Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Trump hefur dregið Bandaríkin út úr Parísasamningnum, vísindamönnum hefur verið bannað að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, fjárframlög til loftslags- og umhverfisverkefna hafa verið fryst og opinberu starfsfólki í geiranum hefur verið sagt upp í þúsundatali.
Trump hefur dregið Bandaríkin út úr Parísasamningnum, vísindamönnum hefur verið bannað að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, fjárframlög til loftslags- og umhverfisverkefna hafa verið fryst og opinberu starfsfólki í geiranum hefur verið sagt upp í þúsundatali.
Mynd / Unsplash
Fréttir 10. mars 2025

Trump hjólar í loftslagsmálin

Höfundur: Þröstur Helgason

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur á undanförnum vikum unnið markvisst að því að snúa við stefnu Bandaríkjanna í loftslagsmálum.

Þjóðin hefur verið dregin út úr Parísarsamningnum, vísindamönnum hefur verið bannað að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, fjárframlög til loftslags- og umhverfisverkefna hafa verið fryst og opinberu starfsfólki í þessum geira verið sagt upp í þúsundatali.

Á fyrsta degi í embætti undirritaði Donald Trump Bandaríkjaforseti tilskipun að viðstöddum stuðningsmönnum í Washingtonborg þess efnis að draga Bandaríkin út úr Parísarsamningnum sem stofnað var til 12. desember árið 2015. Þetta var í annað sinn sem Trump undirritaði slíka tilskipun en það gerði hann einnig á fyrra kjörtímabili sínu. Joe Biden, fyrrverandi forseti, dró hins vegar úrsögn Bandaríkjanna til baka á kjörtímabili sínu og því beið Trump ekki boðanna þegar hann tók við á ný 20. janúar sl.

Um 40% alls útblásturs gróðurhúsalofttegunda er í Bandaríkjunum og Kína sem bæði fullgiltu samninginn 3. september 2016. Tilskipunin hefur því valdið talsverðum titringi eins og glöggt hefur mátt sjá á viðbrögðum við henni í erlendum fjölmiðlum á síðustu vikum.

Trump nú betur undirbúinn

Að þessu sinni kemur Trump greinilega betur undirbúinn en á fyrra tímabilinu því eftir að hafa undirritað tilskipunina fylgdi hann henni eftir með því að banna fulltrúum sínum að sitja fundi á vegum Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) eins og þeir höfðu gert á fyrra tímabilinu. Hann hefur sömuleiðis girt fyrir þátttöku bandarískra vísindamanna í Loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna (IPCC) sem nú undirbýr útgáfu stórrar skýrslu um stöðu mála, þeirrar sjöundu í röðinni.

Vangaveltur eru uppi um það að hve miklu leyti stjórn Trumps muni taka þátt í umræðum um loftslagsmál á kjörtímabilinu. Athygli vakti að fljótlega eftir valdatöku Trumps lýsti utanríkisráðherra hans, Marco Rubio, því yfir að Bandaríkin myndu ekki taka þátt í leiðtogafundi G20- ríkjanna seinna á árinu vegna þess að þar ætti að fjalla um jafnréttis- og loftslagsmál. „Hlutverk mitt er að vinna að hagsmunum Bandaríkjanna en ekki að sóa skattfé landsmanna eða gæla við andamerísk gildi,“ sagði hann á samskiptamiðlinum X af þessu tilefni.

Stefnu Bandaríkjanna snúið á haus

Á síðustu dögum hafa enn frekari vísbendingar borist um að Trump sé alvara með andstöðu sinni gegn baráttu alþjóðasamfélagsins við hamfarahlýnun af manna völdum og raunar hvers konar umhverfisvá. New York Times (NYT) segir í ítarlegri grein frá því hvernig markvisst hefur verið dregið úr stuðningi við bæði aðgerðir og rannsóknir sem snúa að þessum málaflokkum. Segir í greininni að þar hafi stefnu Bandaríkjanna í loftslagsmálum verið snúið á haus með ákvörðunum sem gætu haft alvarlegar afleiðingar heimafyrir, jafnt sem um veröldina alla.

