Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Þorramatur fyrir grænmetisætur
Fréttir 19. janúar 2015

Þorramatur fyrir grænmetisætur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Framleiðsla á þorramat er svipuð í ár og á síðasta ári. Neyslan hefur aftur á móti dregist saman sé horft einn til tvo áratugi aftur í tímann. Meðal nýjunga í ár er kjötsúpu- og grænmetissulta sem svipar til sviðasultu í útliti.

„Undirbúningur fyrir þorrann hófst strax í haust og eins og undanfarin ár bjóðum við upp á súrmat sem lagt var í síðastliðið haust. Að venju eru það pungar, sviðasulta, slátur, bringur og lundabaggi,“ segir Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri hjá Sláturfélagi Suðurlands.

Aukning í sölu milli ára

Guðmundur segir að auk súrmats seljist mikið af ferskri sviðasultu og slátri á og í kringum þorra.

„Hangikjöt og saltkjöt selst einnig vel á þessum tíma.“ Hann vill ekki gefa upp hversu mikið sláturfélagið er að selja af þorramat en segir að það séu tugir tonna og að salan aukist um nokkur prósent milli ára.

Að sögn Guðmundar er sala á þorramat hafin. „Við setjum fötur af blönduðum þorramat í sölu fyrir jól. Það selst yfirleitt vel af þeim enda þykir mörgum þorramatur góð tilbreyting um jól og áramót.“

Útflutningur á hliðarafurðum

Frá því í haust hefur Sláturfélag Suðurlands selt um 300 tonn af því sem er kallað hliðar- eða aukaafurðir. „Megnið af afurðunum fer til Asíu og þeir eru að kaupa allt mögulegt sem áður þurfti að farga en búin eru til úr verðmæti í dag. Má þar nefna fitu, tittlinga, bein og lungu, sem fara reyndar ekki til Asíu en seljast samt.“ Guðmundur segir að aukaafurðirnar séu flokkaðar, pakkaðar og frystar hér en áfram unnar hjá kaupendum.

„Ég veit ekki annað en að afurðunum sé breytt í mat í Asíu og einhvern tíma heyrði ég að tittlingarnir væru djúpsteiktir og borðaðir þannig.“

Guðmundur segir að áður fyrr hafi Íslendingar nýtt kindaskrokka upp til agna og að með aukinni nýtingu á aukaafurðum sé á vissan hátt verið að hverfa til fortíðar. „Fljótt á litið erum við að nýta 90 til 95% af lambaskrokknum í dag en vegna áhættuþátta sem tengjast sýkingu má ekki nýta ákveðna vefi, miltað, mjógirni, heila og hryggsúlu eða mænu og þessum hlutum er fargað í brennslu hjá okkur.“

Samdráttur sé horft til lengri tíma

Ólafur Már Þórisson, markaðsstjóri hjá Kjarnafæði, segir að framleiðslan hjá þeim á þorramat á þessu ári sé álíka og á liðnum árum. „Framleiðslan í ár er svipuð og í fyrra en sé litið til lengri tíma, 10 til 15 ára, þá hefur hún verið að dragast saman og skýringin er hreinlega sú að þeir sem hafa borðað mest af þorramat eru smám saman að falla frá vegna aldurs. Á móti kemur, og ánægjulegt er, að fjöldi skóla og leikskóla eru farnir að kynna þorramat fyrir nemendum sínum og þannig að viðhalda hefðinni. Við verðum líka varir við að þorrablót eru færri en stærri í dag en áður og fólk borðar þorramat meira á veitingahúsum en áður.“

Kjarnafæði framleiðir flestan þorramat sem unninn er úr landbúnaðarafurðum hvort sem hann er súrsaður eða nýr. „Vinsælustu afurðirnar ár eftir ár eru sviðasulta, pungar og svið. Hangikjöt og saltkjöt eru líka vinsæl með þorramat og mikið sem selst af því á þessum árstíma.“

Kjötsúpu- og grænmetissulta

„Af nýjungum frá okkur get ég nefnt afurð sem líkist sviðasultu. Önnur er sulta sem búin er til úr kjötsúpu en hin úr grænmeti. Hvoru tveggja er að öllu leyti sambærilegt við sviðasultu nema hvað kjötsúpusultan bragðast eins og gamla góða kjötsúpan og grænmetissultan er hugsuð fyrir grænmetisætur.

Ég er sannfærður um að hvoru tveggja á eftir að koma verulega á óvart bæði hvað formið varðar og bragðgæði,“ segir Ólafur.

Sviðnar lappir og súrir tittlingar

Hjá Norðlenska ehf. fengust þær upplýsingar að framleiðslan hjá þeim væri svipuð og undanfarin ár. Reynir Eiríksson framleiðslustjóri segir að þeir framleiði nokkra tugi tonna af súrmat á ári og á svipuðu róli og undanfarin ár.

„Af nýjungum hjá okkur er að við erum að svíða lappir fyrir einn aðila. Í fyrra prófuðum við okkur áfram með að súrsa tittlinga, sem annars hafa farið í útflutning og þeir seldust upp, og við jukum því við magnið í haust. Magnið er ekki mikið og aðallega til að svala forvitni þeirra sem vilja smakka,“ segir Reynir.

Skylt efni: súrmatur | Þorri

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum
Fréttir 28. september 2023

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum

Algalíf, íslenska líftæknifyrirtækið, stefnir á að hasla sér völl í framleiðslu ...

Innviðauppbygging til 2025
Fréttir 28. september 2023

Innviðauppbygging til 2025

Fara á í 127 verkefni fram til ársins 2025 við uppbyggingu innviða til að mæta á...

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni
Fréttir 28. september 2023

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni

Sjávarútvegsráðstefnan 2023 verður haldin 2.–3. nóvember í Hörpu. Áhersluatriði ...

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu
Fréttir 27. september 2023

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins greindum við frá því að Halla Sigríður Steinól...

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...