Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Öflugur pallbíll með mikla dráttargetu
Á faglegum nótum 8. maí 2014

Öflugur pallbíll með mikla dráttargetu

Höfundur: Hjörtur L. Jónsson

Fyrir skömmu sá ég fyrir utan BL þrjá Isuzu D-Max bíla alla eins útbúna og tilbúna til afhendingar fyrir nýjan eiganda, sem er Vegagerðin. Mig langaði að prófa og sjá hversu miklar breytingar væru á bílnum á fjórum árum, en einn af fyrstu bílunum sem ég prófaði hér fyrir Bændablaðið var Isuzu D-Max og birtist sú grein 28. 1. 2010. Á þessum fjórum árum hefur D-Max breyst bæði mikið og lítið.

Sama vélin gefur visst traust

Dísilvélin er sú sama og fyrir fjórum árum, 163 hestöfl við 3.600 snúninga. Ekki gat ég annað heyrt en að hún væri svipað hávær og fyrr (ef eitthvað var heldur lágværari, en sennilega er ég bara að tapa heyrn). Bíllinn sem ég prófaði var sjálfskiptur með fimm þrepa skiptingu (var bara fjögur þrep fyrir fjórum árum). Persónulega finnst mér fimm þrepa sjálfskipting ekkert spennandi í svona vinnuþjark eftir að hafa prófað sjálfskiptan pallbíl með sjö þrepa skiptingu. Væri ég hins vegar að kaupa svona bíl fyrir mig mundi ég kjósa beinskiptan D-Max með sex gíra kassa. Uppgefin eyðsla í blönduðum akstri er 7,4 á beinskiptum, en 8,4 á sjálfskiptum. Eftir 150 km akstur á meðalhraðanum 39 var ég að eyða 9,7 lítrum á hundraðið á þessum sjálfskipta bíl.

Pallurinn aðeins stækkað

Uppgefin hámarkshleðsla á pallinn er 1.000 kg, sem er óvenju mikið miðað við sambærilega bíla. Fyrir vikið ætti þessi bíll að bera vel aukahluti samanber salt- og sanddreifara, pallhýsi og fleira, en þessum hleðslukosti fylgir ókostur þar sem að fjöðrunin er gerð til að bera svo mikinn þunga verður bíllinn frekar leiðinlegur tómur á malarvegum og þegar farið er yfir hraðahindranir. Þegar ég var að prófa bílinn var hann eins og hugur manns á malbikinu, en á möl svona tómur var hann vægast sagt hundleiðinlegur. Pallurinn hefur örlítið lengst og breikkað á þessum fjórum árum, en fyrir mína parta mætti pallurinn vera um 20 cm lengri aftur. Spurningin er þá hvort það megi vegna reglna.

Mikil breyting inni í bílnum

Nýi bíllinn er allur rýmri að innan, breiðari og hærri en sá gamli. Nýtt einfalt mælaborð með meiri upplýsingar úr aksturstölvu í mælaborði. Hraðastilling (cruise control), USB- og Aux-tengi og fl. Prufubíllinn var Lux-útgáfan af D-Max, sem er með leðursætum og því mátti miðstöðin alveg vera fljótari að hita bílinn upp að innan, ekki síst fyrir þá sem sitja í aftursætunum, en þar er ekki sætishitari eins og í framsætunum, sem kom sér vel á þessum kalda morgni sem ég prófaði bílinn. Stillingar fyrir miðstöðina eru samt einfaldar og þægilegar í seilingarfjarlægð fyrir ökumanninn. Útsýni til allra átta er gott og inni í bílnum situr maður svo hátt að það vill minna aðeins á að sitja í amerískum pallbílum eins og Ford 150 eða jafnvel stærri, en oftar en einu sinni stóð ég sjálfan mig að því að líkja þessum bíl við ameríska pallbíla í huganum á meðan ég prufuók honum.

Mikil dráttargeta

Vélin er sem áður sagði 163 hestöfl, ágætlega snörp og togar vel. Uppgefin dráttargeta með aftanívagn með bremsubúnaði er 3.000 kg (las á einni vefsíðu að dráttargetan væri 3.500 kg), en samkvæmt þessu ætti bíllinn vel að ráða við hestakerru með fjórum hestum, vélsleðakerru með fjórum sleðum og vera með pallhýsi í ofanálag. Það eina sem ég get sett út á bílinn var hversu stífur hann er á möl tómur (er oftast ánægður með fjöðrun bíla á möl, en var engan veginn sáttur í þetta skiptið), einnig þegar ég labbaði hringinn í kring um bílinn við annan mann og var að dást af öllu króminu á bílnum benti félaginn á ryðbletti í króminu og vaknaði þá spurning hvort krómið sé eitthvað lélegt á bílnum. Ódýrasti Isuzu D-Max er frá 6.890.000, en Lux-bíllinn er frá 7.190.000.

5 myndir:

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...