Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Með hæstu einkunn ársins í elsta flokki stóðhesta og yfir landið í ár var Draupnir frá Stuðlum, undan Kiljan frá Steinnesi og Þernu frá Arnarhóli. Ræktendur er Edda Björk Ólafsdóttir og Páll Stefánsson og þau eru einnig eigendur ásamt Austurás hestum ehf.
Með hæstu einkunn ársins í elsta flokki stóðhesta og yfir landið í ár var Draupnir frá Stuðlum, undan Kiljan frá Steinnesi og Þernu frá Arnarhóli. Ræktendur er Edda Björk Ólafsdóttir og Páll Stefánsson og þau eru einnig eigendur ásamt Austurás hestum ehf.
Mynd / Óðinn Örn Jóhannsson
Fréttir 18. október 2019

Sýningarárið 2019

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson ábyrgðarmaður í hrossarækt, thk@rml.is
Í þessum pistli verður farið yfir sýningarárið 2019 en það einkenndist af góðri mætingu hrossa til dóms, miklum áhuga á kynbótasýningum og úrvali frábærra hrossa. Þá voru haldin tvö stórmót; Fjórðungsmót á Austurlandi og Heimsleikar í Berlín.
 
Alls voru haldnar 15 sýningar víðs vegar um landið auk Fjórðungsmóts Austurlands sem haldið var á Fornustekkum. Felldir voru 1176 dómar, þar af 1031 fullnaðardómur sem er svipaður fjöldi dóma sé miðað við ár sem ekki eru Landsmót en alls komu 967 hross til dóms. Óvenju fá hross voru dæmd í maí miðað við síðastliðin ár, þrjár sýningar voru áætlaðar í maí en þær voru allar felldar niður og sameinaðar í einni sýningu sem haldin var í Hafnarfirði í síðustu viku maí.
 
Fjöldinn náði sér svo upp á miðsumarssýningum en fjórar miðsumarssýningar voru haldnar; þrjár á Hellu og ein á Hólum en 369 dómar voru felldir á þessum miðsumarssýningum sem er metfjöldi. Fjórðungsmótið tókst vel en alls voru 31 kynbótahross sem mættu þar til dóms. Miðað var við ákveðinn fjölda efstu hrossa í hverjum flokki eins og fyrir síðustu stórmót. Vel var að mótinu staðið og eiga Hornfirðingar heiður skilinn fyrir framkvæmdina en afar góð stemning var á mótinu og býður mótssvæði þeirra upp á mikla möguleika með glæsilega reiðhöll, framboð af hesthússplássum og myndarlegt félagsheimili. 
 
Þá var full mæting kynbótahrossa fyrir hönd Íslands á Heimsleika sem voru haldnir í Berlín; eitt hross í hvern flokk 5, 6 og 7 vetra og eldri hryssna og stóðhesta. Þau stóðu sig öll með prýði á mótinu, stóðu vel við fyrri dóma og voru efst í öllum flokkum nema 5 vetra flokki stóðhesta þar sem annað sætið var niðurstaðan. Þá forfallaðist því miður Nói frá Stóra-Hofi í elsta flokki stóðhesta. Mikill fjöldi frábærra hrossa kom til dóms í ár og er verðmætt að sjá hvað ræktendur hafa úr mikilli flóru góðra stóðhesta að velja en aldrei hefur verið meira úrval af gæða stóðhestum af mismunandi gerðum á boðstólum. Alls voru 286 feður á bak við sýnd hross í ár en Spuni frá Vesturkoti átti flest afkvæmi sem komu til dóms í ár, eða 42. Í töflu má sjá þá feður sem skiluðu tíu eða fleiri afkvæmum til dóms á árinu.
 
Meðaltöl og dreifingu einkunna má sjá í meðfylgjandi töflum fyrir alla eiginleika byggingar og hæfileika auk aðaleinkunna fyrir árið 2019 á Íslandi.
 
 
Hærri meðaltöl fyrir eiginleika sköpulags
 
Meðaltöl fyrir eiginleika sköpu­lagsins eru heldur hærri en í fyrra hjá flestum eiginleikum fyrir utan prúðleika þar sem meðaltalið í ár er lægra (7,61 vs 7,72). Breytingarnar eru þó afar litlar fyrir utan hófa­einkunn sem er töluvert hærri í ár samanborið við árið í fyrra (8,19 vs 7,94). 
 
