Upplýsingaóreiða í matvælaheiminum
Algjör ringulreið ríkir í umhverfismerkingum matvæla og upplýsingaóreiða tengd matartengdum málefnum fer vaxandi. Hugmynd er uppi um óháðan miðlægan upplýsingamiðil.
Matís hélt sl. þriðjudag málþing undir yfirskriftinni Neytendur framtíðar, um framtíð matvælavinnslu. Áhersla var á neytendur framtíðar og meðal annars fjallað um hvernig þeir standa í auknum mæli frammi fyrir villandi eða misvísandi upplýsingum , frá áhrifavöldum og hinum ýmsu miðlum.
Neytendur algjörlega týndir
Valdimar Sigurðsson, prófessor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, benti í erindi sínu m.a. á að í raun væri hættulega auðvelt að gabba neytendur. Spyrja yrði hvernig hægt væri að koma hollum og sjálfbærum vörum betur á framfæri. Umhverfismerki væru torfær frumskógur. Skv. Ecolabelindex.com væru til 455 umhverfismerki og 147 þeirra matartengd. Sum væru notuð á ákveðnum svæðum, önnur væru almennari. Einhver merkjanna vísuðu til lífrænna matvæla, önnur til umhverfislegra og/eða félagslegra sjálfbærra framleiðsluaðferða.
„Maður gæti búið til svona vottun á fimm mínútum og sem skilar jafngóðum árangri, ef ekki betri, og vörumerki eða auðkenni sem eru með mikið fjármagn á bak við sig og góð og gild. Við verðum að reyna að bæta úr því að þegar maður er með góða vöru og góða vottun þá sé hægt að koma því betur til skila. Neytendur eru algjörlega týndir,“ sagði Valdimar.
„Hvernig á neytandinn að vita hversu áreiðanleg öll þessi merki eru? Hvað eru merkin að segja okkur og hver tryggir að þau séu ekki grænþvottur?“ spurði hann. Vaxandi þörf væri á að ákvarða sameiginlegar grunnforsendur. Umhverfismerkjum og staðhæfingum á umbúðum um t.d. hreinleika eða uppruna vöru þyrfti að fylgja traust og auðþekkt vottunarmerki.
„Við sjáum í auknum mæli það sem við köllum staðhæfingar og gervimerki, og smásalar eru mikið að koma með svona eigin merkingar, sem geta verið góðar og gildar en við bara vitum ekki hvort svo sé. Þeim fer fjölgandi, sérstaklega á netinu og í Bandaríkjunum. Fækka verður þessum umhverfismerkjum, styrkja þau, mennta fólk betur um þetta og laga þessa þætti,“ sagði Valdimar enn fremur.
Háværustu raddirnar
Þóra Valsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, sagði í framsögu að upplýsingaóreiða komi í dag einkum af netinu, samfélagsmiðlum og frá mistraustum fjölmiðlum. Hún ræddi svokölluð Dunning Kruger-áhrif, þ.e. þegar einstaklingar sem eru ófaglærðir eða ókunnugir tilteknu efni ofmeti þekkingu sína og hæfileika. Þetta væri algengt hjá áhrifavöldum sem fjalla um næringu, þeir hunsi heildarmynd vísinda og handvelji rannsóknir sem staðfesti það sem þeir vilji trúa. Einnig ætti þetta við um þá sem viti mjög lítið um tiltekið efni, oft ekki nóg til að átta sig á að þekking þeirra sé takmörkuð.
„Svo lengi sem einhverri vitleysu er haldið fram af nægu sjálfstrausti munu nógu margir trúa því, án þess að efast um upplýsingarnar eða spá í hvaðan þær koma. Aftur á móti eru sérfræðingar gjarnan hlédrægari og forðast að fullyrða of mikið, vegna þess hve meðvitaðir þeir eru um það sem þeir vita ekki. Þetta þýðir að við erum oft skilin eftir með háværustu raddirnar og ekki endilega nákvæmustu upplýsingarnar,“ sagði Þóra.
Hún benti jafnframt á að upplýsingar úreldist oft. Með nýjum rannsóknum fáist ný þekking sem geti stangast á við það sem fram að því hefur verið viðurkennt. Mismunandi sérfræðingar og hagaðilar líti á viðkomandi efni út frá mismunandi sjónarhornum og séu oft ekki sammála.
Miðlæg matarvísindagátt
„Neytendur skortir oft þekkingu á matartengdum málefnum og bera fremur lítið traust til matvælakerfisins. Sú ofgnótt sem er í dag af ýmsum upplýsingum og fullyrðingum um matvæli og næringu frá ýmsum aðilum, og sem stangast oft á, gerir erfitt fyrir hinn almenna neytanda að finna og velja áreiðanlegar upplýsingar til að byggja ákvarðanir sínar á. Upplýsingaóreiðan gerir að verkum að útbreiddur er alls konar misskilningur um matvælatengd málefni. Á sama tíma er skortur á sýnileika og aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum. Það er því brýn þörf fyrir traust úrræði til að vinna gegn neikvæðum áhrifum rangra upplýsinga um mat og næringu á netinu, á matarhegðun landsmanna,“ sagði hún.
Um hvernig megi grípa til varna benti Þóra á að hugmynd að matarvísindavef hefði komið fram fyrir nokkrum árum, þegar sérfræðingar Matís og HÍ héldu vinnustofu með ungum neytendum og starfsmönnum í matvælaiðnaði, um nýjar leiðir í samskiptum matvælaiðnaðarins við unga neytendur. Fram hefði komið að þörf væri á óháðum upplýsingamiðli, sem bæði neytendur og matvælaframleiðendur gætu leitað til og vísað á, varðandi upplýsingar um matvæli og allt sem þeim við kemur. Í kjölfarið hefði hugmyndin verið borin undir aðra hagaðila og viðbrögð verið á einn veg: skýr ósk um notendavænan vettvang sem efli gagnrýna hugsun og auki matvælalæsi.
„Nauðsynlegt er að stuðla að auknu gegnsæi, áhuga, þekkingu og upplýstri ákvarðanatöku neytenda til framtíðar varðandi matartengd málefni. Þetta ættum við að gera saman,“ sagði Þóra.