Unnt að draga úr lykt af kúamykjuáburði
Unnt er að blanda kúamykju með hreinsiefnum og nýta sem áburð. Lyktin er minni, áburðargildi eykst en lítil bætandi áhrif eru á næringarinnihald uppskeru og næringarefnainnihald jarðvegs.
Friederike Dima Danneil, lektor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ), hefur rannsakað hvernig nýta megi kúamykju, blandaða með sótthreinsandi og lyktareyðandi íblöndunarefnum, sem áburð.
Markmið verkefnisins var að kanna áburðaráhrif kúamykju, eftir að hún var meðhöndluð með mismunandi sótthreinsiefnum sem almennt eru notuð til að hreinsa áburðargeymslur.
„Í tilrauninni var kúamykju frá Hvanneyrarbúinu blandað saman við mismunandi sótthreinsandi hreinsiefni sem notuð eru í landbúnaði til að hreinsa áburðargeymslur. Þessar mismunandi blöndur voru settar á grasvöll á Hvanneyri, einnig ómeðhöndluð kúamykja og steinefnaáburður sem viðmiðunarefni. Grasvöxtur, uppskeruútkoma og jarðvegsgæði voru metin í þessari tilraun,“ útskýrir Friederike.
Í ljós kom að sótthreinsiefnin sem prófuð voru virka efnafræðilega öðruvísi í mykjunni en niðurstaðan sú að lykt af mykjunni minnkar. Þetta þýðir að rokgjörn efnasambönd, sem oft innihalda köfnunarefni sem stuðlar mjög að áburðargildi áburðar, haldast í áburðinum og glatast ekki í loftinu.
Eykur áburðargildi kúamykju
Friederike segir að hvað varði umhverfis- og hagkvæmnisþætti sé mikilvægt að nýta þær auðlindir sem til eru: „Kúamykja ætti ekki að teljast úrgangur á búi heldur náttúruauðlind sem stuðlar að heilbrigði jarðvegs. Næringarefnin í kúamykju geta hjálpað til við að draga úr þörf fyrir steinefnaáburð, en áburðargildi kúamykju minnkar með lengri geymslutíma og notkunaraðferð. Köfnunarefnissambönd hafa tilhneigingu til að gufa upp úr kúamykju, þannig að halda þeim innan mykju getur aukið áburðargildi hennar. Og fyrir tilviljun stuðlar þetta líka að minnkun gróðurhúsalofttegunda,“ segir hún jafnframt.
Hvað niðurstöðurnar varðar kveður Friederike engan tölfræðilegan mun hafa verið á þurrefnisuppskeru grassins sem var tekið úr mismunandi mykjumeðferðum. „Við fundum nokkurn tölfræðilegan mun á tilteknum næringarefnum innan uppskerunnar, allt eftir mykjumeðferðinni. Enginn tölfræðilega marktækur munur var á þeim næringarefnum sem eftir voru í jarðvegi eftir uppskeru, á milli steinefnaáburðar og meðhöndlaðrar kúamykju. Þróunin var hins vegar sú að mismunandi kúamykjublöndur skildu eftir sig meiri næringarefni í jarðveginum.“
Lítil bætandi áhrif
Lokaniðurstaða rannsóknarinnar var samantekið sú að íblöndun hefðbundinna sótthreinsiefna, fáanleg í verslunum, sem notuð eru til að hreinsa áburðargeymslur, hafi lítil bætandi áhrif á næringarinnihald uppskeru og næringarefnainnihald jarðvegs eftir uppskeru, samanborið við steinefnaáburð.
Munurinn á mismunandi meðferðum var hverfandi, að sögn Friederike
Verkefnið var styrkt af Þróunarsjóði nautgriparæktar árið 2022 og var því formlega unnið í aðeins eitt ár. Hins vegar endurtók Friederike uppsetninguna árið 2023 á öðru sviði. Ítarleg skýrsla um bæði árin var gefin út af LbhÍ (Rit LbhÍ 170).