Þetta gæti skýrst af breyttum áherslum við mat á hófum þar sem meiri áhersla hefur verið lögð á rétt form hófsins; þ.m.t. lengd og halla á hælum, hvelfingu í botninn og meira dregið niður fyrir þrengsli í hófnum, þ.e. meira lagt upp úr réttu formi hófsins aftur í hæl og að hólþófarnir séu heilbrigðir. Þá er minni áhersla á dýpt hófsins sem ræðst eingöngu af því hversu mikið vaxinn hófurinn er. Þá eru meðaltöl fyrir eiginleika hæfileika heldur lægri í ár samanborið við árið í fyrra fyrir utan fet en þar er meðaltalið hærra (7,73 vs 7,69). Breytingarnar eru þó ekki miklar á milli ára en stærsti munurinn er í skeiðeinkunn. Meðaltal fyrir skeið var í fyrra 7,04 en er í ár 6,82 (meðaltalið er einnig lægra sé eingöngu horft til hrossa sem ná 5,5 eða hærra fyrir skeið). Það gæti skýrst af því að heldur fleiri klárhross voru sýnd í ár en 32% hrossa sem sýnd voru í ár voru með 5,0 fyrir skeið sem er hærra hlutfall en oft áður en yfirleitt hefur hlutfall klárhrossa af sýndum hrossum verið í kringum 25%. 
 
Meðalaldur sýndra hrossa var 6,23 ár en það er hæsti meðalaldur sýndra hrossa í seinni tíð. Það skýrist fyrst og fremst af því að færri fjögurra vetra hross voru sýnd í ár, þau eru u.þ.b. helmingi færri í ár samanborið við árið í fyrra eða um 7% sýndra hrossa (25 fjögurra vetra stóðhestar voru sýndir og 35 hryssur). 
 
Skrokkmál
 
Íslenski hesturinn hefur verið að stækka á undanförnum árum eins og lesendur eflaust þekkja. Meðalhæð hrossa sem komu til dóms á Íslandi í ár var rúmlega 142 cm á herðar, hryssur voru að meðaltali 141,6 cm og stóðhestar 144,4 cm. Til samanburðar þá var meðal hesturinn á árunum í kringum 1990 133 cm á herðar. En hesturinn hefur ekki bara verið að hækka á herðar, hann hefur einnig orðið framhærri með árunum, þ.e. munurinn á hæð á herðar og hæð á lend hefur verið að aukast. Í dag er meðal hrossið rúmlega 4 cm hærra að framan en að aftan (hryssur 3,9 cm hærri á herðar en á lend og stóðhestar 5,9 cm).
Framhæð hrossa hefur mikil áhrif á ganghæfni þeirra og um að gera fyrir ræktendur að skoða skrokkmálin. Þá er áhugavert að kanna hver meðal fótahæð hestsins er en hana má reikna út með því að bera saman hæð á herðar og brjóstdýpt. Meðal fótahæð hestsins í dag er rétt um 14 cm meiri en brjóstdýptin (hryssur: 13,6 cm og stóðhestar: 15,3 cm). Fótahæð íslenska hestsins hefur einnig verið að aukast á síðustu árum í viðleitni okkar við að skapa glæsilegri hest­gerð en til að skara fram úr í keppni til dæmis er nauðsynlegt að hafa góða fótahæð í hrossum, það skapar meiri skreflengd og eykur á útgeislun.
 
Hæstu hross ársins efstu hryssurnar
 
Alls voru sýndar 35 fjögurra vetra hryssur á árinu og voru þær rúmlega 4% sýndra hrossa. Efstu hryssurnar eru allar afar vel ættaðar hryssur sem eiga framtíðina fyrir sér. Jafnar með þriðju hæstu einkunn ársins í þessum flokki eða 8,24 voru þær Dagmar frá Hjarðartúni og Mánadís frá Feti. Dagmar er undan Degi frá Hjarðartúni og Pöndru frá Reykjavík, ræktandi er Óskar Eyjólfsson en eigandi er Einhyrningur ehf. Dagmar var efst í fjögurra vetra flokki hryssna á Fjórðungsmótinu; myndarleg, fótahá hryssa og flugaefnileg með mikla skrefstærð á öllum gangi. 
 
