Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Rafhjólabyltingu hefur verið hrundið af stað í garðyrkjubænum Hveragerði. Þar var stofnaður Rafhjólaklúbburinn Skjaldbökurnar á sjálfum þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní. Fóru  nokkir af meðlimum klúbbsins í hópreið um Hveragerði af þessu tilefni. – Sjá
Rafhjólabyltingu hefur verið hrundið af stað í garðyrkjubænum Hveragerði. Þar var stofnaður Rafhjólaklúbburinn Skjaldbökurnar á sjálfum þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní. Fóru nokkir af meðlimum klúbbsins í hópreið um Hveragerði af þessu tilefni. – Sjá
Líf og starf 2. júlí 2018

Slys og veikindi urðu kveikjan að rafknúinni samfélagsbyltingu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Í Hveragerði hefur á liðnum misserum verið að myndast skemmtilegt samfélag áhugafólks um rafhjól. Þar er aðallega um að ræða þríhjól sem henta mjög vel til fjölþættra, nota ekki síst hreyfihömluðum og eldra fólki. Þá er ungt fólk einnig farið að kaupa slík hjól, enda þykja þau verulega „töff“. Þannig að þarna er í raun að spretta upp rafknúin samfélagsbylting.

Svavar Kristinsson hefur leitt þessa vakningu í Hveragerði en hann flutti inn fyrsta rafmagns þríhjólið frá Kína til eigin nota 2016. Hann segir rafknúin hjól af þessu tagi henta afskaplega vel til ýmissa þarfa og geti líka nýst hestamönnum þar sem enginn hávaði er frá þeim eða mengun sem fælt getur hrossin. Þá gætu þau líka hentað vel til snúninga í stórum garðyrkjustöðvum, vöruskemmum og sjálfsagt víðar.

Slys og veikindi kveiktu áhugann á rafhjólunum

Svavar segist hafa verið blessunarlega laus við öll líkamleg áföll fram til ársins 2010 en þá tók við fimm ára tímabil þar sem hann þurfti að takast á við alvarlega kaláverka á fótum, krabbamein, sem fylgdi skurðaðgerð, geisla- og lyfjameðferð og öllu sem því fylgir, hryggbrot og skömmu fyrir jólin 2015 alvarlegt fótbrot.

Eyþór H. Ólafsson, forseti bæjar­stjórnar Hveragerðis, segir þessa innleiðingu rafhjólamenningar í bænum vera mjög gleðilega og skemmtilega.

Staðan var þannig að á þessum fimm árum bjó hann við verulega skerta hreyfigetu og var að hluta bundinn við hjólastól.  Þetta hafði í för með sér mikla félagslega einangrun og hann segist hafa verið að öllu leyti háður fjölskyldu og vinum hvað varðar að komast á milli staða. Þegar hér var komið var svartsýni og kvíði farið að vera vandamál og margar spurningar vöknuðu um tilgang lífsins og framhald.

Hann segist hafa farið að skoða þann möguleika að fá farartæki hjá almannatryggingum, svokallaðar rafskutlur, en um úthlutun þeirra gilda nokkuð strangar reglur bæði hvað varðar úthlutun og hversu hratt þær mega fara. Úr varð að Svavar fór að skoða möguleikann á að flytja inn sjálfur hjól sem hentaði og eftir nokkra leit varð fyrir valinu hjól frá Tongli Motorcykle í Kína.

Félagsleg einangrun rofin með kaupum á rafknúnu þríhjóli

Í stuttu máli má segja að með tilkomu þessa hjóls hafi hans félagslega einangrun verið að miklu leyti rofin og fór Svavar að geta farið flestar sínar ferðir á eigin forsendum. Eftir á að hyggja þá sér hann hversu mikilvægur þessi þáttur er fyrir fólk sem hefur lent í álíka áföllum í lífinu og þeirra sem vegna aldurs eða glíma við stoðkerfisvandamál að hafa slík farartæki til afnota og í hans huga með ólíkindum að þessi þáttur skuli ekki hafa meira vægi í allri endurhæfingu og þá á hann við hjá því fagfólki sem hann hefur haft samskipti við á þessum árum. 

