Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Úr Staðarsveit á Snæfellsnesi. Vinstra megin er Lýsuskarð síðan Lýsuhyrna, Þorgeirsfell og Þorgeirshyrna fjær.
Úr Staðarsveit á Snæfellsnesi. Vinstra megin er Lýsuskarð síðan Lýsuhyrna, Þorgeirsfell og Þorgeirshyrna fjær.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 31. október 2016

Snæfellskri sauðfjárrækt til mikils sóma

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Í engu héraði á landinu á héraðabundið sýningarhald á hrútum sér jafn langa og rótgróna sögu og á Snæfellsnesi. Laugardaginn 15. október var fáninn reistur að nýju. Snæfellingar búa líkt og sumir aðrir við það að sameiginleg sýning er ekki möguleg vegna sauðfjárveikivarna. Sýningin var að þessu sinni að Gaul í Staðarsveit vestan girðingar og í Haukatungu austan girðingar. 
 
Á báðum stöðum var sýningaraðstaða nálægt því að vera betri en á best verður kosið og glæsibragur á allri framkvæmd mikill og sýningarnar vel sóttar. Sú breyting var nú gerð að sýningarnar voru báðar samdægurs. Dómarar á sýningunni eins og oft áður voru Lárus G. Birgisson auk þess sem ég tók þátt í því starfi.
 
Meiri þátttaka en haustið 2015
 
Umtalsvert meiri þátttaka var í sýningarhaldinu en haustið 2015, nú sýndir samtals 79 hrútar. Vestan girðingar verður þátttaka vart betri en verið hefur en hrútar sýndir þar voru 55 að þessu sinni. Austan girðingar er fjárfjöldinn mestur á svæðinu en þar voru sýndir 24 hrútar og þó að það sé bragarbót frá síðasta ári eru það bændur þar á svæðinu sem enn geta gert átak í þessum efnum. Flokkun á sýningarhópana var þannig að hyrndu hvítu hrútarnir voru langflestir eða 44 samtals 22 voru í flokki þeirra mislitu (einn að vísu hvítur en ferhyrndur) og hvítu kollarnir voru 13.
 
Ótrúlega margt forvitnilegt mátti greina í sýningahópnum og verður reynt að greina frá einhverju í texta. Í heild var lambahópurinn frábær og viðlíka einstaklingar aldrei verið á samskonar sýningu á svæðinu áður. 
 
Viðurkenningar fyrir ær í BLUP kynbótamatinu
 
Sú góða hefð hefur skapast á þessum sýningum að veita í fyrstu viðurkenningar fyrir þær ær á svæðinu sem efstar standa í BLUP kynbótamatinu og hafa náð þeim árangri að fylla uppí eigin upplýsingar fyrir fjögur fyrstu afurðaárin. Að þessu sinni er það árgangur ánna fæddra árið 2011. 
 
Efsta sætið skipar þar ær 11-194 á Hjarðarfelli. Hún er úr hinni áratuga gömlu ræktun þar undan Laufa 08-848 og móðurfaðir Raftur 05-966. Þessi ær hefur áður komið við sögu þessara sýninga vegna þess að annað tvævetlulamb hennar haustið 2013 stóð þá efstur á héraðssýningu, fékk nafnið Stólpi og er nú kominn á sæðingastöð. Haustið 2015 var hún með frábæran tvílembingshrút, sem því miður lifði það ekki að komast í notkun. Að síðustu má nefna að líklega á hún óstaðfest Íslandsmet í afurðum hjá veturgömlum ám en á þeim aldri skiluðu afkvæmi hennar 55 kg af dilkakjöti í sláturhús. Hér fer því sannanlega einstakur gripur til afurða og kynbóta. 
 
Í öðru til þriðja sæti þessara áa voru síðan hálfsystur frá Mýrdal, Kvaðning 11-301 og Kvísl 11-302, en þær eru sonardætur Kalda 03-989 og hafa þaðan erft Þokugenið báðar Þessar ær hafa því oft verið þrí- eða fjórlembdar og eru hinar mestu afurðaskjóður.
 
Gullmolar úr hinni almennu ræktun
 
Í hópi mislitu hrútanna gaf á að líta fágætt úrval góðra lamba. 
 
Efsta sætið þar skipaði svartbotnóttur hrútur nr 255 frá Haukatungu. Faðir þessa lambs Kúði 14-549 átti þarna á sýningunni fjóra úrvalssyni en hann er sjálfur genginn á vit feðra sinna en hann var sonur Salómons 10-908. Í móðurætt 255 eru fjöldi þekktra sæðingahrúta og konfekt úr heimaræktun. Þessu lambi er í sem fæstum orðum lýst sem óvanalega samanþjöppuðum holdaköggli með frábær mala- og lærahold. 
 
