Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Oddur F. Helgason að skrá ábúendur á bæjum í Eyjafirði.
Oddur F. Helgason að skrá ábúendur á bæjum í Eyjafirði.
Mynd / HKr.
Viðtal 20. september 2016

Skráir nú ábúendasögu allra bændabýla á landinu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
ORG ættfræðiþjónustan vinnur nú að skráningu á ábúendum allra býla á Íslandi. Í sumum tilvikum nær skráningin aftur á sautjándu öld. Í heild eru nær 800 þúsund einstaklingar þegar skráðir í gagnagrunn fyrirtækisins. 
 
Stofnandi ættfræðiþjónustunnar, Oddur F. Helgason, virðist ódrepandi í áhuga sínum á ættfræði. Þótt málin virðast stundum flókin og erfið, þá gefst hann aldrei upp og vísar þá gjarnan í seiglu sjómanna, en sjálfur stundaði hann sjómennsku um langt árabil á gömlu síðutogurunum. Hann vinnur nú öllum stundum að gagnaöflun sem engan endi mun taka. Oddur segist vonast til að fyrirtækið verði gert að ættfræðisetri og sjálfseignarstofnun sem verði í eigu þjóðarinnar. Sjálfur hefur hann ekki riðið feitum hesti frá þessum rekstri í fjárhagslegum skilningi. Þannig setti hann allt sitt að veði fyrir þennan málstað sem endaði með því að hjónin töpuðu íbúð sinni. „Við áttum bara góða að sem hjálpuðu okkur að kaupa hana aftur.“
Hundruð milljóna króna bónusar að hætti sumra bankastofnana verða því trúlega seint á dagskrá hjá ORG ættfræðiþjónustu.
 
Við enda neyðarbrautar
 
Ættfræðiþjónustan er til húsa í gömlu þjónustumiðstöð Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur við Skeljanes í Skerjafirði. Það stendur nánar tiltekið við vesturenda neyðarbrautarinnar svokölluðu á Reykjavíkurflugvelli, sem lokað hefur verið en samt er enn harkaleg er deilt um.  
 
Skráning ábúenda í sveitum allt aftur á sautjándu öld
 
Oddur segir að nú sé verið að vinna að skráningu ábúenda á sveitabæjum í Eyjafirði og koma í tölvutækt og samrekjanlegt form. Ekki verður þetta landsvæði þó látið duga. Upplýsingarnar liggja víða í bókum og skýrslum og því ljóst að það er gríðarleg vinna að slá allar þær upplýsingar inn í tölvukerfi ORG. Tíðindamaður Bændablaðsins kíkti í heimsókn til Odds, en þá var Kristján Unnar Ellertsson að aðstoða hann við innslátt upplýsinga.  
 
 „Við erum búnir með Norður- og Suður-Þingeyjasýslur og langt komnir með ábúendatal Eyjafjarðarsýslu, eða allt aftur til 1703. Við ætlum að sjálfsögðu að búa til ábúendaskrá af öllu landinu. Þarna get ég svo séð á fljótlegan hátt hverjir hafa búið á viðkomandi jörðum og hvenær,“ segir Oddur.
 
Hann segir að enginn geti sett upp slíkan gagnagrunn nema að hafa til þess tilskilin leyfi frá Persónuvernd. Óheimilt er því að setja gagnagrunninn á Internetið og getur því enginn valsað óhindrað um gagnagrunninn. „Annars erum við hjá ORG tilbúnir að vinna með öllum sem treysta okkur og við treystum, en því miður hefur orðið misbrestur á því í gegnum tíðina, einkum við einn aðila,“ segir Oddur. 
 
Ströng persónuverndarskilyrði
 
Oddur segir að ströng skilyrði Persónuverndar geri það að verkum að einstaklingar á Íslandi geti einungis rakið gögn um skyldleika út frá sjálfum sér. 
 
