Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Svínakjöt er í fyrsta sinn í sögunni komið fram úr íslensku kindakjöti í sölu
Mynd / smh
Fréttir 11. febrúar 2021

Svínakjöt er í fyrsta sinn í sögunni komið fram úr íslensku kindakjöti í sölu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Framleiðsla á kjöti á Íslandi dróst saman um 2,1% á síðasta ári og kjötsalan dróst saman um 5,4%, samkvæmt tölum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Athygli vekur að sala á kindakjöti, sem áður fyrr var langmest selda kjötafurð landsmanna, er nú í fyrsta sinn komin niður í þriðja sæti, á eftir alifuglakjöti og svínakjöti.

Líkur benda til að gríðarlegur samdráttur í ferðaþjónustu vegna COVID-19 skýri samdrátt í heildarsölu á kjöti að mestu leyti. Ef það er rétt bendir aukning á framleiðslu og sölu á svínakjöti á síðasta ári til þess að aukinni sölu á svínakjöti vegna ferðamanna á árunum fyrir COVID-19 hafi verið að mætt að öllu leyti með innflutningi á svínakjöti og rúmlega það. Enda var samdráttur í framleiðslu og sölu á íslensku svínakjöti á árinu 2019.

Neyslumynstur breytist en alifuglakjötið enn langvinsælast

Greinilegt er að neyslumynstur neytenda er að breytast tiltölulega hratt ef bornar eru saman breytingar á sölu á ýmsum kjötafurðum íslenskra bænda á liðnum árum. Þar er alifuglakjötið búið að tróna á toppnum hvað sölu varðar í nokkur ár og kindakjöt hefur verið þar á eftir.

Salan á alifuglakjöti 2020 nam tæplega 9.039 tonnum, en hún var tæplega 9.797 tonn árið 2019. Samdrátturinn í sölu alifuglakjöts nam því rúmum 726 tonnum á árinu 2020, en samt er langsamlega mest selt af þeirri kjöttegund. 

Svínakjötssalan fer fram úr kindakjötinu í fyrsta sinn

Nú hefur salan á svínakjöti í fyrsta sinn í sögunni farið fram úr sölu á kindakjötinu og er komið í annað sætið. Á síðasta ári voru seld rúmlega 6.810 tonn af svínakjöti frá afurðastöðvum en rúmlega 6.204 tonn af kindakjöti.

Sem dæmi um breytingarnar þá var hlutdeild kindakjöts í sölu 25,4% af heildarsölu á kjöti árið 2017. Það hlutfall er nú komið niður í 22,6% og svínakjötssalan er komin í 24,9% hlutdeild. Alifuglakjötið er samt enn á toppnum með 33% hlutdeild. Í fjórða sæti er svo nautgripakjöt með tæplega 4.668 tonna sölu og 17% hlutdeild. Minnst er, eins og áður, selt af hrossakjöti og dróst salan á því saman um 7,1% á síðasta ári og endaði í rúmum 683 tonnum. 

Aukin svínakjötsframleiðsla vegur upp samdrátt í alifuglakjöti

Ef litið er á stöðuna í framleiðslu á kjöti er ljóst að samdráttur hefur orðið í framleiðslu á öllum tegundum af kjöti, nema svínakjöti. Mestur var samdrátturinn hlutfallslega í framleiðslu á alifuglakjöti. Þar dróst framleiðslan saman úr rúmum 9.589 tonnum árið 2019 í rúm 9.070 tonn. Þetta er samdráttur upp á 518,9 tonn, eða um 5,4%. Hefur hlutdeild alifuglakjöts af heildarframleiðslunni lækkað úr 30,2% árið 2019 í 29,2% árið 2020.  Þessi minnkun í framleiðslu á alifuglakjöti skilar sér öll og rúmlega það í aukinni framleiðslu á svínakjöti. Af því voru framleidd tæplega 6.534 tonn árið 2019, en tæplega 6.813 tonn árið 2020. Hefur hlutdeild svínakjöts í heildarframleiðslu á kjöti á Íslandi aukist úr 20,6% árið 2019 í 21,9%. Í öðrum kjötgreinum eru sáralitlar breytingar á hlutdeild í framleiðslunni. 

Samdráttur í framleiðslu á kindakjöti og nautakjöti

Þótt kindakjötsframleiðslan hafi dregist saman úr rúmum 9.719 tonnum árið 2019 í tæp 9.477 tonn árið 2020, eða um tæp 242,4 tonn, lækkaði hlutfall þess í heildar-framleiðslunni ekki nema um 0,1%, eða úr 30,6 í 30,5%. 

Framleiðslan á nautgripakjöti minnkaði úr tæpum 4.826 tonnum árið 2019 í rúm 4.652 tonn á árinu 2020, sem var 3,6% samdráttur. Hlutdeild þess í heildarframleiðslunni lækkaði þó lítið, eða úr 15,2% í 15%. 

Hlutdeild hrossakjötsframleiðslunnar stóð í stað á milli ára í 3,4%, þrátt fyrir samdrátt í framleiðslu upp á tæp 19 tonn. Þannig voru framleidd rúm 1.085 tonn af hrossakjöti árið 2019 en rúm 1.066 tonn  á árinu 2020. 

Hefur hrossakjötsframleiðslan haldið sér nokkuð vel eftir mikla aukningu á árinu 2019 þegar framleiðslan jókst um 15,6% á milli ára. Hins vegar hefur salan á innanlandsmarkaði dregist saman um 7,1% og útflutningur dróst líka verulega saman, eða um 10,1%. Kemur þetta fram í töluverðri birgðasöfnun á hrossakjöti. 

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...