Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Skjámyndir úr frétt sjónvarpstöðvarinnar CBS um flóðin og rigningarnar í miðvesturríkjum Bandaríkjanna.
Skjámyndir úr frétt sjónvarpstöðvarinnar CBS um flóðin og rigningarnar í miðvesturríkjum Bandaríkjanna.
Fréttaskýring 21. júní 2019

Skelfileg staða í miðvesturríkjum Bandaríkjanna vegna látlausra rigninga

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Bændur í helstu kornræktar­héruðunum í miðvesturríkjum Bandaríkjanna, eða í Kornbeltinu sem svo er nefnt og stundum kallað brauðkarfa þjóðarinnar, óttast nú að lítið verði um uppskeru í sumar vegna látlausra rigninga og flóða í vor. Var aprílmánuður og 12 mánuðir þar á undan að sögn þeir blautustu í gjörvöllum Bandaríkjunum síðan mælingar hófust. 
 
Nær öruggt er talið að markaðsverð á korni muni rjúka upp vegna þess að líkur eru á lélegri uppskeru í miðvesturríkjunum. Hafði verð þegar hækkað verulega í maí. Talið er að það muni hafa keðjuverkandi áhrif á greinar eins og svínakjötsframleiðslu, kjúklinga­framleiðslu og jafnvel nautgripa­framleiðslu sem og framleiðslu á etanóli í eldsneyti. Þá hjálpar ekki til viðskiptastríðið sem Donald Trump Bandaríkjaforseti á í við Kína. 
 
Allt á floti alls staðar
 
Tilkynningar hafa borist frá borgum í miðvesturríkjunum allt frá St. Louis til Sault Ste Marie í Michigan um úrkomu sem á sér engar hliðstæður.  Búist er við að í maí líkt og í apríl hafi verið sett enn eitt úrkomumetið, að því er segir í frétt The Washington Post. 
 
Nýlegar mælingar sýna að meirihlutinn af ræktarlandi í  Illinois er gegnsósa af vatni og er vatnið meira en þar hefur nokkru sinni sést, að mati hagfræðingsins  Scott Irwin hjá Illinois háskóla. Hefur staðan verið þannig að bændur geta hvorki sáð né plantað í leðjuna sem þar er. 
 
Ekki er nóg að rigningin hætti, því jarðvegurinn þarf að þorna verulega til að mögulegt sé að sá í hann fræjum. Samkvæmt nýjustu spám frá National Atmospheric og Oceanic Administration, er útlitið ekki glæsilegt fyrir bændur, en aðal sáningartímabilið er nú að mestu liðið á öllu svæðinu. 
 
Í byrjun júní var ekki búið að sá í rúmlega 40% akranna
 
Í venjulegu árferði væru allir bændur búnir að sá fyrir nokkru. Í lok maí er venjulega búið að sá í um 84% akra í miðvesturríkjunum en núna var einungis búið að sá í um 46%. Í fyrri viku hafði bændum þó tekist að sá í um 67% af sínu kornræktarlandi. Staðan var þó æði misjöfn.  Í Illinois var einungis búið að sá í 45% akranna og í Indiana var búið að sá í 31%, en þar var búið að sá í 18% í lok maí. Í sumum ríkjum var talan jafnvel enn lægri. Þá er ljóst að sá þarf að nýju í verulegan hluta þeirra akra sem farið hafa undir vatn. 
 
Fáránleg staða 
 
Nefnt er dæmi af bóndanum  Sherman Newill í Hustonville. Þar voru akrar hans á kafi í vatni fyrir viku. Sagði hann þetta helst líkjast síendurtekinni martröð. Um leið og bændur reyni að veita vatninu af ökrum sínum eftir bestu getu til að undirbúa jarðveginn fyrir sáningu, þá komi rigning og allt er unnið fyrir gýg. 
 
Hann segir að sú tilhugsun að þurfa að sá í miðvesturríkjunum þegar komið sé fram í júní sé hreint fáránleg. Það sé ekki einu sinni þekkt að vísindamenn taki gróðursýnishorn svo seint til að áætla væntanlega uppskeru. Hann var búinn að sá í 240 af um 480 hekturum og taldi sig góðan miðað við marga aðra. Hann segir þó ljóst að það þurfi að sá á ný í að minnsta kosti um 100 hektara. 
 