„Þetta er vegna innleiðingar á persónuverndarlögum Evrópu­sambandsins. Það er arfur frá nasistatímanum í Þýskalandi og til að koma í veg fyrir að hægt sé að leita uppi hópa fólks eftir skyldleika eða öðru í gagnagrunnum í pólitískum tilgangi. Þannig gátu nasistarnir gengið að gyðingum vegna sérstaks nafnakerfis sem þeir notuðu.“
 
Vill að sótt verði um undanþágu og lögunum breytt
 
ORG ættfræðiþjónusta sérhæfir sig í ættrakningum og söfnun allra þeirra ættfræðigagna sem Íslendinga varðar, þar með taldir Vestur-Íslendingar. Oddur segir að innleiðing ESB regluverksins í persónuvernd gangi þó fulllangt. Vill hann því að fengin verði undanþága frá regluverkinu til að breyta lögunum, líkt og gert hefur verið hjá hinum Norðurlandaþjóðunum sem og á Írlandi, Skotlandi og Bretlandi. 
 
Oddur segir að lagabreyting geti auðveldað fólki mjög að afla sér upplýsinga um sínar ættir. Sem dæmi nefnir hann að þegar útlendingar hafi samband og biðji um að rekja tengingar þeirra á Íslandi, þá hafi þeir þann hátt á að gefa viðkomandi bara beint samband við þann ættingja sem finnst. „Sama er þegar Íslendingar eru að reyna að finna ættingja sína í útlöndum.“
 
Telur Oddur mikilvægt að fá fólk af erlendum uppruna sem hér býr til að gefa upplýsingar um sig og sinn uppruna. Einnig Íslendinga sem flytji erlendis. Það auðveldi afkomendum þeirra síðar meir að rekja tengslin. Dæmi um mikilvægi þessa eru afkomendur Íslendinga í Norður- og Suður-Ameríku og þar á meðal Brasilíu. Um þá hefur ORG verið að búa til sífellt heillegri mynd í sínum gagnagrunni. 
 
Stuðst við ritaðar heimildir fyrri tíma
 
Að sögn Odds hefur aðaláherslan verið lögð á söfnun framætta og hefur þar verið stuðst við ritaðar heimildir fyrri tíma, s.s. kirkjubækur, manntöl, dómabækur, skiptabækur, skuldaskrár og legorðsreikninga. Mikil vinna hefur verið lögð í að afla gagna, ekki síst handrita, alls staðar að á landinu, og á ættfræðiþjónustan ORG nú mikið og gott bókasafn sem að mörgu leyti er einstakt í sinni röð. Ef einhvern vantar upplýsingar um ættir sínar, þá eru Oddur og hans fólk reiðubúin að aðstoða við slíkt. Var hann t.d. ekki lengi að rekja saman skyldleika ritstjóra Bændablaðsins við hann sjálfan. 
 
ORG-ættfræðiþjónustan hefur átt gott samstarf við ýmsa í gegnum tíðina, bæði opinberar stofnanir og einkaaðila eins og sjá má á Facebooksíðu ORG og heimasíðunni www.orgehf.is.

10 myndir:

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum
Fréttir 28. maí 2024

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum

Matvælastofnun hefur nýlega tilkynnt um að Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA) h...

Heimaframleiðsla lögleg
Fréttir 28. maí 2024

Heimaframleiðsla lögleg

Heimaframleiðsla nefnist umgjörð sem sköpuð var til að heimila litlum aðilum í F...

Bjórinn Naddi sló í gegn í London
Fréttir 28. maí 2024

Bjórinn Naddi sló í gegn í London

Fjórir íslenskir bjórar frá KHB brugghúsi á Borgarfirði eystra hlutu bresk bjórv...

Listeríusýkingar vaxandi vandamál
Fréttir 27. maí 2024

Listeríusýkingar vaxandi vandamál

Tíðni listeríusýkinga í Evrópu fer vaxandi og samkvæmt greiningum á fyrstu þremu...

Göngustígar hjá Geysi
Fréttir 27. maí 2024

Göngustígar hjá Geysi

Framkvæmdir við nýtt gönguleiðakerfi á Geysissvæðinu í Haukadal í Bláskógabyggð ...

Minnsta framleiðsla í ríflega sextíu ár
Fréttir 27. maí 2024

Minnsta framleiðsla í ríflega sextíu ár

Alþjóðlegu vínsamtökin International Organisation of Vine and Wine (OIV) segja í...

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...