Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Rauðgreni ákjósanlegt jólatré með réttri meðhöndlun
Mynd / Myndir úr safni Önnu Guðmundsdóttur
Fólk 16. nóvember 2016

Rauðgreni ákjósanlegt jólatré með réttri meðhöndlun

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Rauðgreni var hér áður fyrr hið sígilda jólatré en hefur heldur farið halloka hin síðari ár fyrir öðrum tegundum. 
 
Stafafuran hefur öðlast talsverðar vinsældir og mikið er flutt inn af normannsþin. Dvínandi vinsældir rauðgrenis má eflaust rekja til þeirrar reynslu margra að barrið getur fallið helst til of fljótt af trénu og dæmi þess að þau eru orðin ansi ber í lok jólanna. Anna Guðmundsdóttir, skógarbóndi í Reykhúsum í Eyjafjarðarsveit, er sannfærð um að hægt verði að koma rauðgreni á sinn fyrri stall á ný. Mestu skipti að höggva trén skömmu fyrir notkun og meðhöndla þau rétt. 
 
Anna og eiginmaður hennar, Páll Ingvarsson, hafa búið að Reykhúsum frá árinu 1971. Bæði eru kennarar að mennt og starfaði Anna við Hrafnagilsskóla, var þar aðstoðarskólastjóri, en Páll sinnti kennslu á Akureyri meðfram búskap. Þau voru á árum áður með kúabúskap á jörð sinni, en seldu kvótann fyrir nokkrum árum. Páll fékk sér þá nokkrar „sportkindur“ eins og Anna kallar það, sér til gamans. Þau hófu skógrækt á jörðinni árið 1983, eru með 80 ha lands ofan við Reykhús, norðan við Kristnes. 
 
Skógurinn farinn að gefa af sér
 
Landið sem tekið var undir skógræktina er í halla, þar eru melar og mólendi, rýrt land til beitar og hentaði ekki til túnræktar. 
 
„Þannig að við erum ekki að taka frá neinu öðru, skógræktin hefur hins vegar skapað skjól og þau tún sem liggja að henni fá nú gott skjól.“ Hin síðari ár hefur skógurinn aðeins gefið af sér, grisjun er hafin í nokkrum mæli og hefur Páll hreinsað boli sem nýtast í girðingarstaura.
 
Þau hafa einkum plantað lerki í jörð sína en einnig þó nokkuð af furu og greni. Búið er að planta í um einn þriðja þess lands sem þau hafa til umráða.
 
„Við höfum verið að dunda við þetta með öðrum störfum, skógræktin var hliðargrein hjá okkur en fær nú æ meira vægi eftir að við hættum bæði í föstu starfi. Það má búast við að við sinnum skógræktinni af meiri krafti á næstu árum,“ segir Anna.
 
Höggvið og heimsent
 
Nú er svo komið í skógrækt Önnu og Páls að unnt er að selja nokkra tugi jólatrjáa fyrir komandi jól. Þau hafa boðið sveitungum og nágrönnum frá Akureyri að koma í skóg sinn, ganga um og velja það tré sem hverjum og einum líst best á. Tréð er að því búnu merkt viðkomandi. Um miðjan desember verður það höggvið og ekið með það heim á hlað hjá kaupanda, þ.e. þeirra sem búa í Eyjafjarðarsveit og Akureyri. 
 „Þetta tókst vel, það kom þó nokkur fjöldi við hjá okkur, skoðaði sig um og valdi tré,“ segir Anna, en þetta fyrirkomulag við val á jólatré fjölskyldunnar er nokkur nýjung hér á landi. Víða gefst fólki kostur á að koma í skóga fyrir jól, höggva eigið jólatré og taka með heim að því loknu. 
 
Anna og Páll tóku rauðgreni úr sinni ræktun fyrir jólin í fyrra og seldu að auki eitt tré. Bæði voru hin mesta stofuprýði, héldu barrinu yfir öll jólin og gott betur. Miður góð reynsla landsmanna af rauðgreni sem missir barrið alltof snemma segir Anna að megi rekja til þess að trén eru höggvin of snemma og meðhöndlun þeirra sé á tíðum ekki rétt. Það sé helsta ástæða þess að barrið falli af svo að segja um leið og tréð er komið inn í stofu. 
 