„Það atriði að fólk fari út af heimilum sínum og njóti þess að fá rigninguna í andlitið eða sólina eftir atvikum er svo mikilvægt þegar verið er að koma fólki af stað út í lífið á nýjan leik eftir áföll og þá skiptir ekki máli endilega hver fyrstu skrefin eru, gangandi eða á hjóli. Hvernig fólk þróar sína hreyfingu er svo undir hverjum og einum komið en hafa ber í huga að útiveran og það að geta bjargað sér sjálfur er svo mikilvægt á þessum fyrstu skrefum.

„Mín einangrun var algerlega rofin með þessu,“ segir Svavar sem fer yfir 90% allra sinna ferða á þessu þríhjóli sínu. Í þorpum og bæjarfélögum á landsbyggðinni, þar sem yfirleitt er stutt í alla þjónustu, ætti fólk líka í flestum tilfellum að geta látið svona farartæki duga.

Fyrirtæki stofnað um hagkvæm innkaup

Eftir því sem tíminn leið fór áhugi fólks að aukast fyrir þessum ferðamáta. Fólk sá þá möguleika sem Svavar gat nýtt hjólið sitt og úr varð að hópur fólks í Hveragerði tók sig saman um innflutning á nokkrum hjólum, sem komu til landsins í lok árs 2016.

Með þessum hjólum jókst áhuginn enn frekar og í byrjun þessa árs 2018 var ákveðið að stofna félag í kringum innflutning á hjólum sem þessum og fékk Svavar til liðs við sig Sigurjónu Báru Hauksdóttur og eiginmann hennar, Svein Óskar Þorsteinsson, sem eiga og reka fyrirtækið Rafsveinn ehf. í Reykjavík. Sigurjónu kynntist Svavar í endurhæfingu á Spítalanum í Stykkishólmi en þau eru bæði að glíma við stoðkerfisvandamál. Úr varð félagið RHF hjól ehf. Ætlun þeirra var og er að reka félagið með sem allra minnstri yfirbyggingu og sem mest á netinu. Í staðinn vilja þau geta boðið hjól á besta mögulega verði til að gera sem flestum möguleika á að eignast svona farartæki.

Hjólin flokkast undir léttbifhjól í flokki 1 í Umferðarlögum en þar er aldurstakmark 13 ár og ekki þarf nein sérstök réttindi á hjólin og tryggingar falla undir heimilistrygginguna.

 

Komast 30 til 40 km á einni hleðslu

„Það er mín reynsla að það má komast 30 til 40 km á hverri hleðslu miðað við íslenskar aðstæður.  Hver hleðsla er ein kílówattstund, sem samkvæmt gjaldskrá kostar 15 krónur. Í bæjarfélagi eins og Hveragerði getur fólk sparað sér verulegar fjárhæðir með að tileinka sér svona ferðamáta þar sem hér er ekki um svo ýkja miklar vegalengdir að ræða en samt nægilega miklar að oft þarf að nota farartæki ef tíminn er knappur eða ferðin í Bónus kallar á burð. Hér gætum við auðveldlega farið út í umræðuna um hvernig við getum aukið kaupmáttinn en látum stjórnmálamönnum og verkalýðsleiðtogum eftir þá umræðu,“ segir Svavar.

Fyrir alla aldurshópa

Hann vill taka fram að hjólin henti öllum aldurshópum. „Sá yngsti sem hefur fengið hjól hjá okkur er 14 ára og sá elsti er í dag 94 ára og notar hjólið sitt daglega. Ekki má gleyma umhverfisþættinum en eins og öll umræða hefur verið þá er það farið að skipta okkur jarðarbúa verulega miklu máli að draga úr notkun á bensíni og olíu.“

Hjólin líka hentug á golfvöllinn

„Við höfum undanfarið verið að skoða ýmsa aðra möguleika fyrir þessi hjól og létum smíða fyrir okkur festingar fyrir golfpoka með það í huga að nota mætti hjólin okkar á golfvelli landsins og sýnist okkur að þetta hafi mælst ágætlega fyrir. 

