Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Þetta kort eftir Ólaf Valsson er úr bókinni Djúpmannatal 1801-2011 og sýnir vel Ísafjarðardjúp með Snæfjallaströndinni sem bók Engilberts S. Ingvarssonar, „Undir Snjáfjöllum“, fjallar um.
Þetta kort eftir Ólaf Valsson er úr bókinni Djúpmannatal 1801-2011 og sýnir vel Ísafjarðardjúp með Snæfjallaströndinni sem bók Engilberts S. Ingvarssonar, „Undir Snjáfjöllum“, fjallar um.
Líf&Starf 10. janúar 2017

Undir Snjáfjöllum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Engilbert S. Ingvarsson sem gjarnan hefur verið kenndur við Tirðilmýri á Snæfjallaströnd hefur nú gefið út nýja bók með þáttum um búsetu og mannlíf á ströndinni. Heitir bókin Undir Snjáfjöllum – Önnur bók og er að hluta endurútgáfa bókar sem kom út 2007, en seldist upp. 
 
Engilbert fæddist í Unaðsdal á Snæfjallaströnd árið 1927 og flutti að Lyngholti 9 ára og síðan til Ísafjarðar 17 ára gamall. Þar lærði hann bókband í prentsmiðjunni Ísrúnu. Hann var síðan með búskap á Tirðilmýri á Snæfjallaströnd ásamt eiginkonu sinni, Kristínu Daníelsdóttur, frá 1953 til 1987 þegar þau fluttu til Hólmavíkur. Voru þau síðustu ábúendur á Tirðilmýri og nokkrum árum síðar fór Ströndin öll í eyði.
 
Á Hólmavík starfaði Engilbert hjá hreppnum við félagsheimili staðarins og síðar sem vigtarmaður, samhliða bókbandi. Með eiginkonunni, Kristínu Daníelsdóttur hárgreiðslumeistara, eignaðist hann sjö börn og fjölda barnabarna. Engilbert býr nú á Ísafirði og er á 90. aldursári.
 
Engilbert tók virkan þátt í stjórnmálum og öðru félagsstarfi meðan hann bjó á Tirðilmýri. Hann hefur lagt mikið af mörkum til að skrá og viðhalda minningu fólksins sem bjó á Snæfjalla­strönd, og var lengi vel formaður stjórnar Snjáfjallaseturs sem sonur hans, Ólafur Jóhann Engilbertsson, stýrir nú. Engilbert sagði í samtali við Bændablaðið að mikið hafi breyst í mannlífi við Djúp frá því um aldamótin 1900. 
Nokkrum árum eftir að þau hjón fluttu frá Tirðilmýri fór Ströndin öll í eyði. Bókin fjallar um sögu byggðar á blómaskeiði svæðisins.
 
Mannlíf og þróun í Snæfjallahreppi
 
„Ég hef verið að skrifa um mannlíf og þróun í Snæfjalla­hreppi,“ sagði Engilbert í samtali við Bændablaðið. „Þá aðallega á fyrrihluta síðustu aldar.“
 
Í bókinni er brugðið upp lýsingu á ýmsum þáttum í félagslífi og lifnaðarháttum fólksins á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp á fyrri hluta 20. aldar. Bókin kom fyrst út 2007. Þessi útgáfa bókarinnar inniheldur aukna og endurbætta þætti um búsetu og mannlíf á Snæfjallaströnd og einnig marga áður óbirta söguþætti, eins og hrakningasögur og fleira. 
 
Hann segir að hluti af fyrri bókinni sem seldist upp hafi verið endurprentaður undir nafninu Híbýli og húsbændur á Snæfjallaströnd 1930 til 1940.
 
„Í þessari nýju bók eru nokkrir kaflar úr þeirri síðustu auk þess sem í henni eru 9 nýir kaflar. Bókin fjallar aðallega um tímann í kringum aldamótin 1900 og síðan eru einnig kaflar frá seinni árum. Ég skrifa þar líka  um áhlaupsveður á Ströndinni og fleira til að gefa fólki innsýn í hvernig veðrið gat verið á þessum slóðum í norðan áhlaupi og byljum. 
 
Þá tel ég upp býlin á Ytri-Ströndinni frá 1900 og upp úr því og hverjir bjuggu á þessum bæjum. Um þetta hefur verið talsverður ruglingur í manntölum. Sigurður Sigursveinsson, sem var kennari í Reykjanesi, skrifaði ritgerð um Djúpið og fór um svæðið og studdist þá við loftmyndir og ræddi við móður mína sem bjó sem krakki þarna til ellefu ára aldurs. Hún gat sagt honum hver bjó á hverjum stað. Þannig varð til nokkuð góð lýsing um þá sem þarna bjuggu  um aldamótin 1900 og síðan var einnig hægt að styðjast við manntöl. Ég tek þetta upp í bókinni og á það að gefa ágætt yfirlit um hverjir bjuggu þarna. Þarna voru fimm bæir við Gullhúsaá, fimm bæir á Snæfjöllum og níu bæir utan til við Berjadalsána. Innan til við Berjadalsána var býlið Gestshús í Sandeyrarlandi með litlum túnbleðli. Þar hélt fólk samt tvær kýr.“ 
Mannmargt var á Snæfjallaströnd áður fyrr, en framundir miðja 20. öld voru atvinnuhættir þar með sama frumstæða hætti og hafði verið um aldir. Þetta var einangrað og afskekkt samfélag og snjóþungt með afbrigðum. Þrátt fyrir það stóð mannlíf þar í miklum blóma á fyrri hluta 20. aldar og mikill hugur í fólkinu að nútímavæða byggðina með t.a.m. vegalagningu, gerð sundlaugar, samkomuhúss og bryggju.
 
