Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Íslenski geitastofninn stækkar frekar hægt en örugglega þó.
Íslenski geitastofninn stækkar frekar hægt en örugglega þó.
Mynd / Jón Eiríksson
Fréttir 31. júlí 2023

Um 8% fjölgun milli ára

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Fjöldi íslenskra geita fer hægt vaxandi og eru nú skráðar 1.886 geitur í landinu. Þeim fjölgar að meðaltali um 8% á ári um þessar mundir.

Samkvæmt mælaborði landbúnaðarins stækkaði íslenski geitastofninn um 214 geitur milli áranna 2021 og 2022, að sögn Brynjars Þórs Vigfússonar, formanns Geitfjárræktarfélags Íslands. Segir hann þar væntanlega um sjálfbæra stækkun stofnsins að ræða. Frá 2002 hefur stofninn stækkað reglulega ár hvert.

„Líklega má helst þakka stækkun stofnsins óeigingjörnu framlagi geitabænda í að viðhalda honum,“ segir Brynjar. „Ef vel á að vera þarf stofninn að komast upp í um 4.800–7.200 kvendýr til að forðast útrýmingu. Við eigum töluvert eftir í land þar. En verði áfram sú fjölgun sem hefur verið getur þess ekki verið langt að bíða.“

Ná þarf afurðum á markað

Til þess að stofninn nái almennilegri fótfestu segir hann búum með 50 eða fleiri geitum þurfa að fjölga. „Svo það geti orðið að veruleika þarf að ná að koma afurðum á markað þannig að góð afkoma verði af ræktuninni. Þar hefur mikið og gott starf verið unnið af frumkvöðlum víðs vegar um landið. Mögulega þurfa að koma á sviðið aðilar sem kaupa afurðir af bændum og koma þeim á markað. Nú eru flestar, ef ekki allar, geitaafurðir á markaði vegna einstaklingsframtaks sem bæði hefur sín tækifæri og takmörk.“

Geitin gefur af sér þrenns konar afurðir: kjöt, mjólk og fiðu. Allt eru þetta afurðir sem eru verðmætar. Brynjar segir mögulega þurfa að auka aðgengi að styrkjum fyrir geitabændur, bæði fyrir frumkvöðla og rannsóknir á afurðum og ræktun. „Þróunarfé fyrir geitur og fagráð geitfjárræktar á fullan rétt á sér, líkt og í öðrum greinum. Þar þarf lítið annað en viljann að vopni og hann skortir ekki hjá geitabændum. Allt getur þetta hjálpað til við að stækka stofninn og efla ræktun og komið honum á góðan stað.“

Hækkun áskriftar letjandi

Formaðurinn telur að greinin hafi orðið fyrir miklu bakslagi þegar gjaldskrá hækkaði hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, RML, varðandi skýrsluhaldsforritið Heiðrúnu. Þar hafi gjaldskrá hækkað á bilinu 130–400% á einu bretti fyrir bændur.

„Árlegur kostnaður fór úr um 1.000 kr. í 4.700 kr. að meðaltali á skýrslufærða geit miðað við þau gögn sem ég hef. Ég held því miður að þar muni einhverjir hugsa sig vandlega um þegar kemur að endurnýjun áskriftar. Er það er mjög miður þar sem skýrsluhald er mikilvægt, sér í lagi þegar kemur að því að lágmarka skyldleikarækt og halda utan um lítinn stofn.

Eftir samtal við RML tel ég að þessu verði ekki breytt, þótt ágóðinn af þessari hækkun sé mögulega ekki marktækur í bókhaldi RML. En þetta er þungt fyrir geitabændur ofan á allar aðrar hækkanir,“ segir Brynjar.

Skylt efni: geitur | íslenskar geitur

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats
Fréttir 27. janúar 2026

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats

Í niðurstöðum vísindagreinar í tímaritinu Regulatory Toxicology and Pharmacology...

Kynntu sér lífgas- og áburðarver í Færeyjum
Fréttir 27. janúar 2026

Kynntu sér lífgas- og áburðarver í Færeyjum

Sunnlenskir bændur heimsóttu á dögunum Förka, lífgas- og áburðarverið í Færeyjum...

Bjóða upp á mótorhjólaferðir um hálendið
Fréttir 27. janúar 2026

Bjóða upp á mótorhjólaferðir um hálendið

Hjónin Eva Sæland frá Espiflöt í Bláskógabyggð og Óskar Sigurðsson frá Sigtúni í...

Orka án næringar
Fréttir 23. janúar 2026

Orka án næringar

Fæðan sem við borðum gæti orðið orkumeiri en næringarsnauð og jafnvel eitraðri v...

Hjúkrunarfræðinemi hlaut 500.000 króna styrk úr Snorrasjóði
Fréttir 20. janúar 2026

Hjúkrunarfræðinemi hlaut 500.000 króna styrk úr Snorrasjóði

Hinn 29. desember fór fram úthlutun í Múlaþingi úr svonefndum Snorrasjóði en þet...