Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Skotlandsferð Félags vestfirskra sauðfjárbænda – síðari hluti
Fréttir 26. ágúst 2015

Skotlandsferð Félags vestfirskra sauðfjárbænda – síðari hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Í júní sl. héldu félagar í Félagi vest­firskra sauðfjárbænda í stutta fagferð til Skotlands en megin tilgangur ferðalagsins var að fara á landbúnaðarsýninguna Royal Highland Show auk þess að kynnast bæði landbúnaði og menningu landsins eins og hægt væri á örfáum dögum, en ferðin stóð frá föstudeginum 19. júní til þriðjudagsins 23. júní. Bæði sýningunni og fyrri hluta ferðarinnar hafa verið gerð skil hér í Bændablaðinu fyrr í sumar og fer nú hér síðari hluti ferðalýsingarinnar.
 
Sauðfjárbú í Mið-Skotlandi
 
Segja má að hápunktur ferðarinnar hafi verið heimsókn til John og Margret Maxwell sem búa myndar­legu búi við þorpið Fintry í Mið-Skotlandi. Margret rekur ferðaþjónustu í formi heimagistingar, en John sér um sauðfjárbúið Jaw Farm sem telur um sexhundruð svarthöfða ær auk þess að vera með á þriðja tug holda­kúa af Simmental og hvítu Galloway kyni. Þau hjón tóku ein­stak­lega vel á móti hópnum en John, sem er á áttræðisaldri, byrjaði á því að smala öllum íslensku kollegum sínum upp í tvo aftanívagna og svo var haldið til fjalls! Sagði hann að ekki væri hægt að átta sig á staðháttum nema með því að fara aðeins upp í hálendið. Þegar þangað var komið, var bæði hægt að virða fyrir séð hið fallega sauðfé og holdakýrnar, en John hafði smalað saman í lítið aðhald bæði kúnum og ánum svo unnt væri að komast í námunda við skepnurnar.
 
Úti allt árið
 
Landgæði Jaw Farm eru allgóð en bæði eru tún á láglendi en einnig all­nokkurt beitiland sem flokkast sem hálendi. Ærnar og kýrnar eru úti allt árið en John flokkar ærnar eftir frjósemi og velur þeim beitarsvæði eftir lambafjölda. Í því sem kalla mætti heimahaga voru tvílemburnar og holdakýrnar en einlemburnar urðu að sætta sig við ófrjórra land og vera lengra uppi í landi. Túnin slær John einu sinni og notar það fóður til þess að skerpa á orkujafnvægi ánna í kringum tilhleypingarnar, sem og til þess að geta bætt við beitilandið ef á þarf að halda yfir háveturinn. Hann sagði þó svæðið afar snjólétt og því ekki alltaf sem gefa þyrfti á fjallið.
 
Einstakur bóndi
 
Það var hrein unun að heyra John tala um skepnurnar sínar og augljóst að þarna fór sauðfjárbóndi sem hafði vit á búskapnum. John er jafnframt þekktur og virtur kynbótadómari og dæmir bæði sauðfé og nautgripi reglu­lega á sýningum. Hann hefur sjálfur náð góðum árangri bæði með sölu á hrútum og einnig kynbótanautum, en gerði nú ekki mikið úr því í samtali við hópinn. Sagði bara að hann hefði verið heppinn í nokkur skipti, en öllum sem hlýddu á John mátti þó vera ljóst að þarna var á ferð einstakur bóndi sem hafði náð langt á sínum langa ferli. Eftir góða skoðunarferð um beitarlandið, smalaði John saman nokkrum efnilegum lambhrútum sem hann taldi að gætu gefið vel af sér á uppboðsmarkaði í haust og eftir skoðun á lambhrútunum var svo boðið í kaffi heima.
 