Newill segir að ef óttinn breiðist út við að uppskera verði léleg, þá muni það sprengja upp verð á kornmarkaði. Um miðjan maí hafi þetta ástand þegar leitt til þess að verð á mörkuðum hafði hækkað um 20% frá því sem lægst var. Hann segir að bændur muni þó reyna að sá þó seint verði og líkur á að uppskera á hvern hektara verði lélegri. Tíminn er þó að renna mönnum úr greipum, því ekki er talið vænlegt að sá eftir fyrstu viku júní. Fyrir suma bændur er þegar orðið of seint að sá í akrana þetta árið. 
 
Newill, sem einnig stundar kornviðskipti, segir að bændur hafi gert allt sem í þeirra valdi stendur til að bregðast við stöðunni en veðrið hafi bara alltaf vinninginn. „Það skiptir engu þótt staðan á mörkuðum sé hagstæð ef þú kemst ekki einu sinni út á akurinn.“
 
Fræin drukkna
 
Haft er eftir jarðvegsfræðingnum Andrew Kniss hjá háskólanum í Wyoming, að engin dæmi séu um að ekki sé búið að sá í eins stórt hlutfall akra og á þessu vori. Vegna rigninga og flóða sé einnig líklegt að það þurfi að endursá í stóran hluta akranna ef einhver von eigi að vera um uppskeru. Fræin hreinlega drukkni. 
 
Vart mun takast að sá korni í 4 milljónir hektara
 
Hagfræðingurinn Scott Irwin hjá Illinois háskóla segist sannfærður um að kornuppskeran  í miðvestur­ríkjunum verði mun minni en í meðalári. Hann telur líklegt að ekki takist að sá í um 4 milljónir hektara [10.000.000 ekra], eða að í þá verði að einhverju leyti sáð sojabaunum. Þótt bændur reyni að veðja á sojabaunaræktun, þá muni bændur verða í vandræðum með að selja þá uppskeru. Helsti kaupandi sojabauna er Kína, en Donald Trump hefur einmitt átt í tollastríði við Kínverja svo líkur á sölu þangað eru litlar. 
 
Líklegt að fjöldi bænda gefist upp og hætti
 
Scott Irwin segir að flestir efnahags­sérfræðingar spái að korn­bændum takist einungis að ná um 55% af tekjum sínum þetta árið. Hann telur víst að margir bændur muni gefast upp og hætta rekstri. Sumir hafi engar tryggingar gegn slíkum áföllum og telur hann að það eigi við um 15% bænda og fjölskyldna þeirra. Það séu flest bændur með tiltölulega lítinn rekstur. 
 
Annar angi af þessu ástandi er framleiðsla á etanóli sem eldsneyti úr korni. Léleg uppskera mun hafa veruleg áhrif á þá grein. 

4 myndir:

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...

Landbúnaður í fjárlögum  ársins 2024
Fréttir 21. september 2023

Landbúnaður í fjárlögum ársins 2024

Í síðustu viku kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fjárlagafrumvarp sitt...

Garðyrkjubændur í áfalli
Fréttir 21. september 2023

Garðyrkjubændur í áfalli

Einu landbúnaðartengdu verk­efnin í fjárlögum ríkisins fyrir árið 2024 sem fá au...

Varnarlínur breytast
Fréttir 21. september 2023

Varnarlínur breytast

Með nýjum tólum er líklegt að áherslan á varnarlínur og niðurskurð minnki í bará...

Alls staðar fækkun sláturlamba
Fréttir 21. september 2023

Alls staðar fækkun sláturlamba

Sláturtíð er komin á fullt og kemur fé vænt af fjalli. Eins og er starfa öll slá...

Nýr landnemi úr svepparíkinu
Fréttir 20. september 2023

Nýr landnemi úr svepparíkinu

Sveppur af ættkvíslinni Rhizopogon fannst nýlega á Íslandi en hann hefur ekki ve...