Mánadís frá Feti er undan Eldi frá Torfunesi og Vigdísi frá Feti, ræktandi er hrossaræktarbúið Fet og eigandi er Fet ehf. Mánadís er vel gerð með 8,5 fyrir háls, herðar og bóga og samræmi og efni í frábæra alhliða mýktar hryssu með 8,5 fyrir tölt og fegurð í reið og 9,0 fyrir vilja og geðslag. 
 
Með aðra hæstu einkunn ársins er Lóa frá Efsta-Seli, undan Arion frá Eystra-Fróðholti og Lady frá Neðra-Seli. Hún hlaut í aðaleinkunn 8,35 með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og vilja og geðslag; fínleg, framfalleg og mjúk á gangi. 
 
Efsta hryssan var með 8,38 í aðaleinkunn og heitir Álfamær frá Prestsbæ, undan Landsmótssigurvegurunum Spuna frá Vesturkoti og Þóru frá Prestsbæ. Álfamær er reiðhestslega og traustlega gerð, þá er hún skrefmikil á gangi og skrokkmjúk, einstaklega jafnvægisgóð og flink á skeiði og með þjálan vilja.
 
 
25 hestar í fjögurra vetra flokki stóðhesta
 
Í fjögurra vetra flokki stóðhesta voru sýndir 25 hestar í fullnaðardóm eða um 3% sýndra hrossa. 
Með þriðju hæstu einkunn í þessum flokki, 8,39 í aðaleinkunn, var Pensill frá Hvolsvelli, undan Ölni frá Akranesi og Hörpu Sjöfn frá Hvolsvelli. Ræktendur eru Ásmundur Þórisson og Helga Friðgeirsdóttir. Pensill er afar fallega og vel gerður hestur með 8,76 fyrir sköpulag þar sem hæst ber 9,5 fyrir bak og lend og samræmi, sameinar einstaklega vel fegurð og fínleika og styrk í byggingunni. Þá er Pensill efnilegur á gangi, skrefmikill og mjúkur og hlaut hæst 9.0 fyrir brokk. 
 
Með aðra hæstu einkunn í þessum flokki er Hávaði frá Haukholtum, undan Ómi frá Kvistum og Eldingu frá Haukholtum. Ræktandi er Þorsteinn Loftsson og hann er einnig eigandi ásamt Lóu Dagmar Smáradóttur. Hávaði er hávaxinn og fótahár en hann er 149 cm á herðar, með 9,0 fyrir samræmi. Þá er þetta afar efnilegur foli með 8,37 fyrir hæfileika. 
 
Efsti hesturinn í fjögurra vetra flokki stóðhesta í ár er Leynir frá Garðshorni á Þelamörk en ræktendur hans eru Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir. Leynir er undan Höfðingja og Grósku frá Garðshorni á Þelamörk. Mynd / Birna Tryggvadóttir
 
Efsti hesturinn í þessum flokki í ár er Leynir frá Garðshorni á Þelamörk en ræktendur hans eru Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir. Leynir er undan Höfðingja og Grósku frá Garðshorni á Þelamörk. Leynir er ekki stór, 137 cm á herðar, en afar reiðhestslega gerður með sterka yfirlínu í hálsi og baki og lend með 8,5 fyrir háls, herðar og bóga og 9,0 fyrir bak og lend. Þá er Leynir gæðingur á gangi, framganga hans var hreint óvanaleg af svo ungum hesti að vera og hlaut 8,70 fyrir hæfileika; afar léttstígur, skrefmikill og fjölhæfur hestur með 9,0 fyrir tölt og vilja og geðslag og 8,5 fyrir alla aðra eiginleika hæfileikanna.
 
145 í flokki fimm vetra hryssna
 
Í fimm vetra flokki hryssna voru sýndar 145 hryssur og voru þær 17% sýndra hrossa. 
 
Með þriðju hæstu einkunn ársins var Dröfn frá Stykkishólmi undan Hágangi frá Narfa­stöðum og Tvíbrá Keilisdóttur frá Árbæ. Ræktandi hennar er Valentínus Guðnason. Dröfn er gullfríð og framfalleg hryssa með 9,0 fyrir höfuð og háls, herðar og bóga og 8,48 fyrir sköpulag. Þá er Dröfn jafnvíg á gangi með 8,5 fyrir tölt og brokk og 9,0 fyrir skeið þar sem hún býr yfir eðlisjafnvægi og tilþrifamikilli getu en einnig hlaut hún 9,0 fyrir vilja og geðslag enda afar næm og fylgin sér. 
 