Við sendum myndir af festingunni út til framleiðanda hjólanna sem sýndi málinu mikinn áhuga en nefndi strax að betra væri að flytja inn hjólin með 1000 kW mótor í stað 500 kW eins og við höfum gert. Þá hafa hestamenn einnig sýnt hjólunum áhuga þar sem þau eru hljóðlát og fæla ekki hesta með hávaða og ef rétt er farið að þeim. Ég dreg ekki í efa að fleiri hópar sjái sér hag í að nota svona farartæki ég nefni þá t.d. vöruhús, virkjanir og verksmiðjur.“

Frumraun líkt og Tomsen-bíllinn

Fyrir ekki svo löngu var umræða um fyrsta bílinn sem kom til landsins í byrjun síðustu aldar, Tomsen-bílinn.  Ekki höfðu þá allir mikla trú á svona farartæki og þótti flestum sinn gráni merkilegri. Ég get hæglega séð okkur og aðra sem eru að flytja inn rafknúin ökutæki í svipaðri stöðu en þarna mun eins og þá þróunin í framleiðslunni og tíðarandinn hjálpa til. Fólk má ekki vera hrætt við breytingar heldur taka þeim með jákvæðu hugarfari og móta með sér afstöðu sem er byggð á þekkingu og reynslu.

Ég hef oft verið spurður hvers vegna ég ferðast um á svona farartæki og ég hef svarað því til að þessi ferðamáti henti mér afskaplega vel, ég hafi gaman af að ferðast á hjóli og ég hafi gaman af að hitta fólk, sem ég myndi án efa ekki hitta, a.m.k. jafn oft, ef ég væri á bíl. Fyrir utan það þá sæi ég verulegan fjárhaglegan ávinning að nota farartæki sem þessi, ætti meiri pening í buddunni sem gæti farið í aðra skemmtilega hluti heldur en olíu, tryggingar og bifreiðagjöld,“ segir Svavar Kristinsson.

– Taka tryggingar ekki þátt í kaupum á svona hjólum fyrir hreyfiskerta?

„Sjúkratryggingar hafa verið að kaupa hjól og lána fólki. Á því er þó sá annmarki að gerðar eru kröfur um að þau hjól fari ekki hraðar en á 10 km hraða á klukkustund. Ég er ekki viss um að við förum með okkar hjól inn í þann pakka. Það þyrfti að breyta þeim talsvert og ég held að við höldum okkur við hjól sem komast á 25 km  hraða.“

Stofnuðu Skjaldbökurnar, fyrsta rafhjólaklúbb landsins

Þessi vaxandi rafhjólamenning í Hveragerði hefur stóraukið samhug fólks sem margt var orðið félagslega einangrað. Nú er þetta fólk farið að hittast reglulega á götum bæjarins.

Var því svo komið að ákveðið var að stofna rafhjólasamtök Hveragerðis og var það gert með formlegum hætti á þjóðhátíðardegi Íslands, 17. júní. Hlutu þau nafnið Rafhjólaklúbburinn Skjaldbökurnar og er þar í gamansemi verið að höfða til bifhjólasamtakanna Sniglanna. Er þetta jafnframt fyrsti rafhjólaklúbburinn á landinu svo vitað sé. Af þessu tilefni var efnt til hópreiðar rafhjólafólks um Hveragerði á þjóðhátíðardaginn.

Með 500 eða 1.000 watta mótor

Þessi hjól eru samkvæmt lögum ekki skráningarskyld og þurfa því ekki að vera tryggð sem ökutæki. Aldurstakmark notenda er einungis 13 ár. Það má því nota þau á gangstéttum, gangstígum og hjólreiðastígum. Þar sem hámarkshraði inni í þorpinu í Hveragerði er yfirleitt ekki nema 30 km, þá eru engin vandkvæði á að nota þessu hjól í umferðinni heldur.

Mótor þeirra er 500 wött og rafhlaða 4x12 volt, eða samtals 48 volt. Hleðslutæki er 10–20 amper og tekur 6 til 8 klukkustundir að fullhlaða rafhlöðurnar. Hjólið er innsiglað þannig að þau komast ekki hraðar en á 25 km hraða. Á hjólunum eru diska- og skálabremsur og mótorbremsa.

