Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Guðni Einarsson er formaður Félags gulrófnaræktenda og hefur verið um nokkurra ára skeið. Hann ræktar rófurnar við Dyrhólaós og hér sést yfir í Dyrhólaey.  Vonir standa til að fyrsta uppskera af gulrófum frá Þórisholti fari í búðir fyrri hluta ágústmánaða
Guðni Einarsson er formaður Félags gulrófnaræktenda og hefur verið um nokkurra ára skeið. Hann ræktar rófurnar við Dyrhólaós og hér sést yfir í Dyrhólaey. Vonir standa til að fyrsta uppskera af gulrófum frá Þórisholti fari í búðir fyrri hluta ágústmánaða
Mynd / smh
Viðtal 30. júní 2017

Tæpast hægt að kalla kjötsúpu íslenska með innfluttum rófum

Höfundur: smh
Gulrófan er rótgróið grænmeti í íslenskri þjóðarvitund. Hún hefur verið ræktuð hér frá alda öðli og íslenska yrkið er einstakt á heimsvísu. Hún er góð hrá en býður einnig upp á ýmsa möguleika í matreiðslu. Hún hefur verið kölluð appelsína norðursins – vegna þess hversu auðug hún er af C-vítamíni – og aðrir telja að hún sé „íslenska sætkartaflan“.
 
Einn af þeim er gulrófnabóndinn Guðni Einarsson í Þórisholti í Mýrdal en hann er sjötti ættliðurinn sem býr þar. Þórisholt er í Reynishverfi – rétt hjá rómuðum ferðamannastöðum eins og Reynisfjöru og Dyrhólaey. „Tíðin í sumar hefur bæði verið góð og slæm má segja. Það hefur verið úrkomu- og vindasamt á þessu svæði. En sem betur fer hefur verið þokkalegur hiti,“ segir Guðni. 
 
Halla Ólafsdóttir, kona Guðna, sér um daglegan rekstur veitingastaðarins Svörtu fjörunnar. Þar er boðið upp á veitingar úr hráefni frá bæjunum þremur sem eiga staðinn. Opið hefur verið alla daga ársins frá miðju ári 2014. Halla er hér til vinstri með starfsmanni staðarins.
 
Úr blönduðum búskap í gulrófur og ferðaþjónustu
 
Hann er meðal helstu ræktenda gulrófunnar á Íslandi. Eftir 2007 hætti hann blönduðum búskap með kindur og kýr og sneri sér alfarið að þessari ræktun. Árið 2013 hóf Guðni, ásamt Höllu, konu sinni, og bændum frá Lækjarbakka og Reyni að byggja upp veitingaaðstöðu í Reynisfjöru. „Veitingastaðurinn heitir Svarta fjaran og þar er eldað úr hráefni frá bæjunum sjálfum; meðal annars nautahamborgarar frá Lækjarbakka, lambakjöt frá Reyni og rófusúpa frá Þórisholti. Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður á landinu. Frá því að veitingastaðurinn var opnaður um mitt árið 2014 hefur hann verið opinn alla daga ársins.“
 
Gulrófur frá síðasta hausti eru í boði alveg fram að næstu uppskeru.
 
Allt að 60 tonna uppskera
 
Bændurnir í Þórisholti hlutu Landbúnaðarverðlaunin árið 2008 en þeir hafa löngum verið framsýnir og farið jafnvel nýjar leiðir í sínum búskap. Þeir voru til að mynda með þeim fyrstu sem stunduðu lífrænan sauðfjárbúskap og svo þróuðu þeir bræður upptökuvél fyrir gulrófurnar í samvinnu við mann á Vík. „Það þurfti að sérsmíða þetta fyrir þessar séríslensku aðstæður – jarðveginn, rófurnar og auðvitað trékassana sem við erum að nota. Það eru svona sjö til átta sentimetrar á milli plantna og þrjár raðir á milli hjóla á dráttarvél,“ segir Guðni. 
 
