Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Niðurstöður gagnavinnslu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins um rekstrarafkomu kúabúa á árinu 2022 benda til að þrátt fyrir neikvæða afkomuþróun í nautgriparækt sé greinilegur afkomubati í heildarrekstri búanna.
Niðurstöður gagnavinnslu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins um rekstrarafkomu kúabúa á árinu 2022 benda til að þrátt fyrir neikvæða afkomuþróun í nautgriparækt sé greinilegur afkomubati í heildarrekstri búanna.
Mynd / smh
Fréttir 12. janúar 2024

Tap nam 18,9 krónum á hvern framleiddan mjólkurlítra

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Þrátt fyrir neikvæða afkomuþróun nautgriparæktar er greinilegur afkomubati í heildarrekstri búanna.

Samkvæmt niðurstöðum úr gagnavinnslu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins um rekstrarafkomu kúabúa á árinu 2022, var tapið af nautgriparæktinni sem nemur 18,9 krónum á hvern framleiddan mjólkurlítra það ár.

Í niðurstöðunum kemur fram að afkoma af nautgriparæktinni hefur versnað ár frá ári og sé í auknum mæli mætt með öðrum tekjum en af mjólkur- og kjötframleiðslu. Frá árinu 2019 er afkoman metin neikvæð um 28 prósent. Þrátt fyrir neikvæða afkomuþróun nautgriparæktarinnar sé greinilegur afkomubati í heildarrekstri búanna. Fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta eykst rekstrarafgangur um tæplega fjórar og hálfa milljón króna á milli 2021 og 2022.

Aðfanga- og fjármagnskostnaður hækkar mikið

Gagnavinnslu RML um rekstrarafkomu kúabúa er lokið en von er á lokaskýrslu seinnipartinn í febrúar.

Kristján Óttar Eymundsson.

Kristján Óttar Eymundsson, ráðunautur á rekstrar- og umhverfissviði RML, segir að niðurstöðurnar staðfesti miklar aðfangahækkanir á árinu 2022. „Breytilegur kostnaður á innveginn lítra hækkar um ríflega 19 prósent frá árinu áður, en hefur alls hækkað um 38 prósent frá 2019. Fjármagnskostnaður er einnig orðinn verulega íþyngjandi hjá stórum hluta búanna en hann hækkar um tæpar átta krónur á lítra að meðaltali á milli ára. Fyrir greinina er því mjög mikilvægt að verðbólga og vaxtastig lækki sem fyrst og að verðlagning á mjólk og ríkisstuðningur verði þannig háttað að þær tekjur standi undir framleiðslukostnaði.“

Í niðurstöðunum kemur fram að til framtíðar litið sé jákvætt að skuldahlutfall hafi farið lækkandi, sem skýrist af aukinni veltu búanna. Það sé þó víða mjög íþyngjandi miðað við núverandi vaxtastig. Nauðsynlegt sé að það lækki og að gerðar verði leiðréttingar á afurðatekjum í gegnum opinbera verðlagningu eða búvörusamning.

Sviðsmyndir áranna 2023 og 2024 hafa breyst

Kristján segir að árið 2023 hafi einkennst af svipuðum aðfangakostnaði og árið á undan. „Þrálát verðbólga og endurteknar hækkanir á óverðtryggðum breytilegum vöxtum var síðan orðin sligandi hjá skuldsettari hluta búanna. Samkvæmt mati okkar stefndi í að tap heildarrekstrar hjá mjólkurframleiðendum yrði samtals um 1.400 milljónir króna á árinu til viðbótar um 600 milljóna króna taps hjá nautgripabændum sem eingöngu eru í nautakjötsframleiðslu.

Með fjáraukalögum fyrir árið 2023, sem samþykkt voru á Alþingi rétt fyrir jól, er ljóst að sú sviðsmynd hefur breyst. Fyrir jól voru greiddar 386 milljónir króna til nautgripabænda samkvæmt fjárfestingakostnaði í samþykktum úttektum árin 2017– 2023. Einnig voru greiddar 600 milljónir vegna fjárfestinga, óháð búgreinum, samkvæmt samþykktum nýliðunarumsóknum fyrir sama tímabil. Þá var 100 milljónum króna bætt við gripagreiðslur holdakúa. Að lokum var ákveðið, eftir nefndarvinnu fjárlaganefndar, að bæta 500 milljónum króna við innvegna mjólk á landvísu miðað við fyrstu 11 mánuði ársins. Þær greiðslur verða greiddar í byrjun þessa árs,“ útskýrir Kristján.

