Stóra-Mörk slær met
Afurðahæsta kúabú landsins árið 2024 var StóraMörk 1 í Rangárþingi eystra með 9.084 kílógrömm eftir árskú.
Þetta er annað árið í röð sem kýrnar á Stóru-Mörk 1 eru afurðahæstar á landinu. Að þessu sinni slá þær Íslandsmet og er þetta í fyrsta skiptið sem ársafurðir á einu almanaksári fara yfir 9.000 kílógrömm eftir árskú á einu búi. Á Stóru-Mörk búa bændurnir Aðalbjörg Ásgeirsdóttir og Eyvindur Ágústsson.
Engar óþarfa breytingar
Aðalbjörg segir í samtali við Bændablaðið að lykillinn að þessum árangri sé mikil vinna og vandvirkni. „Við pössum okkur að gera aldrei mistök og hafa alla daga eins allan ársins hring. Allar óþarfa breytingar leggjast illa í kýr,“ segir hún.
Hjónin leggja mikið upp úr gæðum og einsleitni gróffóðursins, og því eru öll tún með eins ræktun og heyjuð þrisvar á hverju sumri. Þar með eru grösin slegin á réttu þroskastigi og óþarft er að bíða eftir auknum vexti til að fá nægt magn uppskeru. Þau gefa tvær tegundir af fóðurbæti og fá nythærri kýr kjarnfóður með meira próteini.
Halda hjörðum aðskildum
Kúabúið í Stóru-Mörk er tvískipt, en Aðalbjörg og Eyvindur hafa verið í búskap á Stóru-Mörk 3 frá árinu 2010 og keyptu Stóru-Mörk 1 árið 2019. Þar sem þau fengu ekki heimild til að sameina framleiðslurétt þessara búa hafa þau haldið aðskildu skýrsluhaldi. „Þó vissulega gangi kýrnar saman í sama fjósi og séu mjólkaðar í sömu róbótum er allt utanumhald aðskilið,“ segir hún.
Meðalnyt hjarðarinnar frá Stóru-Mörk 3 voru í kringum 7.600 kílógrömm. „Hvað útskýrir þennan mun veit ég ekki. Við höfum ekki fært einn einasta grip á milli, þannig að við erum ekki í skýrsluhaldsfiffi,“ segir Aðalbjörg og tekur fram að þá gæti meðaltal Stóru-Markar 1 verið mun hærra.
„Við höfum haldið þessu aðskildu út af þessu flækjustigi, en svo kom skemmtilega á óvart að það væri svona mikill munur á milli hjarða,“ segir hún en telur sennilegt að skýrsluhaldið verði sameinað í náinni framtíð. Á Stóru-Mörk 1 eru 38 kýr og á Stóru-Mörk 3 eru þær 84 talsins.
Nánar má lesa um niðurstöður skýrsluhaldsársins hjá mjólkurframleiðendum á bls. 38–39 í nýju Bændablaði sem kom út í dag.