Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Tveim sólarhringum á eftir áætlun vegna veðurs kemur síðasta féð niður af Grímstunguheiði. Á innfelldu myninni má sjá aðgöngumiða sem bændum í Hofi var úthlutað vegna smalamennsku í Undirfellsrétt.
Tveim sólarhringum á eftir áætlun vegna veðurs kemur síðasta féð niður af Grímstunguheiði. Á innfelldu myninni má sjá aðgöngumiða sem bændum í Hofi var úthlutað vegna smalamennsku í Undirfellsrétt.
Mynd / HLJ
Fréttir 11. september 2020

Smalað í Undirfellsrétt í Vatnsdal undir ströngum sóttvarnareglum

Höfundur: Hjörtur L. Jónsson / Hörður Kristjánsson

Það var ljóst löngu fyrir smölun búfjár af fjalli að víða yrði smölun og réttir þetta „COVID-ár“ með öðru fyrirkomulagi en hefðin hefur verið í gegnum árin og aldir. Væntanlega hefur engan órað fyrir því að þetta ár yrði ekki bara öðruvísi vegna COVID-19 því að veðrið breytti líka upphaflegu áætluninni um smölun.

Hjörtur Leonard Jónsson fór í Undirfellsrétt eins og svo oft áður. Sagðist hann að um leið og hann aflaði frétta fyrir lesendur Bændablaðsins hafi hann verið að reyna að vinna fyrir fæði og húsnæði með heimilis­fólkinu á Hofi. Taldi hann sig hafa skilað nokkuð góðu verki þetta árið.

Ýmis tilmæli vegna sóttvarna­reglna þurfti að uppfylla

Settar voru fjöldatakmarkanir á mannskap í réttir vegna COVID-19, en undanþága var fengin til að vera með 150 manns í Undirfellsrétt. Þetta er ein stærsta fjárrétt landsins með um 15–17.000 fjár samkvæmt heimildum, en hefur farið alveg upp í 22–24.000 fjár þegar mest var.

Sérstakir aðgöngumiðar

„Hver bær fékk aðgöngumiða í réttina og með þeim tilmælum að deila út miðunum til sinna manna, helst þeirra sem „röskir væru og duglegir við fjárúrdrátt“. Eftir á að hyggja hefði eflaust mátt stunda svartamarkaðsbrask með þessa miða,“ sagði Hjörtur, enda vinsælt að komast í réttir.

Inni í réttinni á áberandi stað var sprittbrúsi samkvæmt sótt­varnareglum. Við veginn að réttinni var sóttvarnafulltrúi sem átti að sjá til þess að enginn óviðkomandi færi í réttina báða réttardagana.“

Svona var staðan þegar lagt var upp frá Öldumóðsskála á Grímstunguheiði í vonskuveðri föstudaginn 4. september. Knapinn á myndinni heitir Karl Gústaf Davíðsson.  Mynd / Holger Páll Sæmundsson

Aldrei áður þurft að fresta réttum um tvo sólahringa

Venjan er sú að fyrstu menn fara suður að Langjökli á sunnudagseftirmiðdegi og byrja að smala Fljótsdrög sem eru norður af Langjökli. Fyrstu tveir dagarnir voru nokkurn veginn á áætlun, en á þriðja degi smölunar, miðvikudag, kom þoka og ekkert hægt að smala. Sama var á fimmtudag, þoka og snjóföl yfir öllu efst á heiðinni og ekkert smalaveður framan af degi. Þetta þýddi að upphafleg áætlun hafði raskast og að réttir myndu frestast um tvo daga, eða frá föstudegi og laugardegi fram á sunnudag og mánudag.

Samkvæmt orðum Jóns Gísla­sonar á Hofi minnist hann þess ekki að nokkurn tímann hafi þurft að fresta fyrstu réttum í tvo daga áður vegna þoku. Hann man samt að nokkrum sinnum hafi orðið sólahringsfrestun á smalamennskunni.