Aðgerðirnar hafa að sögn blaðsins miðað bæði að því að skera niður stuðning við aðgerðir gegn hamfarahlýnun og mengun en um leið hefur verið ýtt undir framleiðslu á jarðefnaeldsneyti. Segir jafnframt að aldrei fyrr hafi forseti Bandaríkjanna gripið til jafn skjótra aðgerða um nokkurn málaflokk.

Spjótum beint gegn vindorku

Styrkir til verkefna í Afríku, á Suðurskautinu og víðar um heiminn hafi verið dregnir til baka en þessi verkefni miði öll að því að hægja á hlýnun. Trump beini spjótum sínum sérstaklega gegn vindorku sem sé styrkasta stoðin í öflun endurnýjanlegrar orku í Bandaríkjunum. Útgáfa starfsleyfa vindorkuvera á landi og legi í opinberri eigu hafi verið stöðvuð og því hótað að koma í veg fyrir uppbyggingu slíkrar starfsemi á landi í einkaeigu.

Þúsundum opinberra starfsmanna, sem starfa í loftslagsgeiranum, hefur verið sagt upp, segir í grein NYT, og verkefni sem miða að því að aðstoða menguð landsvæði hafa verið lögð niður. Umfjöllun um loftslagsmál á opinberum vefsíðum hafi sömuleiðis verið eytt.

„Við ætlum að bora“

Regluverk um vinnslu jarðefnaeldsneytis hafi enn fremur verið rýmkað til þess að ýta undir meiri vinnslu. Jafnhliða hafi neyðarástandi í orkumálum verið lýst yfir sem veitt hafi forsetanum svigrúm til þess að flýta fyrir aukinni gas- og olíuvinnslu. „Við ætlum að bora, mín kæra, bora og gera allt það sem okkur hefur langað til að gera,“ sagði Trump skömmu eftir að hafa svarið embættiseiðinn.

Bandaríkin framleiða meiri olíu en nokkur önnur þjóð í sögunni og eru enn fremur mestu útflytjendur jarðefnagass í heiminum, bendir NYT á. Enn fremur kemur fram að olíuiðnaðurinn í Bandaríkjunum hafi lagt 75 milljónir dollara til kosningasjóðs Trumps. Aukna framleiðslu segir forsetinn ekki aðeins skila sér í meiri hagnaði olíuframleiðenda heldur einnig til almennra neytenda í lækkuðu verði, auk þess sem efnahagur Bandaríkjanna muni vænkast.

Viðbrögð mikil

Viðbrögðin við aðgerðum Trumps hafa verið mikil og hefur í sumum tilvikum verið komið í veg fyrir að þær hefðu áhrif á verkefni sem unnið er að. Uppsagnir á þúsundum opinberra starfsmanna hafa þó tekið gildi hjá stofnunum á borð við Umhverfisverndarstofnun (Environmental Protection Agency), Orkustofnun (Department of Energy) og Sjávar- og loftslagsstofnun (National Oceanic and Atmospheric Administration) sem er helsta rannsóknamiðstöð Bandaríkjanna um loftslagsmál. Fjölda verkefna á vegum þessara stofnana hefur ýmist verið hætt eða frestað. Fjárfestingar í loftslags- og umhverfisverkefnum hafa sömuleiðis dregist saman á síðustu vikum, segir í NYT.

Tesla verður fyrir áhrifum

Trump hefur einnig mælst til þess að opinber stuðningur vegna rafbílavæðingar verði lagður af, þar á meðal skattaafsláttur til kaupenda. Stjórn Trumps hefur að auki lagt til að 5 milljarða dollara framlög til uppbyggingar hins opinbera á hleðslustöðvum og öðrum innviðum fyrir rafbíla verði dregin til baka. Hvorutveggju myndu hafa áhrif á Teslu, fyrirtæki Elon Musks sem í stjórn Trumps fer fyrir sérstakri stofnun sem hefur það verkefni að hagræða í ríkisrekstri (DOGE). 

Skylt efni: loftslagsmál

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...