Með aðra hæstu einkunn ársins er Sigurrós frá Stuðlum, hún er undan Dyn frá Dísarstöðum og Stöku frá Stuðlum sem er undan Akk frá Brautarholti og heiðurshryssunni Þernu frá Arnarhóli. Ræktendur eru Páll Stefánsson og Edda Björk Ólafsdóttir og Páll er eigandi hryssunnar ásamt Hauki Baldvins­syni og Ragnhildi Loftsdóttur. Sigurrós er gæðingur á gangi með 8,70 fyrir hæfileika, afar ásækin og einbeitt, með mikla hreyfingu og skrefstærð. 
 
Með hæstu einkunn ársins í fimm vetra flokki hryssna er Þrá frá Prestsbæ, undan Arion frá Eystra-Fróðholti og Þóru frá Prestsbæ. Ræktendur og eigendur er Inga og Ingar Jensen. Þrá er með 8,31 fyrir sköpulag þar sem hæst ber 8,5 fyrir háls, herðar og bóga og fótagerð og 9,0 fyrir samræmi, enda með afar framskotna og lausa bóga sem bjóða upp á mikla hreyfingu sem Arion hefur gefið í ríkum mæli og óvenju mikla fótahæð. Þrá er með betri fimm vetra tryppum sem fram hafa komið með 8,76 fyrir hæfileika. Hún hlaut 9,0 fyrir tölt og hægt tölt en einnig fyrir stökk, vilja og geðslag og fegurð í reið. Hún býr yfir einstakri mýkt, fjaðurmagni og útgeislun og er í raun gangandi listaverk.
 
83 hestar í flokki fimm vetra stóðhesta
 
Í fimm vetra flokki stóðhesta voru sýndir 83 hestar eða um 10% sýndra hrossa. 
Með þriðju hæstu einkunn ársins var Kastor frá Garðshorni á Þelamörk, undan Kiljan frá Steinnesi og Vissu frá Lambanesi og hefur því ekki langt að sækja skrefstærð, gangrými og skeiðgetu. Ræktendur eru Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir og eigandi er Sporthestar ehf. Kastor er traustlega gerður hestur með 9,0 fyrir bak og lend en mætti hafa reistari háls. Þá er Kastor afar ganghreinn og einstakur rýmis- og skrefahestur, hlaut 9,0 fyrir tölt og einn af fáum hrossum sem hlutu 9,5 fyrir skeið á árinu enda uppteiknaður á skeiði; sniðfastur, svifmikill og fljúgandi rúmur. 
 
Með aðra hæstu einkunn ársins var Eldjárn frá Skipaskaga, undan Jarli frá Árbæjarhjáleigu II og Glímu frá Kaldbak. Ræktandi er Jón Árnason en eigandi er Skipaskagi ehf. Eldjárn stóð efstur á síðasta Landsmóti í fjögurra vetra flokki og sýnir nú góðar framfarir í hæfileikum. Eldjárn er stórmyndarlegur og prúður hestur með 8,63 fyrir sköpulag þar sem hæst ber 9,0 fyrir samræmi og 9,5 fyrir bæði fótagerð og prúðleika. Þá hlaut Eldjárn 8,67 fyrir hæfileika; 9,0 fyrir tölt, skeið, vilja og geðslag og fegurð í reið. 
 
Með hæstu aðaleinkunn ársins í fimm vetra flokki stóðhesta var Viðar frá Skör, undan Hrannari frá Flugumýri II og Vá frá Auðsholtshjáleigu sem er undan Spuna frá Miðsitju og Vordísi frá Auðsholtshjáleigu. Viðar hlaut í aðaleinkunn 8,68, þar af 8,71 fyrir sköpulag og 8,67 fyrir hæfileika. Viðar hefur afar sterka yfirlínu, mjúkan háls og burðarmikið bak, þó hálsinn mætti vera heldur léttari. Þá hefur hann einstakt samræmi, afar fótahár, jafnvaxinn og sterkbyggður og hlaut 9,5 fyrir það. Viðar er afar hreingengur, fasmikill og fallega gengur með 8,5 fyrir tölt og 9,5 fyrir brokk sem hann hlaut 9,0 fyrir strax fjögurra vetra gamall í fyrra, jafnvígur og geðprúður alhliða hestur. 
 
66 hryssur í flokki sex vetra
 
Í sex vetra flokki hryssna voru sýndar 166 hryssur eða um 20% sýndra hrossa. 
 
