Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Pottaplöntur og hamingjan
Á faglegum nótum 30. mars 2015

Pottaplöntur og hamingjan

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

„ … því hvað er auður og afl og hús ef eingin jurt vex í þinni krús“ leggur HKL í munn einni aðalpersónu sinni í skáldsögunni Sjálfstæðu fólki. Og nokkuð víst er um það að okkur þykir flestum að fátæklegt sé um að lítast í íveruhúsnæði þar sem engin eru pottablómin.

Eiginlega nær ræktun pottaplantna eins langt aftur og upphaf skráðrar sögu. Hangandi garðarnir í Babýlon, hallargarðar Egypta og Kínverja, torg Rómverja og Grikkja í fornöld skörtuðu plöntum í pottum og kerjum. Og eftir að Evrópumenn hófu að sigla til framandi heimshluta fóru ógrynni af alls kyns gróðri að berast til Evrópu. Kóngar og aðalsmenn lögðu metnað sinn í að safna fágætum plöntum frá „Nýja heiminum“. Upp spruttu grasagarðar og einkasöfn sem náðu sögulegu hámarki á tímabilinu 1700 og fram undir 1850.

Á þessum tíma komu fram flestar þær tegundir sem við ræktum enn sem pottablóm á heimilum okkar. Og á þessum tíma urðu hin svokölluðu „appelsínuhús“ eða „óranserí“ toppurinn á þeirri viðleitni að sýna auð sinn og völd. Glerjuðum appelsínuhúsunum var haldið frostlausum á veturna, með ærnu vinnuframlagi og tilkostnaði. Þar voru allar plöntur, oftast sítrustré af einhverju tagi, hafðar í pottum sem settir voru út í sumarblíðuna strax og veður leyfði á vorin. Þessar plöntur og garðarnir sem gerðir voru utan um þær kröfðust herskara garðyrkjumanna sem klipptu til, umpottuðu, vökvuðu og viðhéldu plöntunum undir vökulum augum eigendanna, sem mjög var annt um að þessi „status-symból“ væru ávallt í fullkomnu lagi. Fá appelsínuhús eru eftir frá þessum tíma. Þau sem enn standa uppi þykja þjóðargersemi og er haldið við af opinberum sjóðum.

Flestir grasagarðanna sem stofnaðir voru á þessum tíma eru enn við lýði. Þeirra frægastur er líklega konunglegi grasagarðurinn í Kew í Richmond, rétt sunnan við London. Þann stað má enginn plöntuvinur láta framhjá sér fara, ef leið liggur um þær slóðir. Í Kew er stærsti gagnabanki um gróður jarðar og flestar ættkvíslir plönturíkisins eiga þar fulltrúa í formi lifandi safngripa. Því miður hafa borist af því fréttir nýlega að til standi að skera niður fjárveitingar til garðsins. Það eru vondar fréttir, en kannski alveg í takti við þann tíðaranda græðginnar sem nú er allsráðandi um allan heim.

Klúnkutíminn

Á seinni helmingi 19. aldar, eftir að iðnbyltingin hafði stuðlað að því að upp voru komnar stöndugar borgarastéttir iðnrekenda, kaupmanna og embættismanna varð mikil breyting á húsakynnum. Íbúðarhús og vistarverur borgarastéttarinnar voru rýmri en áður hafði tíðkast meðal almennings. Greinileg skipting var orðin á húsnæðinu. Stórar stofur og aðskilin eldhús, svefnrými og athvörf fyrir þjónustufólk. Stofurnar voru ætlaðar undir félagslíf og gestamóttökur. Stíllinn varð svolítið kögraður og skreyttur. Danir kalla þetta „klunkerstil“ og tímabilið „klunkertiden“. Í breska heimsveldinu er þetta kallað „Viktoríutímabilið“.

Þessi stíll kom líka til Íslands og hér eru nokkur hús sem byggð voru um og fyrir aldamótin 1900 af kaupmönnum og embættismönnum. Og í stofunum komst í tísku að hafa stórar pottaplöntur. Burknar og pálmar þóttu glæsileg viðbót við allt kögrið og pífurnar. Einar Helgason garðyrkjustjóri gaf út pottaplöntubókina Rósir árið 1916 og telur þar upp yfir hundrað tegundir sem komnar voru í ræktun á heimilum Reykvíkinga á þessum tíma. Margar þeirra má enn sjá á heimilum þótt fjöldi hafi fallið út og nýjar koma í staðinn sí og æ. Jafnvel gömlu tegundirnar eru að koma aftur sem „altanplöntur“ sem hafðar eru í kerjum utanhúss á sumrin. Pelargóníur og fúksíur eru t.d. af því tagi. Einnig húsmæðrablóm, sem nú er farið að selja aftur undir heitinu „bleika perlan“. Og við sem erum komin á sjöunda áratuginn munum líklega eftir „gestastofunum“ sem víða voru í húsum þegar við vorum að alast upp. Þangað var yfirleitt ekki opnað inn nema við gestakomur. Og þar var oftast nær nokkuð safn af pottaplöntum sem húsráðendur, venjulega húsmóðirin, höfðu í hávegum. Og skipst var á græðlingum milli húsa. Þannig voru pottaplönturnar félagslegur tengiliður.

Pottaplöntur og hjónabönd

Vissulega skapa pottaplöntur félagslegan vettvang í hversdagslífinu. Þótt enginn karl á mínum aldri geti viðurkennt að hafa lesið „dönsku blöðin“, þá rakst ég á, fyrir nokkrum áratugum, grein í slíku blaði. Ritstjórnin hafði gert könnun meðal lesenda sinna um hvaða þýðingu pottaplöntur hefðu í daglegu lífi þeirra. Eins og gefur að skilja voru lesendurnir konur og gáfu upp aldur sinn og hjónabandsstöðu. Þær konur sem flest áttu pottablómin höfðu líka verið í lengstu hjónaböndunum og eiginmennirnir deildu með þeim áhuganum. Og pottaplöntuhjónabönd af þessu tagi virtust vara lengst, því þessar konur höfðu aldrei lent í hjónaskilnaði. Næsti hópurinn voru konur sem höfðu aldrei gifst. Þriðja hópinn skipuðu svo konur sem áttu eitt eða fleiri hjónabönd að baki. Á þeirra heimilum hafði aldrei verið mikið um pottaplöntur. Stundum hef ég velt þessu fyrir mér.

Skylt efni: Garðyrkja | ræktun | pottaplöntur

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...