Kjörið að rækta rauðgreni fyrir norðan
 
Hún hafði þann háttinn á í fyrra að höggva sitt tré seint, rétt fyrir jól, og var það geymt úti fram á Þorláksmessu. Þá var sagaður 3–4 cm bútur neðan af trénu og sett í sjóðandi vatn. Við það opnast æðar þess betur sem hefur þau áhrif að það auðveldar trénu vatnsupptöku.  
 
„Síðan verður að huga vel að trénu öll jólin og sjá til þess að það sé aldrei þurrt. Einkum er mikilvægt að vökva trén vel fyrstu dagana meðan þau drekka mest. Okkar tré stóð öll jólin og missti ekki barrið, það var jafnfallegt á þrettándanum og þegar við settum það upp,“ segir Anna. Sögusagnir um að rauðgreni sé ómögulegt jólatré eigi því ekki við rök að styðjast, svo framarlega sem farið er með þau á réttan hátt. 
„Rauðgrenið hefur mjög átt undir högg að sækja hin síðari ár, en ég hef fulla trú á að breyting verði þar á, með réttum aðferðum ætti það að ná sínum fyrri vinsældum,“ segir Anna og bendir á að auðvelt sé að rækta rauðgreni á Norðurlandi, þar séu kjörin svæði til slíkrar ræktunar og bændur sem áhuga hefðu á að sinna slíkri ræktun meðfram öðrum búskap ættu til framtíðar litið að geta fengið góða uppskeru.
 
Heimatilbúnar lausnir
 
Anna nostrar við sín tré, segir mikilvægt að laga toppa, sumir skemmast og þurfa lagfæringar við og einnig þurfi að huga að vaxtarlagi og greinabyggingu. Það sem m.a. geri rauðgreni að góðu og fallegu jólatré er hversu þétt það er og fíngert og hefur að auki hefðbundna lögun, ekki skemmir svo fyrir að það ilmar einstaklega vel. 
 
Að hluta til notar hún þar til gerð áhöld sem hún kaupir í Danmörku, en hugar vel að því hvort hægt er að nýta aðra hluti með. Þannig fór hún þá leið að nýta fernur undan mjólkurvörum til að hylja jarðveg undir trjánum fremur en að kaupa dýran pappa, sérhannaðan frá útlöndum. Mjólkurfernurnar gera sama gagn, úr þeim er breitt undir trénu til að hindra grasvöxt, þannig fær tréð betur notið sín. „Ég prófaði þessa aðferð og hún tókst ljómandi vel, ég reyni hvað ég get að nýta heimatilbúnar lausnir ef möguleiki er á,“ segir hún. 
 
Galið að flytja inn öll þessi jólatré
 
„Það er í mínum huga alveg galið að flytja inn það óheyrilega magn jólatrjáa sem við gerum,“ segir Anna, en að jafnaði eru seld um 40 þúsund jólatré hér á landi, 75% þeirra eru innflutt, einungis fjórðungur er innlend framleiðsla. Innfluttu jólatrén koma að langstærstum hluta frá Danmörku. 
 
Anna og Páll sátu námskeiðið Grænni skóga sem skógarbændum býðst að sækja og fóru í tengslum við námið til Danmerkur þar sem þau kynntu sér m.a. skjólbelta- og jólatrjáaræktun. Anna segir að ekki sé hægt að stunda svo umfangsmikla ræktun jólatrjáa þar í landi án þess að nota aragrúa eiturefna. „Það er alveg gríðarlegur eiturefnaaustur yfir þessi jólatré, öðruvísi gengur hún ekki, m.a. eru trén úðuð árlega með miklu magni af alls kyns skordýraeitri, sveppaeitri og illgresiseyði. Svo geta ýmis kvikindi og sjúkdómar fylgt trjánum yfir hafið til Íslands, það hefur líklega aldrei verið skoðað almennilega, en í mínum huga á að vera algjör óþarfi að flytja þetta mikla magn jólatrjáa um langan veg með tilheyrandi mengun. Við eigum að vera fullfær um að rækta okkar jólatré sjálf,“ segir Anna. 

16 myndir:

Skylt efni: Jólatré | rauðgreni

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli
Fréttir 11. desember 2023

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli

Norrænt ráð 25 ungmenna frá öllum Norðurlöndum sat nýlega fund með norrænum ráðh...

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...