engu máli lengur.
 
Í tengslum við sameiningu sveitarfélaga virðist einnig á sumum stöðum hafa bæst við að stjórn þessara mála hefur færst að meira eða minna leyti í hendur fólks sem hefur nær enga þekkingu á þessum málefnum og slíkt kann yfirleitt ekki góðum árangri að skila með framkvæmd.
Í öllu falli er ljóst að hjá alltof mörgum sveitarfélögum eru þessi mál í ólestri. Það hlýtur að vera ámælisvert fyrir þann aðila sem annast á lagaframkvæmd.
Stór skattur hjá fjárbændum
 
Ekki er það samt þetta sem ýtti við mér að setja línur á blað heldur hitt hve þetta ástand er orðinn stór skattur hjá mörgum fjárbændum. Skattur sem mig grunar að einstaka þeirra hafi engin efni á að greiða eins og afkoma greinarinnar er í dag.
 
Grunur minn er að jafnvel finnist fjárbændur sem ekki viðurkenna eða hið minnsta vilja ekki viðurkenna hve gríðarlegur skattur þetta er orðinn á þeim fjárbúum þar sem staðan er verst.
 
Fyrst er eðlilegt að benda á það beina fjárhagstjón sem bóndinn verður fyrir vegna þess mikla lambafjölda sem ekki skilar sér til frálags á réttum tíma. Það getur hver og einn reiknað fyrir eigin dæmi.
 
Einhverjir segja sem svo að lömbin skili tekjum þegar þau skila sér af fjalli. Þá horfa menn framhjá stóra reikningnum. Alla jafnan eru lömbin búin að tapa meira og minna af haustholdum, það tap er beint tap bóndans sé þeim slátrað strax þegar lambið heimtist. Séu lömbin bötuð áður en til frálags kemur hlýtur allt fóður og vinna við féð fram til að lömbin ná haustholdum að reiknast sem beinn útlagður kostaður, þ.e. tap. Hluti þess sem lömbin leggja mögulega síðar á sig til viðbótar getur einnig orðið beinn kostaður til viðbótar. Gleymið þá ekki húskostaði, geldingu hrútlamba sem eiga að fara í páskaslátrum og þannig má áfram telja liði.
 
Hár kostnaður og tapað fé
 
Ekki má gleyma hinum neikvæða fjármagnskostnaði sem kemur af því að innleggið skilaði sér ekki í sláturhús á réttum tíma.
 
Þá er eftir að líta á reikninginn með að ná fjallafálunum til byggða. Bæði er það ómældur tími leitarmanna og stundum einnig við fararskjóta í slíkum leitum. Sumir virðast fá einhverja upplifun við að elta gripi á þennan hátt í fjallasölum á björtum haustdögum og koma gripum undan myrkri til húsa og mega að sjálfsögðu reikna það sér til tekna. Líklega vegur samt þyngra ófærð og illviðri á þessum árstímum sem enn auka á tíma fólks í þessu stússi. Tölum ekki um þau tilvik þar sem kalla þarf til viðbótarmannskap, jafnvel björgunarsveitir, þá er hinn raunverulegi kostaður fljótur að hækka.
 
Rétt er einnig að muna að allt þetta bjástur er ekki jákvætt út frá dýraverndarsjónarmiðun og þess vegna síst til að styrkja ímynd íslensks landbúnaðar.
 
Öllum má því ljóst vera að víða er kominn í fjárbúskapinn kostnaðarliður sem ekki er eðlilegt að greinin geti staðið undir, hvað þá þeir sem harðast verða úti í ósköpunum. 
 
Menn hafa sofnað á verðinum
 
Þessu verður að breyta. Greinilega hafa hagsmunasamtök sem telja sig hag bænda einhverju varða, eins og BÍ, LS og RML, sofnað á verðinum að leyfa þessum málum að þróast í þetta óefni. Stundum þegar slíkir aðilar vakna af værum blundi reyna þeir að taka hendur úr vösum að laga stöðu mála.
 
Í þessu máli er áreiðanlega orðin full þörf á slíku, jafnvel þó að fyrr hefði verið. Rétt er að benda á þá samviskufriðun margra félaga og stofnana að senda frá sér snoturlega orðaðan fagurgala sem þeir kalla ályktanir. Sjaldnast eru þær virði pappírsins sem þær eru prentaðar á. Í þessum málum þarf aðgerðir. Þar er ljóst að hlutur sveitarfélaganna er mestur. Bændur sjálfir og þær stofnanir sem nefndar hafa verið þurfa einnig að hugsa sína stöðu.
 
 

Skylt efni: fjallskil

Fjögur félagasamtök styrkt til að hreinsa strandlengjuna
Fréttir 25. janúar 2022

Fjögur félagasamtök styrkt til að hreinsa strandlengjuna

Fjögur félagasamtök verða styrkt til verkefna sem lúta að hreinsun strandlengju ...

Riða greindist í skimunarsýni
Fréttir 25. janúar 2022

Riða greindist í skimunarsýni

Matvælastofnun barst fyrir skömmu tilkynning frá Tilraunastöð HÍ að Keldum um að...

John Deere 7R 350 autoPowr er dráttarvél ársins 2022
Fréttir 24. janúar 2022

John Deere 7R 350 autoPowr er dráttarvél ársins 2022

John Deere 7R 350 AutoPowr er dráttarvél ársins 2022 í opnum flokki að mati evró...

KFC fékk mest úthlutað
Fréttir 24. janúar 2022

KFC fékk mest úthlutað

Atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið hefur birt niðurstöðu úthlutunar á tollkvó...

Kostnaður við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum yfir 10 milljónir króna
Fréttir 24. janúar 2022

Kostnaður við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum yfir 10 milljónir króna

Kostnaður við að setja upp nýjar neyðarstöðvar í Vaðlaheiða­r­göng­um nemur 10 t...

Markmið um að 12 mánaða börn fái leikskólapláss í Sveitarfélaginu Skagafirði
Fréttir 21. janúar 2022

Markmið um að 12 mánaða börn fái leikskólapláss í Sveitarfélaginu Skagafirði

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur um nokkurt skeið unnið að því að koma til móts...

Gat á sjókví í Reyðarfirði
Fréttir 21. janúar 2022

Gat á sjókví í Reyðarfirði

Matvælastofnun barst tilkynning frá Löxum Fiskeldi fimmtudaginn 20. janúar um ga...

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum
Fréttir 20. janúar 2022

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum

„Við erum hvergi nærri hætt með okkar uppbyggingu, en stefnan er að íbúar í svei...