Þar bjuggu um 350 manns um aldamótin 1900
 
„Það bjuggu í Snæfjallahreppi um 350 manns um aldamótin 1900. Þar var þá mikil árabátaútgerð og verkaður saltfiskur. Tók Ásgeirsverslun á Ísafirði þá á móti fiski á Snæfjöllum, Tangsverslun á Ísafirði (verslun Leonhard Tang, stórkaupmanns í Kaupmannahöfn) tók á móti fiski á Sandeyri auk þess sem fiskur var einnig verkaður og saltaður í Æðey. Það var því nokkuð mikið umleikis og mikil vinna við þetta allt saman eins og handbrögðin voru þá. Það var líka mikið verk að flytja fiskinn um borð í flutningabáta en á ströndinni var engin höfn. Svo fóru að koma vélbátar og þá fækkaði árabátunum hratt. Vélbátarnir voru gerðir út frá Ísafirði og Bolungarvík þar sem hafnaraðstaða var og bryggjur.“
Fólksfækkun við tilkomu vélbátanna
 
Engilbert segir að við tilkomu vélbátanna hafi farið að fækka í byggðinni á Snæfjallaströnd. Samt hafi verið búið á 22 bæjum fram undir 1930 til 1940. Hann segir að aldrei hafi komið til tals að reyna hafnargerð við ströndina, enda geta veður verið þar mjög slæm. Aftur á móti sé góð lífhöfn í Æðey.
 
„Það sést best á því að Þorsteinn Þorsteinsson keypti helminginn í Æðey 1864 og hóf þar hákarlaútgerð. Þar ætlaði hann sér mikið, en fórst svo sjálfur í hákarlaróðri. 
 
Um miðja 20. öldina voru sjóróðrar alveg að leggjast af á Ströndinni og var þá farið að rækta upp og efla búskap á Innri-Ströndinni. Ytri-Ströndin fór þá öll í eyði. Landbúskapur var svo stundaður á Innri-Ströndinni fram um 1990 þegar allir fluttu í burtu.“ (Páll Jóhannesson og Anna Magnúsdóttir í Neðribæ Bæjum voru síðust til að flytja þaðan, 1995.
 
Engilbert segist hafa við skrifin getað stuðst við fundagerðir ungmennafélagsins sem hjá honum lentu eftir að byggð lagðist af á svæðinu. Þá gat hann sótt í heimildir úr smiðju foreldra sinna og hefur auk þess viðað að sér margvíslegum öðrum heimildum til að vinna verkið.

4 myndir:

Land tryggt undir vindmyllusvæðin
Fréttir 11. nóvember 2024

Land tryggt undir vindmyllusvæðin

Skipulagsstofnun hefur fengið fyrirhugaðan vindorkugarð í Fljótsdalshreppi inn á...

Fjárstuðningur skilar árangri í kornrækt
Fréttir 11. nóvember 2024

Fjárstuðningur skilar árangri í kornrækt

Erfðarannsóknir í íslenskri kornrækt sækja í sig veðrið um þessar mundir, ekki s...

Nóg af sæði í hafrastöðinni
Fréttir 8. nóvember 2024

Nóg af sæði í hafrastöðinni

Nóg er til af frystu hafrasæði og geitabændur hvattir til að nýta sér það til að...

Eggjaskortur vegna dýravelferðar
Fréttir 8. nóvember 2024

Eggjaskortur vegna dýravelferðar

Litlar birgðir á eggjum í verslunum má rekja til umfangsmikilla breytinga sem bæ...

Hveitikynbætur alger nýlunda
Fréttir 8. nóvember 2024

Hveitikynbætur alger nýlunda

Á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands er verið að hefja vinnu að hveitikynbótum í f...

Japanir ætla sér mikla hluti í ræktun á Íslandi
Fréttir 7. nóvember 2024

Japanir ætla sér mikla hluti í ræktun á Íslandi

Japanskt fyrirtæki hyggst bæta hrísgrjónarækt við jarðarberjaframleiðslu sína á ...

Nýr verðlagsgrunnur og ný verðlagsnefnd
Fréttir 7. nóvember 2024

Nýr verðlagsgrunnur og ný verðlagsnefnd

Drög að nýjum verðlagsgrunni kúabús liggja fyrir, sem er uppfærsla á grunninum f...

Jafnvægisverð lækkar áfram
Fréttir 7. nóvember 2024

Jafnvægisverð lækkar áfram

Á markaði með greiðslumark í mjólk, haldinn 1. nóvember, myndaðist jafnvægisverð...