Magnað kerfi
 
Sunnudaginn 21. júní var farið á land­búnað­ar­sýninguna á ný og eftir hálfs dags heimsókn þar var farið til Edinborgar þar sem hægt var að njóta lífsins og skoða þessa miklu heimsborg, auk þess sem heimsókn í viskýsögusafn borgarinnar var auðvitað skylda! Mánudagurinn 22. júní var svo tekinn snemma enda var förinni heitið á hinn þekkta uppboðsmarkað Lanark Agricultural Market, en þar eru lífdýr seld við hamarshögg. Yfir­maður markaðarins, William S. McCulloch, tók á móti íslenska hópnum og sýndi fyrst aðstöðuna en heimsóknin endaði svo á sauðfjáruppboði kynbótagripa. Uppboð lífdýra er ein af sérstöðum Stóra-Bretlands en hefur aðeins smitað út frá sér til annarra landa í Evrópu en fullyrða má þó að hvergi sé meiri sala lífdýra enda selja bændur t.d. ekki gripi í sláturhús heldur eingöngu á lífdýramarkaði og þar eru svo kaupendur staddir, sem geta verið frá sláturhúsum en einnig t.d. beint frá stórverslunum sem kaupa þá gripi á fæti og láta slátra fyrir sig!
 
12 þúsund fermetrar
 
Lanark uppboðsmarkaðurinn er hreint ótrúlega stór enda eru þar boðnar upp þúsundir gripa á degi hverjum þegar mest gengur á! Fyrir vikið þarf gríðarlegt húsnæði fyrir biðstíur og annað sem tengist uppboðum á gripunum. Alls eru 12 þúsund fermetrar undir þaki og langstærsti hlutinn er biðrými gripanna en hver bóndi fær sér stíu fyrir gripi sína og geta tugir bænda verið með gripi í húsnæðinu á sama tíma. Allar biðstíurnar eru svo samtengdar með göngum sem ná að uppboðssvæðinu en eftir uppboðið fara gripirnir svo í sérstakar afhendingarstíur og geta gripaflutningabílar sótt gripina beint í þær en alls geta 12 flutningabílar athafnað sig samtímis á afhendingarsvæðinu. Þó svo uppboð séu nánast allt árið um kring, nýtist þetta stóra athafnasvæði þó ekki jafn vel allt árið og hafa eigendur Lanark markaðarins því leigt út salarkynni og aðstöðu fyrir margskonar uppákomur eins og vélasýningar en allar stíur í hinum stóra móttöku- og afhendingarsal eru lausar og hægt að taka niður með einföldum hætti. Þá eru einnig haldnar stórveislur þarna og er fullbúið eldhús og kaffiaðstaða á staðnum enda oft margt um manninn.
 
Bjóða í með blikki
 
Uppboðssalirnir eru tveir og er annar sérhannaður fyrir uppboð á sauðfé og hinn fyrir uppboð á nautgripum. Þegar íslenski hópurinn var þarna stóð yfir uppboð á kynbótasauðfé og var afar áhugavert að fylgjast með uppboðunum. Hver hópurinn á fætur öðrum var rekinn inn í uppboðssalinn og um leið birtust upplýsingar um gripina, aldur, kyn og þunga á flatskjám í salnum. Uppboðsstjórinn hóf svo uppboðið á verði sem hann taldi líklegt til árangurs fyrir viðkomandi hóp og svo hófust lætin. Lætin voru reyndar eingöngu í uppboðsstjóranum sjálfum sem benti á hvern manninn á fætur öðrum og þuldi upp tölur og hækkaði jafnt og þétt. Áhorfendur sáu vart hvað var í gangi en þegar betur var að gáð mátti sjá að stundum hækkuðu tilboðin við það eitt að einhverjir bjóðendur klóruðu sér í enninu eða blikkuðu öðru auganu. Aðspurður sagði William að skýringin á þessu leynimakki fælist í því að ef menn bjóði mjög augljóslega í, þá fara stundum aðrir að bjóða í á móti til þess eins að hækka verðið og hrekkja viðkomandi. Þetta hefði því þróast þannig að uppboðsstjórinn veit hvernig hver og einn býður í og fáir aðrir, en þess má geta að til þess að geta boðið í þarf viðkomandi bjóðandi að fá fyrirfram samþykki Lanark uppboðsmarkaðarins enda ábyrgist Lanark að seljandi fái greitt samkvæmt uppboðinu.
 
