Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Sólarorkan er hvað fremst í flokki í vexti hreinna raforkukerfa.
Sólarorkan er hvað fremst í flokki í vexti hreinna raforkukerfa.
Mynd / EA
Fréttir 16. maí 2025

Sólarorka knýr hreinorkuvöxt heimsins

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Framleiðsla hreinnar endurnýjanlegrar orku hefur aukist verulega samkvæmt nýrri alþjóðlegri samantekt.

Hitabylgjur, gervigreind, gagnaver og rafknúin farartæki eru meðal þess sem knýr vaxandi raforkuþörf heimsins. Yfir 40% raforku jarðar voru framleidd með lágkolefnisuppsprettum í fyrra, skv. nýlegri skýrslu hugveitunnar Ember (Global Electricity Review). Það er met sem ekki hefur verið slegið síðan á fjórða áratug síðustu aldar, þegar raforkukerfið á heimsvísu var 50 sinnum minna en það er í dag, og vatnsaflið stóð undir mestu af því.

Árleg raforkuframleiðsla með endurnýjanlegum hætti jókst um 50% á árinu 2023 og nam tæplega 510 gígavöttum skv. skýrslu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA) frá í fyrra.

IEA spáir því að við núverandi stefnu og markaðsaðstæður muni endurnýjanleg orkugeta á heimsvísu ná 7.300 gígavöttum árið 2028. Slíkur vöxtur á orkugetu heimsins myndi þá aukast ca. 2,5 sinnum miðað við núverandi umfang árið 2030, en yrði þá engu að síður undir loftslagsmarkmiði COP28 um að þrefalda orkuframleiðslu.

IEA bendir á að 96% nýrra sólar- og vindorkuvera hafi verið með lægri framleiðslukostnað en ný kola- og jarðgasver á árinu 2023. Þá hafi um 75% vind- og sólarorkuvera boðið upp á ódýrari raforku en núverandi orkuver sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.

Sólarorkan knýr vöxtinn

Nú er það sólarorkan sem er hvað fremst í flokki í vexti hreinna raforkukerfa. Alþjóðleg sólarframleiðsla er til dæmis orðin nógu viðamikil til að knýja allt Indland, segir í skýrslu Ember.

Losun orkugeirans náði þó einnig sögulegu hámarki á síðasta ári, eða 14,6 milljörðum tonna af CO2 . Megin ástæða þess er talin þörf fyrir kælingu í hitabylgjum, þar sem 2024 varð heitasta ár sem sögur fara af og undirstrikar hversu brýnt er að breyta orkunni. Innrásarstríð Rússa í Úkraínu kenndi Evrópu erfiða orku-lexíu og hefur verið hvati til að herða m.a. á hreinorkuframleiðslu. Endurnýjanlegar orkuauðlindir eru orðnar hluti af vörnum Evrópu.

Átta lönd í Evrópu nýta endurnýjanlega orku í meira en helming af hitunar- og kæliþörf sinni. ESB er langt á undan meðaltali á heimsvísu, eftir að hafa framleitt 71% af raforku sinni með hreinum orkulindum árið 2024, þ.á.m. kjarnorku. Í Evrópu er einnig löng hefð fyrir nýtingu vatnsorku, og vindorka hefur sótt verulega í sig veðrið.

„Evrópa hefur styrkt alþjóðlega forystu sína í hreinu afli,“ sagði dr. Beatrice Petrovich, sérfræðingur hjá Ember í samtali við Euronews Green á dögunum. „Álfan er að sýna veröldinni hvernig á keyra upp hlut endurnýjanlegrar orku í raforkublöndunni, með næstum helmingi (47%) frá sól, vindi og vatnsorku á síðasta ári,“ sagði hún. Vindorka nam 18% af orkuframleiðslu ESB í fyrra.

Sólarorkuframleiðsla í ESB hartnær tvöfaldaðist á þremur árum til 2024, með 11% hlutfall framleiddrar raforku og fór fram úr kolaknúinni orku í fyrsta skipti.

Kína með afgerandi sólarorkuforystu

Sjö aðildarríki ESB eru í hópi 15 efstu landa með hæsta hlutfall sólarframleiðslu um allan heim. „ESB er sólarstórveldi,“ sagði Petrovich í viðtalinu. Til að mynda hafi Þýskaland framleitt 71 teravattstund (TWst) af sólarorku á síðasta ári og komist í sjötta sæti á heimsvísu, þar sem öll lönd séu þó dvergvaxin miðað við 834 TWst framleiðslu Kína. Framleiðsla Kínverja á sólarorku stóð fyrir 53% af vexti hennar á heimsvísu í fyrra. Kína er nú stærsti framleiðandi og notandi sólarrafhlaðna í heiminum. Áætlanir eru jafnframt um að stórauka notkun vindorku og vatnsorku í landinu.