Á föstudeginum gekk smölun vel bæði á Grímstunguheiði og Haukagilsheiði og enn betur gekk að smala á laugardegi þegar Grímstunguheiðin var kláruð.

Smalað og réttað á sama tíma

Fyrr en venjulega fóru smalamenn fram á Haukagilsheiði til ­að klára smölunina á meðan safnið af Grímstunguheiðinni var rekið í réttina og dregið í sundur. Þrátt fyrir að óvenju fátt fólk hafi verið í réttinni kláraðist að draga féð í sundur á óvenju skömmum tíma.
Stuttu seinna kom safnið af Haukagilsheiðinni niður af fjallinu og eftir stutta hvíld var byrjað seinnipart sunnudags að draga féð í sundur. Dregið var fram í myrkur á sunnudagskvöldinu og vantaði ekki mikið upp á að hægt hefði verið að klára.

Margir keyrðu féð heim á vögnum og í kerru

Greinilegt að margir bændur höfðu útbúið vagna og kerrur til að aka fénu heim því að almennt krefst rekstur mikils mannskapar sem ekki var í boði í þetta sinn. Það var því töluverð umferð fram og til baka yfir Vatnsdalsána. Þeir fáu sem ráku sitt fé heim voru frekar fáliðaðir og alveg á mörkunum að vera nógu margir.

Á mánudeginum fyrir hádegi kláraðist að draga allt fé og vinir og vinnumenn fóru til síns heima. 

12 myndir:

Hópur af sauðfé

Skylt efni: réttir | smalamennska

Miðaldaminjar fundnar í Grímsey
Fréttir 17. maí 2022

Miðaldaminjar fundnar í Grímsey

Nú er unnið að undirbúningi kirkjubyggingar í Grímsey en smíði hennar mun hefjas...

Fjórtán ára meðhjálpari í Saurbæjarkirkju
Fréttir 17. maí 2022

Fjórtán ára meðhjálpari í Saurbæjarkirkju

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson er yngsti meðhjálpari landsins því hann er aðeins 14 á...

Uppbygging hringrásarhagkerfis Mývatnssveitar
Fréttir 17. maí 2022

Uppbygging hringrásarhagkerfis Mývatnssveitar

Fyrir nokkru var undirrituð samstarfsyfirlýsing á milli Skútu­staða­hrepps og Pl...

Nesbú með nýtt lífrænt hænsnahús í Flóanum fyrir 18 þúsund fugla
Fréttir 16. maí 2022

Nesbú með nýtt lífrænt hænsnahús í Flóanum fyrir 18 þúsund fugla

Nesbú á Vatnsleysuströnd er þessa dagana að taka í notkun nýtt og glæsilegt lífr...

Kolvetnasnauðu Queen Anne kartöflurnar fá góðar viðtökur
Fréttir 16. maí 2022

Kolvetnasnauðu Queen Anne kartöflurnar fá góðar viðtökur

Nýverið kom á markað kartaflan Queen Anne frá Þórustaða Kartöflum sem hefur mun ...

Arfgerðin T137 finnst á Botnum og reynist útbreidd á Árskógsströndinni
Fréttir 16. maí 2022

Arfgerðin T137 finnst á Botnum og reynist útbreidd á Árskógsströndinni

Arfgerðar­greiningar á príon­próteini (PrP) kinda eru nú í fullum gangi. Að sögn...

„Ég hef lagt niður vopnin“
Fréttir 13. maí 2022

„Ég hef lagt niður vopnin“

Sigríður Jónsdóttir bóndi og fjölskyldan í Arnarholti í Biskups­tungum ætla að h...

Kúabændur misvel í stakk búnir til að bregðast við versnandi rekstrarhorfum
Fréttir 13. maí 2022

Kúabændur misvel í stakk búnir til að bregðast við versnandi rekstrarhorfum

Herdís Magna Gunnarsdóttir, bóndi á Egilsstöðum á Fljóts­dalshéraði, var kjörin ...