Uppboðsmarkaðir tryggja gott verð
 
Þegar hann var inntur eftir því hvaða gang­verð væri á lambhrútum á uppboðinu þá sagði William það afar misjafnt en góður lambhrútur færi oft á þetta í kringum 4-500 pund eða um 80-100 þúsund krónur. Hæsta verð fyrir lambhrút hefði þó fengist í fyrra en þá fékkst næst hæsta verð í sögu Stóra-Bretlands fyrir hrút er 152 þúsund pund fengust fyrir einn lambhrút, en það eru rúmlega 31 milljónir króna. Næsta óskiljanleg upphæð fyrir okkur Íslendinga en kaupendurnir, þrír bændur frá Ayrshire, keyptu hrútinn í þeim tilgangi að selja úr honum sæði en það er afar algengt í Stóra-Bretlandi að bændur láti taka sæði úr hrútum sínum og selja á frjálsum markaði í samkeppni við kynbótastöðvar. Þess má geta að hvert strá úr honum hefur verið selt á 100 pund eða um 20 þúsund krónur.
 
Með 1.600 ær
 
Síðasta faglega heimsókn ferðarinn­ar var til Bush Estate sem er eitt af tilraunabúum skoska landbúnaðarháskólans. Þar tók Alex Mohr, tilraunastjóri háskólans, á móti hópnum og sýndi búið en það er engin smásmíði enda með 1.600 ær, 320 holdakýr, 120 gyltur og tæplega 1.000 hektara af graslendi, auk 74 hektera með korni og 25 hektara skóglendis. Búið er í raun mun stærra en þörf er á fyrir tilraunastarfsemina en þar sem búið er sjálfstætt, þ.e. fær ekki fjárframlög frá skólanum, þarf það að vera í stærri kantinum svo unnt sé að reka það. Tilraunastarfsemin er afar fjölþætt en margar rannsóknirnar snúast um umhverfismál. Þannig voru t.d. nokkrar ær í tilraun á láglendi þar sem verið er að skoða hvort draga megi úr ormalyfjagjöf með beitarstjórn svo dæmi sé tekið.
 
Ein fullkomnasta rannsóknaaðstaða Evrópu
 
Þó svo að margt áhugavert væri að sjá á búinu var án efa eftirtektarverðust tilraunaaðstaðan fyrir öndunar- og gas­mælingar frá búfé. Um er að ræða sérstakt hús sem í eru nokkrar einstaklings eða hópstíur sem eru hver um sig inni í þéttu lokuðu rými. Hægt er að mæla nákvæmlega öll loftskipti frá hverju rými fyrir sig og þannig fylgjast t.d. með metangas- eða hláturgasframleiðslu gripa og áhrif mismunandi fóðurs á þessar gastegundir. Þrátt fyrir að þarna væri einhver fullkomnasta aðstaða sem til er í Evrópu, var ekki ein einasta skepna þar innandyra þegar okkur bar að garði. Alex kvað því miður það vera oft þannig með stuðningskerfið í Evrópusambandinu, að mun auðveldara væri að fá styrki til framkvæmda en rannsókna og að það hefðu fengist myndarlegir styrkir til þess að byggja þessa frábæru aðstöðu en svo fáist minna af fjármagni til þess að standa undir rannsóknum í aðstöðunni.
 
Eftir þennan fína fag­lega dag var svo haldið til Glasgow þar sem síðasta síðdeginu var varið og notuðu víst margir tækifærið og gerðu góð innkaup í þessari miklu verslunarborg. Lauk þar með stuttri en afar fróðlegri ferð til Skotlands.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S í Danmörku

6 myndir:

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...