„Sólarorka er ekki saga eins lands. Víðtækur vöxtur segir í raun eitthvað um hversu sveigjanleg þessi tækni er og skalanleg,“ útskýrði Petrovich. „Jafnvel við síður ákjósanleg veðurskilyrði miðað við 2023, leiddi aukning á sólarsellupanelum – þar á meðal á húsþökum – til þess að meira rafmagn var framleitt. Vöxturinn mun halda áfram.“

Petrovich sagði kominn tíma fyrir Evrópu að sýna heiminum hvernig eigi að koma hreinu afli á næsta stig. Þ.e. að hafa enn meiri sól og vind í bland, og sveigjanleika til að nýta uppspretturnar sem best. Það þýði safn af lausnum: þ.á.m. rafhlöður fyrir orkugeymslu, snjall-rafvæðingu flutninga, bygginga og iðnaðar, og víðari raforkuflutningsnet.

„Við erum með stærsta net í heimi. Nú þurfum við að gera það snjallara, meðal annars með því að fjarlægja hindranir,“ sagði hún.

Lausnir sem hvetji og verðlauni fólk fyrir að færa neyslu sína yfir á tíma þegar nóg er af endurnýjanlegum orkugjöfum gætu einnig hjálpað – til dæmis verðhvati sem efli ökumenn í að hlaða rafbíla sína frekar að degi til en á nóttunni.

Nauðsynleg tækni er, að sögn Petrovich, þegar til. Kalifornía í Bandaríkjunum sé fyrirmyndin. Í fyrra hafi þar fimmtungi af hámarksþörf raforku á kvöldin verið mætt með rafhlöðum sem hlaðnar voru um hádegisbilið. Fyrir þremur árum hafi sú tala verið tvö prósent – líkt og staðan sé nú á sumum lykilmörkuðum Evrópu sem séu að einhenda sér í rafhlöðutækni, svo sem eins og Írland.

Evrópa tekur sólarorku-stökk

Evrópskir sólarorkugarðar halda áfram að stækka og framleiða meira rafmagn víðs vegar um álfuna. Sólarorkuframleiðsla í atvinnuskyni nam 68 TWst raforku á fyrsta ársfjórðungi 2025, 32% meira en á sömu mánuðum í fyrra og það mesta á fyrsta ársfjórðungi sem mælst hefur, samkvæmt upplýsingum frá Ember. Reuters greinir frá.

Sólarorkuframleiðsla tók stökk í öllum helstu hagkerfum í janúar til mars, þar sem Þýskaland, Pólland, Bretland og Frakkland juku öll sólarframleiðsla um meira en 25% frá sama ársfjórðungi í fyrra. Stöðug aukning á uppsettu afli hefur verið helsti drifkraftur framleiðsluaukningar og gefur til kynna að búast megi við enn meiri sólarorkuframleiðslu á næstu mánuðum, þegar geislun sólar nær hámarki í Evrópu.

Stærsti sólarorkuframleiðandi Evrópu, Þýskaland, framleiddi 11% af heildarrafmagni sínu með sólarorku á fyrsta ársfjórðungi 2025, en hafði 8% hlutdeild árið 2024.

Um 12,5 TWst sem framleidd voru af sólarverum Þýskalands á fyrsta ársfjórðungi var 27% meiri en á sama tímabili 2024 og 73% meiri en það sem framleitt var á fyrsta ársfjórðungi 2020.

Ekki er sagt óvarlegt að áætla að sólarorkuver í Þýskalandi geti framleitt meira en 25% af raforku inn á raforkukerfi landsins á næstu tveimur ársfjórðungum, jafnvel allt að 30%.

Árið 2024 komu 25% af raforku Þýskalands frá sólarorku yfir sumarmánuðina, þannig að stækkun á uppsettu afli í ár gerir 30% hlutdeildarmarkmiðið raunhæft.

Spánn átti mestu aukningu Evrópu í sólarframleiðslu á síðasta ári. Á Spáni jókst heildarframleiðsla sólarorku frá janúar til mars á þessu ári svo um 10% frá í fyrra en hlutdeild sólar í heildarraforkuframleiðslu landsins náði nýju hámarki á fyrsta ársfjórðungi, eða 15%.

Ungverjar með mesta sólarorku í mixinu

Ungverjaland er með hæsta hlutfall sólarorku í heiminum í raforkublöndu sinni, eða 25%. Er það vegna öflugs átaks í að nýta sólarorku í íbúðarhúsnæði. Átakinu er lokið en sólarsellurnar munu halda áfram að vinna starf sitt í áratugi.

Austar í álfunni er, skv. Reuters, vöxtur sólarorku í allri raforkuframleiðslu takmarkaðri, en mun samt líklega slá ný met á þessu ári.