Með þriðju hæstu einkunn ársins var Stjörnuspá frá Þúfum, undan Stjörnustæl frá Dalvík og Lýsingu Hróðursdóttur frá Þúfum. Ræktendur og eigendur eru Gísli Gíslason og Mette Mannseth. Stjörnuspá er afar fríð léttleika hryssa, býr yfir eðlisfótaburði og útgeislun, með dans og fjaðurmagn á hægu tölti sem hún hlaut 9,0 fyrir.
 
Með aðra hæstu einkunn ársins var Bylgja frá Seljatungu, undan Herkúles frá Ragnheiðarstöðum og Kviku frá Syðri-Gegnishólum og er Bylgja því útaf Frey frá Flugumýri sem má finna í ættartöflu afrekshrossa. Ræktandi er Ólafur Jósefsson en eigandi er Karl Áki Sigurðsson. Bylgja er klárhryssa með 8,54 í aðaleinkunn og er djásn bæði í sköpulagi og hæfileikum, með 8,71 fyrir sköpulag, stórglæsileg með m.a. 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og samræmi. Þá er hún með 9,0 fyrir flesta þætti hæfileikanna og 9,5 fyrir fegurð í reið. 
 
Með hæstu einkunn ársins í sex vetra flokki hryssna er Eyrún Ýr frá Hásæti en hún stóð einnig efst í sínum flokki á Heimsleikunum í Berlín. Eyrún Ýr er einnig undan Herkúles frá Ragnheiðarstöðum sem hefur verið að skila nokkrum óvanalegum hrossum til dóms undanfarið hvað varðar stærð, myndarskap og hreyfieðli en móðirin er Séð frá Hásæti. Ræktandi er Fjölnir Þorgeirsson. Eyrún er vel gerð hryssa með 8,5 fyrir flesta þætti byggingar­innar; fríð og jafnvaxinn með 9,0 fyrir fótagerð. Þá er hún grípandi hross með afgerandi hreyfingar á tölti, brokki og stökki og býr fyrir úrvals feti sem hún hlaut 9,5 fyrir; hágeng og aðsópsmikil með funavilja.
 
72 hestar í flokki sex vetra stóðhesta
 
Í sex vetra flokki stóðhesta voru sýndir 72 hestar eða rúmlega 8% sýndra hrossa. 
 
Með þriðju hæstu aðaleinkunn ársins var Spaði frá Barkarstöðum og stóð hann efstur á Heimsleikum í sínum flokki. Spaði er undan Orra frá Þúfu og Væntingu Arons­dóttur frá Hruna. Ræktandi er Sveinbjörn Sveinbjörnsson og eigandi er Stephanie Brassel. Spaði hlaut í vor 8,68 í aðaleinkunn, 8,41 fyrir sköpulag og 8,86 fyrir hæfileika. Spaði er afar traustlega gerður hestur í gerð og geðslagi, með mjúka og öfluga yfirlínu og jafnvægisgóður í byggingunni. Þá er hann afar aðgengilegur og öruggur á gangi og ganghreinn og skrefmikill með skemmtilega þjálan vilja.
 
Með aðra hæstu einkunn ársins er Spaði frá Stuðlum, undan Barða frá Laugarbakka og Þernu frá Arnarhóli, ræktendur eru Páll Stefánsson og Edda Björk Ólafsdóttir. Spaði er afar vel gerður hestur með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend og samræmi; með sterka yfirlínu, hlutfallagóður og jafnbyggður. Þá er verðmætt hver fjölhæfur Spaði er; takthreinn og skrokkmjúkur með 9,0 fyrir tölt, skeið, vilja og geðslag og hægt stökk og 8,5 fyrir aðra þætti hæfileikanna. 
 
Með hæstu einkunn sex vetra hesta á árinu var Þór frá Torfunesi en hann var einnig með hæstu einkunnina yfir landið í fyrra fimm vetra gamall. Þór er undan Kolskegg frá Kjarnholtum og Bylgju Baldursdóttur frá Torfunesi. Ræktandi er Baldvin Kr. Baldvinsson og eigandi er Torfunes ehf. Þór er stórglæsilegur í byggingu; með afar reistan, hátt settan háls og óvenju skásetta bóga, afar öfluga yfirlínu og þá er samræmið með því besta sem gerist enda með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og bak og lend og 9,5 fyrir samræmi. Þá er Þór jafnvígur, fasmikill og aðsópsmikill alhliða hestur með 9,0 fyrir tölt, brokk, skeið, fegurð í reið og vilja og geðslag. Þá er gaman að geta þess að Safír frá Mosfellsbæ hlaut 10 fyrir brokk á árinu. Þar er á ferðinni mikill útgeislunar hestur, undan Hring frá Fossi og Perlu frá Mosfellsbæ.
 