Kraftmeiri hjól fyrir golfið og brattari brekkur

Eins og fyrr segir er hægt að fá hjól af þessari tegund með 1.000 watta mótor og 60 volta rafhlöðu. Þau henta trúlega betur ef mikið er um brekkur og ef menn ætla að nota þau t.d. í golfið. Þá gætu öflugri hjólin líka hentað betur í mörgum bæjarfélögum úti á landsbyggðinni þar sem byggt er upp í hlíðar.

Einnig er hægt að fá hjól frá framleiðanda sem komast hraðar en á 25 km hraða, en þá eru þau skráningarskyld og krefjast sértrygginga. Svavar segir það sitt mat að þegar hjólin eru gerð fyrir meiri hraða þá sé sjarminn eiginlega farinn af notkun þeirra og hagkvæmnin ekki eins mikil fyrir þann markhóp sem hann hafi verið að horfa til.

Sveitarfélagið fagnar framtakinu

Eyþór H. Ólafsson verkfræðingur er forseti bæjarstjórnar Hveragerðis. Hann segir þessa innleiðingu rafhjólamenningar í bænum vera mjög gleðilega og skemmtilega.

„Svavar hefur staðið á bak við þetta og fólk tekur þessu mjög vel. Hér eru kjöraðstæður fyrir svona rafhjól, mikið sléttlendi og þægilegt að fara um. Þá er engin hraðaumferð í gegnum bæinn svo notendur hjólanna þurfa því ekkert að óttast, enda höfum við markvisst verið að takmarka hér hraðann.

Það er ekkert hægt að neita því að bærinn er vinsæll hjá fólki sem komið er yfir 55 ára aldur og hlutfall eldri borgara því töluvert hátt. Fyrir þetta fólk eru svona hjól kjörinn ferðamáti og þegar farin að myndast ákveðin menning í kringum þetta. Það má því segja að þetta framtak sé ákveðið samfélagsverkefni  og gaman að þetta skuli einmitt gerast hér. Svavar á auðvitað heiðurinn af því. Hér má sjá menn á svona hjólum, eins og Örn Guðmundsson  sem hefur verið einn af okkar kjarnamönnum í bæjarfélaginu í gegnum tíðina.

Svo getur verið að unga fólkið koma meira inn í þetta og rafhjólin verði aðal samgöngumátinn hér innanbæjar,“ segir Eyþór. Vísar hann þar m.a. til reynslu íbúa við Miðjarðarhaf og á Kanaríeyjum þar sem skutlur af svipuðu tagi er algengur samgöngumáti.

Rafhjólamenningin gullsígildi

„Sveitarstjórnin tekur þessu mjög fagnandi. Þetta er gullsígildi og skapar aukið líf hér við aðalgötu bæjarins og dregur fólk út úr húsunum,“ segir Eyþór.

Skylt efni: Skjaldbökurnar | rafhjól

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki
Fréttir 1. desember 2023

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki

Tímamót eru í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé með nýrri nálgun stjórnvalda þa...

Birgðir kindakjöts aldrei minni
Fréttir 1. desember 2023

Birgðir kindakjöts aldrei minni

Birgðir kindakjöts í lok ágústmánaðar hafa aldrei verið minni en á þessu ári.

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið
Fréttir 30. nóvember 2023

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið

Í umræðum á Alþingi á mánudaginn um riðuveiki í sauðfé og bætur vegna niðurskurð...

Sala sýklalyfja dregst saman
Fréttir 30. nóvember 2023

Sala sýklalyfja dregst saman

Sala sýklalyfja fyrir búfé og eldisfiska í Evrópu dróst saman um 12,7% milli ára...

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið
Fréttir 30. nóvember 2023

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið

Í nýlegri skýrslu Ráðgjafar­miðstöðvar land­búnaðarins um rekstrarafkomu nautakj...

Kortlagning ræktunarlands
Fréttir 30. nóvember 2023

Kortlagning ræktunarlands

Gert er ráð fyrir að þings­ályktunar­tillaga um nýja lands­skipulagsstefnu til 1...

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum
Fréttir 27. nóvember 2023

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum

Nýtt fagstaðlaráð hefur verið stofnað undir hatti Staðlaráðs Íslands. Það verður...