Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands
Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands
Mynd / smh
Fréttir 10. apríl 2025

Stuðningur við innleiðingu á LED-ljósabúnaði

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orkuog loftslagsráðherra hefur ákveðið að styðja garðyrkjubændur í ylrækt til fjárfestinga við innleiðingu á LED-ljósum í gróðurhúsin, sem talið er að geti minnkað raforkunotkun gróðurhúsa um 40–60 prósent.

Stuðningsupphæðin nemur 160 milljónum og samkvæmt upplýsingum sem fengust úr umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er unnið að útfærslu á fjárfestingastuðningnum. Gert sé ráð fyrir að styrkir verði veittir til framleiðenda garðyrkjuafurða vegna fjárfestinga í orkusparandi búnaði, svo sem LED-ljósabúnaði, tölvu- og stýribúnaði og gardínukerfum.

Reiknað er með að styrkhlutfall verði 40 prósent og hámarksstyrkur 15 milljónir fyrir hvern framleiðanda og að opnað verði fyrir umsóknir um næstu mánaðamót. „LED-ljósabúnaðurinn er mjög dýr og því er fjárfestingastuðningurinn úr umhverfis-, orkuog loftslagsráðuneytinu afar kærkominn, en þetta er mikill ávinningur fyrir alla því þetta er svo ofboðslega mikil orkusparandi aðgerð. Ég er sjálfur byrjaður að prófa LED-ljósin með gömlu perunum á ákveðnum svæðum í rósaræktuninni á okkar stöð og það hefur virkað mjög vel,“ segir Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands, sem er blómabóndi og rekur garðyrkjustöðina Espiflöt í Reykholti í Bláskógabyggð.

LED-lýsingin betri í dag

„Ég myndi segja að LED-lýsingin væri í dag orðin betri en gömlu HPS-ljósin. En þetta hefur verið nokkuð lengi á leiðinni frá því fyrst var farið að tala um þessa nýja ljósatækni,“ segir Axel.

Vandamálið við LED-ljósin sé að þau gefi engan hita frá sér, sem sé mjög óheppilegt miðað við hvernig gróðurhús eru hönnuð. „Þess vegna þurfa garðyrkjubændur í ylrækt að fara í endurhönnun á sínum húsum, því HPS-ljósin eru á útleið og talað um að þau verði bönnuð á næstu árum.

Það er töluverð fjárfesting sem þessu fylgir, enda þarf að setja upp sérstakar gardínur til að halda hitanum inni í húsunum, nýjan rakabúnað til að stýra rakanum og jafnvel stækka hitakerfin.

Það er alveg ljóst að þessi innleiðing verður tekin í skrefum og þá erum við að tala um að taka jafnvel annað hvert ljós inn sem LED-ljós til að byrja með en nota HPS-ljósin á móti til að nýta hitann frá þeim.“

Sparnaður fyrir ríkissjóð

Axel segist vonast til þess að garðyrkjubændur verði duglegir að fullnýta þessar 160 milljónir næstu 2 árin til að sýna fram á að þörf hafi verið fyrir stuðningnum og þann árangur sem getur hlotist af þessu. Það séu mikil tækifæri hjá garðyrkjubændum að fara betur með auðlindir landsins. Til langs tíma muni þessi aðgerð einnig spara ríkisjóði fjármuni í formi endurgreiðslu á dreifingarkostnaði raforku til garðyrkjubænda sem og skilað aukinni framleiðslu á markað.

Jóhann Páll sagði í sérstökum umræðum um orkumál á Alþingi 27. mars að almennar aðgerðir varðandi orkuöryggi og jöfnun dreifikostnaðar raforku dygðu garðyrkjubændum ekki einar og sér. Áratugir væru síðan stjórnvöld réðust síðast í skipulegan fjárfestingastuðning í þeirra þágu.

Skylt efni: LED ljós

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...