Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Svörtu doppurnar sýna mælingastaði vísindamanna. Eftir því sem liturinn er rauðari, því meira er saltinnihaldið í vatninu.
Svörtu doppurnar sýna mælingastaði vísindamanna. Eftir því sem liturinn er rauðari, því meira er saltinnihaldið í vatninu.
Mynd / NFS-Ryan Utz/Chatham University
Á faglegum nótum 6. febrúar 2018

Saltmengun í ferskvatni í Bandaríkjunum veldur vísindamönnum áhyggjum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að notkun á salti til að hálkuverja götur og gangstíga er farið að valda alvarlegri saltmengun í ferskvatnsám, stöðuvötnum og grunnvatnslindum, ásamt áburði og fleiri efnum. 
 
Í grein sem birt var á vefsíðu National Science Foundation (NFS) 8. janúar síðastliðinn er vitnað í langtíma umhverfisrannsókn á vegum sjóðsins, eða LTER. Þar er sagt að ár og vötn í norðurhluta Bandaríkjanna verði stöðugt saltari, einkum vegna mikillar notkunar á salti til hálkuvarnar og áburði og öðrum saltbundnum efnum sem renni út í vatnsfarvegi. Á sama tíma séu ferskvatnsbirgðir að verða stöðug basískari og alkalíríkari.  
 
Salt á vegum veldur tæringu á niðurfallsristum og lagnakerfi. Mynd / NFS-Sujay Kaushal
 
Þekkt dæmi um alvarleg áhrif af saltmengun í vatni
 
Salt og alkalíríkt ferskvatn getur orsakað mikinn vanda við öflun neysluvatns, lagnakerfi í borgum og náttúrulegt umhverfi. Er þar bent á frægt dæmi um ástandið í borginni Flint í Michigan. Þar olli mengað vatn tæringu á vatnsleiðslum sem síðan leiddi til blýmengunar á drykkjarvatni sem er stórskaðlegt mönnum. 
 
Í rannsókn NFS er mælt sýrustig og alkalístig vatns víða um Bandaríkin. Byggt er á mæligögnum af 232 stöðum í Bandaríkjunum sem spanna yfir 50 ára tímabil. Rannsóknin sýnir að sambland salts og alkalí í vatni veldur meira tjóni en saltið eitt eitt og sér gæti nokkurn tíma gert. Nefna vísindamennirnir þetta ástand vatnsins „Freshwater Salinization Syndrome“.  
 
Salt- og alkalíinnihald vatns hefur aukist umtalsvert
 
Niðurstöður vísindamannanna sýna að í 37% tilvika hefur vatnasviðið sem rannsakað var orðið saltara á þessu 50 ára tímabili. Þá hefur vatn líka orðið alkalíríkara í 90% tilvika, en það er afleiðing af flóknu ferli vegna aukningar á salti í vatni. 
 
Veldur þetta vísindamönnum áhyggjum og telja þeir að taka þurfi þessari saltmengun alvarlega ef takast eigi að vernda vatnslindir til notkunar í framtíðinni. 
 
Í ljós kom að sýrustig tók að vaxa í ám í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Það var áratugum fyrir tilkomu reglugerða sem áttu  að koma í veg fyrir súrt regn. Athyglisvert er að í rannsóknunum kom í ljós að saltinnihald í ferskvatni jókst líka í vatni nærri suðausturströnd Bandaríkjanna þar sem ekki er þörf á að nota salt til að hálkuverja vegi. Olli þessi vitneskja miklum heilabrotum meðal vísindamannanna. Komust þeir að því að í vatnslitlu eyðimörkunum í suðvesturríkjunum, þar sem jarðvegur hafði verið mjög saltríkur, hafði saltið verið að minnka í vatninu með tímanum. Var ástæðan rakin til þess að markvissar aðgerðir yfirvalda til að minnka saltinnihald í vatni hafi haft þar veruleg áhrif. Hluti af því var sérstök áætlun til að hemja saltmagn í vatni sem sett var í gang í sjö vesturríkjum Bandaríkjanna árið 1973. 
 
Fjöldi háskóla kom að verkefninu
 
Rannsóknirnar voru unnar af vísindamönnum frá fjölmörgum háskólum, þ.e.; University of Maryland (UMD), Cary Institute of Ecosystem Studies, University of Connecticut (UConn), University of Virginia og Chatham University.
 
Teknar voru til skoðunar margar af stærstu ám Bandaríkjanna eins og Missisippi, Hudson, Neuse auk Chattahoochee ánna og áa í Kanada. Úr mörgum af þessum ám og fljótum er tekið drykkjarvatn fyrir borgir sem þar eru nærri. Staðan á þéttbýlustu stöðunum á austurströndinni var einnig skoðuð. 
 
Vísindamenn beindu einkum sjónum sínum að venjulegu salti (sodium chloride) sem auk þess að vera mikið notað í matargerð er nýtt í verulegu magni til að eyða hálku á vegum. Sumar af mest þekktu jákvæðu jónunum sem finnast í saltinu, eins og sodíum, calsíum, magnisíum og pottösku (potassium eða kalium), geta haft skaðvænleg áhrif á ferskvatn, einkum ef þær eru í miklu magni. Sambland þessara efna með hreinu salti geta valdið mun meiri eitrunaráhrifum en salt eitt og sér gerir í umhverfinu. Slík upplausn getur t.d. leyst aðrar eindir úr jarðvegi og bergi sem auka enn á vandann. 
 
Vísindamennirnir benda á að það er alls ekki sama hvernig salti er beitt til að eyða hálku. Ýmsar leiðir hafa verið skoðaðar til að draga úr notkun á salti við hálkueyðingu á vegum. Bent hefur verið á að saltlausn, sem er blanda af salti og vatni, geti verið mun áhrifaríkari við að eyða ísingu en þurrt salt. Einnig geti verið áhrifaríkara að dreifa salti á vegi áður en búast megi við frosti eða snjókomu. 
 
Salt á vegi í Bandaríkjunum. Það getur síðan skolast með regnvatni í ár og læki þar sem það er svo nýtt sem drykkjarvatn fyrir bæi og borgir.  Mynd / NFS-Joseph Galella/University of Maryland
 
Salt getur bæði brætt snjó og aukið í honum frostið
 
Rétt hlutfall af salti skiptir líka miklu máli upp á virknina. Sem dæmi er vel þekkt að hægt er að auka frost í snjó með því að blanda í hann salti í litlu hlutfalli. Ef hlutfallið er aukið verulega veldur saltið hins vegar bráðnun. Dæmi um þetta má m.a. sjá í Reykjavík á vorin þegar vetrarsnjóinn hefur að mestu leyst upp. Þá sitja oft eftir snjóruðningar sem orðið hafa að hörðum klakastumpi, einmitt vegna saltinnihaldsins af götum borgarinnar. Þessa eiginleika saltsins nýta menn sér m.a. stundum til að herða skíðabrekkur í Ölpunum og víðar svo þær grafist síður. 

Skylt efni: ferskvatn

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...