Grétar, bróðir Guðna, fór nýlega úr búskapnum í Þórisholti og Ívar, sonur Guðna, kom inn í staðinn. Jarðvegurinn í Þórisholti er svokölluð mómýri og gulrófurnar eru ræktaðar á sex hekturum. 
Uppskerumagn er frá 20 og upp í 60 tonn á hektara þegar best lætur og Sölufélag garðyrkjumanna sér um að koma því á markað.
 
Í gamla fjósinu og hlöðunni standa vonir til að hægt verði að koma upp aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum og þar verður lítil bruggverksmiðja sem mun vinna gulrófnasnafs úr sætum safanum.
 
Hugað að frekari nýtingu og virðisauka
 
„Yfirleitt selst þetta nú allt – og sérstaklega síðustu árin þegar við höfum náð að metta innanlandsmarkaðinn þannig að ekki hefur þurft að flytja inn,“ segir Guðni. Hann segir að þegar afgangur hefur orðið hafi honum því miður verið hent, því það henti ekki vel að nýta rófuna í annað, til að mynda skepnufóður. „Það er of mikill kostnaður við það – og svo er þetta ekki ákjósanlegt fóður. Rófan hefur ekki hátt fóðurgildi – próteinhlutfallið er til dæmis ekki nægilegt.“
 
Guðni er formaður Félags gulrófnabænda, sem er að hans sögn æði virkt félag og telur um 17 félaga. „Við höfum farið til útlanda í fræðsluferðir og lært heilmikið af því. Það er óhætt að segja að félagsstarfið sé með ágætum hjá okkur. 
 
Sölufélagið og Þykkvabæjar hafa aðeins verið að prófa að vinna vörur úr gulrófunni. Það er mikið flutt inn af rófum sem eru frystar í tengingum og veitingastaðir hafa keypt það mikið til að nota í kjötsúpuna. Við ætlum með þessum vörum að reyna að sækja aðeins inn á þann markað. Það er nefnilega tæpast hægt að tala um íslenska kjötsúpu með innfluttum rófum í.“  
 
Draumurinn að brugga gulrófusnafs
 
Að sögn Guðna er draumurinn að reisa litla bruggverksmiðju í Þórisholti, einmitt meðal annars til að nýta það sem gengur af úr ræktuninni til að brugga gulrófusnafs. Við höfum einstakt hráefni til að vinna vínandann úr – en flestir þeir sem framleiða snafsa á Íslandi þurfa að flytja inn vínanda fyrir sína framleiðslu. Við ætlum að smíða bruggtækin bara hér á staðnum og erum líka að spá í að láta smíða græju til að ná safanum úr rófunum,“ segir Guðni. 
 
Íslenska sætkartaflan
 
„Hugmyndin er að geta boðið bæði upp á snafs úr eigin framleiðslu og svo jafnvel einhverjar vörur úr gulrófunni sjálfri. Þess vegna er mikilvægt að við framleiðum þetta allt á staðnum og við höfum auðvitað ákveðna sögu að segja líka um gulrófuna íslensku – því hún er alveg einstök. 
 
Séríslenskt fræ hefur verið ræktað frá því að elstu menn muna. Hannes í Stóru-Sandvík hefur gert þetta undanfarin ár, þannig að við erum að vinna með allt aðra plöntu en í nágrannalöndum okkar – svo eru líka náttúrulegar aðstæður öðruvísi hér. 
 
Svo er gulrófan mjög holl og hægt að gera ýmislegt með hana í matargerð. Hún er að mörgu leyti vannýtt,“ segir Guðni, en gulrófan er rík af vítamínum og ekki eins kolvetnarík og kartaflan til dæmis. Guðni bendir á að líklega svipi henni meira til sætkartöflunnar. „Þá má nota hana á svipaðan hátt í matargerð,“ segir hann.
 
Ágætar upplýsingar um gulrófuna er að finna á vef Félags gulrófnabænda: rofa.is. 
 

21 myndir:

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...