Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hafraakrar við Sandhól í Skaftárhreppi.
Hafraakrar við Sandhól í Skaftárhreppi.
Fréttir 15. janúar 2021

Sandhólsbóndi vinnur að þróun á íslenskri haframjólk

Höfundur: Vilmundur Hansen

Verkefnið Þróun íslenskrar haframjólkur, sem Sandhóll bú ehf. stendur fyrir, hlaut 19 milljóna króna styrk úr Matvælasjóði. Styrkurinn er sá hæsti sem veittur var til verkefnis sem tengist landbúnaði og flokkast undir Afurð sem veitir styrki til verkefna sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki tilbúin til markaðssetningar.

Örn Karlsson, bóndi á Sandhóli í Meðallandi, segir að aðdragandi verkefnisins sé að árið 2019 hafi verið flutt inn um 1,1 milljón lítrar af haframjólk.

„Í grunninn samanstendur haframjólk af höfrum, vatni og ensímum og þar sem við á Sandhóli ræktum hafra á um 100 hekturum fórum við að velta fyrir okkur framleiðslu á haframjólk.

Við höfum ræktað hafra til þroska frá 2010 og undanfarin ár selt þá til manneldis og þeir hafa selst upp á hverju ári.“

Örn Karlsson, bóndi á Sandhóli í Meðallandi.

Fyrsta skrefið vöruþróun

Að sögn Arnar er greinilega mikill markaður fyrir haframjólk hér á landi og full ástæða til að skoða hvort ekki sé hægt að framleiða hluta hennar innanlands. „Við verðum reyndar að auka afkastagetuna ef við förum út í framleiðsluna en það er ekkert því til fyrirstöðu að rækta meira af höfrum ef það er markaður fyrir þá. Fyrsta skrefið í þeirri viðleitni er vöruþróun sem felst í því að búa til vöru sem neytendur hafa áhuga á og stenst erlenda samkeppni hvað varðar bragð og gæði.

Hráefniskostnaður við fram­leiðsluna er í sjálfu sér fremur lágur svo lengi sem vatnið er ókeypis og við vildum láta á það reyna með því að sækja um styrk í Afurð hvort framleiðslan sé raunhæf.“

Afurð

Styrkveitingum Matvælasjóðs er skipt í fjóra flokka sem kallast Bára, Afurð, Fjársjóður og Kelda. Afurð styrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki tilbúin til markaðssetningar. Styrkveitingar miða að því að gefa styrkþegum tækifæri til að móta og þróa afurðir úr hráefnum sem falla til við matvælaframleiðslu og stuðla þar með að verðmætasköpun.

Örn segir að síðastliðið sumar hafi Erla Diljá Sæmundardóttir landfræðinemi og Guðný Halldórs­dóttir, eðlisfræðingur og meistara­nemi í kennslufræði við Háskóla Íslands, starfað hjá Matís við rannsóknir á haframjólk á styrk sem ætlað var að efla atvinnuþátttöku háskólanema. „Meðal þess sem þær gerðu var að búa til haframjólk úr höfrum frá okkur og var árangurinn góður. Í framhaldinu af því viljum við því fara alla leið með verkefnið og finna réttu formúluna sem fólki líkar við í blindsmökkun og í samanburði við vinsæla innflutta haframjólk. Ef það gengur eftir er ekkert því til fyrirstöðu að hefja framleiðslu á innlendri haframjólk. “

Erla Diljá Sæmundardóttir landfræðinemi og Guðný Halldórs­dóttir, eðlisfræðingur og meistara­nemi í kennslufræði við Háskóla Íslands.


10 til 30% markaðshlutdeild

„Næsta skref verður mikið til unnið hjá Matís og felst í því að búa til vöruna sjálfa.
Haframjólk er gerð úr einum hluta af höfrum, átta af vatni og ensímum sem brjóta niður sterkjuna í höfrunum til að búa til vökva sem ekki er með botnfall og hefur eitthvert geymsluþol. Í framhaldi af því verður búin til viðskiptaáætlun og kortlagt hvað þarf af tækjum og mannskap og hver kostnaður við framleiðsluna verður.“
Örn segir að eins og hugmyndin var lögð upp í umsókninni í Matvælasjóð er gert fyrir að framleiðsla Sandhóls gæti náð milli 10 og 30% markaðshlutdeild.

„Satt best að segja kom mér á óvart hvað þarf lítið af höfrum til að búa til haframjólk og það þarf ekki mjög marga hektara til að rækta hafra í alla þá haframjólk sem flutt er til landsins.“

Að sögn Arnar eru ætlaðir tólf mánuðir til að hanna vöruna og búa til viðskiptaáætlun um framleiðslu hennar.

Mannakorn hafra

Sandhóll tengist einnig verkefni sem kallast Mannakorn hafra ásamt Háskóla Íslands, Matís, Líflandi og Landbúnaðarháskóla Íslands sem fékk 14,8 milljónir í styrk.

„Það verkefni felst í því að Landbúnaðarháskólinn leggi áherslu á að finna hafrayrki sem henta við íslenskar aðstæður. Fram til þessa höfum við á Sandhóli að mestu unnið í því sjálf að finna yrki sem henta. Sé litið til þess hversu mikið bygg hefur verið rannsakað og að fram eru komin íslensk yrki sem henta vel hér á landi er kominn tími til að gera það sama fyrir hafra.

Verkefnið felst því í að finna hafrayrki sem gefa vel af sér og hafa líka gott bragð og lit til manneldis og eru því verkefnin náskyld,“ segir Örn Karlsson á Sandhóli að lokum.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...