Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Rauðrófur eru tvíært rótargrænmeti. Fyrra árið myndast rótarávöxtur en seinna árið blómstrar plantan og myndar fræ.
Rauðrófur eru tvíært rótargrænmeti. Fyrra árið myndast rótarávöxtur en seinna árið blómstrar plantan og myndar fræ.
Á faglegum nótum 7. september 2018

Rauðrófur eru norrænar nytjajurtir

Höfundur: Vilmundur Hansen

Rauðrófur eru náskyldar syk­ur­rófum en minni að vexti. Rauð­rófna er neytt sem rótargrænmetis en sykurrófur eru aðallega ræktaðar til að að framleiða sykur. Um er að ræða ólík yrki sömu tegundar.

Áætluð heimsframleiðsla á sykurófum árið 2016 var 277.23 milljón tonn. Rússar eru stærstu framleiðendur sykurrófna í heiminum og framleiddu árið 2016 tæp 51,7 milljón tonn. Frakkar voru í öðru sæti með 33,8 milljón tonn og Bandaríki Norður-Ameríku í því þriðja með 33,5 milljón tonn. Framleiðsla á sykurrófum í Þýskalandi 2016 var 25,5 milljón tonn og í Tyrklandi tæp 19,5 milljón tonn. Í kjölfarið koma Úkraína, Pólland, Egyptaland, Kína og Bretlandseyjar með framleiðslu frá 14 niður í 5,7 milljón tonn.

Helstu ræktunarsvæði sykurrófna í heiminum. 

Mest fór heimsframleiðslan á sykurrófum í rúm 309 milljón tonn árið 1990.

Eitthvað er ræktað af rauðrófum hér á landi, bæði í heimaræktun og til framleiðslu, en tölur um magn liggja ekki fyrir.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands voru flutt inn 228 tonn og 94 kílóum betur af ferskum rauðrófum til Íslands árið 2017. Langmestur var innflutningurinn frá Hollandi, rúm 191,5 tonn. Því næst frá Frakklandi, 15,6 tonn. Auk þess sem talsvert er flutt inn af pækluðum og niðursoðnum rauðrófum.

Sama ár var flutt inn tæp 1287 tonn af sykurrófum þar af rúm 1286 tonn frá Danmörku. Auk þess sem flutt voru tæp 2,9 tonn af hráum rófusykri og rúm 4,9 tonn af sykurrófufræjum.

Ættkvíslin Beta

Ættkvíslin Beta er af ætt Skrauthala. Innan ættkvíslarinnar er að finna plöntur sem eru ein-, tví- eða fjölærar og oft með gilda stólparót. Ein þessara plantna er villt strandbeðja eða strandrófa, Beta vulgaris ssp. maritima, sem fjöldi yrkja eru kominn af. Má þar nefna beðju eða blaðrófu B. vulgaris ssp. vulgaris var. cicla, rauðrófu Beta vulgaris ssp. rapacea var. conditiva, og sykurrófu, B. vulgaris ssp. vulgaris var. altissima.

Rauðrófur eru minni en sykurrófur.

Rauðrófur

Rauðrófur eru tvíært rótargrænmeti.  Á fyrra vaxtarári myndast rótar-ávöxtur en seinna árið myndar plantan fræ. Blöðin 5 til 40 sentímetra löng á löngum stilk. Mjólensulaga, heilrennd eða lítillega skörðuð, dökkgræn með áberandi blaðæðum.

Á öðru ári vex upp af hnöttóttri eða gulrótarlagaðri forðarótinni eins til tveggja metra hár og beinn blómstöngull sem greinist í toppinn. Blómin lítil, tvíkynja, með fimm grænum eða rauðleitum krónublöðum í röð á efstu greinum blómstöngulsins. Vindfrjóvgandi. Fræin rauðbrúnglansandi og óregluleg að lögun, tveir til þrír millimetrar að stærð.

Rauðrófur eru ræktunarafbrigði strandbeðju/-rófu sem vex villt meðfram ströndum í Norður-Evrópu og Miðjarðarhafsins. og var notuð til lækninga og rauðrófur eins og við þekkjum þær í dag eru einar af fáum nytjaplöntum sem eiga uppruna í Norður-Evrópu. Rauðrófur finnast ekki villtar.

Fjöldi afbrigða, yrkja og landsorta eru til af rauðrófum og þrátt fyrir nafnið eru til rauðar, hvítar, gular og tvílitar rauðrófur. Yrkið 'Albino' er hvítt, 'Bull's Blood' er rautt en 'Chioggia' í dönsku fánalitunum, rautt og hvítt, og 'Touchstone Gold' er gult.

Rauðrófur í öllum regnbogans litum.