260 í flokki sjö vetra hryssna
 
Í 7 vetra og eldri flokki hryssna voru sýndar 260 hryssur eða um 31% sýndra hrossa.
 
Með þriðju hæstu einkunn ársins var Vaka frá Narfastöðum, undan Vita frá Kagaðarhóli og Heklu frá Hofstaðaseli. Ræktendur og eigendur eru Bergur Gunnarsson og Rósa María Vésteinsdóttir. Vaka hlaut í aðaleinkunn hvorki meira né minna en 8,70, þar af 8,27 fyrir sköpulag og 8,98 fyrir hæfileika. Vaka er hárreist og býr yfir sterkri yfirlínu í baki og lend. Þá býr hún yfir óvenju mikill teygju og skrokkmýkt, hrein afrekshryssa á gangi.
 
Með aðra hæstu einkunn ársins var Viðja frá Hvolsvelli, undan Frakk frá Langholti og Vordísi frá Hvolsvelli. Ræktendur eru Ásmundur Þór Þórisson og Helga Friðgeirsdóttir en eigandi er Anja Egger-Meier. Viðja hlaut 9,00 fyrir hæfileika sem er hæsta hæfileikaeinkunn ársins, enda gæðingur á gangi og einstaklega þjál og aðgengileg í geðslagi – eðlisgæðingur sem hefur eflst með meiri þjálfun.
 
Með hæstu einkunn ársins var Elja frá Sauðholti en hún stóð einnig efst í sínum flokki á Heimsleikum í Berlín. Elja er undan Brimni frá Ketilsstöðum og Góu frá Leiru­læk. Ræktendur eru Jakob S. Þórarinsson og Sigrún Þóroddsdóttir en eigendur eru Anja Egger-Meier og Kronshof GbR. Elja er hestagull að byggingu og hæfileikum, hún er með 9,5 fyrir háls, herðar og bóga sem hún nýtir frábærlega í reið og 9,0 fyrir samræmi. Þá einkennast hæfileikarnir af afrekskostum og útgeislun, enda með 9,0 fyrir tölt, skeið og vilja og geðslag og 9,5 fyrir fegurð í reið. Þá er gaman að geta þess að Maístjarna frá Árbæjarhjáleigu II hlaut 10 fyrir hægt tölt á árinu, enda býr hún yfir einstöku jafnvægi, burði, mýkt og fjaðurmagni á hægu tölti. Hún er undan Óskari frá Blesastöðum 1A (en hann hlaut einnig 10 fyrir hægt tölt á sínum tíma) og Móu frá Skarði. 
 
56 hrestar í flokki sjö vetra stóðhesta
 
Í 7 vetra og eldri flokki stóðhestar voru sýndir 56 hestar eða tæplega 7% sýndra hrossa.
 
Með þriðju hæstu einkunn ársins var Nökkvi frá Syðra-Skörðugili, undan Aðli frá Nýja-Bæ og Láru frá Syðra-Skörðugili, ræktandi er Einar E. Gíslason en eigendur eru Frímann Frímannsson og Nökkvafélagið ehf. Nökkvi er landsþekktur hestur enda stóð hann efstur í B-flokki á Landsmóti 2016 á Hólum en var nú sýndur sem alhliða hestur og hlaut 9,0 fyrir skeið. Nökkvi hlaut 8,55 fyrir sköpulag og 8,73 fyrir hæfileika, þar af 8,5 fyrir tölt, 9,5 fyrir brokk og 9,0 fyrir vilja og geðslag og fegurð í reið. 
 
Með aðra hæstu einkunn ársins var Nói frá Stóra-Hofi, undan Illingi frá Tóftum og Örk frá Stóra-Hofi. Ræktandi er Bæring Sigurbjörnsson. Nói er vel og reiðhestslega gerður hestur með 8,68 fyrir byggingu, þá er hann skrokkmjúkur, viljugur og þjáll og einstaklega jafnvægisgóður og flinkur á skeiði enda með 9,5 fyrir skeið og vilja og geðslag. 
 
