Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Próteinin munu gagnast sem fóður til dæmis í fiskeldi í einhvers konar mjölformi, afurð þar sem til dæmis skordýralirfur hafa verið þurrkaðar og malaðar niður og fitan skilin frá í flestum tilfellum, en hún mun jafnframt nýtast.
Próteinin munu gagnast sem fóður til dæmis í fiskeldi í einhvers konar mjölformi, afurð þar sem til dæmis skordýralirfur hafa verið þurrkaðar og malaðar niður og fitan skilin frá í flestum tilfellum, en hún mun jafnframt nýtast.
Mynd / Matís
Fréttir 30. janúar 2020

Sjálfbær framleiðsla á próteinum til manneldis og í dýrafóður

Höfundur: smh

Í október 2019 var verkefni sett af stað að frumkvæði Matís sem gengur út á að vinna þrjú prótein úr örþörungum, skordýrum og einfrumungum og sannreyna notagildi þeirra í ýmsum matvælum og dýrafóðri.

Verkefnið er til fjögurra ára og hlaut rúmlega milljarð króna styrk úr evrópsku rannsóknaráætluninni Horizon 2020 á síðasta ári. Verkefnið snýst um að þróa svokallaðar „næstu kynslóðir“ matvæla- og fóðurpróteina með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti.

Birgir Örn Smárason, sérfræðingur hjá Matís, leiðir verkefnið sem heitir NextGenProteins.

Birgir Örn Smárason, sérfræðingur hjá Matís, leiðir verkefnið sem heitir NextGenProteins og segir hann það hafa farið vel af stað þó lítið sé hægt að tala enn þá um árangur. Verkefnið er mjög umfangsmikið, en 21 samstarfsaðili koma að samstarfinu við Matís frá tíu löndum. Fjórir íslenskir aðilar taka þátt í því; Matís, Grímur kokkur, Algaennovation og Circular Solutions. „Verkefnið er liður í þeirri umbyltingu sem þarf að eiga sér stað í matvælaframleiðslu í heiminum á komandi árum til að fullnægja aukinni próteinþörf heimsins á sem umhverfisvænstan máta. Það er því afar brýnt að þróa prótein sem er framleitt á sjálfbæran hátt, gengur ekki á auðlindir, eykur úrval próteina á markaðnum og leiðir beint og óbeint til aukins matvæla- og fæðuöryggis.“

Hápunktur vinnu undanfarinna ára

Að sögn Birgis liggur hugmynda­fræðilegur grunnur verkefnisins hjá Matís. „Það má segja að þetta verk­efni sé einhvers konar hápunktur þess sem við höfum verið að vinna að undanfarin 4–5 ár. Mínar rannsóknir hafa mikið snúist um nýtingu á ó- eða vannýttum auðlindum og hvernig hægt sé að koma þeim inn í fæðukeðjuna eða næringarefnahringrásina á umhverfis­vænan og sjálfbæran hátt. Þessi þrjú prótein sem við tökum fyrir í NextGenProteins teljum við að eigi mikið erindi inn á markað þar sem þau eru öll framleidd á sjálfbæran og nýstárlegan hátt með því að umbreyta lífrænum úrgangi, eða með útblæstri koltvíoxíðs, í gegnum lífverur í hágæða prótein, fitu og önnur næringarefni. Við höfum sem sagt áður unnið með flestum þeim aðilum sem eru að þróa þessi prótein einum og sér, en erum hér að fá þá alla saman í eitt stórt verkefni. Þar er samvinna eitt lykilatriðið í að þróa þetta áfram, koma á markað og fá samþykki neytenda og stjórnvalda,“ segir Birgir.

Byrja á fóðurtilraunum fyrir fisk og kjúkling

„Rannsóknaráætlunin Horizon 2020 (H2020) er stærsta rannsóknar- og þróunaráætlun Evrópusambandsins með nálægt 80 milljarða evra fjármagn til rannsókna yfir sjö ár frá 2014 til 2020. H2020 er hugsuð sem leið til að knýja fram hagvöxt og skapa störf og hefur pólitískan stuðning leiðtoga Evrópu og þingmanna Evrópuþingsins þar sem samþykkt er að rannsóknir séu fjárfesting í framtíðinni.“

Birgir segir að vinnan fram að þessu sé í raun undirbúningsvinna fyrir allar þær rannsóknir, tilraunir og framleiðslu á próteinum sem til þarf næstu 40 mánuði eða svo. Hann segir að próteinin séu öll í einhvers konar mjölformi, það er að segja þurr afurð þar sem t.d skordýralirfur hafa verið þurrkaðar og malaðar niður og fitan skilin frá í flestum tilfellum, en hún mun jafnframt nýtast. 

„Hafin er vinna í að mæla og greina þau prótein sem eru notuð í dag með þarfir matvælaframleiðenda og fóðurframleiðenda í huga, svo vitað sé hvað sé verið að vinna með.  Í framhaldinu hefjast fóðurtilraunir með fisk og kjúkling ásamt hinum ýmsu verkefnum í matvælaframleiðslu. Þar erum við með mismunandi aðila sem einblína á mismunandi vörur, eins og til dæmis brauð, tilbúna rétti, orkustykki og drykki, matvælaprentun og fleira – sem allt mun innihalda eitt eða fleiri af þessum próteinum,“ segir Birgir.

Skýringarmynd um feril próteinvinnslunnar.

Niðurstöðurnar nýtast breiðum hópi

Niðurstöðurnar munu að sögn Birgis nýtast breiðum hópi; til dæmis þeim fyrirtækjum sem eru að þróa próteinin.

„Í verkefninu verða þróaðar vörur með þeirra afurð, skoðaðar verða markaðsaðstæður og möguleika þessara próteina á markaði. Það verður líka unnið með neytendum að þróun varanna. Stórir aðilar á sviði matvælaframleiðslu og sölu matvæla eru tengdir verkefninu og þeir sýna þessu mikinn áhuga. Í lok verkefnisins munu þeir vonandi hefja framleiðslu eða sölu á vörum sem byggja á þessari vinnu. Í verkefninu verða regluverk og hindranir við þróun þessara próteina skoðuð og leiðbeiningar eða tillögur til breytts lagaumhverfis lagt fram þar sem þessi prótein eru ekki öll leyfð til matvæla- eða fóðurgerðar í dag vegna skorts á rannsóknum.“  

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar
Fréttir 11. apríl 2024

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr ráðherra matvælaráðuneytis en Svandís Svavars...

Greiðslumark færist til Norðvesturlands
Fréttir 11. apríl 2024

Greiðslumark færist til Norðvesturlands

Um sjötíu prósent mjólkurkvóta sem skipti um eigendur á síðasta tilboðsmarkaði f...

Nemendur vilja betri hádegismat
Fréttir 10. apríl 2024

Nemendur vilja betri hádegismat

Fulltrúar ungmennaráðs Mýrdalshrepps vöktu máls á skólamáltíðum á sveitarstjórna...