Gömul nytjajurt

Talið er að forveri rauðrófunnar hafi verið nýttur til átu í Evrópu í allt að 6000 ár. Leifar af rauðrófum hafa fundist í Sakkara-pýramídunum í Egyptalandi sem byggðir voru rúmum 2600 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Grikkir og Rómverjar ræktuðu þær í pottum sem blaðkál en talið er að plantan hafi borist til landanna við botn Miðjarðarhafs með Persum þegar veldi þeirra stóð sem hæst.

Gríski náttúrufræðingurinn Theophrastus, sem stundum er kallaði faðir grasafræðinnar, líkir rauðrófum við radísur í riti sínu Historia Plantarum sem hann skrifaði í kringum 300 fyrir Krist.

Elsta ræktunarafbrigði rauðrófu sem þekkist og líkist rauðrófum nútímans kallast rómversk rófa, B. romana, og er fjallað um hana í bók frá 1587 og kallast Historia Generalis Plantarum. Afbrigðið kemur frá Rómverjum en þeir borðuðu blöðin en nýttu rótina til lækninga. 

Talið er að afbrigðið hafi borist til Þýskalands árið 1558 og þaðan til annarra landa í Evrópu. Það er ekki fyrr en plantan berst til Mið-Evrópu að farið er að nýta rótina til matar og varð hún á skömmum tíma mikilvæg fæða í Mið- og Austur-Evrópu og Skandinavíu. Rauðrófur sem rótargrænmeti eru því tiltölulega nýjar á matseðlinum.

Viðvarandi fæðuskortur í Evrópu í og eftir heimsstyrjöldina fyrri varð til þess að fólk lagði sér til munns það sem að kjafti kom. Fjöldi fólks hélt sér og sínum lifandi á fóðurrófum en langvarandi neysla þeirra leiddi til einkenna sem kölluðust mangelwurzel-sýking, eða fóðurrófusýking.

Rauðrófuyrkjum er yfirleitt skipt í blaðrófur, fóðurrófur, mat- eða garðrófur og sykurrófur sem eru algengastar og mest ræktaðar.

Sykurrófur

Rauðrófur hafa hátt sykurmagn, um níu grömm í hverjum hundrað grömmum. Sykurrófur eru ræktunarafbrigði rauðrófu. Sykurrófur eru líkar rauðrófum í útliti nema hvað forðarótin er ljós og stærri en forðarót rauðrófna, 1,5 til 2,5 kíló, og með hærri sykurprósentu.

Árið 1747 einangraði þýski efnafræðingurinn Andreas Marggraf sykur úr rauðrófum og ræktun á rauðrófum í Evrópu til sykurframleiðslu hefst í Þýskalandi  í lok 17. aldar. Frá Þýskalandi breiðist ræktun þeirra út um Evrópu. Fyrsta sykurrófuverksmiðjan var stofnsett í Slesíu árið 1802 af Franz Karl Achard, nemanda Marggraf, og fjármögnuð af Frederick William III Prússakonungi.

Napoleon Bonaparte setti innflutningsbann á sykur frá Englandi árið 1806 vegna stríðsins við Breta og fyrirskipaði ræktun á sykurrófum á 28 þúsund hekturum í Frakklandi. Í framhaldi af því margfaldaðist ræktun á sykurrófum í landinu og tvær sykurverksmiðjur voru reistar rétt utan við þáverandi borgarmörk Parísar. Frakkland var í lok fjórða áratugar 18. aldar stærsti ræktandi sykurrófna í heiminum og hélt þeirri stöðu til 2010.

Rússar hófu ræktun á sykurrófum 1850 og þýskir innflytjendur til Síle fluttu með sér fræ af sykurrófum til Suður-Ameríku sama ár. Rússar lögðu mikla áherslu á að auka kuldaþol sykurrófunnar og juku þannig frostþol hennar og ræktunar-svæði norður á við.

Fræ sykurrófu berst til Utah í Bandaríkjum Norður-Ameríku um svipað leyti og frá Frakklandi og voru mormónar manna iðnastir við ræktun þeirra. Árið 1914 er framleiðslan í Bandaríkjunum á pari við framleiðsluna í Evrópu. Ræktun á sykurrófum tók kipp í Bandaríkjunum á tímum heimsstyrjaldarinnar seinni og var að mestu borin uppi af afkomendum 120 til 130 þúsund Japana, eða japönskum innflytjendum sem hnepptir voru í varðhald vegna árásarinnar í Perluhöfn og stríðsins við Japan. Í dag eru sykurrófur aðallega ræktaðar í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna, Illinois, Indiana, Iowa, Michigan, Minnesota og Wisconsin.

Líkt og annars staðar í norðanverðri Evrópu barst ræktun á sykurrófum til Skandinavíu snemma á 18. öld, Danmerkur, suðurhluta Svíþjóðar og Finnlands og er stunduð þar enn í dag. Sykurrófur voru ræktaðar í Noregi á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar en hætt að styrjöldinni lokinni þar sem ræktunin þótti fjárhagslega óhagkvæm.