Með hæstu einkunn ársins í elsta flokki stóðhesta og yfir landið í ár var Draupnir frá Stuðlum, undan Kiljan frá Steinnesi og Þernu frá Arnarhóli. Ræktendur er Edda Björk Ólafsdóttir og Páll Stefánsson og þau eru einnig eigendur ásamt Austurás hestum ehf. Draupnir er stórglæsilegur i byggingu og verðmætur m.a. vegna mikillar framhæðar í byggingunni, tengsl herða og frambaks er afar há og sterk og það munar 8 cm á hæðinni á herðar og lend sem er með því meira sem gerist, þá er hann afar fótahár og reistur. Ganghæfileikar einkennast af fjölhæfni, virkjamiklu skrefi, traustri lund og fasmikilli framgöngu enda með 8,97 fyrir hæfileika sem er hæsta hæfileikaeinkunn sem stóðhestur hlaut á árinu.
 
Þá má geta þess að Ljúfur frá Torfunesi hlaut 10 fyrir tölt á árinu; einstaklega flinkur, taktöruggur og burðarmikill á tölti. Hann er undan Grun frá Oddhóli og Töru frá Lækjarbotnum. Ljúfur býr yfir afar sterkri yfirlínu sem gefur mikla möguleika í ræktun; hann hefur afar langa og hvelfda yfirlínu í háls og þá er bakið afar burðarmikið, enda með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og 9,5 fyrir bak og lend. 
 
Það eiga gæðingarnir sammerkt og þeir sem tæpt hefur verið á í þessari samantekt, að búa yfir sterkri yfirlínu og jafnvægisgóðri byggingu; það er byggingin sem gefur hrossum alla þá möguleika til afkasta sem við erum að leita eftir sem síðan viljinn, geðslagið og rétt þjálfun geta framkallað.
 
Heilbrigðisskoðanir kynbótahrossa
 
Heilbrigði kynbótahrossa var skoðað eins og undanfarin ár, bæði fyrir og eftir dóm. 
Allir áverkar sem hrossin hlutu í dómi voru stigaðir í þrjá flokka og átti þetta við bæði særindi í munni og ágrip á fótum. Fyrsta stigs athugasemdir teljast ekki vera eiginlegir áverkar en eru t.d. særindi í munni sem ná ekki í gegnum slímhúð eða strokur á fótum sem ná ekki í gegnum húð og eru án eymsla eða bólgu. 
 
Annars stigs athugasemdir eru áverkar, s.s. lítil sár í munni eða á ágrip á fótum sem ná þó ekki einum cm. 
Þriðja stigs athugasemdir eru alvarlegir áverkar og á þá lund að hrossið hlýtur ekki reiðdóm og getur ekki mætt til yfirlitssýningar. Skráð voru ágrip á fótum í 19% tilfella sem er hærra en í fyrra en þá var tíðni ágripa 14,5%. 
 
Megnið af þessum athuga­semdum eða 62% voru í flokki 1, tíðni eiginlegra áverka á fótum (flokkar 2 og 3) var því um 5% (sem er afar svipað og í fyrra) þar sem áverkar af þriðja stigi voru 4 á árinu eða innan við 0.5%. Þá voru skráð særindi eða blóð í munni í 3% tilfella og var í nær öllum tilfellum um 1. stigs særindi að ræða. Það má því segja að staðan á þessum málum sé ásættanleg þar sem tíðni eiginlegra áverka er lág og er ekki að hækka marktækt á milli ára. 
 
Það verða þó allir sem koma að sýningunum að vera á tánum í þessum efnum en sem betur fer hafa sýningarnar verið að þróast í rétta átt á síðastliðnum árum, uppistaðan er hestvænar sýningar og svo dæmi sé tekið þá var enginn áminntur í ár fyrir grófa reiðmennsku.
 
Starfsfólk og staðarhaldarar
 
Að lokum er rétt og ljúft að þakka öllu starfsfólki sýninganna fyrir vel unnin störf á árinu. Þetta er samhentur og reynslumikill hópur; hvort sem það eru dómarar, sýningarstjórar og ritarar. Einnig vil ég þakka gott samstarf við staðarhaldara á hverjum stað en alls staðar er verkefninu tekið af áhuga og metnaði og reynt að hafa alla þætti sýninganna sem besta. Þá vil ég þakka sýnendum, ræktendum og eigendum hrossanna fyrir skemmtilega viðkynningu og gott samstarf á árinu.  
Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...