Hann saknar þess þó að sjá ekki að nautgripabændur, sem eingöngu eru að ala íslensk naut til kjötframleiðslu, hafi fengið sneið af kökunni. „Rekstrarafkoma þeirra er ekki góð þótt þeir séu oft og tíðum að ná frábærum árangri í eldinu. Þó hluti holdagripa og holdablendinga fari vaxandi af heildarframleiðslunni eru íslenskir gripir þar enn í yfirgnæfandi meirihluta. Þeir voru til að mynda um 84% af heildarframleiðslu ungnautakjöts árið 2022.“

Betra rekstrarumhverfi í vændum

Að sögn Kristjáns er ýmislegt sem bendir til þess að betra rekstrarumhverfi verði í greininni á þessu ári. „Verðbólgan virðist nú vera á niðurleið sem ætti að stuðla að lækkun óverðtryggðra vaxta þegar líður á árið 2024. Búið er að boða hækkanir á afurðastöðvarverði mjólkur til bænda frá 1. janúar síðastliðnum og síðan eru lækkanir fram undan á helstu aðföngum eins og áburði. Verið er að endurskoða verðlagsgrundvöllinn, sem verður vonandi tilbúinn nú í lok febrúar. Einnig er verið að vinna að undirbúningi á innleiðingu kyngreinds sæðis í íslenskri nautgriparækt. Ég hef fulla trú á að það eigi eftir að leiða til verulegrar verðmætasköpunar og þar með framleiðniaukningar í mjólkurframleiðslunni og þá ekki síður í framleiðslu nautakjöts,“ segir Kristján að lokum.

Gagnagrunnur frá 2017

Í þessu verkefni um afkomuþróun kúabúa, sem RML heldur utan um, taka nú 173 kúabú þátt. Það var upphaflega sett af stað sumarið 2020 þegar 90 bú tóku þátt, en gagnagrunnurinn sem unnið er með nær aftur til rekstrarársins 2017.

Heildarframleiðsla búanna sem síðast tóku þátt var 64,8 milljónir lítra mjólkur árið 2022, eða 44 prósent af heildarframleiðslu í landinu.

Að sögn Kristjáns hefur verkefnið leitt til aukinnar þekkingar á afkomu kúabænda en það má segja að áður hafi hún verið býsna óljós um árabil eða frá því að Hagþjónusta landbúnaðarins var lögð niður.

Niðurgreiða sýningargjöld
Fréttir 23. október 2024

Niðurgreiða sýningargjöld

Hrossaræktarfélag Hrunamanna mun niðurgreiða hluta sýningargjalda kynbótahrossa ...

Bændur byggja rétt
Fréttir 22. október 2024

Bændur byggja rétt

Bændur í Steinadal á Ströndum stóðu að byggingu nýrrar réttar í Kollafirði og va...

Stofnverndarsjóður lagður niður
Fréttir 22. október 2024

Stofnverndarsjóður lagður niður

Stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins verður lagður niður í lok árs. Sjóðurin...

Fyrirhuguð risaframkvæmd
Fréttir 21. október 2024

Fyrirhuguð risaframkvæmd

Um 220 herbergja hótel, baðlón og 165 smáhýsi er fyrirhugað að rísi í Ásahreppi.

DeLaval til Bústólpa
Fréttir 21. október 2024

DeLaval til Bústólpa

Umboðið á DeLaval-mjaltabúnaði færðist þann 1. október til Bústólpa á Akureyri.

Rýr uppskera af melgresi
Fréttir 18. október 2024

Rýr uppskera af melgresi

Fræskurður hefur staðið yfir í haust á vegum landgræðsluhluta Lands og skógar.

Fuglainflúensa víða
Fréttir 18. október 2024

Fuglainflúensa víða

Rökstuddur grunur er um fuglainflúensu í hröfnum og öðrum villtum fuglum.

Aukið fjármagn til Brothættra byggða
Fréttir 17. október 2024

Aukið fjármagn til Brothættra byggða

Verkefnið Brothættar byggðir hlýtur 135 milljóna króna aukafjárframlag frá Byggð...

Bændur orðnir langþreyttir
23. október 2024

Bændur orðnir langþreyttir

Niðurgreiða sýningargjöld
23. október 2024

Niðurgreiða sýningargjöld

Kjói
23. október 2024

Kjói

Þórdís Laufey
23. október 2024

Þórdís Laufey

ML-sveitin ósigrandi í keppni eldri borgara
22. október 2024

ML-sveitin ósigrandi í keppni eldri borgara