Auk sykurrófna er talsvert ræktað af rauðrófum eða rauðbeðum og fóðurrófum í Skandinavíu.

Sykurprósentan í fyrstu sykurrófunum í ræktun var um 1,3%, um aldamótin 1900 var hún komin í 5 til 6% og vegna kynbóta er sykurprósentan í dag um 20% og sykurrófur því hreinlega dísætar á bragðið.

Sykurrófur eftir uppskeru.

Nafnaspeki

Svíinn Carl Linnaeus gaf ættkvíslinni og tegundinni strandbeðju,/-rófu heitið Beta vulgaris í bókinni Species Plantarum árið 1753. Í annarri útgáfu breytti hann latneska heiti strandbeðju/-rófu í Beta maritima en lét B. vulgaris standa  fyrir ræktunarafbrigði plöntunnar. Latneska heitið Beta er líklega gamalt nafn á rauðrófu og mögulega komið úr keltnesku í ensku í kringum 1400. Ættkvíslarheitið maritima þýðir að plantan vaxi við sjó en vulgaris að plantan sé algeng.

Á ensku kallast rauðrófur beetroot eða beets en sykurrófur sugarbeets. Á þýsku er heiti rauðrófu rota beta eða rote rübe, á ítölsku barbabietola rossa, á spænsku remolacha roja, á frönsku betterave potagère, á finnsku punajuuri, á dönsku rød bede og færeysku rayðrót. Á íslensku þekkjast heitin rauðrófa eða rauðbeða upp á dönsku.

NordGen og rauðrófur

Mikilvægi rauðrófunnar, villts forvera og ræktunarafbrigða hennar, fyrir Norðurlönd er greinilegt þar sem fræ um 175 yrkja hennar og villtra ættingja frá ólíkum stöðum eru geymd í fræhvelfingu NordGen á Svalbarða.

Þegar haldið var upp á tíu ára starfsafmæli fræhvelfingarinnar á þessu ári voru rauðrófur og bygg valið sem táknmynd ræktunar á norðurslóðum.

Nytjar

Hráar rauðrófur eru 88% vatn, 10% kolvetni og 2% prótein. Í 100 grömmum eru 43 kaloríur. Auk þess að vera borðaðar hráar, soðnar, steiktar eða súrsaðar eru rauðrófur notaðar til að brugga vodka.

Rauðar rauðrófur innihalda rautt litarefni sem kallast betanin, E162, sem flestir kannast við sem hafa skorið niður rauðrófu. Litarefnið er meðal annars notað til að lita garn, fatnað, vín, pastasósur, beikonafurðir, tómatpúre, -sósu og -safa, sultur, ís, sælgæti og morgunkorn.

Á miðöldum voru rauðar rauðrófur taldar góðar til að lækna alls kyns blóðsjúkdóma og þær þóttu fyrirtak til átu með hvítlauk og sagðar eyða hvítlauksandremmu.

Rómverjar töldu rauðrófur munúðarfullar og hvort tveggja ástarörvandi og losandi og því prýðileg lausn við harðlífi, en eins og Steinríkur, besti vinur Ástríks í samnefndum teikni­mynda­sögum, sagði svo oft „Rómverjar eru klikk“.

Hrásykur úr sykurrófum.

Rauðrófur eru uppistaðan í, borsch, rúss­neskri rauðrófu­súpu og vinsælt rótargrænmeti í Skandinavíu og meðal annars notaðar í síldarsalat og rauðrófusalat. Í indverskri matargerð er vinsælt að hita niðurskornar rauðrófur og neyta þeirra sem meðlætis og nota blöðin í salat eða sjóða þau í súpu.

Gott þykir að pækla soðin egg í rauðrófusafa og í Austur-Evrópu þykir gott að hræra saman rauðrófu- og piparrótarmauki og smyrja á brauð. Í Ástralíu er vinsælt að setja sneið af pæklaðri rauðrófu á hamborgara.

Hér á landi eru rauðrófur borðaðar hráar og soðnar en líklega er mest af þeim neytt sem meðlætis með hátíðarmat sem súrsaðar rauðbeður. Enda þykir mörgum rauðbeður ómissandi með steiktu lambakjöti, brúnuðum kartöflum, rauðkáli, grænum baunum og brúnni sósu að hætti mömmu um jólin.

