Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Tugum tegundum belgjurta lýst
Skoðun 4. desember 2014

Tugum tegundum belgjurta lýst

Höfundur: Vilmundur Hansen

Einkenni belgjurta eru óregluleg blóm, belgur utan um fræin, fjöðruð eða fingruð laufblöð og sambýli við bakteríur sem lifa á rótum plantnanna og vinna nitur úr andrúmsloftinu.

Sigurður Arnarson, kennari og fyrrverandi skógarbóndi, sendi nýlega frá sér bók þar sem hann fjallar um tegundir belgjurta. Flestar þeirra vaxa utandyra á Íslandi eða eru líklegar til þess, en einnig er fjallað um  tegundir sem eru ræktaðar úti í hinum stóra heimi. Belgjurtabókin er sjöunda bókin í bókaflokknum Við ræktum sem Sumarhúsið og garðurinn gefur út. Bókin er um 200 blaðsíður að stærð og prýdd fjölda fallegra ljósmynda sem auka gildi hennar mikið þegar greina á tegundir.

Á Íslandi má nýta belgjurtir í landbúnaði, skógrækt, garðrækt og landgræðslu. Til belgjurta sem flestir þekkja teljast hvítsmári, gullregn og alaskalúpína, planta sem Íslendingar annaðhvort elska eða hata.

Mikilvægi belgjurta á heimsvísu er meira en marga grunar því þær eru með mikilvægustu matjurtum veraldar og um þriðjungur alls próteins sem neytt er í heiminum kemur úr belgjurtum. Hvað væri til dæmis varið í helgarmorgunverðinn ef ekki væri opnuð dós af bökuðum baunum?

Fékk snemma áhuga á skógrækt

Sigurður segist ungur hafa fengið áhuga á skógrækt og gert ýmsar ræktunartilraunir með bróður sínum, Jóni Kr. Arnarsyni. „Við ræktuðum skóg bæði á frjóu landi og ófrjóu. Snemma lærði ég að við ræktun í ófrjóu landi er hægt að ná mikið betri árangri með því að rækta tegundir sem geta, með hjálp gerla á rótunum, unnið nitur úr andrúmsloftinu. Þar koma belgjurtirnar sterkar inn því þær búa einmitt yfir þessum hæfileika. Með því að rækta þær má auka frjósemi jarðvegsins með aðferðum náttúrunnar sjálfrar.“

Sigurður var skógarbóndi í hálfan annan áratug og ræktaði þá ýmsar tegundir belgjurta sem áburðargjafa í skógrækt. Árangur hans vakti athygli meðal ræktunarmanna og þeir hvöttu hann til að koma þessum fróðleik til almennings. Því varð úr að hann skrifaði þessa bók. Bókina tileinkar Sigurður minningu móðurbróður síns, Gunnlaugs Jónssonar, sem kenndi honum að meta undur náttúrunnar og var mikill viskubrunnur um allt sem viðkemur lífríkinu. Í þennan brunn segist Sigurður hafa sótt mikinn fróðleik í gegnum árin.

Niturbindandi áburðarverksmiðjur

„Ræktunarfólk á það flest sameiginlegt að vilja ná skjótum árangri og til þess er beitt margs konar aðferðum í jarðvinnslu og áburðargjöf. Belgjurtir geta hér komið að góðu gagni með því að auka magn niturs í jarðvegi og hraða þannig vexti enda er víðast hvar skortur á nitri í jarðvegi á Íslandi.  Einnig er erfitt að ímynda sér að lífræn ræktun eigi framtíð fyrir sér hér á landi án nýtingar belgjurta.

Einfaldasta leiðin til að koma belgjurtum í ræktunarland er að sá fyrir þeim ásamt viðeigandi sambýlisbakteríum. Öruggasta leiðin er aftur á móti að flytja plöntur frá einum stað til annars því þannig er nokkuð öruggt að rótabakteríurnar fylgi með,“ segir Sigurður.

Lúpínur vandgreindar hver frá annarri

Í Belgjurtabókinni segir meðal annars um lúpínur að fyrir 100 milljónum ára hafi verið til planta sem sennilega er formóðir allra lúpína. Plantan hefur trúlegast vaxið norðaustanvert í því landi sem við köllum Brasilíu og breiðst þaðan út.

Sumar tegundir lúpína eru vandgreindar hver frá annarri og því stundum óvissa um mörk tegunda. Stundum eru tegundirnar sagðar 200 en stundum færri en samkvæmt upplýsingum á heimasíðu grasagarðsins í Kew teljast þær vera milli 220 og 230.

Lúpínur eru til í öllum stærðum og gerðum. Sumar eru einærar og skammlífar og sumar lágvaxnar, 5 til 10 sentímetrar að hæð. Flestar eru jurtkenndar en til eru tegundir sem eru runnkenndar og ná 4 til 6 metra hæð. Blómin eru oftast í löngum og uppréttum skúfum, blá, gul eða hvít.

Flestar lúpínur laðast í búsvæði þar sem eitthvert rask hefur orðið og geta orðið fyrirferðarmiklar um tíma en hörfa með tímanum fyrir öðrum gróðri séu náttúruleg skilyrði eðlileg.

Lúpína á Íslandi

Á Íslandi hafa verið gerðar tilraunir á ræktun einærra lúpína í landbúnaði og er fjallað um þær tegundir í bókinni ásamt ýmsum öðrum tegundum sem nýst geta sem áburðargjafar í hefðbundnum og lífrænum landbúnaði, svo sem rauðsmára og hvítsmára.

„Algengasta lúpínan í ræktun á Íslandi er alaskalúpína. Hún er vissulega umdeild og áberandi í íslenskri vist. Til eru margar aðrar belgjurtir sem hentað geta til landgræðslu hér á landi. Margar þeirra hafa sömu kosti og lúpínan en eru lágvaxnari og ekki eins áberandi. Þar með eru þær lausar við helstu galla alaskalúpínunnar. Líklegt verður að teljast að ná megi meiri sátt um ræktun þeirra til landgræðslu.“

Sigurður segir uppbyggingu bókarinnar vera þannig að fyrst er fjallað um frjósemi vistkerfa og mikilvægi niturs fyrir gróður. „Síðan er kastljósinu beint að belgjurtunum almennt, einkennum þeirra og mikilvægi á heimsvísu. Einnig er kafli um ættir og uppruna belgjurta og hvernig grasafræðingar flokka þær í undirættir og ættbálka. Í þessum köflum er sagt frá ýmsum áhugaverðum plöntum. Stærsti hluti bókarinnar er umfjöllun um þær ættkvíslir og tegundir sem ræktaðar eru á Íslandi eða koma til greina í ræktun hér á landi. Þar ættu allir ræktunarmenn að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem þeir leita að áhugaverðum plöntum í garðrækt, hjálparplöntum í skógrækt, landgræðsluplöntum eða áburðargjöfum í tún- og kornrækt.“

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn
Fréttir 24. nóvember 2021

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn

Fyrirtækið Ver lausnir í Garðabæ hefur verið að vinna að athyglisverðu verkefni ...

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts
Fréttir 24. nóvember 2021

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts

Nýr upplýsingabæklingur hefur verið gefinn út undir merkjum Íslensks gæðanauts. ...

Lindarbrekka í Berufirði komin með sláturleyfi  en ætlar ekki að nýta það í ár
Fréttir 24. nóvember 2021

Lindarbrekka í Berufirði komin með sláturleyfi en ætlar ekki að nýta það í ár

Á tveimur sauðfjárbúum hefur nú í haust verið slátrað samkvæmt nýlegri reglugerð...