Í öðru sæti var svartbíldóttur hrútur frá Hofsstöðum, sem ekki síður hefur af miklu ættgöfgi að státa. Faðir hans Stutti 15-210 er sonur Putta 11-921 og móðurfaðir Stutta er Mundi 10-521 í Gaul sem var þekktur héraðssýningartoppur sem hefur skilið ótrúlega mikið eftir í ræktun á svæðinu. Í móðurætt lambsins eru síðan skrautfjaðrir eins og Andrés 09-244 sem var eitt margra svartra kynbótatrölla undan Kveiki 05-965 og einnig Jón Pál 04-990 sem kom frá Hofsstöðum á stöð. Lamb 99 er stórglæsilegt, þroskamikið og bollangt með alveg frábæra holdfyllingu í öllum afturhlutanum. 
 
Þriðja sæti skipaði síðan svartkollóttur hrútur frá Hraunhálsi nr 180. Faðir þessa lambs Kópur 15-440 á síðar eftir að koma við sögu hér á sýningunni en sjálfur stóð hann í öðru sæti í þessum flokki haustið 2015. 
 
Um árabil hafa dökkir hrútar frá Hraunhálsi, flestir svartir, skipað topp eða annað sætið á þessari sýningu. Þeir eru ræktaðir kynslóð af kynslóð og afkvæmi Kóps í haust finnst mér sýna óvanalega festu komna í þessa ræktun. 
 
Á sýningunni koma fram þrír úrvalshrútar undan Kópi úr hópi fárra afkvæma. Rekur mig ekki minni til jafn sterkrar ræktunar í kollótta fénu á þessu svæði. Lambið 180 státar af þeim Sigurfara 09-860 og Frakkssyni 04-974 í móðurætt. Lamb þetta er frábærlega velgert með góða bollengd og gríðarlega góða holdfyllingu. 
 
Ég rek talsvert ættir þessara mislitu lamba til að sýna að þetta eru aðeins gullmolar úr hinni almennu ræktun sem sumir hafa skipt um ytra gervi. Þetta er ákaflega ánægjuleg breyting sem er þannig að verða í ræktun mislita fjárins víðast um land.
 
Kópur hlýtur að koma á áhorfslista stöðvanna
 
Annað atriði vil ég nefna að í skrifum um sýninguna 2015 íja ég að því að mögulega megi sjá einhverja toppana inná stöðvunum á næstu árum úr þeim hópi. Þá var ég ekki að horfa til mislitu hrútanna. Kópur er þegar nefndur og hlýtur þegar að koma á áhorfslista stöðvanna. 
 
Efsti hrúturinn í þessum flokki 2015 sem var frá Álftavatni var seldur að Neða-Hóli og heitir þar Valdi 15-247. Undan honum var á sýningunni hópur sona, flestir hvítir, alger úrtökulömb. Þess má geta að mæður þessara lamba munu flestar afkomendur Mundasonar í Gaul, sem einnig er áður nefndur og lömbin því ögn skyldleikaræktaðir afkomendur hans. Valdi er tvímælalaust hrútur sem horft verður til.  
 
Kollóttu hrútarnir ákaflega vel gerðir
 
Kollóttu hrútarnir voru fæstir en ákaflega vel gerðir og góð lömb. 
 
Efsta sæti þar skipaði lamb nr 63 í Dalsmynni. Þetta er ákaflega föngulegt lamb, jafnvaxið með afbrigðum, bollangt með feikilega góða holdfyllingu. Föðurfaðir þessa lambs er Sproti 12-936 en móðir lambsins var fengin frá Bassastöðum úr landsþekktri ræktun þar. Uppruna líklega best lýst sem Árneshreppskind að mestu ræktuð utan sveitar. 
 
Í öðru sæti kollanna var hrútur nr 8 úr Bjarnarhöfn. Þetta lamb er frábærlega holdfyllt, sértaklega lærahold og minnti í útliti ögn á Texel lömb. Hrúturinn er hreinhvítur og má helst að finna, að bollengd er ekki nema í góðu meðallagi. Faðir lambsins er fenginn frá Árbæ og undan Spotta 13-942 en móðurfaðir lambsins Steri 07-855 og lambið því nokkuð skyldleikaræktaður afkomandi Stera. 
 
Í þriðja sætinu var síðan hrútur 219 frá Hraunhálsi en hann líkist um gerð ákaflega mikið Bjarnarhafnarhrútnum nema meðan hann er hreinhvítur er þessi ögn guldröfnóttur. Þessi hrútur er undan Kópi 15-440 sem þegar hefur nokkuð verið fjallað um. 
 