Sól og skjól

Rauðrófur þurfa góðan stað í matjurtagarðinum og ekki er verra að rækta þær í upphækkuðu beði. Gott er að leggja fræið í bleyti í einn til tvo sólarhringa fyrir sáningu og forrækta plöntuna inni í nokkrar vikur áður en hún er sett út. Rauðrófur kjósa eilítið sendinn en jafnrakan jarðveg með pH við og rétt undir 7,0, sól og skjól. Gott er að gefa rauðrófum bór í upphafi vaxtartímans. Hæfilegt bil milli plantna er átta til tólf sentímetrar. Kjörhiti er milli 15 og 19° á Celsíus og plönturnar eiga til að hlaupa í njóla eða tréna í kaldri eða þurrkatíð.

Talsvert hefur verið fitlað við erfðamengi sykurrófunnar og búin til afbrigði sem eru ónæm fyrir plöntueitrinu glyfosat. Afbrigði sem eru RoundUpReady voru þróuð aldamótarárið 2000 og komu á markað 2007. Í dag eru um 95% allra sykurrófna sem ræktaðar eru í Bandaríkjum Norður-Ameríku og Kanada erfða­breyttar.

Sýslumaðurinn ræktaði rauðrófur

Magnús Ketilsson, sýslumaður í Dala­sýslu, var frumkvöðull að mörgum umbóta­málum sem lutu að jarðrækt og nýtingu lands, í svipuðum anda þess sem nú á tímum kallast vistvænn búskapur og sjálfbær.

Hann gerði tilraunir með að rækta rauðrófur að Melum í Búðardal á árunum 1762 til 1779. Magnús var reyndar ötull við að prófa ræktun ýmissa plöntutegunda og má þar nefna káltegundir, baunir, gulrófur, gúrkur, myntu og piparrót auk fjölda annarra. Magnús greinir frá niðurstöðum ræktunartilrauna sinna í riti sem kallast Nokkrar tilraunir gjörðar með nokkrar sáðtegundir og plöntur hentugar til fæðu og kom út í Hrappsey árið 1779.

Magnús Ketilsson, sýslumaður í Dalasýslu, gerði tilraunir til að rækta rauðrófur að Melum í Búðardal á árunum 1762 til 1779

Í Lögbergi 1908 er mælt með rauðrófum, líklega er þar átt við fóðurrófur, sem ágætu fóðri fyrir nautgripi. Í riti Búnaðarsambands Austurlands árið 1911 segir að rauðrófur (Rödbeder) hafi aldrei náð neitt svipuðum þroska sem það ár, enda þótt tilraunin misheppnaðist að nokkru, þar sem rauðrófurnar hlupu í njóla. Í sama riti er sagt að vöxtur fóðurrófna hafi ekki verið eins og vænta mátti það árið og er þar kennt um köldu árferði, lélegum jarðvegi og vöntun á húsdýraáburði.

Verslunin Liverpool auglýsir í Vísi og Morgunblaðinu 1914 að nýkomin sé sending af rauðkáli, sellerí, rauðrófum, lauk, kartöflum og sítrónum.

Vaxandi vinsældir

Vinsældir rauðrófna og rauðrófusafa hafa farið vaxandi undanfarin ár og er neysla þeirra  í tísku um þessar mundir enda þær markaðssettar sem eins konar ofurfæða og allra meinabót. Mikil neysla á rauðrófum getur valdið kláðaviðbrögðum hjá viðkvæmu fólki og því að þvag verði rautt.

Mikil neysla á rauðrófum getur valdið því að þvag verður rautt.

Nokkrir bændur meðal styrkhafa
Fréttir 14. júní 2024

Nokkrir bændur meðal styrkhafa

Matvælaráðherra úthlutaði tæpum 500 milljónum króna úr Matvælasjóði þann 5. júní...

Ekkert hægt að gera
Fréttir 14. júní 2024

Ekkert hægt að gera

Æðarbændur fóru ekki varhluta af kulda og úrkomu á Norður- og Austurlandi í byrj...

Hretið seinkar vorverkum
Fréttir 13. júní 2024

Hretið seinkar vorverkum

Óveðrið sem gekk yfir Norður- og Norðausturland á dögunum hafði aðallega þau áhr...

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum
Fréttir 13. júní 2024

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum

Í byrjun maí sendi ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, erindi til matvælaráðuneytisins þ...

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar
Fréttir 13. júní 2024

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar

Matvælaráðherra hefur sett á laggirnar viðbragðshóp vegna þeirra erfiðleika sem ...

Bein og langvinn áhrif á búgreinar
Fréttir 13. júní 2024

Bein og langvinn áhrif á búgreinar

Matvælaráðherra stofnaði þann 7. júní sérstakan viðbragðshóp vegna ótíðarinnar á...

Sjálfbærninám á háskólastigi
Fréttir 12. júní 2024

Sjálfbærninám á háskólastigi

Fulltrúar Háskóla Íslands (HÍ) og Hallormsstaðaskóla hafa staðfest samstarfssamn...

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar
Fréttir 11. júní 2024

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs er komið í samstarf við breska fyri...