Í Póllandi, þar sem afkastageta sólarorku jókst um 300% á milli áranna 2020 og 2023, er sólarorka á réttri leið með að fara yfir 20% af heildarraforkubirgðum á næstu tveimur ársfjórðungum. Pólland er kolaháðasta hagkerfi Evrópu, en ör vöxtur hreinna orkugjafa frá 2020 hefur gert pólskum veitum kleift að skera niður í jarðefnaháðri framleiðslu á sama tíma og heildarraforkuframleiðsla hefur verið aukin.

Milli áranna 2020 og 2024 jókst sólarorkuframleiðsla Póllands um 677%, vindorka hefur vaxið um hátt í 60% og heildarframleiðsla hreinnar orku aukist um 80%. Til að bregðast við meira raforkuframboði hefur kolaorkuframleiðsla minnkað um 15% en heildarframleiðsla jarðefnaeldsneytis um 7%. Frekari aukning á hreinni orkuframleiðslu, einkum með nýjum sólarorkubúum, gerir ráð fyrir frekari niðurskurði í notkun kola og samdrætti í notkun mengandi orkuuppspretta almennt.

Í Bretlandi var sólarorka 4% af allri raforku frá veitum á fyrsta ársfjórðungi 2025, en verður væntanlega yfir 10% af heildarrafmagni á næstu tveimur ársfjórðungum, þegar dagsbirtutími er lengstur. 

Staðan á Íslandi

Helstu orkugjafar Íslands eru þrír: jarðhiti, vatnsafl og olía (bensín, gasolía og steinolía). Jarðhiti og vatnsafl eru innlendir orkugjafar sem nýttir eru til raforkuvinnslu og hitaveitu. Olían er framleidd erlendis og flutt inn. Íslenskt hagkerfi og samfélag notar yfir milljón tonn af olíu árlega sem kostar um 160 milljarða króna.

Jarðhitinn er helsti orkugjafi Íslands (46 TWst). Við notum heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu, ásamt því að nota jarðvarma til raforkuvinnslu. Jarðvarminn er um 65% allrar orku sem við notum. Um 20% orkunotkunar Íslands er vatnsafl (14 TWst). Eftir standa 15% orkunotkunar og til að uppfylla þá þörf brennum við innfluttri olíu og bensíni á flugvélum, skipum, bifreiðum, vélum og tækjum (13 TWst).

Ísland er í 22. sæti yfir orkuframleiðslu á mann af þeim 157 ríkjum heims sem eru með yfir 100.000 íbúa.

Orkuskipti.is

Skylt efni: Sólarorka

Upphækkuð matjurtabeð hafa slegið í gegn á Akureyri
Fréttir 23. júní 2025

Upphækkuð matjurtabeð hafa slegið í gegn á Akureyri

Í gömlu ræktunarstöðinni við Krókeyri á Akureyri eru matjurtagarðar bæjarins þar...

Aukinn útflutningur á reiðhestum
Fréttir 23. júní 2025

Aukinn útflutningur á reiðhestum

Útflutningur á hrossum sveiflast nokkuð milli ára en samkvæmt gögnum Hagstofunna...

Forvarnir gegn hófsperru verði hluti af ábyrgu hestahaldi
Fréttir 20. júní 2025

Forvarnir gegn hófsperru verði hluti af ábyrgu hestahaldi

Hófsperra er kvalafullur sjúkdómur í hrossum sem sífellt er að verða algengari h...

Eyjalín sópaði að sér verðlaunum á Skeifudeginum
Fréttir 20. júní 2025

Eyjalín sópaði að sér verðlaunum á Skeifudeginum

Skeifudagurinn fór fram í blíðskaparveðri sumardaginn fyrsta á Hvanneyri þar sem...

Lítill vöxtur í kjötframleiðslu á tólf mánaða tímabili
Fréttir 19. júní 2025

Lítill vöxtur í kjötframleiðslu á tólf mánaða tímabili

Samkvæmt nýlegum gögnum Hagstofu Íslands var heildarkjötframleiðsla nú í apríl á...

Spornar gegn dvöl fólks á hættusvæðum ofanflóða
Fréttir 19. júní 2025

Spornar gegn dvöl fólks á hættusvæðum ofanflóða

Næsta haust mun Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orkuog loftslagsráðherra, mæ...

Pikkoló færir kaupmanninn aftur á hornið
Fréttir 19. júní 2025

Pikkoló færir kaupmanninn aftur á hornið

Á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu má sjá lítil viðarhús merkt Pikkoló sem er ís...

Einkunnamet slegin á vorsýningum
Fréttir 19. júní 2025

Einkunnamet slegin á vorsýningum

Glæsileg kynbótahross hafa hlotið háar einkunnir og eftirtekt fyrir framgöngu sí...