Þrír hyrndir austan girðingar í verðlaunasæti
 
Í stærsta flokknum meðal hyrndu hvítu hrútanna urðu ákveðin kaflaskil. Ósjaldan hafa öll efstu sætin í þessum flokki fallið í hlut hrúta vestan girðingar en það gerist nú fyrsta sinni að öll þrjú efstu sætin komu í hlut hrúta austan girðingar.  
 
Efsta sætið og um leið efsta sæti sýningarinnar og þar með um leið gerði eigandann að handhafa hins glæsilega verðlaunaskjaldar sem hefur verið farandgripur á svæðinu í meira en sex áratugi var lamb 17 í Haukatungu. Þetta lamb er einstakt djásn að allri gerð. Hann er rígvænn, mjög bollangur, sterkbyggður og jafnvaxinn. Vöðvafylling hjá þessum einstaka glæsigrip var einnig með fádæmum mikil. Bakvöðvi mældist 37 mm og fékk hann 5 fyrir lögun hans. Þetta metfé er sonur Garra 11-908 en synir hans eru frekar fátíðir þetta haustið eftir ofurnotkun tveggja undangenginna ára. Í móðurætt standa ýmsir af sterkustu gripum ræktunarinnar í Haukatungu að baki. Þess má geta að 2014 hlotnaðist öðrum Garrasyni í Haukatungu efsta sætið þá á héraðssýningu og fetar sá líklega inná stöðvarnar til notkunar í haust. 
 
Í öðru sæti var lamb nr 23 í Dalsmynni. Þetta var jafnvel enn meira djásn en topphrúturinn á velli en hann var tæplega jafningi hans um lærahold en frábær að allri gerð. Þessi hrútur er einnig úr sæðingum sonur Tanga 13-954 en það var hrútur sem bændur sýndu almennt takmarkaðan áhuga á að nota síðasta vetur og því með ólíkindum hve frést hefur af mörgum metfjárlömbum undan Tanga á þessu hausti. Móðurfaðir 23 er Gotti 05-804. 
 
Í þriðja sætinu kom síðan hrútur nr 185 í Haukatungu. Aðalsmerki þessa hrúts eru frábær vöðvafylling og sérstaklega föst hold auk glæsileika að allri gerð. Faðir hans Stefán 15-503 var fenginn austan frá Leifsstöðum í Öxarfirði af þekktustu hrútaættum þar á svæði nú um stundir en móðurættin úr Haukatungufénu þar sem margan gullmolann er orðið að finna.
 
Örfáum orðum skal vikið að áhrifum sæðinganna. Allir topphrútarnir eru tilkomnir meira eða minna fyrir áhrif sæðinga eins og þegar er fjallað um. Hrútar beint tilkomnir við sæðingar voru færri en stundum áður og það sem var sérstakt var að þar var eingin tiltekin hópur hálfbræðra sem setti svip á sýninguna eins og yfirleitt hefur verið heldur voru lömb undan fjölmörgum stöðvarhrútum. Þetta er rétt notkun á þessum hrútum vegna þess hve margir þeirra eru orðnir svipaðir að gæðum. Einkenni þessara sýninga voru ótrúlegir hópar undan veturgömlum heimahrútum. Þrír hafa þegar verið nefndir, þeir voru fleiri og minnist ég aldrei áður að hafa séð hliðstæðu við þetta ræktunarafrek, sem að hluta hlýtur að vera tilviljun. 
 
Snæfellskri sauðfjárrækt til mikils sóma
 
Sýning þessi var líkt og fyrri hliðstæðar sýningar snæfellskri sauðfjárrækt til mikils sóma. Ræktunarstarfið í sauðfjárrækt stendur á traustari og samfelldari grunni en í flestum öðrum héruðum landsins. 
 
Almennur áhugi á ræktunarstarfi á meðal fjáreigenda er og hefur verið mikill hvort sem um er að ræða dreifbýli eða þéttbýli á svæðinu. Svæðið vestan girðingar hefur nú á þriðja áratug verið eitt meginfjársölusvæði landsins. 
 
Á heildina litið held ég að reynsla bænda á öðrum svæðum af fjárkaupum þaðan sé mjög góð. Margir hafa sótt sér þangað ómetanlegt kynbótafé og mundu vart halda slíku áfram haust eftir haust nema hafa sannfærst um að þar má sækja í sterka stofna.  Um það er tæplega ástæða til að efast fyrir þá sem sáu glæsigripina á sýningunni 2016. 
Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...